Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sálin — er hún þú eða er hún í þér?

Sálin — er hún þú eða er hún í þér?

Sálin — er hún þú eða er hún í þér?

HELDUR þú að þú hafir ódauðlega sál sem lifir áfram þegar þú deyrð? Flestir eru þeirrar trúar, hvort sem þeir kallast kristnir, múslímar, Gyðingar, shintótrúarmenn, búddhatrúarmenn eða hindúar. En hvers vegna trúa þeir því? Er það vegna þess að þeir hafi sannanir? Eða er orsökin sú að þeim hefur alltaf verið kennt þannig af trúarbrögðum sínum og algengum sögusögnum? Hvernig komst hugmyndin um ódauðlega sál inn í hina „kristnu“ kenningu?

Í bók sinni Death Shall Have No Dominion (Dauðinn skal engin yfirráð hafa) segir Douglas T. Houlden: „Kristin guðfræði hefur runnið svo saman við gríska heimspeki að hugmyndir kristinna manna eru að níu hlutum grísk heimspeki á móti einum hluta af kristni.“ Þetta sýnir sig glöggt í sambandi við hina útbreiddu trú á ódauðlega sál. Platon, grískur heimspekingur á fjórðu öld f.o.t., sagði: „Sálin er ódauðleg og ótortímanleg, og sálir okkar munu í sannleika vera til í öðrum heimi!“

Hvert fóru þessar sálir þegar líkaminn dó, að sögn Platons? „Og þeir sem virðast hafa lifað hvorki vel né illa fara til árinnar Akeron, . . . og þar dvelja þeir og eru hreinsaðir af illum gjörðum sínum, og hljota aflausn eftir að hafa tekið út refsingu fyrir það ranga sem þeir hafa gert öðrum.“ Er þetta ekki keimlíkt kenningu kristna heimsins um hreinsunareld? Og hvert fara sálir hinna illu? „Þeim er kastað í Tartarus [í hugum Forn-Grikkja sá hluti Hades þar sem verstu afbrotamönnum var refsað], sem eru hæfileg örlög fyrir þá, og þeir komast aldrei út.“ Grikkir trúðu á eilífar kvalir í helvíti löngu áður en guðfræðingar kristna heimsins tóku þá trú upp á sína arma!

Er ástæða til að efast?

Ef rit Platons, Dialogos, lýsir hugmyndum hans sjálfs var hann sannfærður um að hann hefði ódauðlega sál. Og ekki leið á löngu áður en kenningar hans sannfærðu aðra sem dýrkuðu hann sem heimspeking. Af því leiddi að heimspeki Platons var jafnvel meðtekin af kristnum riturum á annarri öld. Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir um það: „Kristnir Platonistar lögðu mikið upp úr opinberun og skoðuðu heimspeki Platons sem bestu færu leiðina til að skilja og verja kenningar Ritningarinnar og kirkjulega hefð. . . . Frá miðri 2. öld e. Kr. fór kristnum mönnum, sem höfðu hlotið einhverja kennslu í grískri heimspeki, að finnast þörf á að tjá trú sína með orðfæri hennar, bæði sér sjálfum til vitsmunalegrar fullnægju og eins til að snúa menntuðum heiðingjum til trúar. Sú heimspeki, sem best hentaði þeim, var Platonisminn.“

Um allar aldir hafa þó verið til kunnir andófsmenn gegn hinni grísku hugmynd um ódauðlega sál. Biblíuþýðandinn William Tyndale (um 1492-1536) sagði í inngangsorðum þýðingar sinnar: „Með því að senda sálir látinna til himna, helvítis eða í hreinsunareldinn ónýtið þig rökin sem Kristur og Páll sanna upprisuna með . . . Ef sálin er á himnum, segið mér þá hvað tilefni er til upprisu?“ Þetta er skynsamlega spurt. Ef dauðinn er sigraður með ‚ódauðlegri og ótortímanlegri‘ sál, hvaða tilgangi þjónar þá upprisan sem Jesús kenndi og hinir fornu hebresku ættfeður trúðu á? — Hebreabréfið 11:17-19, 35; Jóhannes 5:28, 29.

Í bók sinni The Agony of Christianity (Kvöl kristninnar) tókst spænski rithöfundurinn Miguel de Unamuno á við þetta sama misræmi. Hann sagði um Krist: „Hann trúði á . . . upprisu holdsins samkvæmt gyðinglegum hugsunarhætti, ekki á ódauðleika sálarinnar samkvæmt Platonskum hugsunarhætti.“ Hann sagði meira að segja: „Ódauðleiki sálarinnar . . . er heiðin heimspekikredda. . . . Nægir að lesa Phaedo Platons til að sannfærast um það.“

„Sálin“ í Biblíunni

Ljóðskáldið Longfellow skrifaði: „Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa var ekki sagt um sálina.“ (Leturbreyting okkar.) Hafði hann rétt fyrir sér? Þegar Guð sagði: „Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa,“ við hvern var hann að tala? Við fyrsta manninn, Adam. Átti þessi dauðadómur aðeins við líkama Adams eða við Adam sem sál er dró andann?

1. Mósebók 2:7 segir greinilega: „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ Þessi ritningargrein gegnir lykilhlutverki í að skilja orðið „sál“ eins og það er notað í Biblíunni. Þarna er greinilega sagt að ‚maðurinn hafi orðið (ekki fengið) lifandi sál.‘ Guð sagði því þessari lifandi sál eð sköpunarveru sem dró andann, Adam, að ef hann yrði óhlýðinn myndi hann vissulega deyja og klofna aftur niður í frumefni jarðarinnar sem hann hafði verið myndaður af. — 1. Mósebók 2:17; 3.19.

Gefðu því gaum að ekki er minnst á nein önnur örlög einhverrar sálar sem maðurinn ætti að hafa. Hvers vegna? Vegna þess að Adam allur í heild sinni var sál. Ekki var nein sál búandi í honum. Ef til eru staðir eins og brennandi víti og hreinsunareldur hefði þeirra svo sannarlega átt að vera getið á þessum stað í Biblíunni. Ekki er einu sinni vísað til þeirra óbeint. Hvers vegna? Vegna þess að hinn einfaldi dómur fyrir óhlýðni var hrein andstæða lífsins sem Adam hafði notið í paradís — það er að segja dauði, ekki líf á öðrum stað. Páll segir þetta mjög einföldum orðum í Rómverjabréfinu 6:23: „Laun syndarinnar er dauði.“ (Samanber Esekíel 18:4, 20.) Ekki er minnst hér á neinn vítiseld eða hreinsunareld, bara dauða. Og er það ekki nægileg refsing?

Annað, sem ber að hafa í huga, er að sjálfsögð réttlætiskennd segir okkur að maðurinn hefði átt að vita fyrirfram hversu þunga refsinsu hann gæti hlotið áður en hann óhlýðnaðist. Samt sem áður er hreinlega alls ekki minnst einu orði á ódauðlega sál, helvíti eða hreinsunareld í frásögn 1. Mósebókar. Auk þess, hefði maðurinn raunverulega verið skapaður með ódauðlega sál hefði það kenningasafn, sem varðar ódauðlega sál og örlög hennar, átt að vera drjúgur hluti af kenningum Hebrea og Gyðinga allt frá öndverðu. Svo er ekki.

Önnur spurning vaknar. Ef það var í upphafi tilgangur Guðs að fullkomið, hlýðið mannkyn lifði að eilífu á jörð sem væri paradís, hvaða tilgangi hefði það þjónað að gefa manninum aðgreinda og ódauðlega sál? Hún hefði ekki bara verið ódauðleg; henni hefði verið ofaukið! — 1. Mósebók 1:28.

Auk þess sýna hebresku ritningarnar glöggt að trúfastir menn og konur til forna væntu upprisu, eins og Páll nefnir í Hebreabréfinu 11:35: „Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna [í fáeinum tilvikum, vegna kraftaverks]. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu [til eilífs lífs].“ Ljóst er að þeir treystu ekki á goðsögn mannlegrar heimpeki um ‚fiðrildið.‘

En þú spyrð kannski hvað eigi þá að segja um orð Páls þegar hann talar um ódauðleika. Rétt er að hann segir: „Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum. En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.“ (1. Korintubréf 15:53, 54) Engin leið er þó að lesa ódauðlega sál út úr þessum orðum. Páll talar um að „íklæðast óforgengileikanum.“ Hann er því ekki manninum meðskapaður heldur ný sköpun þeirra sem ríkja munu með Kristi í ríki hans á himnum. — 2. Korintubréf 5:17; Rómverjabréfið 6:5-11; Opinberunarbókin 14:1, 3. a

Núna, eftir að kristni heimurinn hefur kennt tilvist ódauðlegrar sálar um aldaraðir, eru guðfræðingar byrjaðir að viðurkenna þetta atriði. Til dæmis segir kaþólski guðfræðingurinn Hans Küng: „Þegar Páll talar um upprisu á hann ekki einfaldega við hina grísku hugmynd um ódauðleika sálarinnar sem frelsa þarf úr fanglesi dauðlegs líkama. . . . Þegar Nýjatestamentið talar um upprisu á það ekki við eðlilegt framhald anda-sálar sem sé óháð starfsemi líkamans.“

Hið þýska evangelíska-lútherska spurningakver fyrir fullorðna (Evangelischer Erwachsenenkatechismus) segir um skiptingu líkama og sálar samkvæmt kenningu Platons: „Evangelískir nútímaguðfræðingar véfengja þessa sameiningu grískra og biblíulegra hugtaka. . . . Þeir hafna tvískiptingu mannsins í líkama og sál. Með því að maðurinn allur er syndari deyr hann við dauðann algerlega með líkama og sál (fullum dauða). . . . milli dauðans og upprisunnar er tómarúm; einstaklingurinn heldur tilveru sinni áfram í mesta lagi í minni Guðs.“

Nútímavottar Jehóva hafa kennt þetta í meira en heila öld! Þeir létu aldrei ginnast af heiðinni heimspeki Platons því að þeir þekktu vel það sem Jesús hafði kennt: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum [á grísku mnemeíois, minningargröfum] eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ (Jóhannes 5:28, 29) Orðið ‚minningargrafir‘ gefur til kynna að þessir dánu menn séu geymdir í „minni“ Guðs. Hann mun vekja þá aftur til lífs. Það er hin sanna von þeirra sem dánir eru sem mun rætast þegar þessi jörð er undir fullri stjórn ríkisstjórnar Guðs í höndum Krists. — Matteus 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:1-4.

[Neðanmáls]

a Ítarlegri athugun á kenningunni um sálina er að finna í bókinni Is This Life All There Is? útgefin af Watch Tower Bible and Tract Society.