Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Nýja siðgæðið“ — uppsker eins og það hefur sáð?

„Nýja siðgæðið“ — uppsker eins og það hefur sáð?

„Nýja siðgæðið“ — uppsker eins og það hefur sáð?

„GUÐ hefur látið AIDS koma í stað elds og brennisteins,“ sagði reiður maður sem skrifaði lesendabréf sem birtist í New York Post. Mörgum fleirum finnst farsóttarvöxtur AIDS, herpes og annarra samræðissjúkdóma vera meira en bara uppskera hinnar svonefndu kynlífsbyltingar. Þeir sjá þessa sjúkdóma sem refsingu Guðs fyrir lauslæti.

Samræðissjúkdómafaraldurinn er vissulega uggvænlegur, en Biblían gefur ekki til kynna að Guð noti sjúkdóma til að refsa mönnum fyrir ranga breytni. Sjúkdómar og veikindi eru óumflýjanleg afleiðing erfðasyndar sem þjáir allt mannkynið. (Rómverjabréfið 5:12) Því verður jafnvel guðhrætt og grandvart fólk stundum fórnarlömb alvarlegra sjúkdóma.

Eigi að síður má oft bæta hlutskipti sitt í lífinu — þar á meðal heilsuna — með því að fara eftir kröfum Guðs. Til dæmis fordæmir Biblían ofneyslu áfengra drykkja. (1. Korintubréf 6:9, 10; 1. Tímóteusarbréf 3:8) Orðskviðirnir 23:29-34 benda á sumar orsakirnar fyrir því að þessi afstaða er heilbrigð:

„Hver æjar? hver veinar? hver á í deilum? hver kvartar? hver fær sár að þarflausu? hver rauð augu? Þeir sem sitja við vín fram á nætur, . . . Að síðustu bítur það sem höggormur og spýtir eitri sem naðra. Augu þín munu sjá kynlega hluti, og hjarta þitt mun mæla fláræði. Og þú munt vera eins og sá, sem liggur úti í miðju hafi, já, eins og sá, er liggur efst uppi í siglutré.“

Meiðsli, heilsubrestur, ofskynjandir — allt slæmar afleiðingar drykkjuskapar. Þó er ekki hægt að kenna Guði um þær. Einstaklingurinn kallar þær sjálfur yfir sig með því að virða staðla Guðs að vettugi. Í Galatabréfinu 6:7, 8 segir Biblían: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun.“

Sama meginregla gildir þegar siðferði á í hlut. Í 1. Korintubréfi 6:18 aðvarar Biblían: „Flýið saurlifnaðinn! . . . saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.“ ‚Saurlifnaður‘ felur í sér fjöldmargar syndir í kynferðismálum, þar á meðal kynlíf fyrir hjónaband og kynvillu. Taktu eftir að hann er synd gegn eigin líkama. „En líkaminn er ekki fyrir saurlífi,“ segir Páll. (1. Korintubréf 6:13) Manninum var gefinn getnaðarmátturinn í helgum tilgangi: Til að byggja jörðina réttlátum börnum. (1. Mósebók 1:28) Kynlíf átti einnig að vera hjónum til gagnkvæmrar ánægju. — 1. Korintubréf 7:3-5; Orðskviðirnir 5:18-20.

Síðlaust kynlíf gerir gys að þessu fyrirkomulagi. Það er því siðspillandi og gerir hinn siðlausa óhreinan í augum Guðs. Um síðir leiðir það yfir hann þann dóm sem greint er frá í 1. Korintubréfi 6:9, 10: „Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar . . . Guðs ríki erfa.“ Sá sem „syndgar á móti eigin líkama“ getur hins vegar líka ‚uppskorið það sem hann hefur sáð‘ í líkamlegum og tilfinningalegum skilningi. Samræðissjúkdómar eru aðeins eitt af þeim mýmörgu vandamálum sem hinn siðlausi getur orðið fyrir: Sundruð eða ótrygg hjónabönd, síendurteknar ástarsorgir, ótti við þungun, vantraust til annarra. Kynvillingar ‚taka líka út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar,‘ segir Biblían. (Rómverjabréfið 1:27) Svívirðilegt athæfi þeirra — hvort sem það er framtíð með mörgum mismunandi félögum eða í „einkvæni“ — er ‚óeðlilegt.‘ (Rómverjabréfið 1:26) Ætti okkur þá að undra að aragrúi vandamála skuli fylgja lífsháttum þeirra?

„Frelsið“ er ekki ókeypis

Samræðissjúkdómaplágan hefur þess vegna gert meira en aðeins að valda fáeinum einstaklingum vissum óþægindum. Hún hefur varpað skugga á lífsstíl sem hét mönnum frelsi en hefur í reynd gefið mörgum ekkert annað en sorgir og eymd. Sú hugmynd að með hjálp „pillunnar“ og penísillíns væri hægt að stunda hömlulaust kynlíf án eftirkasta hefur sýnt sig vera fáránleg og barnaleg. Að sjálfsögðu hafa kristnir menn alls ekkert gaman af þjáningum annarra. Þeir vona hins vegar að þeir sem eru úti á braut lauslætisins muni alvarlega íhuga líf sitt og þær afleiðingar sem það getur haft. Það er ekki of seint — né of erfitt — að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Kristnum mönnum til forna tókst að forða sér úr snöru siðleysis. Og á okkar tímum hafa vottar Jehóva hjálpað þúsundum manna í viðbót til að gera slíkt hið sama. — 1. Korintubréf 6:9-11.

Því miður virðist þó meirihluti manna staðráðinn í að halda áfram á sinni eigingjörnu lífsbraut. Óttinn við samræðissjúkdóma er ekki til langs tíma litið líklegur til að stuðla að hreinlífi frekar en óttinn við kjarnorkusprengjur að friði. Háskólanemi sagði: „Menn eru ábyggilega með hugann við AIDS og herpes, en ég held ekki að það hafi á nokkurn hátt bælt niður kynlífsbyltinguna meðal flestra jafnaldra minna.“

Hvort heldur AIDS, herpes eða aðrir banvænir félagar þeirra halda áfram farsóttarvexti sínum eða verða að lúta í lægra haldi er í rauninni ekki aðalatriði. Hvernig sem fer eru þeir þegar búnir að setja óafmáanlegan smánarblett á ljómandi ásjónu hins „nýja siðgæðis.“ Það hefur verið afhjúpað sem innihaldslaus, innantómur og hættulegur lífsstíll. Stuðningsmenn „frjálsra ásta“ komast því að raun um, sér til mæðu, að siðlaus „ást“ er alls ekkert svo „frjáls.“

Hún er hreinlega allt of dýr.