Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Árásir nasista og fasista á votta Jehóva

Árásir nasista og fasista á votta Jehóva

Árásir nasista og fasista á votta Jehóva

100 ár

OFBELDI gegn vottum Jehóva í Bandaríkjunum var reyndar mildilegt í samanburði við það sem hófst fáeinum árum síðar í Þýskalandi á valdatímum nasista og á Spáni og Ítalíu á valdatímum fasista. Árið 1933 hóf Adolf Hitler 12 ára einræðisstjórn sína í Þýskalandi. Nálega tafarlaust var byrjað að kúga hópa sem ekki lutu nasismanum í einu og öllu.

Í apríl 1933 lagði nasistalögreglan undir sig prentsmiðju Varðturnsfélagsins í Magdeburg í þeim tilgangi að finna eitthvað sem sannað gæti tengsl félagsins vi kommúnisma. Sú tilraun mistókst. En stormsveitirnar komu aftur í júní, lokuðu verksmiðjunni og drógu hakakrossfánann að hún yfir byggingunni. Þann 29. júní var þýsku þjóðinni tilkynnt um þessa aðgerð í útvarpi. Lútherska kirkjan í Þyskalandi studdi nasista og fagnaði banninu gegn einlægum biblíunemendum eins og vottarnir voru líka kallaðir í Þýskalandi. a Lútherskur prestur að nafni Otto sagði: „Fyrsti árangur þessa samstarfs sést nú þegar á því banni sem lagt var í dag við starfsemi Alþjóðasamtaka einlægra biblíunemenda og deilda þeirra í Saxlandi.“ Stríðið gegn vottum Jehóva var hafið!

Í fangabúðir!

Vottar Jehóva í Þýskalandi á tímum nasista hvikuðu ekki frá þeirri reglu Jesú að halda sér aðgreindum frá heiminum, og neituðu því að greiða atkvæði í kosningum. Nasistar svívirtu þá opinberlega. Max Schubert frá Oschatz í Saxlandi var stillt upp á hestvagn og farið í hópgöngu með hann. Stormsveitarmenn héldu á skilti með áletruninni: „Ég er óþokki og svikari við föðurlandið því ég kaus ekki.“ Fylkingin fór um göturnar og bæjarbúar söngluðu: „Hvar er hann best geymdur?“ Lýðurinn svaraði: „Í fangabúðum!“ Innan tíðar voru þúsundir votta innilokaðir í þessum illræmdu fangabúðum. Hvernig var vistin þar?

Rit gefið út af breskum stjórnvöldum um ástand mála í Þýskalandi sýnir að þegar árið 1933 voru „hýðingar og pyndingar daglegt brauð, og alkunnugt var í Þýskalandi að nasistahreyfingin hefndi sín grimmilega á þeim sem voguðu sér að vera andsnúnir henni.“ Einn sem þjáðist í fangabúðnum í Buchenwald sagði: „Vinnustundirnar voru 16 á dag, jafnt sunnudaga sem virka daga. Allan vinnutímann var bannað að drekka, jafnvel í heitasta veðri. . . . Vinnan var auðvitað að flytja stórgrýti, oft langt umfram það sem jafnvel eðlilega nærður maður gat ráðið við.“

Á þeim tíma voru, samkvæmt bresku skýrslunni, um 8000 karlmenn í búðunum, þar á meðal „1500 Gyðingar og 800 Ernste Bibelforscher (alþjóðlegir biblíunemendur). . . . Gyðingarnir máttu skrifa og fá sendibréf tvísvar í mánuði. Biblíunemendurnir máttu engin tengsl hafa við heiminn fyrir utan . . . Herr X talaði með djúpri virðingu um þessa menn. Hugrekki þeirra og trú var undraverð, og þeir lýstu sig reiðubúna að þjást til hins ýtrasta. . . . Mannslát áttu sér stað daglega í búðunum.“

Annar, sem var fangi í Buchenwald, greindi frá móttökunum sem fangarnir fengu í hinni „nýju sorgarborg“. Þeim var heilsað fyrir utan búðirnar af forstöðumanninum Rödl með orðunum: „Meðal ykkar eru sumir sem hafa þegar verið í fangelsi. Það sem þið smökkuðuð þar er ekkert í samanburði við það sem þið munuð fá hérna. Þið eruð að ganga ínn í fangabúðir og það þýðir að þið eruð að ganga inn í helvíti. . . . Við höfum aðeins tvenns konar refsingu í þessum fangabúðum, hýðingu og dauðarefsingu.“

Fangabúðirnar kostuðu milljónir manna lífið — skelfileg uppskera hættulegrar stjórnmálaheimspeki. Þetta fólk var á kerfisbundinn hátt niðurlægt, svipt reisn sinni og síðan myrt. Er hægt að gera sér í hugarlund sálarangist og þjáningar þessara milljóna?

„Þessu kyni verður útrýmt!“

Sumir voru ekki bara fórnarlömb heldur líka píslavottar, því að þeir hefðu getað fengið sig lausa. Samkvæmt einum heimildum var svo um þá 10.000 votta, bæði karlmenn og konur, sem voru fórnarlömb kvalafýsnar og grimmdaræðis Hitlers og S.S.-sveita hans. Þessum vottum var gefið tækifæri til að skrifa undir skjal þess efnis að þeir afneituðu trú sinni; þá voru þeir frjálsir ferða sinna. Mjög fáir þáðu boðið. — Sjá The Nasi State and the New Religions: Five Case Studies in Non-Conformity, eftir dr. Christin E. King.

Af þessum 10.000 fengu um 2500 aldrei frelsi samkvæmt áðurnefndri heimild — þeir dóu í Dachau, Belsen, Buchenwald, Sachsenhausen, Ravensbrück, Auschwitz, Mathausen og öðrum fangabúðum — trúir Guði sínum, Jehóva, og fyrirmynd sinni Kristi. Auk þeirra sem dóu í gasklefunum dóu margir af völdum barsmíðar, hungurs og tilrauna í þágu læknavísinda. Aðrir, þar á meðal konur, voru hengdir, hálshöggnir eða skotnir. Hvers vegna? Vegna þess að þeir vildu ekki láta af kristnu hlutleysi sínu með því að þjóna í herjum Hitlers eða eigna Hitler hjálpræði. Þeir héldu sér aðgreindum frá heiminum og voru trúfastir allt til enda. — Matteus 24:13.

Árið 1934 sendu vottar Jehóva í Þýskalandi og öðrum löndum Hitler símskeyti og mótmæltu grimmilegri meðferð hans á vottunum. Sjónarvottur skýrir frá því að þegar Hitler hafi frétt það hafi hann „stokkið á fætur og hrópað móðursýkislega með kreppta hnefana: ‚Þessu kyni verður útrýmt úr Þýskalandi!‘“ Hefur þessu „kyni“ verið útrýmt núna, hálfri öld síðar?

Þvert á móti eru þeir öflugri nú en nokkru sinni fyrr. Hitler og nasismi hans hefur hins vegar verið dauður í hér um bil 39 ár. Núna eru yfir 109.000 starfandi vottar í Sambandslýðveldinu Þýskalandi, auk margra þúsunda í vitbót sem starfa í Alþýðuveldinu Þýskalandi þótt starfsemi þeirra sé þar bönnuð. Þessu „kyni“ hefur ekki verið útrýmt. Það hefur margfaldast! Það hefur aldrei verið sterkara!

Fasistar reyna að stöðva vottana

Munum að Jesús sagði: „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum.“ Sú hefur verið reynsla votta Jehóva, ekki bara í Þýskalandi á tímum nasista heldur um allan heim — vegna þess að þeir hafa haldið fast við meginreglur Krists og fordæmi.

Fyrir síðari heimsstyrjöldina voru þeir líka bannaðir á Ítalíu. Þegar kaþólska kirkjan undirritaði sáttmála við fasistastjórn Mussolinis árið 1929 hóf hún trúarlega kúgun sem kom í veg fyrir samband vottana á Ítalíu við Varðturnsfélagið í Brooklyn. Einn hópur 25 trúfastra ítalskra votta var dæmdur í allt frá tveggja upp í 11 ára fangelsi. Sumir afplánuðu aldrei dóma sína að fullu. Hvers vegna? Vegna þess að fasisminn féll fyrr og vottunum var sleppt. b

Eftir stríðið árið 1946 voru 120 vottar á Ítalíu sem tilheyrðu 35 smáum söfnuðum. Hver er staða þeirra núna? Vottar Jehóva eru nú annað stærsta trúfélagið á Ítalíu með yfir 116.000 starfandi kristna menn sem skiptast niður í um það bil 1600 söfnuði — já, þeir eru sterkari en nokkru sinni fyrr!

Svipaða sögu mætti segja um fjölmörg önnur lönd. Til dæmis gaf innanríkisráðuneytið á Spáni yfirmanni öryggismála þar í landi eftirfarandi fyrirmæli viðvíkjandi vottum Jehóva árið 1959: „Þar af leiðandi og í þeim tilgangi að stöðva með róttækum aðgerðum frekari vöxt þess meins, sem lýst hefur verið, ætti yðar ágæti að senda dreifibréf [til allra lögreglustöðva] . . . með fyrirskipun um að ekki aðeins fylgjast með þessari starfsemi, heldur að grípa til aðgerða sem verða til þess að hún verði bæld niður.“ — Leturbreyting okkar.

Ofsóknaralda reið yfir Spán af endurnýjuðum krafti og linnti ekki fyrr en 1970. Hundruð votta voru sektaðir eða fangelsaðir fyrir það eitt að nema Biblíuna, prédika fyrir öðrum eða vera hlutlausir gagnvart stjórnmálum. Voru vottarnir og starfsemi þeirra bæld niður? Þvert á móti — árið 1970 var þeim með tregðu veitt lagaleg viðurkenning. Árið 1959 höfðu aðeins verið um 1400 vottar þar en árið 1970 voru þeir orðnir 11.000! Núna, aðeins 15 árum síðar, eru yfir 56.000 vottar sem mynda yfir 850 söfnuði á Spáni! Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn starfrækir nú nýja deildarskrifstofu í grennd við Maðrid þar sem tímaritin Varðturninn og Vaknið! eru prentuð fyrir íberíuskaga. Lutu vottar Jehóva í lægra haldi fyrir árásaröldum nasista og fasista fram að síðari heimsstyrjöldinni og meðan hún stóð yfir? Nei, þeir hafa aldrei verið öflugri en nú!

[Neðanmáls]

a Ýtarlega frásögu af ódæðisverkum nasista er að finna í Árbók votta Jehóva 1974, — bls. 100-212 í enskri útgáfu bókarinnar.

b Sögu votta Jehóva í heild á Ítalíu á tímum fasista er að finna í Árbók votta Jehóva 1982, bls. 134-79 í enskri útgáfu hennar.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Margir vottar létust í hinum illræmdu fangabúðum.