Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Reynsla í nálægð dauðans — er hún sönnun um ódauðleika?

Reynsla í nálægð dauðans — er hún sönnun um ódauðleika?

Reynsla í nálægð dauðans — er hún sönnun um ódauðleika?

„Sál mannsins er ódauðleg og ótortímanleg.“ — Gríski heimspekingurinn Platon, um 428-348 f.o.t.

„Slík samhljóðan er í ódauðlegum sálum.“ — Enska leikritaskáldið William Shakespeare, 1564-1616.

„Sálin er ótortímanleg . . . starf hennar mun halda áfram um eilífð.“ — Þýska skáldið Johann Wolfgang von Goethe, 1749-1832.

„Persónuleiki okkar . . . lifir áfram í næsta lífi.“ — Ameríski uppfinningamaðurinn Thomas Edison, 1847-1931.

UM ÞÚSUNDIR ára hefur maðurinn trúað að hann hafi meðfæddan ódauðleika. Hinir fornu þjóðhöfðingjar Egypta fylltu grafir sínar lífsþægindum og íburði til að líkamanum yrði vel þjónað þegar hann sameinaðist aftur sálinni, ka eins og þeir nefndu hana.

Þannig hefur maðurinn reynt að sannfæra sjálfan sig um að óumflýjanleiki dauðans verði að engu við það að ódauðleg sál eða andi lifi áfram. Aðrir, eins og enska ljóðskáldið Keats, vilja trúa en efast. Keats skrifaði: „Ég þrái að trúa á ódauðleika . . . mig langar til að trúa á ódauðleika.“ Hverju trúir þú um ímyndaðan ódauðleika mannsins?

Í orðum Keats er kannski fólgin einföld vísbending um þær ályktanir sem sumir læknar og sálfræðingar hafa dregið, svo og fólk sem hefur orðið fyrir reynslu í nánd dauðans. Dr. Michael Sabom, prófessor í læknisfræði, gerði athuganir á fólki sem orðið hafði fyrir reynslu í nánd dauðans. Hann komst að því að „hjá yfirgnæfandi meirihluta manna, sem varð fyrir reynslu í nánd dauðans, minnkaði óttinn við dauðann verulega og trú þeirra á líf eftir dauðann jókst verulega.“ — Leturbreyting okkar.

Hver var niðurstaða sálfræðingsins dr. Elisabeth Kübler-Ross eftir að hafa rannsakað yfir eitt þúsund dæmi um reynslu í nálægð dauðans? Í bók sinni On Children and Death (Um börn og dauðann) segir hún: „Og eins er það með dauðann — endinn á undan annarri byrjun. Dauðinn er hin mikla umbreyting.“ Hún bætir við: „Með auknum rannsóknum og útgáfu mun sífellt fleira fólk vita frekar en trúa að efnislíkami okkar er í sannleka aðeins lirfuhýði, ytri skurn mannverunnar. Okkar innra og sanna sjálf, ‚fiðrildið,‘ er ódauðlegt og ótortímanlegt og frelsast á því augnabliki sem við köllum dauða.“

Dr. Kenneth Ring, prófessor í sálfræði og höfundur bókarinnar Life at Death (Líf við dauðann), kemst að eftirfarandi niðurstöðu: „Ég trúi . . . að við höldum áfram meðvitaðri tilveru eftir líkamsdauðann.“ Síðan bætir hann við: „Skilningur minn á þessum frásögnum af reynslu í nálægð dauðans kemur mér til að líta á þær sem ‚kenningar.‘ Mér virðast þær í eðli sínu vera opinberunarreynsla. . . . Að þessu leyti eru frásagnirnar í ætt við dulræna eða trúarlega reynslu [leturbreyting okkar]. . . . Skoðað í þessu ljósi eru raddirnar, sem við höfum heyrt í þessari bók [Life at Death], raddir spámanna sem prédika trú allsherjar bræðralags.“

Andstætt sjónarmið

En hvað segja aðrir sem rannsakað hafa þetta mál? Hvernig skýra þeir þessa ‚reynslu í nálægð dauðans‘ eða ‚reynslu utan líkama‘? Sálfræðingurinn Ronald Siegel sér þær í nokkru öðru ljósi. „Þessi reynsla er samkynja örvun í mannsheilanum af mjög fjölbreyttum orsökum, þar á meðal af völdum LSD, skyndoða og gífurlegs álags. Álagið veldur því að ímyndunum er varpað inn í heilann. Þær eru hinar sömu hjá flestu fólki, því að heilar okkar eru allir búnir svipuðum rafrásum til geymslu upplýsinga, og þessi reynsla er í grundvallaratriðum útlestur úr þessum rafrásum.“

Dr. Richard Blacher við Tufts University School of Medicine í Boston í Bandaríkunum segir: „Ég held að fólk, sem verður fyrir þessari ‚dauðareynslu‘ líði súrefnisskort, og reyni á meðan að glíma sálarlega við þær áhyggjur sem vakna við læknismeðferð og umtal þar að lútandi. . . . Við erum hér að fást við hugarfóstur dauðans, ekki dauðann sjálfan. Þetta hugarfóstur er mjög svo aðlaðandi því að það leysir nokkrar áhyggjur samtímis. . . . Læknir verður að varast sérstaklega að taka þessar trúarskoðanir sem vísindaleg gögn.“

Siegel nefnir annað eftirtektarvert atriði í sambandi við „sýnir“ fólks við dauðans dyr: „Eins og skynvillurnar, eru sýnir af lífi eftir dauðann grunsamlega líkar þessum heimi, samkvæmt frásögnum hinna deyjandi sjúklinga sjálfra.“ Til dæmis sagði 63 ára gamall maður, sem eytt hafði mestum hluta ævinnar í Texas, svo frá „sýn“ sinni: „Ég var hangandi fyrir ofan girðingu. . . . Öðrum megin girðingarinnar var ákaflega óræktarlegt land vaxið meskít-ertum . . . Hinum megin girðingarinnar var fegursta haglendi sem ég held að ég hafi nokkurn tíma augum litið. . . . [Þetta var] þrí- eða fjórþætt gaddavírsgirðing.“ Sá þessi sjúklingur raunverulega gaddavírsgirðingu á „himnum“ eða á tilverusviðinu handan dauða? Auðsætt er að þessar ímyndir voru byggðar á ævi hans í Texas og dregnar fram úr gagnabankanum í heila hans sjálfs — nema okkur sé ætlað að trúa að gaddavír sé notaður „hinum megin“!

Svo stór hluti af reynslu í nálægð dauðans stendur í nánu sambandi við lífsreynslu sjúklingsins, uppvöxt og ævi að óeðlilegt væri að telja þær innsýn í tilverusvið handan dauðans. Sjá til dæmis þeir sjúklingar, sem sjá „veru ljóssins,“ sömu persónuna óháð því hvort þeir eru kristnir, Gyðingar, hindúar eða múslímar? Í bók sinni Life after Life (Líf að loknu lífi) segir dr. Raymond Moody: „Veran er ólík frá manni til manns og virðist að verulegu leyti sprottin af trúarviðhorfum, -uppeldi eða -skoðun þess sem í hlut á. Flestir, sem eru kristnir, þekkja ljósið sem Krist . . . Karlmaður og kona, sem voru Gyðingar, þekktu ljósið sem ‚engil.‘“

Séð frá hreinu vísindalegu sjónarmiði viðurkennir dr. Ring: „Ég minni áheyrendur mína á að það sem ég hef rannsakað er reynsla í nánd við dauðann. . . . Það er bersýnilega engin trygging fyrir því heldur að þessi reynsla muni halda áfram í samræmi við upphafið eða að það sé yfirleitt nokkurt framhald. Það er að mínu mati rétt vísindaleg afstaða til gildis þessara reynslu manna.“

Heilbrigð skynsemi og Biblían

Sálfræðingurinn Siegel lætur í ljós álit sitt um dauðann: „Dauðinn er enginn leyndardómur skoðaður út frá afleiðingum sínum fyrir líkamann. Eftir dauðann leysist líkaminn í sundur og hverfur út í lífvana hluta umhverfisins. Hinn dáni maður missir bæði líf sitt og meðvitund. . . . Rökréttasta ágiskunin er sú að meðvitundin hljóti sömu örlög og líkið. Þótt undarlegt sé er þetta skynsamlega viðhorf ekki ríkjandi og meirihluti mannkyns . . . heldur áfram að beita þeirri frumhvöt sinni að halda í sér lífi með því að búa sér til aragrúa trúarkenninga um líf mannsins eftir dauðann.“

Fyrir um það bil 3000 árum lét konungur einn í ljós þetta sama „skynsamlega viðhorf“ þegar hann skrifaði: „Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið, og þeir eiga aldrei framar hlutdeild í neinu því, sem við ber undir sólinni. Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheiminum [sameiginlegri gröf mannkynsins], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ — Prédikarinn 9:5, 6, 10.

Biblían gefur vissulega ekkert tilefni til að skoða reynslu í námunda við dauðann sem forsmekk af lífi eftir dauðann. Lýsing Salómons konungs á dauðanum og áhrifum hans gefur ekki minnstu vísbendingu um að ódauðleg sál lifi yfir á svið einhverrar annarrar meðvitaðrar tilveru. Hinir dauðu „vita ekki neitt.“

Þeir sem iðka spíritisma og andatrú og tala við hina „dánu“ fagna auðvitað þeim stuðningi sem hin útbreidda reynsla í nálægð dauðans virðist veita skoðunum þeirra. Sálfræðingurinn Síegel hefur eftir manni sem flutti fyrirlestur um hið yfirnáttúrlega: „Ef við eigum að skoða rökin fyrir lífi eftir dauðann heiðarlega og af stillingu verðum við að brjótast undan harðstjórn heilbrigðar skynsemi.“ (Psychology Today, janúar 1981) Athygli vekur að þessi sami fyrirlesari „heldur því fram að draugar og vofur séu raunverulega skynvillur, en þeim sé varpað með fjarhrifum úr hugum dáinna manna til lifandi!“ Það samræmist vissulega ekki þeirri niðurstöðu Salómons að hinir dánu sé dánir og viti ekki neitt.

Reynsla í nálægð dauðans — hvernig má skýra hana?

Hvernig má þá skýra hina tíðu reynslu fólks í nálægð dauðans og reynslu utan líkama? Að minnsta kosti tvær skýringar eru mögulegar. Önnur er sú sem sumir sálfræðingar gefa þess efnis að heili manns í nálægð dauðans rifji upp og búi sér til myndir undir álaginu samfara nálægðinni við dauðann. Sumir sjúklingar og rannsóknaraðilar túlka þær síðan sem innsýn í líf eftir dauðann. Eins og við höfum séð af Biblíunni getur sú túlkun ekki verið rétt, því að maðurinn hefur ekki ódauðlega sál og ekkert slíkt líf eftir dauðann, eins og þetta fólk telur sig skynja, er til.

Við ættum líka að taka með í reikninginn annan möguleika sem kann að geta skýrt eitthvað af þessari reynslu manna. Það er atriði sem fæstir rannsóknaraðilar vilja viðurkenna. Til dæmis segir dr. Moody í bók sinni Life after Life að ‚stöku sinnum hafi verið stungið upp á að illir andar gætu verið á bak við reynslu í nálægð dauðans, og með því hafi verið gefið í skyn að þessari reynslu væri stjórnað af illum öflum.‘ Hann hafnar þessari hugmynd á þeim forsendum að „Satan myndi líklega segja þjónum sínum að fara braut haturs og tortímingar,“ í stað þess að láta sjúklingunum finnast þeir standa nær Guði eftir þessa reynslu. Hann bætir við: „Honum hefur vissulega mistekist hrapallega — að því er ég best fæ séð — að gera menn að sannfærandi útsendurum sínum!“

Að þessu leyti verða dr. Moody á tvenn alvarleg mistök. Í fyrsta lagi er engin vissa fyrir því að Satan myndi kynda undir hatri og tortímingu með reynslu af þessu tagi. Hvers vegna? Vegna þess að Biblían segir: „Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd. Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna.“ (2. Korintubréf 11:14, 15) Ef hann getur alið á þeirri lygi sem hann hefur alltaf haldið fram — „vissulega munuð þið ekki deyja“ — getur hann gert það á þennan að því er virðist saklausa og upplýsandi hátt. —  1. Mósebók 3:4, 5.

Í öðru lagi hefur honum alls ekki mistekist hrapallega að afla sér sannfærandi útsendara til að kynda undir trú á lygi hans um ódauðlega sál! Þvert á móti hefur hann nú fengið lækna, sálfræðinga og vísindamenn til að styðja með ráðum og dáð þá lygi sem hann hefur haldið fram í gegnum presta og heimspekinga um allar aldir! Páll postuli lýsti ástandi mála í hnotskurn þegar hann sagði: „Ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast. Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs“! — 2. Korintubréf 4:3, 4.

Samt sem áður trúa sumir sálfræðingar að tilvera mannsins haldi áfram eftir dauðann, eins og við höfum séð. Þessi túlkun manna á merkingu reynslu í nálægð dauðans kemur okkur til að varpa fram eftirfarandi spurningum í þágu þeirra sem trúa á Biblíuna: Er nokkur biblíulegur grunnur fyrir því að segja að maðurinn hafi ódauðlega sál sem yfirgefur líkamann eins og fiðrildi lirfuhýði? Hvað um þær ritningargreinar í Biblíunni þar sem orðin „sál“ og „ódauðleiki“ koma fyrir?