Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lúther — nýtt einingarafl?

Lúther — nýtt einingarafl?

Lúther — nýtt einingarafl?

Undir venjulegum kringumstæðum myndum við reikna með að 1950 ára afmæli þýðingarmikils atburðar vekti meiri athygli en 500 ára afmæli annars þýðingarminni atburðar. Samt sem áður tók kristni heimurinn vart eftir 1950 ára dánarafmæli Jesú Krists, stofnanda kristninnar, árið 1983. Öðru máli gegndi um 500 ára fæðingarafmæli eins af þeim sem játaði sig fylgjanda hans, Marteins Lúthers. Síðarnefnda afmælið var fréttaefni fjölmiðla einkum í þeim löndum þar sem hinar 70 milljónir lútherstrúarmanna búa. Á Lúthersárinu voru haldnar margar hátíðir, ráðstefnur og sýningar, þar á meðal ein þar sem sýnd voru yfir 600 málverk, höggmyndir, grafíkverk og skjöl.

ÁHRIF Lúthers á þýska menningu eru óneitanlega mikil þótt þau séu líklega minna þekkt — að minnsta kosti utan Þýskalands — en þau áhrif sem hann hafði á trúarbragðasöguna. Að undanskildum Jesú Kristi hafði hann líklega meiri áhrif en nokkur annar maður á hinn þýskumælandi heim. Austur-Berlínska dagblaðið Neue Berliner Illustrierte fyllyrðir til dæmis að „þýðing Lúthers á Biblíunni hafi umbylt menningarlífi Evrópu, mótað kynslóðir og ákvarðað hugsanagang þeirra og ákvarðanir.“

Segja má að Lúther hafi með þýðingu sinni skapað þá þýsku sem nú er töluð, en áður hafði þýsk tunga skipst niður í mýmargar mállýskur. Hann átti líka verulegan þátt í stofnun skóla sem síðar urðu hinir almennu menntaskólar. Hann átti gífurlegan þátt í sameiningu þýsku ríkjanna sem síðar varð. En trúarlegar athafnir hans skyggðu að mestu á þessi áhrif hans á menningu og þjóðlíf, því að þær ollu trúarsundrung sem enn er til.

Einingarafl á nýjan leik

Nýlegar tilraunir til að halda á lofti áhrifum Lúthers á menningarlíf hafa nú aftur gert hann að sameiningartákni. Lúthersárið var haldið hátíðlegt bæði í Þýska sambandslýðveldinu og Þýska alþýðuveldinu. a Pappírskilja að nafni Martin Luther und seini Zeit (Marteinn Lúther og samtíð hans), gefin út í Alþýðulýðveldinu, talar um hann sem „eitt þeirra mikilmenna sem orðstír fer af um allan heiminn“ og hafði varanleg áhrif á Þýskaland og Evrópu. Þar segir: „Vegna þess hversu geysimikla þýðingu Marteinn Lúther hafði fyrir sögu Þýskalands og heimsins, og vegna þess að flestir þeirra staða, þar sem Marteinn Lúther vann, eru innan landamæra Þýska alþýðuveldisins, hvílir á Alþýðuveldinu sérstök skylda að rækja arfleifð Lúthers og heiðra Martein Lúther á 500 ára afmæli hans.“

Þótt Þýska sambandslýðveldið og Þýska alþýðulýðveldið séu sundurskipt stjórnmálalega minntu hátíðahöld Lúthersársins þau á sína sameiginlegu arfleifð og þann þátt sem Lúther átti í henni. Forseti Sambandslýðveldisins, Karl Carstens, vék að því í ávarpi við opnun áðurnefndrar sýningar í Nürnberg, þegar hann sagði að Lúther væri hættur að vera „sundrungartákn.“ Hann sagði meira að segja að ‚Lúther væri orðinn sameiningartákn alls Þýskalands.‘ „Við erum öll erfingjar Lúthers,“ bætti hann við.

En ef gripið var til Lúthers sem tákns um stjórnmálalega sameiningu, hvað þá um hina trúarlegu sundrung sem hann átti þátt í að kveikja? Var einfaldlega litið fram hjá henni? Svo var ekki eins og eftirfarandi glefsur úr fjölmiðlum gefa til kynna.

„Afmælisárið hefur ekki skilið eftir nýtt hyldýpi milli lútherskra og kaþólskra. Hið gagnstæða hefur gerst: Menningarviðburðir, umræður og bókmenntir hafa, að svo miklu leyti sem við fáum séð, gefið af sér alkirkjulegan ávöxt.“ — Nürnberger Nachrichten.

„Siðbótamaðurinn, sem sundraði kristninni, er upp á siðkastið orðinn lykillinn að endursameiningu hennar.“ — Tíme.

Til að skilja þessa óvæntu þróun þurfum við að rifja lítillega upp hvernig Lúther olli sundrungunni á sínum tíma.

Lúther — sundrungarafl

Marteinn Lúther var munkur af reglu Ágústinusar og kaþólskur prestur. Þegar sem ungur maður byrjaði hann að véfengja sumar kenningar kaþólsku kirkjunnar. Hann fann líka að því sem hann áleit spillingu og rangfærlsur af hálfu klerkastéttarinnar. Hin hneykslanlega sala erkibiskupsins í Mainz á aflátsbréfum vakti til dæmis sérstaklega reiði hans. Hefði kaþólska kirkjan þegar í stað tekið á því sem hann gagnrýndi og kannski gert vissar úrbætur er hugsanlegt að siðbótin hefði aldrei átt sér stað.

En atburðirnir leiddu Lúther út í sífellt harðari andstöðu. Þann 31. október árið 1517 (að því er sögur herma) negldi hann á kirkjudyrnar í Wittenberg plagg þar sem hann afhjúpar í 95 liðum rangar kenningar kirkjunnar. Áið 1520 gaf hann svo út bæklingana „Ávarp til kristinnar aðalstéttar þýsku þjóðarinnar,“ „Babýlonarfjötur kirjkunnar“ og „Frelsi kristins manns.“ Gagnrýni hans varð æ harðari í hverjum bæklingi sem út kom. Í páfabréfi var Lúther hótað bannfæringu. Þann 10. desember árið 1520 brenndi hann ögrandi þetta páfabréf. Á þinginu í Worms árið 1521 neitaði hann að taka aftur orð sín og var þar með lýstur útlægur úr heilaga rómverska keisaradæminu og neyddist til að fara huldu höfði. Meðan hann naut verndar vina sinna gafst honum tími til að ljúka þýðingu sinni á „Nýjatestamentinu.“ Það var haustið 1522. Árið 1534 hafði hann lokið þýðingu sinni á „Gamlatestamentinu“ og nú var öll biblía hans í fyrsta sinn fáanleg á þýsku. Eftir að hafa beitt sér svo lengi gegn því að Biblían væri þýdd á hinar ýmsu þjóðtungur var ekki við því að búast að kaþólska klerkaveldið tæki því með neinum fögnuði. Þegar hér var komið sögu var klofningurinn milli kaþólskra og lútherskra orðinn alger.

Áður en hægt yrði að líta á mann eins og Lúther sem einingarafl yrðu viðhorfin til hans að breytast verulega. Slík breyting hefur nú átt sér stað.

Breytt viðhorf

Að sögn dagblaðsins Rheinesche Post hafa „viðhorf kaþólskra til Lúthers . . . tekið furðulegri breytingu. Í augum rómversk kaþólskra hefur siðbótamaðurinn breyst úr fyrirlitlegum villutrúarmanni í föður í trúnni.“ Höffner kardínáli í Köln bætti því við í ræðu á ártíðarhátíð Lúthers í Worms að ekki væri lengur hægt að nota skoðanir mótmælenda og kaþólskra á Lúther til að reka fleyg á milli þeirra.

Þegar árið 1967 sagði mótmælendaguðfræðingurinn Walther von Loewenich: „Það gætir vaxandi væntumþykju í garð Lúthers meðal kaþólskra guðfræðinga í Þýskalandi sem lútherstrúarmaður mætti vera stoltur af.“ Og nú hefur jafnvel hinn kaþólski páfi lagt sitt til málanna í bréfi til Jan Willebrands kardínála í Hollandi þar sem hann talar um „djúpa trúhneigð“ Lúthers. Þessi athugasemd í bréfi páfa um Lúther og aðrar, sem miða að sáttum, urðu til þess að dagblöð í Róm kölluðu bréfið „söguleg tímamót í samskiptum kaþólskra og mótmælenda.“

Sunnudagurinn 11. desember 1983 var aftur brotið blað í sögunni. Aldrei áður hafði það gerst að páfi flytti prédikun fyrir lútherskum söfnuði í lúthersku kirkjunni í Róm. „Við þráum einingu og erum að vinna að einingu,“ sagði hann áheyrendum á þýskri tungu. „Á árinu, þegar minnst er fæðingar Lúthers fyrir fimm öldum, trúum við að við getum séð við sjóndeildarhring hilla undir endursameiningu.“

Verður trúarleg eining að veruleika?

„Hver okkar getur dæmt núna um hvort líta má á heimsókn páfa í [lúthersku kirkjuna] í Róm sem stórt spor í átt til kirkjulegrar einingar, eða hvort þessi sögulegi vináttuvottur verður ekkert meira en það — vináttuvottur?“ Svo var spurt í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung útgefið í München.

Óháð því hvort hér er um að ræða stórt spor í átt til sameiningar eða ekki er önnur þýðingarmikil spurning þessi: Af hverju stafar þessi skyndilegi og óvænti vilji til sameiningar?

Vafalaust á hann sér margar orsakir — almennt dvínandi áhuga á trú og trúarlífi og dvínandi trúarlegt yfirvald og áhrif, svo dæmi séu nefnd. Kreppuástand blasir við bæði kaþólskri trú og mótmælendatrú. Andkirkjulegar og andtrúarlegar tilfinningar færast í aukana. Hin stóru kirkjufélög virðast vera að liðast í sundur. Veraldleiki er í sókn. Litið er á sameiningu sem leið til að stöðva þann straum.

Að sögn dagblaða álítur George Lindbeck, einn af formönnum alþjóðanefndar lútherskra og kaþólskra, að án Lúthers og siðbótar hans hefðu „trúarstofnanirnar gegnt miklu minna hlutverki næstu 400 til 500 árin en var. Og sökum þess að miðaldartrúarbrögðin voru að liðast í sundur hefði veraldarhyggjan sótt á hindrunarlítið.“ Þetta er athyglisverð skoðun því að hún gefur til kynna sá hinn sami Lúher, sem átti þátt í að viðhalda skipulegum trúfélögum á sínum tíma með því að vera sundrungarafl, er núna notaður sem sameiningarafl.

Þetta sjónarmið vekur sérstakan áhuga kristinna manna sem þekkja spár Biblíunnar um gereyðingu falskra trúarbragða sem nefnd eru einu nafni Babýlon hin mikla. (Sjá Opinberunarbókina 17. og 18. kafla.) Þessi gereyðing var sögð eiga að verða á tímabili sem gat ekki hafist fyrir 1914, vissulega ekki á tímum Lúthers. Siðbót Lúthers átti því þátt í að halda hinum stóru trúarstofnunum „í sessi“ þar til kæmi tími Guðs til að láta til skarar skríða gegn þeim.

Sönn kristileg eining

Kristileg eining er eftirsóknarverð og Biblían hvetur okkur til að varðveita hana. „Ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ — 1. Korintubréf 1:10.

En eining er ósvikin því aðeins að hún byggist á traustum sannleiksgrunni, ekki hentistefnu og tilslökunum. Sönn kristileg eining útheimtir að fylgt sé því biblíulega ráði sem Páll gaf kristnum mönnum í Filippí: „Bræður, breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið.“ — Filippíbréfið 3:17.

Breytir hin kaþólska kirkja nútímans „eftir þeirri fyrirmynd“ sem var gefin af Páli og öðrum frumkristnum mönnum? Líkir kirkjan eftir þeim í kenningum, breytni og því að raða hlutum í rétta forgangsröð eftir mikilvægi? Og hvað um lúthersku kirkjuna? Vissulega skuldar sérhver kaþólskur maður og lútherstrúarmaður sjálfum sér það að ganga úr skugga um hvernig kirkjan hans stendur sig í þessu efni.

Enginn vafi er á að nást mun eining út um allan heiminn. Spádómar Biblíunnar heita henni, bæði að því er varðar stjórn og trúarlíf. Eining á sviði stjórnsýslu mun verða á þann hátt að himnesk ríkisstjórn Guðs mun koma í stað stjórnmálakerfis nútímans, en um hana kenndi Kristur fylgjendum sínum að biðja: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Þessi stjórn ‚mun aldrei á grunn ganga‘ er lofað í Daníelsbók 2:44. Þess í stað mun hún, í höndum Krists, ‚knosa og að engu gjöra öll hin ríkin (eða stjórnirnar) en sjálf mun hún standa að eilífu.‘ Undir því ríki mun allt mannkynið sameinast í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði.

Grundvöllur einingar á sviði stjórnsýslu og trúarlífs var því lagður við dauða Krists, en 1950. ártíð hans var haldin hátíðleg þriðjudaginn 29. mars 1983. Hátíðahöldin í tilefni 500 ára afmælis Marteins Lúthers hafa hins vegar engin varanleg fyrirheit í för með sér, þótt áhugaverð séu á sína vísu, hvorki að því er varðar stjórnsýslu eða trúarlíf.

Lærðu meira um hið sanna einingarafl — ríki Guðs. Útgefendur þessa tímarits munu fúslega veita þér nánari upplýsingar, ef þú óskar, og eins getur þú snúið þér til einhvers af vottum Jehóva.

[Neðanmáls]

a Þetta eru hinu opinberu og réttu heiti þeirra ríkja sem margir kalla Vestur-Þýskaland og Austur-Þýskaland.

[Kort/mynd á blaðsíðu 24]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Lúthersárið átti þátt í að gera Lúther að tákni pólitískrar sameiningar alls Þýskalands.

SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND

ALÞÝÐUVELDIÐ ÞÝSKALAND