Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Að salta eða ekki salta

Þegar Davið McCarron við Oregon Health Sceinces University skýrði frá því fyrir nokkru að fólk með háan blóðþrysting neytti að jafnaði minna natríums og verulega minna kalsíums en fólk með venjulegan blóðþrýsting olli það töluverðu uppnámi í heimi læknavísindanna. Uppgötvanir hans drógu í efa réttmæti viðtekinnar reglu þess efnis að mikil saltneysla valdi háum blóðþrýstingi. Aðrir rannsóknavísindamenn hafa síðan staðfest uppgötvanir hans. McCarron mælir með að fólk með háan blóðþrýsting neyti nægilegs kalsíums, eins og er meðal annars að finna í mjólkurafurðum, og hafi ekki áhyggjur af saltneyslu. En aðrir krefjast meiri rannsókna. Einn af starfsbræðrum McCarrons varar við því að gögn hans séu „ekki nærri því nógu mikil til að byggja á ráðleggingar um mataræði.“

Efagjarnir biskupar

Dr. Davið Jenkins, fyrrum prófessor í guðfræði sem trúir ekki að Jesús hafi verið reistur upp eða fæddur af mey eins og Biblían segir, var í júlí á síðasta ári vígður sem biskup af Durham sem er eitt af æðstu embættum Englandskirkju. Þegar skoðanir hans voru fyrst gerðar heyrinkunnar í apríl á sama ári kom það mörgum af meðlimum kirkjunnar í uppnám að maður, sem ekki trúir, skuli tilnefndur til svo hárrar stöðu. En skoðanakönnun, sem síðar var gerð meðal 31 af hinum 39 biskupum kirkjunnar, leiddi í ljós að margir þessara háttsettu kirkjuleiðtoga voru sömu skoðunar og dr. Jenkins. „Í skoðanakönnuninni,“ segir dagblaðið The South China Morning Post, „sögðu 15 biskupar að kraftaverkin í Nýja testamentinu væru síðari tíma viðbætur við söguna um Jesú.“

42 milljónir blindar

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin skýrir frá því að í heiminum séu yfir 42 milljónir manna blindar, þar með taldar 28 milljónir með svo skerta sjón að þær sjá ekki nógu langt frá sér til að telja fingur á hönd í þriggja metra fjarlægð. Búist er við að árið 2000 verði tala blindra orðin tvöfalt hærri. Að því er stofnunin segir væri hægt að afstýra blindu 75 af hundraði þessa fólks „með viðeigandi heilbrigðiseftirliti.“ O Estado de S. Paolo, brasilískt dagblað, segir að „36 af hverjum þúsund blindum séu Brasilíumenn.“

Dreifðar fornmenjar

„Eftir tveggja ára samningaþóf,“ segir dagblaðið International Herald Tribune, „hefur safnið British Museum fallist á að skila 59 cm löngu broti af höku sfingsins sem breskur sjómaður smyglaði út úr Kaíró fyrir 166 árum.“ Svo er látið heita að brotið sé lánað til frambúðar til að brjóta ekki bresk lög sem banna útflutning safngripa. Sagt er að Egyptar hafi hótað að meina breskum fornleifafræðingum aðgang að egypskum fornmenjum ef safnið ekki skilaði brotinu. Önnur ríki í þriðja heiminum eru sögð fylgjast náið með samningaviðræðunum í von um að þau geti líka endurheimt suma af þjóðarfjársjóðum sínum sem safnið geymir. Margar fornmenjar voru fluttar frá Egyptalandi á tímabilinu frá 1517 til 1936 þegar landið var undir stjórn Tyrkja, Frakka og Breta. Í Róm eru 13 egýpskar óbelískur en aðeins fjórar eru eftir í Egyptalandi. Aðrir merkir forngripir eru í París, Berlín, Sovétríkjunum og Bandaríkjunum.

Spenna milli hjóna í Sovétríkjunum

Streitan samfara innkaupum og því að standa í biðröðum til að afla daglegra nauðsynja er kveikjan að miklum deilum milli hjóna að því er Pravda, málgagn sovéska kommúnistaflokksins, segir. Haft er eftir lesanda að komast mætti hjá miklum illdeilum innan fjölskyldunnar „ef það væri bara hægt að kaupa allar nauðsynjavörur hjá kaupmanni á horninu eða fara út og kaupa sér mannsæmandi máltíð á veitingastað.“ Alls er nú eytt 37 milljörðum klukkustunda árlega í það eitt að standa í biðröðum, að því er dagblaðið segir — það er 30 milljörðum stunda meira en var á miðjum síðasta áratug. Að meðaltali eyðir hver fullvaxta íbúi Sovétríkjanna 190 stundum á ári í að standa í biðröðum. Viðhorf karlmanna, sem yfirleitt taka ekki þátt í barnauppeldi né heimilisverkum með útivinnandi eiginkonum sínum, eru einnig sögð valda spennu milli hjóna, svo og stækjum til að auðvelda matargerð og hreinlæti.

Rekstrarfé ítölsku kirkjunnar

Rómversk-kaþólska kirkjan á ítalíu mun hætta að fá rekstrarfé frá ríkinu árið 1990, samkvæmt tillögum nefndar sem skipuð var fulltrúum kirkju og ríkis. Nefndin var stofnuð eftir að nýr sáttmáli var gerður milli Páfagarðs og Ítalska ríkisins í febrúar á síðasta ári. Samkvæmt tillögum nefndarinnar munu fjárframlög ríkisins fara smálækkandi þar til kirkjan mun standa ein undir rekstri sínum árið 1990. Þeir kirkjumeðlimir, sem leggja fram fé til kirkjunnar, geta dregið það frá skattskyldum tekjum sínum. Dagblaðið Corriere della Sera í Mílanó segir að ríkið hafi veitt kirkjunni 291 milljarð líra (um 6 milljarða króna) til að greiða laun um 30.000 presta, og 20 milljarða líra í viðbót (um 420 milljónir króna) til nýrra kirkjubygginga.

Innanhússmengun

Mengun innanhúss getur verið meiri en utanhúss, aðvarar bandarísk stofnun sem hefur öryggiseftirlit með neysluvörum. Eins árs athuganir á um 40 heimilum leiddu í ljós að á bilinu 20 til 150 efnasambönd voru í andrúmslofti innanhúss. Þau komu úr byggingarefnum, úðunardósum, heimilistækjum, hreinsiefnum, þurrhreinsuðum fötum, og jafnvel snyrtivörum. Og eftir því sem einangrun húsa er aukin og þéttlistar settir með gluggum og hurðum, til að draga úr varmatapi, eru mengunarefnin í auknum mæli lokuð innanhúss. „Að jafnaði er tífalt meira af rokgjörnum, lífrænum efnum innanhúss en utanhúss,“ segir í skýrslu nefndarinnar. Þessi mengunarefni hafa verið sett í sambandi við fæðingargalla, krabbamein og ofnæmisviðbrögð. Mælt er með að loftræsta húsnæði reglulega og gefa gaum efnum og vörum sem þar eru notuð.

Olíuslys

Gífurleg aukning var árið 1983 á olíu sem fór í hafið eða skipskaða — 930 meiri en árið áður. Skýrsla sem nefnist The Oil Spill Intelligence Report greinir frá því að 915,2 milljónir lítra hafi farið í sjóinn. Mesti skaðinn sem orðið hefur í einu — 303 milljónir lítra — varð á Persaflóa þar sem bardagar milli Íraka og Írana ollu stjórnlausu rennsli úr borholu og komu í veg fyrir viðgerðir. Stærsti hluti olíunnar er þó frá olíuskipum kominn. Það sem veldur svo miklum áhyggjum við þennan olíuskaða er, að sögn Richards Golob, ritstjóra skýrslunnar, „að við ráðum ekki yfir tækni til að ná upp eða eyða olíunni.“ Mjög lítill hluti hennar næst upp aftur.

1800 ára lag

Elsta tónskrá, sem fundist hefur í Kína, er um 1800 ára gamalt lag raddsett fyrir fimmstrengja hljóðfæri, segir kínverska fréttatímaritið Beijing Review. Það fannst árið 1920 en var þá enginn gaumur gefinn. Það lá óhreyft í 60 ár þar til sagnfræðingurinn Níu Longfei við Lanzhou-háskólann rannsakaði tónskrána nýlega og þýddi. Hann segir lagið vera fágað og fallegt.

Hugbúnaðarstuldur

Ár hvert tapa bandarísk hugbúnaðarfyrirtæki á bilinu 1 til 3 milljarða dollara við það að hugbúnaðarþjófar afrita forrit þeirra, segir í blaðinu The German Tribune. Þjófnaður af því tagi er mikið stundaður í Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi, Singapore, Taiwan og Suður-Kóreu. „Vandinn versnar sífellt,“ segir talsmaður þessa iðnaðar. Til þessa hefur þjófunum tekist að komast í kringum búnað sem ætlað hefur verið að hindra það að forritin væru afrituð. Hvað er til ráða? Í mörgum löndum hafa verið sett lög sem gera slíka afritun ólöglega. En einn af talsmönnum iðngreinarinnar sagði með uppgjafartón að tölvufyrirtækin yrðu hreinlega að „halda áfram að þróa nýjan hugbúnað,“ og gera þann, sem stolið hefur verið, úreltan.

Blóðvökvagjöf

„Blóðvökvanotkun í Bandaríkjunum á í allt að níu tilfellum af tíu engan rétt á sér, að sögn sérfræðinganefndar sem skipuð var af bandarísku heilbrigðisstofnunum í Washington, D. C. „Af þeim 3,5 milljónum sjúklinga, sem fá blóðgjafir árlega, fá allt að 700 þúsund blóðvökva — kannski 630 þúsund fleiri en ættu að fá slíka inngjöf,“ segir dagblaðið The New York Times í frétt um álit dr. James L. Tullis sem var formaður nefndarinnar. Nefndarmenn álita að ár hvert megi rekja allt að 10.000 lifrarbólgutilfelli af völdum veiru til blóðvökvagjafa eingöngu.