Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leyndardómur heilans sem eru vísindunum torskildir

Leyndardómur heilans sem eru vísindunum torskildir

Leyndardómur heilans sem eru vísindunum torskildir

„DJARFLEG ný kynslóð ofursnjallra tölva er að taka á sig mynd í rannsóknastofum gervigreindarinnar,“ segir tímaritið High Technology. Þær eru önnur kynslóð „sérfræði“-kerfa sem — eins og forverar þeirra af fyrstu kynslóðinni — munu geyma sérþekkingu mennskra sérfræðinga í gagnabönkum sínum. Nýrri kerfin munu auk þess búa yfir ýmsum möguleikum til að ráða fram úr erfiðum vandamálum sem eldri útgáfurnar ekki höfðu. En munu þessar tölvur geta hugsað?

Það hefur verið draumur tölvuverkfræðinga að búa til tölvu sem hugsar, allt frá miðjum sjötta áratugnum þegar gervigreind varð skýrt afmarkað svið innan tölvuvísindanna. Enn sem komið er hefur sá draumur ekki ræst. „Við höfum ekki forrit sem eru í sannleika skapandi eða í sannleika hugvitsöm eða geta skilið margbreytileikann í rökhugsun mannsins,“ viðurkennir Roger C. Schank, forstöðumaður vinnuhóps um gervigreind við Yaleháskóla. Reyndar dregur tímaritið Psychology Today saman árangurinn af rannsóknum síðastliðinna 25 ára þannig: „Hvert einasta mannsbarn getur gert þrennt sem engin tölva getur enn — þekkt andlit, skilið náttúrlegt tungumál og gengið á tveim fótum.“

Tölvur standa einfaldlega mannshuganum langt að baki. Hvers vegna? Svo nokkuð sé nefnt eru háþróuðustu tölvusamrásir frumstæðar í samanburði við flóknar tengingar á að giska 100 milljarða (100.000.000.000) taugafruma sem er að finna í venjulegum mannsheila. Samkvæmt einni kenningu kallar heilinn fram upplýsingar úr geymslu eftir kerfi sem byggist á tenginganeti, og „þetta flókna tauganet í minni mannsins skilur hvað mest á milli manns og vélar. Hæfni heilans til að leita að upplýsingum í gegnum sínar milljónir taugafruma samtímis virðist algerlega yfirnátturlegur.“ Auk þess, segir tímaritið Science, „gerir heilinn milljónir eða milljarða taugaútreikninga samtímis og samhliða. Núverandi kynslóð af tölvum, sem vinna runu- eða raðbundið, eitt skref í einu, standa heilanum skelfilega langt að baki.“

Að vísu geta sumar tölvur gert flókna útreikninga á broti þess tíma sem það tæki snjallasta stærðfræðing. Tölvur geta jafnvel slegið flestum við í skák. En vélunum eru veruleg takmörk sett. „Gott skákforrit getur unnið góðan skákmann,“ segir í grein í tímaritinu The New York Times Magazine, „en ef reglunum er breytt örlitið . . . veit vélin ekki sitt rjúkandi ráð en maðurinn getur spjarað sig.“

Hvað gefur manninum þessa yfirburði? Við rökhugsum og drögum ályktanir. Við skoðum vandann frá mörgum mismunandi sjónarhornum og greinum þýðingarmiklar upplýsingar frá þeim sem litlu skipta. Auk þess eigum við í engum erfiðleikum með að skilja hugtök tungumálanna eða að læra af reynslunni. Í stuttu máli sagt höfum við „heilbrigða skynsemi.“ Vonlitlar tilraunir vísindamanna til að líkja eftir þessari „heilbrigðu skynsemi“ hefur, að sögn Science, kennt þeim „vissa auðmýkt, gert þeim ljóst hversu ægiflókin ósköp venjuleg mannleg athöfn getur verið — og hversu mikið tölva (eða maður) þarf að vita áður en hún getur gert nokkuð að gagni.“

Vísindamenn viðurkenna að ekki verði nein meiriháttar tímamót á næstunni í því að búa til gervigreind, þrátt fyrir aukna kosti væntanlegra tölvukerfa. Vandinn er að hluta til fólginn í því að við skiljum einfaldlega ekki nógu vel hvernig hugur okkar starfar til að við getum gert líkan af honum.

„Aha!“ segjum við þegar við fáum góða hugmynd. En hvernig við fengum hugmyndina er leyndardómur.