Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er krossinn raunverulega kristinn?

Er krossinn raunverulega kristinn?

Er krossinn raunverulega kristinn?

RÓMVERSKUR keisari var að búa sig undir bardaga og fannst hann þurfa að fá hjálp guðanna. Sagan segir að hann hafi séð skínandi krossmark á himni ásamt orðunum: „Sigra undir þessu merki.“ Hann tók sér táknið sem gunnfánamerki fyrir herinn og vann síðan allmarga þýðingarmikla sigra sem leiddu til þess að hann stjórnaði einn Rómaveldi árið 324 e.o.t.

Söguhetjan í þessari frægu sögu var Konstantínus mikli. Þaðan í frá var rómverska kirkjan hið opinbera trúfélag heimsveldisins og óx hratt að virðingu, vinsæld og valdi. Um sama leyti varð krossinn hið opinbera tákn kirkjunnar — smátt og smátt fór hann að skreyta trúarlegar byggingar, var reistur uppi á hæðum og fjallstindum, við krossgötur og á torgum. Hann var hengdur á veggi á heimilunum og milljónir manna tóku að bera hann um hálsinn.

Afbrigði og uppruni

Í reyndinni eru til margar ólíkar tegundir krossa, fáeinar sýndar hér. Sá kross, sem flestar kirkjur nota nú á tímum, er latneski krossinn, því að hann er álitinn vera sömu lögunar og aftökutækið sem Jesús Kristur dó á kvalafullum dauða. Þótt bókstaflegur kross sé títt notaður við trútarathafnir og helgisiði er einnig algengt að gera krossmark með fingri eða hönd.

En notkun krossins sem trúartákns teygir sig miklu lengra aftur í tímann en til daga Krists og er því ekki af kristnum uppruna. Sem dæmi má nefna notkun hans á Indlandi til forna. Þar, í Elefantahelli, má sjá kross yfir höfðu veru sem er að brytja niður ungbörn. Á öðru fornu, indversku málverki er guðinn Krishna sýndur með sex handleggi og þar af halda þrjár hendur á krossum.

Þegar spænsku landvinningamennirnir lögðu undir sig hluta Ameríku furðuðu þeir sig á því að þeir skyldu finna trúarlega krossa víða. Rithöfundurinn Baring-Gould segir í bók sinni Curious Myths of the Middle Ages: „Í ríkinu Oaxaca [Mexico] uppgötvuðu Spánverjar að trékrossar voru reistir sem helgitákn. . . . Í Suður-Ameríku var sama merki álitið táknrænt og heilagt. Það var dýrkað í Paraguay. Í Perú heiðruðu Inkar kross sem gerður var úr heilum jaspissteini . . . Hjá Muyskunum í Cumana var krossinn . . . talinn gæddur krafti til að reka burt illa anda; þar af leiðandi voru nýfædd börn lögð undir merkið.“

Krossinn hefur einnig í öðrum heimshlutum verið frá fornu fari tignaður og eignaðir dulrænir kraftar. Sagt er í Cyclopædia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature: „Krossmerkið er að finna sem heilagt tákn meðal allmargra fornaldarþjóða sem má því nefna . . . krossdýrkendur. . . . Merking krosstáknsins virðist hafa verið mjög breytileg. Stundum var það völsi [notað í frjósemisdýrkun], stundum reikistjarnan Venus.“

En hvað um frumkristna söfnuðinn? Notaði hann líka krossinn?

Notuðu kristnir menn á fyrstu öld krossinn?

Bókin Records of Christianity sýnir fram á að krossinn var ekki notaður sem tákn í frumkristninni og segir: „Jafnvel krossinn var ekki notaður beint í kirkjuskreytingum . . . fyrsta tákn Krists var fiskur (á annarri öld); á fyrstu úthöggnu gröfunum er hann sýndur sem góði hirðirinn (á þriðju öld).“ Einnig segir J. Hall í bók sinni Dictionary of Subjects & symbols in Art: Eftir að kristnin hlaut viðurkenningu Konstantínusar mikla, og sér í lagi frá 5. öld, var byrjað að sýna krossinn á steinkistum, lömpum, skrínum og öðrum munum.“ (Leturbreyting okkar.) Sir E. A. Wallis Budge bætir við í bók sinni Amulets and Talismans: „Krossinn varð ekki æðsta tákn og merki kristninnar fyrr en á 4. öld.“ Engar heimildir eru fyrir því að kristnir menn á fyrstu öld hafi notað krossinn.

Athyglisvert er að krossinn, sem Konstantínus á að hafa séð á himni og síðan notað sem hermerki sitt, var ekki latneski krossinn heldur táknið X sem sumir setja í samband við sóldýrkun (Konstantínus var sjálfur sóldýrkandi) og aðrir við samfléttu stafana khí og hró — en það eru fyrstu tveir stafir nafnsins „Kristur“ á grísku. Síðan hefur krossinn oft verið notaður til að hjúpa ókristilegar herferðir réttlætisljóma svo sem krossferðirnar, en í þeim frömdu „hermenn krossins“ mörg óhugnanleg hryðjuverk.

Hvað sýnir Biblían?

‚En,‘ segir þú kannski, ‚Biblían mín segir raunverulega að Jesús hafi dáið á krossi.‘ Og í reyndinni er orðið „kross“ notað í mörgum þýðingum Biblíunnar. En hvaða orð notuðu biblíuritararnir upphaflega? Notuð eru tvö grísk orð um aftökutækið sem Kristur dó á — stauros og xýlon. Hið trausta heimildarrit Strong’s Exhaustive Concordance of the Bible gefur sem aðalmerkingu orðsins stauros „staur eða stólpi,“ og orðsins xýlon „timbur,“ „tré“ eða „viður.“ Orðabókin The New Bible Dictionary segir: „Gk. orðið fyrir ‚kross‘ (stauros, sagnorð stauroo) merkir í fyrsta lagi uppréttur staur eða bjálki og í öðru lagi staur notaður sem refsi- og aftökutæki.“

Latneska orðið um aftökutækið, sem Kristur dó á, var crux sem merkir, samkvæmt Lívíusi, kunnum rómverskum sagnfræðingi frá annarri öld okkar tímatals, einfaldlega staur. Fræðibókin Cyclopædia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature segir að crux simplex hafi verið „einfaldur staur ‚úr einu tré án þvertrés.‘“ (Sjá mynd.)

Sem staðfesting á þessu segir í viðauka nr. 162 í The Companion Bible um stauros að það „merki uppréttan staur eða bjálka sem glæpamenn voru negldir á til aftöku. . . . Það merkir aldrei tvö tré í kross sem mynda eitthvert horn hvert við annað, heldur alltaf eitt einstakt tré.“ (Leturbreyting höfundar.) Viðaukanum lýkur svo: „Það er því fullsannað að Drottinn var líflátinn á lóðréttum staur, ekki á tveim trjám sem mynduðu eitthvert horn hvort við annað.“

Þar eð rætur krossins liggja í heiðindómi fornaldar, ljóst er að Kristur var ekki líflátinn á hinum hefðbundna krossi og frumkristnir menn notuðu ekki heldur slíkt tákn hljótum við að komast að þessari niðurstöðu: Krossinn er ekki kristinn.

Hvað munt þú gera?

Það krefst hugrekkis að slíta sig frá rótgróinni trúarhefð sem runnin er aftan úr ævafornum heiðindómi. Gott dæmi um slíkt fráhvarf er að finna í biblíuþýðingunni New World Translation of the Holy Scriptures sem þýðir stauros sem „kvalastaur“ og sögnina „stauroo“ sem „staurfesta,“ ekki „krossfesta.“ Það losar þá dýrmætu forn, sem Drottinn okkar og frelsari færði, við sérhvern vott um heiðindóm.

Hvaða áhrif mun þessi vitneskja hafa á þig að því er varðar að dýrka, hafa til sýnis eða bera á þér kross, eða þá að gera krossmark? Páll postuli hvatti kristna menn til að ‚flýja skurðgoðadýrkunina.‘ (1. Korintubréf 10:14) Jóhannes postuli bætti við: „Gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ (1. Jóhannesarbréf 5:21) Sá sem leitast við að dýrka Guð mun því varast vendilega að leggja lotningarfullt eða hjátrúarlegt traust á skurðgoð úr ‚silfri og gulli, handaverk manna.‘ — Sálmur 115:4, 8, 11.

Þeir íbúar Efesusborgar til forna, sem tóku til sín prédikun Páls postula og komust að raun um að hlutir, sem þeir notuðu, voru ekki í samræmi við sanna kristni, gáfu okkur gott fordæmi, því að þeir söfnuðu þeim saman og ‚brenndu þá að öllum ásjáandi.‘ (Postulasagan 19:18, 19) Þegar öllu er á botninn hvolft, hvers vegna ætti okkur að þykja vænt um og dýrka verkfærið sem á að hafa verið notað til að myrða Drottin Jesú Krist?

[Myndir á blaðsíðu 23]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Páfakross

Latneskur kross

Crux simplex eða staur

Grískur kross

Andrésarkross

Keltneskur kross

Ankh Egypskur kross

Möltukross

[Mynd á blaðsíðu 24]

Crux simplex eins og hann er sýndur af rómversk-kaþólska fræðimanninum Jústusi Lipsíusi í bók sinni De Cruce Libri Tres