Korintuskurðurinn og saga hans
Korintuskurðurinn og saga hans
Eftir fréttaritara „Vaknið!“ í Grikklandi
MIÐJARÐARHAFSRÍKIÐ Grikkland á sér óvenjulegan skipaskurð. Þótt hann keppi ekki að mikilvægi við hina miklu skipaskurði í löndum Norður-Evrópu né hinn fræga Súez-skurð í Egyptalandi er þessi skipaskurður í Grikklandi einstakur á margan hátt. Hann tengir Saroníuflóa í Miðjarðarhafi við Korintuflóa sem opnar siglingaleið til Aðríahafs og hafna í mörgum Evrópuríkjum. Skurðurinn hefur því afar mikla þýðingu fyrir grískt efnahagslíf.
Árið 1982 voru liðin 100 ár síðan gerð skurðarins var hafin. Við það tækifæri sýndu fjölmiðlar í Grikklandi með áhrifaríkum hætti fram á þann hag sem af skipaskurðinum er. En okkur langaði til að kynnast fleiru viðvíkjandi skurðinum en frásagnir fjölmiðla greindu frá. Við lögðum því land undir fót frá Aþenu á fögrum sólskinsdegi til að heimsækja stjórnarmiðstöð skipaskurðarins á Korintueiði.
Þegar við komum á áfangastað svaraði forstjóri skipaskurðarins spurningum okkar greiðlega. Hann lagði sérstaka áherslu á ýmsar úrbætur sem gætu gert skurðinn, eins og hann komst að orði, „mikilfenglegt afrek sem hefði jafnvel enn meira þýðingu ekki aðeins fyrir Grikkland heldur líka Evrópu í heild.“ Hann var einnig svo vinsamlegur að rifja upp með okkur forsögu þess að þessi þýðingarmikli skipaskurður var gerður.
Auður Korintu var eiðið
Korinta var víðfræg borg í heimi fortíðarinnar. Hún átti glæsibrag sinn og auð að þakka þeirri mjóu landræmu sem aðskilur Jóníuhaf og Eyjahaf. Hvernig stóð á því? Ástæðan var sú að á þeim tíma voru skip hreinlega dregin yfir eiðið. Þau voru dregin eftir braut sem kölluð var diolkos en hún var lögð steinhellum sem þaktar voru plönkum smurðum feiti. Þannig komust skipin hjá hinni hættulegu siglingu fyrir Pelopsskaga. Einkum var hættulegt að sigla fyrir suðurodda skagans því að oft var von vondra veðra við Maleashöfða.
Þótt það hefði margt til síns ágætis að draga skip yfir þetta mjóa eiði var það ekki ódýrt eins og þú getur ímyndað þér. Kaupmenn urðu að greiða mjög há hafnargjöld sem voru helsta tekjulind Korintuborgar.
Korintumenn höfðu auk þess tekjur af kaupmönnunum sem dvöldu í Korintu á meðan þeir biðu þess að koma skipum sínum yfir eiðið. Margir þeirra lifðu þar í alls kyns óhófi og lauslæti og eyddu töluverðu fé. Auk þess gáfu þeir musterunum gjafir og færðu heiðnum guðum fórnir. Allt þetta gerði að verkum að Korinta var ein af auðugustu borgum veraldar til forna, víðfræg borg munaðar og óhófs þar sem spilling austurs og vesturs mættist og blandaðist.
Tillögur um skurð til forna
Á sjöundu öld fyrir okkar tímatal gerði harðstjórinn í Korintu, Períander, einn hinna sjö vitringa í Grikklandi til forna, áætlun um skipaskurð í gegnum þessa mjóu landræmu milli Pelopsskaga og meginlands Grikklands. Ef það yki skipaumferðina myndi það auka tekjur hans af gjöldunum fyrir skipin sem færu þar um. Hann lét þó af þeim fyrirætlunum. Hvers vegna?
Af ótta við að vekja reiði guðanna því að véfrétt Pýþíu i Delfi sagði: „Reisið ekki turn á eiðinu né gravið (gerið skurð) í gegnum það.“ Sagt er að þessi véfrétt hafi komið fram að undirlagi prestanna við musterin í Korintu. Þeir óttuðust að ef þar væri gerður skipaskurður, sem flýtti ferðum skipanna um eiðið, myndu þeir missa hin ríkulegu framlög og gjafir því að kaupmennirnir hefðu enga ástæðu lengur til að hafa viðdvöl í Korintu.
Hugmyndin um skipaskurð var vakin að nýju árið 307 f.o.t. af Demetríusi
umsátursmanni. En hann lét líka af fyrirætlunum sínum þegar egypskir verkfræðingar, sem hann hafði ráðið til að vinna verkið, fullvissuðu hann um að meiriháttar vandamál væri í veginum. Þeir sögðu að sjávarborð væri mishátt í Korintuflóa og Saroníuflóa. Þeir vöruðu við því að væri grafið í gegnum eiðið myndi sjórinn í Korintuflóa renna yfir í Saroníuflóa, færa svæðið í kaf og drekkja eyjum þar í grenndinni.Misheppnaðar tilraunir
Eftir að Korintía varð rómverskt skatthérað gerðu Júlíus Sesar og síðar Kaligúla áætlanir um að grafa í gegnum eiðið. Með þessar áætlanir að leiðarljósi hóf Neró verkið árið 67 að okkar tímatali og notaði til þess 6000 þræla og refisfanga.
Þessi tilraun fór hins vegar út um þúfur þegar Neró þurfti að snúa heim til Rómar þar sem gerð var uppreisn gegn honum. Skömmu síðar lést Neró og hætt var framkvæmdum við skipaskurðinn. Á árunum á eftir reyndu Heródes Attikus og síðar Býsantínus að halda áfram greftrinum í gegnum eiðið. Tilraunir þeirra fóru einnig út um þúfur. Eins fór fyrir Feneyjamönnum sem byrjuðu að grafa en gáfust fljótlega upp.
Skurðurinn loks fullgerður
Eins og þú sérð á myndinni á bls. 16 er Korintuskurðurinn þó orðinn að veruleika. Hvernig og hvenær var gerð hans lokið? Eftir grísku byltinguna árið 1821 gerði Ioannes Kapodistrias, fyrsti forseti Grikklands, sér grein fyrir því hversu mikilvægur skipaskurður í gegnum Korintueiði væri fyrir framfarir Grikkja. Hann fól frönskum verkfræðingi að annast verkið, en enn á ný — nú af efnahagsástæðum — varð að hætti verkinu.
Að lokum, eftir að Súezskurðurinn hafði verið opnaður, setti gríska stjórnin lög (í nóvember 1869) um að „grafa í gegnum Korintueiðið.“ Lögin tóku ýmsum breytingum og við þau var bætt þar til loksins var hafist handa við gerð skurðarins þann 5. maí árið 1882. Þótt komið hefðu fram tillögur um þrjá mismunandi staði fyrir skurðinn var loks ákveðið að grafa þar sem verkfræðingar Nerós höfðu valið honum stað. En líttu aftur á myndina á bls. 16 sem sýnir hinn fullgerða skurð. Getur þú ímyndað þér hvílíkt verk það var að grafa hann fyrir síðustu aldamót?
Stjórn skipaskurðarins gaf okkur ýmsar upplýsingar um sjálfa framkvæmd verksins. Við fengum til dæmis að vita að um 2500 verkamenn unnu að gerð hans í um það bil tíu ár og notuðu til þess bestu vélar sem fáanlegar voru á þeim tíma. Þeir fjarlægðu um 930.000 rúmmetra af jarðvegi og bergi. Skurðurinn er um það bil 6 km langur. Veggir hans ná sums staðar 76 metra hæð yfir sjávarmáli. Skurðurinn er 25 metra breiður við sjávarborð og 21 metri að breidd í botninn. Hinu gífurlegu verki við að grafa í gegnum Korintueiðið var loksins lokið og opnunarathöfn fór fram þann 7. ágúst 1893.
Á síðustu árum hafa um 10.000 skip siglt um skurðinn árlega. Yfirleitt er hagkvæmara að nota skurðinn en að sigla fyrir Pelopsskaga, bæði af því að það sparar eldsneyti og dýrmætan tíma.
Þetta er því saga Korintuskurðarins. Eigir þú eftir að sækja Grikkland heim mælum við með því að þú skoðir skipaskurðinn. Kannski getur þú á leið þinni til rústa hinna fornu Korintuborgar, sem eru áhugaverðar fyrir nemendur í Biblíunni, staldrað þar við og skoðað skurðinn. Sérstaklega er tilkomumikið að sjá skip sigla um hann.