Horft á heiminn
Horft á heiminn
Háskaleg mistök
Margir evrópskir tölvusérfræðingar og vísindamenn láta nú opinberlega í ljós ótta sinn við „kjarnorkustyrjöld fyrir mistök.“ Tölvubilanir og fölsk aðvörunarmerki bandaríska loftvarnaeftirlitsins á síðustu árum, ásamt „verulega minni tíma fyrir tímanlega aðvörun í Evrópu,“ hafa vakið upp hörð mótmæli sérfræðinga. Að sögn tímaritsins Computerwoche er hópur þýskra prófessora að búa sig undir að bera upp mótmæli við vestur-þýsku stjórnina gegn því að settur verði upp tölvustýrður búnaður til sjálfvirkrar gagnárásar með kjarnorkuvopnum. Að því er prófessorarnir segja er um að ræða „hálfsjálfvirkan eða alsjálfvirkan tölvustýrðan búnað sem er, vegna tæknilegra villna eða mannlegra mistaka, afskaplega óáreiðanlegur og gæti þess vegna leitt til kjarnorkustyrjaldar vegna mistaka.“
Flóttamenn látnir sigla sinn sjó
„Embættismenn, sem hafa málefni flóttamanna á sinni könnu, eru,“ að því er segir í The New York Times, „áhyggjufullir út af því sem þeir kalla vaxandi tilhneigingu skipstjórnarmanna til að hjálpa ekki Víetnömum sem eru að flýja land sitt á smábátum.“ Fyrir nokkru virðast að minnsta kosti 40 skip hafa siglt fram hjá báti fullum af víetnömsku flóttafólki sem var að reyna að sigla yfir Suður-Kinahaf, og sum hver verið innan við 10 metra frá bátnum. 68 af 84 flóttamönnum á bátnum dóu úr hungri, þorsta eða sjúkdómum. Embættismenn segja að skipstjórar vilji ekki eyða tíma í að flyta flóttamenn til næstu hafnar og skilja þá þar eftir. Það getur tekið 4 til 5 daga.
Skurðaðgerðir án blóðs á börnum
„‚Blóðlausar‘ opnar hjartaskurðaðgerðir, upphaflega þróaðar fyrir fullvaxta meðlimi votta Jehóva, hafa nú verið teknar upp við nákvæminisaðgerðir á hjörtum ungbarna og barna,“ segir læknatímaritið Cardiovascular News. Þessar vinnuaðferðir voru reyndar á 48 börnum, á aldrinum þriggja mánaða til átta ára, við aðgerðir vegna margvíslegra hjartakvilla. „Allir 48 sjúklingarnir þoldu meðferðina vel, og í samanburði við venjulegar skurðaðgerðir var blóðmissir minni við ‚blóðlausu‘ aðgerðirnar og minna álag á nýru og lungu,“ segir í fréttinni, og „starfsemi nyrnanna reyndist tölfræðilega betri hjá sjúklingum sem gengust undir ‚blóðlausu‘ aðferðina.“ Hún hefur nú verið tekin upp sem almenn aðferð við aðgerðir á börnum.
„Break“-dans ekki hættulaus
„Break“-dans ber líklega nafn með rentu (break merkir meðal annars brot) ef marka má slysin sem þetta tískufyrirbæri veldur. Læknar vara við því að „break“-dans geti hæglega ofboðið líkamanum og brotið bein, slitið liðbönd eða valdið enn alvarlegri meiðslum. 25 ára gamall maður hálsbraut sig og lamaðist á höndum og fótum þegar hann var að reyna að ná erfiðri stellingu. Sumir hafa handleggsbrotið sig við það að reyna að halda líkamanum uppi með annarri hendi. Kírópraktorar vara einnig við því að dansinn geti valdið alvarlegum meiðslum á hrygg. Þeim sem ekki eru í góðri líkamsþjálfun eða skortir liðleika sökum aldurs er sérstaklega hætt við meiðslum, að sögn lækna.
Hungrið í heiminum
„Þetta er hræðilegt, alger vitfirring,“ sagði George Ignatieff, fyrrum sendiherra Kanada hjá Sameinuðu þjóðunum og NATO. „Hundruð barna deyja á hverri mínútu. En í stað þess að gefa þeim brýnustu nauðsynjar eyðum við yfir milljón dollara á mínútu í hergögn. Og það eina sem við kaupum er meira og meira öryggisleysi, meiri og meiri óstöðugleiki.“ Að því er bandaríska vopna- og afvopnunareftirlitið segir eru áætluð hernaðarútgjöld veraldar árið 1985 ein billjón bandaríkjadollara (yfir 30 billjónir íslenskra króna.) Af þessari fjárhæð gætu 10 til 15 af hundraði nægt til að binda enda á hungrið í heiminum að því er
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna segir.Páfi prísar hermenn
„Jóhannes Páll páfi annar sagði í dag að herþjónusta væri samrýmanleg kristinni trú, og sagði hermönnum frá 24 löndum að þeir gætu litið á sig sem þjóna öryggis og frelsis,“ sagði í dagblaðinu Auckland Star á Nýja-Sjálandi. Hann bar síðan lof á hermennina með þessum orðum: „Siðferði starfs ykkar, kæru hermenn, er tengt þessari hugsjón þjónustu í þágu friðar innan þjóða en ekki síst á alþjóðavettvangi.“
Þriggja króna kraftaverk
Uppgötvunin var sögð geta verið „stærsta framfaraskref í heilbrigðismálum á þessari öld,“ í breska tímaritinu The Lancet. Hver var hún? Lækning á niðurgangssýki sem árlega kostar 5 milljónir barna lífið í löndum þriðja heimsins. Meðferðin, kölluð ORT (oral rehydration therapy), er fólgin í því að gefa sjúku barni blöndu af matarsalti, sykri, bökunarsóda og kalisóda leyst upp í vatni. Bati er mjög skjótur. Mjög fáir foreldrar í þriðja heiminum nota þó þessa aðferð, jafnvel þótt pakkar með tilbúnum skömmtum af efnablöndunni kosti aðeins jafnvirði rúmlega þriggja króna. „Við höfum komist að raun um að án menntunar kemur alls ekkert af þessu að gagni,“ segir Gail Smith, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Toronto í Kanada. „Stjórnvöld hlutaeigandi landa verða að helga sig gífurlegri auglýsingaherferð til að selja ORT-hugmyndina, alveg eins og við myndum selja nýja tegund gosdrykkja. Setja þarf upp auglýsingaspjöld, virkja kvikmyndastjörnur og nota grípandi lagstúfa í útvarpi. Það virðist hrífa best.“
Afleiðingar ferðamennskunar
Um áratuga skeið hafa ferðamenn horft með lotningu á lífleg veggmálverk í hinum firnastóru neðanjarðargrafhýsum faraóanna í grennd við Luxor í Egyptalandi. „Veggmálverk grafhýsanna,“ segir í grein í Frankfurter Allgemeine, „hafa enst í liðlega 30 aldir og varðveist furðuvel. Nú er hugsanlegt að þau hverfi innan nokkurra ára — sérfræðingar ætla þeim á bilinu 10 til 30 ár.“ Hvers vegna? Vegna þess að grafirnar, sem hafa varðveist óskemmdar í þurru loftslagi egypsku eyðimarkarinnar, eru í hættu af völdum vaxandi loftraka sem stafar af útöndun og svita þúsunda ferðamanna, og auk þess hefur umferð þungra langferðabíla sprengt klettaveggina. Tímaritið World Press Review segir með tilvísun til þýska dagblaðsins: „Enginn iðnaður er í Luxor. Nær allir íbúanna, sem eru 120.000 að tölu, lifa á ferðamannaiðnaðinum. Þeir eru margfalt fleiri en hinir sem vilja reyna að bjarga grafhýsunum. En herjir munu koma þangað eftir 20 ár þegar veggmálverkin eru horfin?“
Útbreiddur kynsjúkdómur
„Kynsjúkdómurinn chlamydia, lítt þekktur, oft ranggreindur og ranglega meðhöndlaður sjúkdómur, er að verða landfarsótt,“ segir í The New York Times. „Hann er kominn langt fram úr lekanda sem útbreiddasti samræðissjúkdómur í Bandaríkjunum.“ Á bilinu 3 til 10 milljónir manna eru sagðar fá sjúkdóminn ár hvert, og hann getur valdið ófrjósemi hjá báðum kynjunum og augnkvefi og lungnabólgu í nýburum jafnt sem fullorðnum. Sænskir vísindamenn hafa uppgötvað að ein chlamydiasýking er þrefalt líklegri til að valda ófrjósemi hjá konum en lekandi. Ungar konur eru sérlega viðkvæmar fyrir skemmdum á getnaðarfærum af völdum sjúkdómsins. Því miður, eins og nafnið bendir til (af grísku orði sem merkir „að skýla“), er áætlað að 60 til 80 af hundraði kvenna, sem hafa sjúkdóminn, hafi engin einkenni og leiti ekki meðferðar fyrr en hann er kominn á alvarlegt stig. Og hætta er á að læknir haldi þá að um sé að ræða lekanda og gefi röng lyf sem bæla niður sjúkdóminn í stað þess að lækna hann.
Mæður á táningaaldir
Ár hvert verða hvorki meira né minna en 10.000 ungar stúlkur á Ítalíu mæður í fyrsta sinn að sögn tímaritsins Corriere Medico. Hvaða vandamál blasa við mörgum þessara ungu mæðra? „Mæðrum undir 16 ára aldri, sem geta hvorki gifst né viðurkennt börn sín, er oft afneitað af fjölskyldu sinni, og verða að leita á náðir einhverra velferðarstofnana til að fá hjálp,“ segir í læknatímaritið. „Innan við helmingur barnshafandi stúlkna undir 18 ára aldri giftist, og þessi ‚skyndihjónabönd‘ eru nær alltaf skammlíf og erfið.“
Hætta af blóðgjöfum?
Sjúkdómafræðingurinn Ira Shulman við læknisfræðimiðstöð í Los Angeles í Bandaríkjunum segir: „Sjaldgæft er að malaría berist með blóði.“ Þó eru skráð níu tilfelli árið 1982. Blóðgjafar frá svæðum, þar sem malaría geisar, geta valdið smitun. Dr. Byron Myhre segir að blóðbankar reiði sig á sjálfboðaliða, og þótt þeir geri sitt besta „er alltaf hætta á lifrarbólgu, malaríu og sýkingu af ýmsu tagi. Hvenær sem manni er gefið blóð er einhver hætta á að það geti valdið sjúkdómi.