Líf og friður — eftir hvaða leiðum?
Líf og friður — eftir hvaða leiðum?
„LÍF OG FRIÐUR.“ Það voru einkunnarorð sérstæðrar ráðstefnu sem haldin var í Uppsalaháskóla í Svíþjóð dagan 20.-24. apríl árið 1983. Að hvaða leyti var hún sérstæð? Að því leyti að í fyrsta skipti í sögunni komu æðstu kirkjuleiðtogar veraldar saman í þeim tilgangi að komast að samkomulagi um hvernig kirkjur þeirra ættu að líta á stríð, ofbeldi og kjarnorkuvígbúnað, svo og til að stuðla að lífi og friði í heiminum.
Um 160 fulltrúar rétttrúnaðarkirkju kaþólskra, rómversk-kaþólsku kirkjunnar, lútherskra ríkiskirkna og fríkirkna frá 60 þjóðum tóku þátt í ráðstefnunni. Um 200 fréttamenn frá öllum heimshlutum voru einnig viðstaddir.
Friður með vopnaðri andspyrnu?
Ein af aðalspurningunum var sú hvernig kirkjunum bæri að líta á þátttöku í vopnaðri andspyrnu. Olof Sundby biskup, leiðtogi sænsku ríkiskirkjunnar og einn úr gestgjafanefnd ráðstefnunnar, lýsti því yfir að rétt væri af kristnum mönnum að taka þátt í vopnaðri andspyrnu ef tilgangurinn væri sá að koma í veg fyrir sigur ofbeldisaflanna. Og Vitalij Borovoj, fulltrúi rétttrúnaðarkirkjunnar og prófessor í guðfræði, viðurkenndi opinskátt í fréttaviðtali: „Rússneska rétttrúnaðarkirkjan á sér enga sögu sem friðarsinni. Margir prestar háðu harða baráttu gegn byltingunni, og byltingarmenn lítu á prestana sem fulltrúa keisarastjórnarinnar.“ Hann bætti við: „Að sjálfsögðu er ég sem kristinn maður andvígur öllum styrjöldum. Það er samt sem áður rétt að berjast eins og við gerðum í síðari heimsstyrjöldinni.“
Lokaályktun ráðstefnunnar, nefnd „Boðskapurinn,“ gaf til kynna að kirkjur þeirra hefðu ekki getið sér góðan orðstír fyrir að stuðla að lífi og friði í heiminum. Ályktunin, sem samþykkt var af fulltrúunum á ráðstefnunni, hljóðar svo að hluta til: „Við játum í auðmýkt að sem kristnir menn höfum við verið ótrúir Drottni. Sundrung okkar sem kristinna manna veikir vitnisburð okkar í friðarátt. Sem þegnar ríkja er eiga kjarnorkuvopn hvílir enn meiri skömm á sumum okkar. Við iðrumst, allir saman.“ Gengið er að fyrirgefningu Drottins sem vísri því að haldið er áfram: „En nú verðum við að þiggja fyrirgefningu Drottins.“
Gátu ekki verið sammála
Breyta þurfti orðalagi lokaályktunar ráðstefnunnar og endurrita hana nokkrum sinnum áður en hún gat hlotið samþykki. Það bar ekki vott um samlyndi ráðstefnugesta.
Í einum af frumdrögum ályktunarinnar var til dæmis sagt: „En séð frá kristnum sjónarhóli er hótun um beitingu kjarnorkuvopna og hugsanleg notkun þeirra óaðgengileg leið til að forðast stríð.“ En þessari setningu varð að breyta í: „Flestir okkar álíta að frá kristnum sjónarhóli sé hótun um beitingu kjarnorkuvopna og hugsanleg notkun þeirra óaðgengileg leið til að forðast stríð. Sumir geta sætt sig við kjarnorkuvopn sem fyrirbyggjandi leið, aðeins til bráðabirgða meðan annarra kosta er ekki völ.“ Greinilega voru sumir kirkjuleiðtogar ekki andvígir kjarnorkuvopnum sem leið til að koma í veg fyrir stríð!
Þetta viðhorf til kjarnorkuvopna kom einnig fram í næstu málsgreinum yfirlýsingarinnar. Í frumdrögunum stóð: „Jafnvel að eiga þau [kjarnorkuvopn] samræmist ekki trú okkar á Guð.“ Þessari setningu varð að breyta svo: „Sumir geta sætt sig við kjarnorkuvopn sem fyrirbyggjandi leið, aðeins til bráðabirgða meðan annarra kosta er ekki völ. Flestir okkar telja samt sem áður ekki að það geti samrýmst trú okkar á Guð að eiga kjarnorkuvopn.“ Eftirfarandi yfirlýsingu var einnig breytt: „Við urðum því sammála um að tilvera þessara vopna bryti í bága við vilja Guðs.“ Á endanum hljóðaði hún svona: „Flestir okkar álíta því . . .“
Guðsríki eða Sameinuðu þjóðirnar
Athyglisvert er að yfirlýsing þessarar heimsráðstefnu kirknanna viðurkenndi ekki Guðsríki sem einu leiðina til að tryggja varanlegt líf og frið. Meira að segja var ekki einu sinni minnst á Guðsríki. Þess í stað fylgdi yfirlýsingin hinni hefðbundnu afstöðu kirkna kristna heimsins um stuðning við Sameinuðu þjóðirnar og aðra viðleitni manna. Þar sagði: „Sem viðbótarúrræði hvetjum við til: 1. Að haldið sé við valdi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalaga og það aukið, og að studd sé full framkvæmd Helsinkisáttmálans.“ Og í „leiðbeiningum um aðgerðir kirknanna“ var hvatt til að „styðja stjórnmálamenn og ríkisstjórnir í áformum þeirra um þróun hernaðaráætlana til friðar og kerfa til sameiginlegs öryggis.“
Hversu ólíkt var þetta ekki afstöðu Jesú Krists sem kenndi afdráttarlaust hlutleysti gagnvart veraldlegum stjórnmálum og kenndi lærisveinum sínum að reiða sig á Guðsríki sem einu leiðina til að koma á varanlegum friði í heiminum! (Jóhannes 17:14, 16; 18:36; Matteus 6:10; Opinberunarbókin 21:3, 4) Sannkristnir menn gera sér ljósa þörfina á að fólk sem „vill elska lífið og sjá góða daga . . . ástundi frið og keppi eftir honum.“ (1. Pétursbréf 3:10, 11) Þegar þeir gera það fylgja þeir hvatningarorðum Biblíunnar. „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ — Rómverjabréfið 12:18.
Ályktun ráðstefnunnar um „líf og frið“ hvatti þjóðirnar til að vinna að friði með því að leiða „samningaviðræður sínar til jákvæðra lykta“ og með því að „leggja algerlega niður öll kjarnorkuvopn innan fimm ára.“ Nú eru liðin um tvö ár síðan ráðstefnan um „líf og frið“ var haldin. Verður þessu friðarmarkmiði náð á þeim þrem árum sem eftir eru? Mun viðleitni þeirra verða til þess að tryggja frið og öryggi um allan heim, eða mun Guðsríki þurfa að skerast í leikinn til að þurrka út allar núverandi stjórnir og vopn þeirra sem ógna lífi og friði, og endurreisa friðsæla paradís hér á jörð? Árin rétt framundan munu vafalaust svara þeirri spurningu. — 1. Þessaloníkubréf 5:3; Daníel 2:44; Jesaja 9:7.