Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Innsýn í himininn?

Innsýn í himininn?

Innsýn í himininn?

„ÞAÐ VAR dásamlegasta augnablik í heimi þegar ég fór út úr líkamanum! . . . Allt sem ég sá var framúrskarandi yndislegt! Ég get ekki ímyndað mér nokkuð í heimi eða utan sem kemst í námunda við það. Jafnvel fegurstu augnablik ævinnar komast ekki í jafnkvisti við það sem ég fékk að reyna.“ — 54 ára sjúklingur sem gekkst undir hjartaskurð.

„Það sem ég man úr skurðstofunni var að mér virtist ég vera svifandi uppi undir lofti. . . . Það var frekar skrýtin tilfinning, því að ég var þarna uppi og þessi líkami fyrir neðan. . . . Ég gat séð þá gera skurðaðgerð á bakinu á mér. . . . Ég man eftir að D. læknir sagði: ‚Þarna er hryggþófinn. Þarna er hann.‘ Þá færði ég mig nær til að sjá hvað myndi gerast.“ — Úr lýsingu 42 ára konu á sínum eigin uppskurði eins og hún „sá“ hann.

„Í þessari sýn, sem ég sá, gat ég ekki séð sjálfan mig, en ég stóð á einhverju háu vegna þess að fyrir neðan mig var undurfagurt, iðgrænt haglendi. . . . Mér fannst vera bjartur sólskinsdagur. . . . Þetta leit út eins og grænasti bletturinn á vel hirtum golfvelli.“ — „Séð“ af 55 ára iðnverkamanni þegar hann fékk hjartaáfall.

Hvað er sameiginlegt með reynslu þessara þriggja einstaklinga? Að þeir urðu fyrir henni þegar þeir komust í nána snertingu við dauðann. Oft er slík reynsla í nálægð dauðans einnig kölluð reynsla utan líkama. Fólk talar um að hafa séð skært ljós eða verið á undurfögrum stað, og í sumum tilvikum segist það hafa séð Jesú eða Guð.

Í bók sinni Recollections of Death segir dr. Michael Sabom: „Margt af þessu fólki, fórnarlömb hjartaáfalls eða lífshættulegra sóttbrigða í veikindum, minntist óvenjulegra atburða sem ‚gerðust‘ meðan það var meðvitundarlaust eða í nálægð dauðans. Sumir álitu þessa reynslu vera innsýn í annað tilverusvið.“

Sú spurning vaknar ef til vill hjá þér hvort reynsla manna af þessu tagi sanni að til sé líf eftir dauðann eins og sumt af þessu fólki hefur talið fullvist. Vissulega vekur slík reynsla í nálægð dauðans spruningar sem svara þarf. Til dæmis má spyrja hvort þetta fólk hafi í raun og veru fengið „innsýn í annað tilverusvið“ sem menn fara á eftir dauðann? Gat það lýst skurðaðgerðum á sjálfu sér vegna þess að það var til sem ósýnilegar sálir eða andar? Hefur þú ótortímanlega sál sem lifir áfram þegar þú deyrð? Er einhver meðvituð tilvera eftir dauðann? Í greinunum hér á eftir verða skoðuð þau gögn sem tengjast þessum spurningum.