Heiftarleg andstaða í Norður-Ameríku
Heiftarleg andstaða í Norður-Ameríku
100 ár
„HAFI ÞEIR ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ „Munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, . . . og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns. . . . Sumir yðar munu líflátnir. Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns.“ — Jóhannes 15:20; Lúkas 21:12-17.
Orð Jesú, sem hér er vitnað í, gefa greinilega til kynna að sannir fylgjendur hans yrðu ofsóttir. En hvers vegna? Hann svarar: „Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ — Jóhannes 15:19.
Hefur þetta verið reynsla þeirra þjóna orðsins sem verið hafa fulltrúar Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, votta Jehóva? Ef svo er, af hvaða orsökum hafa þeir verið ofsóttir? Hefur það verið fyrir íhlutun í stjórnmál eða fyrir að taka afstöðu í trúarstyrjöldum og byltingum? Hvað sýnir saga síðastliðinna 100 ára?
Andstaða í Bandaríkjunum
Í 32 ár (1884-1916) var Charles Taze Russell forseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn. Hann var hugrakkur prédikari og afkastamikill rithöfundur. Af dirfsku fordæmdi hann og hrakti kenningarnar um þrenningu, ódauðlega sál og eilífan helvítiseld. Um skeið birtust prédikanir Russells vikulega í um það bil 3000 dagblöðum í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu. Þar af leiðandi sætti hann stöðugum árásum, einkanlega frá klerkastéttinni. Margir óvina hans lögðust svo lágt að veitast að honum persónulega í því skyni að gera hann tortryggilegan. Hvernig leit hann á þessar ærumeiðingar? Hann sagði einu sinni: „Ef þú stoppar til að sparka til hvers einasta hunds sem geltir að þér kemst þú lítið áleiðis.“
Hann afréð að sóa ekki miklum tíma né fé í málaferli sem hefðu einungis vakið meiri athygli á andstæðingum hans, klerkunum. Hann trúði þeirri reglu sem Jesús gaf: „Ekki er til gott tré, er beri slæman ávöxt, né heldur slæmt tré, er beri góðan ávöxt. En hvert tré þekkist af ávexti sínum, . . . góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns.“ Russell kaus að láta góðan ávöxt þjónustu sinnar vera vörn sína. — Lúkas 6:43-45.
„Sumir munu reiðast“
Hörðust var þó andstaðan skömmu eftir að Russell dó. Meðan hann lifði hafði hann gefið út 6 bindi í bókaflokki sem nefndist Studies in the Scriptures (Rannsóknir á Ritningunni) sem voru ætluð til biblíunáms. Ætlun hans hafði verið að skrifa sjöunda bindið, sem átti að vera það síðasta, eða eins og hann sagði: „Ef Drottinn gefur einhverjum öðrum lykilinn getur hann skrifað það.“ Russell lést
árið 1916 og sjöunda bindinu, sem nefnt var The Finished Mystery (Hinn fullnaði leyndardómur), var þá lokið af starfsliði aðalstöðvanna í Brooklyn og sett á markað í júlí 1917. Á fáeinum mánuðum var dreift 850.000 eintökum.Þessi bók var hvöss afhjúpun á klerkastétt kristna heimsins og pólitískri misbeitingu föðurlandsástar til að réttlæta fjöldamorð beggja vegna víglínunnar í heimsstyrjöldinni. Í formála bókarinnar sagði: „Sumir munu mögla og finna að þessari bók; sumir munu reiðast, og sumir munu slást í lið með ofsækjendunum.“ Höggið, sem reið yfir Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn, var þungt. Hvernig kom það til?
Í apríl 1917 lýstu Bandaríkin Þýskalandi stríð á hendur og með því urðu þau virkur þátttakandi í fyrri heimsstyrjöldinni. Breska heimsveldið, að Kanada meðtöldu, var þegar flækt í þá styrjöld. Þessar kringumstæður, ásamt fáeinum efnisgreinum í bókinni Hinn fullnaði leyndardómur, gaf klerkunum tækifæri til að reyna að knésetja þetta biblíufélag.
Þann 12. febrúar 1918 bannaði kanadíska stjórnin starfsemi Varðturnsfélagsins! Hver gat verið ástæðan? Fréttaskeyti greindi svo frá: „Utanríkisráðherrann hefur samkvæmt reglugerð um ritskoðun bannað eignarhald á fjölda rita, þar á meðal bók sem út er gefin af Alþjóðasamtökum biblíunemenda [sem var nafnið á deild Varðturnsfélagsins í Kanada], en hun nefnist ‚RANNSÓKNIR Á RITNINGUNNI — hinn fullnaði leyndardómur.‘ . . . Eignarhald á nokkurri bannaðri bók varðar sektun allt að 5000 dollurum og 5 ára fangelsi.“ — Leturbreyting okkar.
Hver var að baki árásinni?
Síðar sagði dagblaðið Tribune í Winnipeg í Kanada: „Glefsur úr nýlegu tölublaði, ‚Mánaðarrits biblíunemenda‘ voru fordæmdar úr prédikunarstólnum fyrir fáeinum vikum af séra Charles G. Paterson, sóknarpresti við kirkju heilags Stefáns. Eftir það sendi Johnson ríkissaksóknari til séra Patersons til að fá eintak af ritinu. Ritskoðunarúrskurðurinn er talinn bein afleiðing.“ (Leturbreyting okkar.) Bersýnilega höfðu þjóðernissinnaðir klerkar hvatt til árásarinnar.
Í Bandaríkjunum fyrirskipaði héraðsdómstóll í New York handtöku hins nýja forseta Varðturnsfélagsins, J. F. Rutherfords og sjö nánustu samstarfsmanna hans. Þeim var gefið að sök að hafa „á ólöglegan, glæpsamlegan og yfirvegaðan hátt valdið mótþróa, óhlýðni og neitun herskyldu í land- og sjóher Bandaríkja Ameríku . . . [með því að] dreifa og selja opinberlega um Bandaríki Ameríku bók að nafni ‚Biblíurannsóknir VII. bindi. Hinn fullnaði leyndardómur.“
Mitt í stríðsæsingnum og hinni eldheitu föðurlandsást, sem þá var í algleymingi, fóru fram réttarhöld, sem voru nánast skrípaleikur, yfir þeim átta. Þeim lauk svo að sjö þeirra, þar á meðal lögfræðingurinn Rutherford, voru dæmdir hver um sig til ferfaldrar, 20 ára, samskeiða fangelsisvistar. Hinn áttundi
hlaut 10 ára fangelsisvist. Með því að dómunum hafði verið áfrýjað var farið fram á að þeir fengjust látnir laustir gegn tryggingu. Manton dómari, sem var kaþólskur, synjaði.Eftir níu mánaða vist í hegningarhúsinu í Atlanta voru stjórnendur Varðturnsfélagsins loksins látnir lausir gegn tryggingu þar til áfrýjunarmál þeirra yrði tekið fyrir. Síðar var sýnt fram á að í hinum upphaflegu réttarhöldum höfðu verið gerðar að minnsta kosti 125 skekkjur, en aðeins fáeinar þeirra hefðu nægt til að fá hinum ranga dóma hnekkt. J. F. Rutherford og samstarfsmenn hans voru því hreinsaðir af öllum áburði. Hann hélt meira að segja áfram að stunda málarekstur við hæstarétt Bandaríkjanna sem hefði verið ógerlegt ef hann hefði verið sekur fundinn um nokkurt afbrot.
Klerkarinir og skrílsofbeldi
Þessir atburðir gáfu nú lausan tauminn ofsóknaröldu sem klerkarnir kyntu óspart undir. Núna var tækifærið, héldu þeir, undir yfirskyni þjóðerniskenndarinnar, til að knosa Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn fyrir fullt og allt.
Frásaga segir okkur: „Í bæ í Oregonríki skipulögðu bæjarstjórinn og tveir prestar skrílslæti, ráku einn fyrirlesara Alþjóðasamtaka biblíunemenda út úr bænum og veittu eftirför til næsta bæjar. Fyrirlesarinn komst undan en lýðurinn náði vini og fylgdarmanni hans og þöktu hann feiti og tjöru. . . .
Prestar í Los Angeles töluðu digurbarkalega um að biblíunemendurnir yrðu handteknir og hafðir í haldi án dóms og laga. Sumir þessara klerka gerðu sér ferð til eigenda fjölbýlishúsa og reyndu að fá þá til að segja upp leigjendum sem voru meðlimir Alþjóðasamtaka biblíunemenda. . . .
Þann 22. apríl 1918 gerðist það í Wynnewood í Oklahoma að Claud Watson var fyrst stungið í fangelsi og síðan af ásettu ráði sleppt í hendurnar á skríl sem í voru prédikarar, kaupsýslumenn og fáeinir aðrir. Þeir slógu hann niður, fengu negra til að hýða hann, og, þegar hann hafði náð sér að nokkru, að hýða hann aftur. Síðan þöktu þeir hann tjöru og fiðri.“
En tókst að gera út af við Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn með þessari sameinuðu andstöðu trúarlegra og stjórnmálalegra afla? Þvert á móti? Í september árið 1919, sex mánuðum eftir að J. F. Rutherford og félögum hans var sleppt úr fanglesi, var haldið almennt mót biblíunemenda í Cedar Point í Ohio. Þar tilkynnti J. F. Rutherford að nýtt tímarit, The Golden Age eða Gullöldin, myndi hefja göngu sína. Í gegnum árin hefur þetta tímarit djarflega afhjúpað „guð þessarar aldar,“ Satan, og hið þríþætta verkfæri hans til að halda mannkyninu í fjötrum — falstrúarbrögðin, dýrsleg stjórnmál og viðskiptaheiminn. Þetta tímarit (síðar nefnt Consolation, Hughreysting) benti á ríki Guðs í höndum Krists sem einu lögmætu stjórnina yfir öllu mannkyni. — 2. Korintubréf 4:4.
Núna er þetta sama tímarit nefnt Vaknið! en það er tímarit sem þú ert að lesa. Það er nú gefið út á 54 tungumálum og meðalupplag hvers tölublaðs er nálega 10 milljónir eintaka tvísvar í mánuði. Förunautur þess, Varðturninn sem var bannaður í fjölmörgum löndum á hinum erfiðu árum síðari heimsstyrjaldarinnar, kemur nú út í rúmlega 11 milljóna eintaka upplagi hvert tölublað á alls 102 tungumálum! Ekkert annað tímarit í heimi kemur út á jafnmörgum tungumálum. Þessar staðreyndir sanna að eftir 100 ára útgáfustarf, og ofsóknir um jafnlangan tíma, er Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn öflugra en nokkru sinni fyrr!
[Mynd á blaðsíðu 10]
Klerkar notfærðu sér bókina Hinn fullnaði leyndardómur til að koma af stað ofsóknum.