Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saklaus fórnarlömb kjarnorkualdarinnar

Saklaus fórnarlömb kjarnorkualdarinnar

Saklaus fórnarlömb kjarnorkualdarinnar

Eftir fréttaritara „Vaknið!“ á Guam

MÁNUDAGINN 1. júlí árið 1946 umturnaðist tært og lygnt lón lítt þekktrar eyjar í Marshall-eyjaklasanum á Suðvestur-Kyrrahafi, um 3200 kílómetra suðvestur af Hawaii, í blindandi sprengingu. Geislavirkt, svepplaga ský teygði sig 10 kílómetra upp í andrúmsloftið og Bikini öðlaðist á augabragði heimfrægð sem staður fyrstu tilraunarinnar með kjarnorkusprengju á friðartímum.

Bikini var klasi allmargra lítilla hitabeltiseyja og hólma umhverfis sporöskjulaga, 775 ferkílómetra lón. Fimm mánuðum eftir að borgirnar Híróshíma og Nagasaki voru lagðar í rúst með kjarnorkusprengjum valdi bandaríska stjórnin Bikini til að gera frekari kjarnorkutilraunir, og opinber tilkynning þess efnis var gerð í Bandaríkjunum. Það var þó ekki fyrr en nokkrum vikum síðar að Bikinibúum var sagt að þeir myndu verða að flytja.

Eyjabúarnir 167 voru tregir til að fara, en þeir féllust á það þegar þeim var sagt að tilraunirnar væru „gerðar í þágu mannkynsins og til að stuðla að endi allra heimsstyrjalda.“ Innan tíðar fóru starfsmenn hersins og vísindamenn að streyma í þúsundatali til hins pálmumklædda eyjahrings, svo og skip og flugvélar í hundraðatali. Bikinibúar undirbjuggu hryggir í bragði burtför sína, för sem fyrir marga þeirra stendur enn.

Bikinibúum hafði verið sagt að þeir myndu geta snúið aftur heim þegar tilraununum væri lokið, og því ákváðu þeir að setjast að á Rongerik-eynni, 200 kílómetrum austar. En Rongerik var ekki Bikini. Þessi áður óbyggði hringur 17 eyja var aðeins 1,3 ferkílómetrar af þurrlendi í samanburði við 6 ferkílómetra á Bikini. Lónið, sem var 142 ferkílómetrar, komst ekki í hálfkvisti við lónið á Bikini sem var 174 ferkílómetrar. Þar var einn brunnur og vatnið úr honum salt. Kókoshneturnar voru lélegar að gæðum. Og margar tegundir fiskjar, sem voru ætar á Bikini, voru eitraðar á Rongerik. Innan tveggja mánaða frá landnámi þar báðu Bikinibúar um að fá að snúa aftur heim. Það kom því miður ekki til greina.

Íbúar eyjarinnar Rongelap, þar skammt frá, fréttu af neyð Bikinimanna og reyndu að hjálpa þeim með því að færa þeim fisk og önnur matvæli á eintrjáningum. En ástandið á Rongerik fór síversnandi. Eldsvoði þar eyddi þriðjungi kókoshnetutrjánna sem olli enn frekari matarskorti. Nokkrar læknaskýrslur næstu tvö árin staðfestu að Bikinibúar væru „sveltandi fólk“ og að „frestað hefði verið allt of lengi“ að flytja þá burt frá Rongerik.

Að lokum voru þeir fluttir öðru sinni, nú í bráðbirgðabúðir við herstöðina á Kwajalein, einnig Marshall-eyjaklasanum. Nokkrum mánuðum síðar greiddu þeir atkvæði um að flytja til eynnar Kili. Kili var stök eyja innan við 1 ferkílómetra að flatarmáli (8,6 hektarar) en hún hafði eitt til síns ágætis — hún var óbyggð. Hvers vegna skipti það máli?

Íbúar Marshall-eyja eiga ekki landréttindi á öðrum eyjum en þeim sem þeirra eigin þjóðfélagshópur byggir. Land gengur ekki kaupum og sölu hjá þeim eins og hjá öðrum þjóðum. Vegna þess að landið og sjórinn sjá íbúum Marshall-eyja fyrir lífsviðurværi setjast þeir ógjarnan að á eyjum sem byggðar eru öðrum. Á öðrum en óbyggðum eyjum væru þeir eins og fátækir ættingjar, ættu allt sitt undir miskunn innfæddra. Bikinibúar vildu ekki komast í þá aðstöðu; þess vegna fóru þeir til Kili.

En lífsskilyrðin voru slæm þar. Kili er umkringd mjórri klettasyllu og þar fyrir utan dýpkar ört. Þótt kókoshnetur vaxi þar vel og regn sé nægilegt er þar enginn fiskur, eins og á kóralrifjunum, og enginn skelfiskur, því að brimaldan brotnar á klettasyllunni. Eintrjáningar eða bátar nýtast ekki þar því nær ógerlegt er að sjósetja eða taka land. Meðan staðvindar blása er sjór svo úfinn að ekki er hægt að koma varningi þar á land. Bikinimaður, sem nú býr á Majuro, sagði: „Lífsbaráttan var erfið á Rongerik og Kili. Það var verra að vera þar en í fangelsi, því að eyjarnar voru svo litlar og matur ekki nægur.“

„Á meðan . . .

Á meðan fékk Bandaríkjastjórn augastað á eyjahring að nafni Eniwetok, sem í voru 40 eyjar, einnig í Marshall-eyjaklasanum. Þar skyldi gera frekari tilraunir með kjarnorkuvopn. Eyjabúar voru því fluttir burt til Ujelang, 200 kílómetrum vestar. Svo vildi reyndar til að Bikinimenn höfðu einnig valið sér þessa eyju til búsetu, og voru þegar að byggja sér þar hús þegar yfirvöld fluttu Eniwetok-búa þangað án þess að gera viðvart um það nema með stuttum fyrirvara. Mikillar beiskju gætti hjá Bikinibúum vegna þessa.

Síðan kom vetnissprengjan, en sú fyrsta var prófuð á Eniwetok árið 1952. Ein eyja og hluti tveggja annarra hurfu í loft upp. Tilraun, sem olli skelfilegu tjóni (nefnd Bravo svo kaldhæðnislegt sem það var), var gerð þann 1. mars árið 1954 á Bikini. Þetta var stærsta kjarnorkusprengja, sem tilkynnt hefur verið um, ef til vill 700 sinnum öflugri en fyrsta kjarnorkusprengjan sem sprengd var á Bikini. Blindandi blossi sást og tugmilljóna gráðu heit eldsúla gaus upp í loftið með um 480 kílómetra hraða miðað við klukkustund. Á fáeinum mínútum steig hið stóra, svepplaga ský upp í liðlega 30 kílómetra hæð.

Við sprenginguna geystist vindur með nokkur hundruð kílómetra hraða miðað við klukkustund yfir lónið og eyjarnar. Hundruð milljónir tonna af kóralrifum, jarðvegi og sjó soguðust upp í loftið. Háloftavindar báru banvænt, geislavirkt ryk 130 kílómetra leið þar sem því rigndi eins og skæðadrífu yfir 23 japanska sjómenn á báti sem kallaður var Drekinn heppni. Í meira en 160 kílómetra fjarlægð, á hinum byggðu eyjum Rongerik og Rongelap þar sem hinir útlægu Bikinibúar höfðu notið gestrisni og góðvildar eyjaskeggja, myndaði geislavirk, sendin askan 5 sentimetra þykkt lag. Í nærri 440 kílómetra fjarlægð, á eynni Utirik, féll askan til jarðar sem rykmistur. Alls urðu 11 eyjar og 3 kóraleyjaklasar fyrir beinum áhrifum.

Fljótlega á eftir fóru japönsku fiskimennirnir og íbúar Utirik og Rongelap að sýna merki mikillar geislunar: Kláða, sviða á hörundi, ógleði og uppköst. Einn japönsku fiskimannanna dó nokkru síðar, og innan tveggja ára höfðu japönsk yfirvöld fengið 2 milljónir dollara í bætur vegna hinna úr áhöfn bátsins og þess tjóns sem túnfiskiðnaðurinn hafði orðið fyrir.

Þegar tilraununum lauk höfðu verið sprengdar 23 kjarnorkusprengjur á Bikini og 43 á Eniwetok, allt frá 18 kílótonna upp í 15 megatonna sprengjur! Þótt nokkurt hlé væri á milli tilrauna var að meðaltali sprengd ein kjarnorkusprengja annan hvern dag í hverri sprengjuhrinu.

Hvað svo?

Nokkru eftir að tilraununum lauk bjuggust allir við að Bikinibúar gætu farið heim. Eftir frumkönnun á vegum kjarnorkunefndarinnar árið 1969 var Bikini lýst örugg til búsetu. Öllu rusli tengdu tilraununum átti að henda á þrjá staði um einn og hálfan kílómetra úti í lóninu. Bikinimönnum var sagt: „Svo til enginn geislavirkni er eftir, og við getum engin merkjanleg áhrif fundið hvorki á jurta- né dýralíf.“ Áformað var að hreinsun og endurnám lands skyldi fara fram á átta ára tímabili.

En hinn langþráði draumur varð að martröð. Þeir sem aftur sneru fundu, í stað gróðursælla eyja sem þeir höfðu yfirgefið, stórskemmdar eyjar þaktar þéttum, einskisnýtum runnagróðri. Tré voru fá en rusl og úrgangur í tonnatali. Sumir grétu sárlega. Engu að síður tóku þeir með fjárhagsaðstoð til við að gróðursetja kókoshnetupálma og aðrar nytjajurtir og reisa sér hús.

En vandamál þeirra voru ekki úr sögunni. Geislavirknimælingar á árunum 1972 og 1975 leiddu í ljós meiri geislavirkni en talin var í fyrstu. Vatnsbrunnar voru sumir of geislavirkir til að neyta mætti vatns úr þeim. Ýmis matvæli voru of geislavirk til neyslu. Verulegt magn geislavirkra efna fannst í líkömum manna. Enn á ný urðu því Bikinibúar að flytja — aftur til Kili. Hinir 50.000 kókoshnetupálmar og 40 ný hús, sem voru hluti af þriggja milljona dollara endurbygginaráætlun, voru skilin eftir. Vísindarannsóknir á Bikini í apríl 1983 sýndu að án gifurlegra hreinsunarframkvæmda munu líða að minnsta kosti 110 ár áður en nokkur maður mun geta búið þar.

Hvað um hin fórnarlömbin?

Árið 1958 mistókst að koma af stað keðjuverkun í 18 kílótonna sprengju, sem varð til þess að banvænt plútonium 237 dreifðist yfir eyna Runit, eina af hinum 40 eyjum í Eniwetok-eyjahringnum. Efninu var síðar safnað saman og það grafið í sprengjugíg og ofan á sett 113 metra og 48 sentimetra þykkt steinsteypulok. Undir því eru 84.000 rúmmetrar af einhverjum hættulegasta úrgangi í heiminum. Að því er segir í einni skýrlsu verður eyjan algerlega óbyggileg „að eilífu.“ Aðeins 3 eyjar á rifinu eru hæfar til búsetu, og nota verður innflutt matvæli þar til nýgróðursettir kókospálmar, brauðaldinjurtir og örvarrót ná þroska. Árið 1980 sneru 500 Eniwetokbúar heim, en innan tveggja ára fluttust 100 þeirra aftur burt vegna hinna erfiðu skilyrða þar. Hreinsun og endurbygging kostar 218 milljónir bandaríkjadollar.

Á þeim eyjum, þar sem geislavirkt ryk féll, eru sjúkdómar í skjaldkirtli, starblinda, seinvöxtur, andvanafæðingar og fósturlát mun tíðari en meðal annarra Marshalleyjabúa. Margir hinna 250 Marshalleyjabúa, sem fengu yfir sig ryk frá „Bravo“ sprengingunni árið 1954, eru með æxli í skjaldkirtli. Allir eru með einhverja kvilla í skjaldkirtli. Þeir virðast óvenjulega næmir fyrir kvefi, inflúensu og kvillum í hálsi. Vinnuþrek flestra er lítið og nær allir hafa áhyggjur af heilsunni.

Stjórnarleiðtogi þar segir: „Hver einasti maður, sem varð fyrir geislavirkni, spyr sjálfan sig: ‚Verð ég hress á morgun? Verða börnin mín heil og eðlileg?‘ Og þegar hann veikist spyr hann sjálfan sig: ‚Eru þetta venjuleg veikindi eða er afturganga sprengingarinnar komin til að sækja mig núna — mörgum árum síðar?‘“ Maður á Utirik sagði harmþrunginn: „Nokkur barnanna minna, sem voru heilsuhraust þegar þau fæddust, dóu áður en þau urðu ársgömul . . . ég hef misst alls fjögur börn. Winton sonur minn fæddist aðeins einu ári efir sprenginguna og hann hefur gengist undir tvær skurðaðgerðir á hálsi vegna krabbameins í skjaldkirtli.“

„Langdregin eftirvænting . . .“

Framtíð útlaganna frá Bikini er enn óviss. Hawaii, nýjasti staðurinn sem þeir hafa valið sér til flutnings, er til athugunar hjá bandarískum stjórnvöldum. Flestir þeirra búa enn á Kili-eyju. Hrakningar þeirra eru glöggt dæmi um hversu sorglegar afleiðingar kjarnorkuvopnakapphlaupið hefur. Það kostar langtum meira í fjármunum og erfiði en mannkynið hefur efni á, og jafnvel á friðartímum hrífur það til sín mörg fórnarlömb, þar á meðal saklaust fólk sem býr víðs fjarri þeim voldugu ríkjum sem keppa hvert við annað um yfirburði á sviði kjarnorkuvopna.

Biblían segir: „Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt.“ (Orðskviðirnir 13:12) Sú hefur orðið reynsla Bikinibúa þegar þeir hafa treyst á menn. Nú um margra ára skeið hefur hins vegar verið útvarpað frá Majuro út um allar Marshalleyjar boðskap sem beinir athygli manna, ekki að vígbunaðarkapphlaupi heldur ríki Guðs sem einu leiðinni til að tryggja ósvikið öryggi. Það er sannarlega „í þágu mannkynsins og til að stöðva allar heimsstyrjaldir.“ Brátt mun þetta ríki ‚stöðva styrjaldir til endimarka jarðar‘ og „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ — Sálmur 46:10; Opinberunarbókin 11:18.

Þegar þeir Bikinimenn, sem búa á Kili, koma til Majuro til að afla sér vista eða í viðskiptaerindum heyra þeir þennan boðskap persónulega frá hinum mörgu vottum Jehóva sem þar eru starfandi. Vitneskjan um að sá tími sé nú mjög nærri að ríki Guðs muni koma aftur á paradís á jörðinni mun hjálpa þeim að kynnast af eigin raun því sem segir í síðari hluta versins sem getið er að ofan: „Uppfyllt ósk er lífstré.“ Undir stjórn þess ríkis mun engum framar standa ógn af kjarnorkuvopnum — og enginn verða fórnarlamb þeirra.