Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Plágan þráláta — hin dökka hlið kynlífsbyltingarinnar

Plágan þráláta — hin dökka hlið kynlífsbyltingarinnar

Plágan þráláta — hin dökka hlið kynlífsbyltingarinnar

SUMIR segja að Kristófer Kólumbus hafi átt sökina. Ef það er rétt má vera að sjómennirnir hans hafi flutt með sér fleira frá nýja heiminum en skrautgripi úr gulli og ævintýralegar frásögur. Vera má að sáðkorn mikillar plágu hafi leynst í likömum þeirra.

Ekki aðhyllast þó allir, sem rannsakað hafa málið, þessa kenningu. Sumir segja jafnvel að plágan sé næstum „jafngömul manninum sjálfum.“ Þeir segja að finna megi merki hennar í egypskum múmíum. Fórnar heimildir virðast lýsa sjúkdómseinkennum hennar nákvæmlega. Auk þess spyrja þeir hvernig svona fáir ferðalangar hafi hugsanlega getað sýkt svona marga aðra.

Upphaf plágunnar er því deiluatriði fræðimanna og verður kannski alltaf leyndardómur. En eitt er þó ljóst: Undir lok 15. aldar (skömmu eftir heimkomu Kólumbusar) gaus skyndilega upp plága í Evrópu sem breiddist út eins og eldur í sinu. Þúsundir manna — kannski milljónir — dóu. Og í æðisfátinu, sem á eftir kom, voru fórnarlömb plágunnar gerð útlæg, sett í sóttkví, hengd eða jafnvel drekkt.

Ekki er að undra að angistarfullar þjóðir skiptust á að kenna hverri annarri um. Rithöfundurinn Louis Lasagna segir: „Englendingar og Tyrkir kölluðu hana frönsku veikina, Persar kenndu Tyrkjum um, Flæmingjar og Hollendingar nefndu hana spænsku bólusóttina, Frakkar kölluðu hana ítölsku eða napólísku veikina, Ítalir kenndu ýmist Spánverjum eða Frökkum um, Portúgalir nefndu hana kastilíuveikina . . . Rússar litu á hana sem pólska kvillann og Póverjar gáfu Þjóðverjum heiðurinn.“ Maximilanus I., keisari heilaga rómverska keisaradæmisins, sló hins vegar fram háleitari kenningu. Í tilskipun sinni árið 1495 lýsti hann hana vera refsingu fyrir guðlast.

Aðeins 35 árum síðar samdi læknirinn og ljóðskáldið Fracastoro sögu um fjárhirði sem haldinn var þessum sjúkdómi. Ljóðið er kannski löngu gleymt en ekki nafn fjárhirðisins sem sjúkdómurinn er nefndur eftir — Sýfilus.

Lætur ekki undan síga

Ætla mætti að plágur sem geysast yfir, drepa og skilja menn eftir örkumla séu nú á tímum tölvustýrðra sneiðmyndatækja og leysigeislaskurðtækni jafn-útdauðar og risaeðlurnar. En sýfilis eða sárasótt, ásamt fjöldamörgum öðrum skaðlegum sjúkdómum, er jafnsamtvinnuð lífinu á 20. öld eins og loftmengun. Í hinum enskumælandi heimi var þessi nútímaplága kennd við Venus, hina fornu rómversku ástargyðju, og nefnd „venereal disease.“ En nú kjósa menn frekar að kenna þessa sjúkdóma við það með hvað hætti þeir smitast, og kalla þá til dæmis samfara- eða samræðissjúkdóma. a Orðið samræðissjúkdómur er samheiti um 20 sjúkdóma eða kvilla með ills-vitandi nöfnum — allt frá herpes, sem kunnur er af fréttum, niður í shigellosis sem fæstir vita nokkuð um. (Sjá rammann að ofan.) Alþjóða heilbrigðisstofnunin segir að samræðissjúkdómar séu „alþjóðarfarsótt.“

Menn eru því farnir að sjá hina margrómuðu „kynlífsbyltingu“ í nýju ljósi. Margir, sem í fyrstu fengu glýju í augun af ljóma hennar, eru nú í fyrsta sinn farnir að sjá grilla í hina dökku hlið hennar: Útskúfun, sársauka og mannlega eymd.

‚Stjórnleysistímar í kynferðismálum‘

„Nú eru að ganga í garð tímar mikilla breytinga í kynferðismálum í Ameríku. Margir hafa látið í ljós ótta um að þjóðin kunni að stefna að stjórnleysistímum í kynferðismálum.“ Svo hrópaði U.S. News & World Report árið 1966. En það sem skelfdi lesendur þá kallar tæpast fram meira en geispa núna.

Hvað olli þessari breytingu? Margt lagðist á eitt um það á sjöunda áratugnum. Auðfengin getnaðarvarnarlyf, „pillan,“ virtust til dæmis auðvelda mönnum frjálsar ástir án eftirkasta. Aukið frelsi til fóstureyðinga, sem komið var á í sumum löndum, hafði líka sitt að segja. Áralöng togstreita og átök á sviði efnahagsmála, þjóðfélagsmála og jafnvel stjórnmála kom fólki til að efast um gildi gamalgróins verðmætamats. Og í fylkingarbroddi voru postular hins „nýja siðgæðis“ — læknar, stjórnmálamenn, heimspekingar, rithöfundar og jafnvel klerkar sem boðuðu háum rómi að „gömlu“ hömlurnar í kynferðismálum væru hreinasta kúgun og jafnframt skaðlegar.

Afleiðingarnar? Það sem kallað hefur verið „snögg umskipti í átt til undanlátsemi.“ Fólk langaði til að kynnast frelsi í kynferðismálum af eigin raun. „Ég hlakkaði til nýrra frelsistíma í kynferðismálum,“ segir rithöfundurinn Celia Haddon. „Ég var sannfærð um að brátt myndi kynferðissamband karla og kvenna vera heiðarlegra, ánægjulegra og unaðslegra.“

Margir hafa samt sem áður litla fullnægjukennd út úr tilviljanakenndu kynlífi. Óraunhæf eftirvænting kveikir aðeins nýjar áhyggjur og vonbrigði. Nú birtast fréttir og eru gefnar út skýrslur þess efnis að kynsjúkdómar breiðist út um allan hnöttinn sem farsótt. Fyrir þá sem stunda frjálst kynlíf virðist hættan á skyndilegri sýkingu ekki lengur fjarlæg heldur óhugnanlega nálæg. Ekki er því að undra að jafnvel sumir harðskeyttir stuðningsmenn ‚frjálsra ásta‘ séu orðnir skelkaðir!

Og þeir sem eru það ekki ættu kannski að vera það.

Hinir banvænu sjúkdómar

Sýfilis (sárasótt) drepur menn ekki lengur í milljónatali eins og var á dögum Kólumbusar en er enn sem fyrr hættulegur sjúkdómur. Læknavísindin segja okkur að hinn gormlaga sýfilissýkill (Treponema pallidum) berist úr opnum sárum eða útbrotum á kynfærum hins sýkta. Sýking á sér stað við kynmök. Þegar sýkillinn T. Pallidum er kominn inn í nýja fórnarlambið leggur hann leið sína inn í blóðrásina og sogæðakerfið og sýkir smám saman allan líkamann ef ekkert er að gert. En sýfilis-sýkillinn er hættulega hægvirkur. Allt frá 10 upp í 90 dagar líða frá sýkingu þar til fórnarlambið verður vart hinna einkennandi sýfilis-sára (en af þeim er íslenska heitið sárasótt dregið) á þeim stað þar sem sýkillinn barst inn í líkamann — oftast kynfærunum. Sé ekkert að gert getur sýkillinn unnið óbætanlegt tjón á mikilvægum líffærum, jafnvel dregið menn til dauða.

Læknirinn Galen, sem uppi var á annari öld, er höfundur nafnsins á hinum aldagamla félaga sárasóttarinnar — gonorrhea eða lekanda. Hin dæmigerðu einkenni eru sár sviði við þvaglát. Bandaríska heilbrigðisráðuneytið segir þó: „Hjá konum . . . eru einkennin oft ekki nægilega ljós til að vekja grunsemdir sjúklings eða koma honum til að leita læknis.“ Og hjá karlmönnum hverfa einkennin oftast eftir um tvo mánuði. Læknar segja að sjúkdómurinn geti samt sem áður brotið sér leið inn í blóðrásina og sýkt þýðingarmikil líffæri, og konum virðist sérstaklega hætt við ýmsum fylgikvillum lekanda. Í tímariti bandarísku læknasamtakanna, The Journal of the American Medical Association, segir: „Alvarlegastur þessara fylgikvilla er grindarholsbólga (pelvic inflammatory disease) . . . Nær ein milljón kvenna er meðhöndluð í Bandaríkjunum ár hvert vegna grindarholsbólgu.“ Hverjar eru afleiðingar sjúkdómsins? „Ófrjósemi, utanlegsþykkt og langvarandi verkir í grindarholi.“

Athyglisvert er þó að grindarholsbólga orsakast kannski oftast af sjúkdómi sem fæstir hafa nokkru sinni heyrt nefndan — chlamydia. Bandaríska CDC-stofnunin (hefur það hlutverk að fylgjast með og hefta útbreiðslu sjúkdóma) segir: „Sýkingar af völdum Chlamydia trachomatis eru útbreiddustu samræðissjúkdómarnir í Bandaríkjunum núna.“ Tímaritið The Age skýrði einnig frá því að Ástralíubúum stafaði veruleg hætta af chlamydia-sýkingu. Einkenni chlamydia eru nógu lík lekandaeinkennum til að villa um fyrir jafnvel læknum.

„Því miður,“ segir dr. Yehudi M. Felman, „lita margir læknar enn á chlamydia sem ‚annarrar deildar‘ sjúkdóm.“ (Medical World News) En fyrir þær á að giska tvær og hálfa til þrjár milljónir fórnarlamba chlamydia-sýkingar í Bandaríkjunum er sjúkdómurinn varla neinn „annarrar deildar“ sjúkdómur. Og hann er heldur enginn „annarrar deildar“ sjúkdómur fyrir ungbörn fædd sýktum mæðrum, sem oft eru haldin lungnabólgu eða jafnvel blind.

„Horfnir af sjónarsviðinu“

„Svo er fúkalyfjum fyrir að þakka,“ sagði dr. John F. Mahoney árið 1949, „að lekandi er hér um bil horfinn af sjónarsviðinu sem meiriháttar atriði í heilsuvernd almennings.“ Þessi orð eru dæmigerð fyrir þá trú sem læknastéttin — og verulegur hluti almennings — hafði á nýjum undralyfjum svo sem pensillini. Margir læknar voru sannfærðir um að vísindin hefðu rekið samræðissjúkdómum banahögg og misstu hreinlega áhuga á að kynna sér þá. Í Mið- og Vestur-Afríku hleyptu Sameinuðu þjóðirnar af stað áætlunum í því skyni að ráða niðurlögun sýfilis og annarra skyldra sjúkdóma, og árangurinn virtist svo góður að embættismenn jafnvel slökuðu á eftirliti sínu.

Hinar öru breytingar sjöunda áratugarins komu því nær öllum í opna skjöldu. Á árabilinu ‚1965 til 1975 nær þrefölduðust skráð lekandatilfelli í Bandaríkjunum,‘ (Upplýsingar frá CDC-stofnuninni) Stóraukin ferðalög fólks, sem rekja mátti til farþegaflugs með þotum, áttu sinn þátt í að dreifa sjúkdómum frá einu landi til annars. Alþjóðlegur samræðissjúkdómafaraldur var því í aðsigi, en eins og Theodor Rosebury sagði í ritinu Microbes and Morals (Örverur og siðferði) „var sú skelfilega uppgötvun gerð að ungir læknar og læknanemar vissu nær ekkert um samræðissjúkdóma.“

Læknar hafa því mátt hafa sig alla við að halda í við farsóttarvöxt samræðissjúkdómanna, jafnvel þótt þeir fullyrði að áhrifarík lyf séu til við næstum öllum þeirra. b Fólk sýkist hreinlega örar en læknar ráða við.

Þótt fjöldi samræðissjúkdóma hafi þjakað mannkynið lengi hafa einkum tveir verið í sviðsljósinu upp á siðkastið. Það eru herpes og AIDS. Næsta grein mun fjalla nokkuð um þá.

[Neðanmáls]

a Samræðissjúkdómar geta smitast með öðrum hætti en við kynmök og eru því ekki alltaf merki um lauslæti.

b Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) skýrir frá því að lekandaafbrigði, sem eru ónæm fyrir penísillíni, hafi „breiðst út til nær allra heimshluta.“ ‚Óhóflegri notkun fúkalyfja‘ hefur verið kennt um. Þótt til séu önnur, áhrifarík lyf benti WHO á að vegna lekandasýkla, sem eru ónæmir fyrir penísillíni, „myndi meðferð sífellt oftar mistakast sem leiddi til lengri sýkingartíma og aukinnar hættu á margbrotnum sjúkdómi, einkanlega í konum.“

[Innskot á blaðsíðu 16]

„Sú skelfilega uppgötvun [var] gerð að ungir læknar og læknanemar vissu nær ekkert um samræðissjúkdóma.“

[Listi á blaðsíðu 14]

Skrá um nokkra samræðissjúkdóma

Sýfilis (sárasótt) Chlamydia trachomatis

Lekandi Ureaplasma

Lifrarbólga B urealyticum

Herpes (bóluútþot) Kynsjúkdómavörtur

Linsæri (chancroid) Maurakláði

Flatlús Nárabóla (granuloma inguinale)

Eitlafár Trichomaoniasis

(lymphogranuloma venereum) AIDS

[Myndir á blaðsíðu 15]

Örar breytingar 7. áratugarins leiddu til hinnar svonefndu kynlífsbyltingar og þess að slakað var á siðferðisreglum.