Matvælaskortur — merki um hvað?
Matvælaskortur — merki um hvað?
SEM HLUTA af ‚tákni‘ þess tíma, sem Biblían kallar endalok veraldar, sagði Jesús að „hungur“ myndi verða „á ýmsum stöðum.“ Hann gaf okkur þó tilefni til vonar, því að hann sagði að þessi matvælaskortur yrði tákn þess að „lausn“ okkar væri „í nánd.“ — Sjá Lúkas 21:7, 11, 28.
Er ríkjandi núna hungur og matvælaskortur sem tákna að lausn okkar sé í nánd? Margir álíta svo vera. Gerir þú það?
Skoðaðu staðreyndirnar
Styrjaldir eru ein af meginorsökum hungurs og matvælaskorts og því mátti búast við að alvarlegur matvælaskortur kæmi í kjölfar fyrstu styrjaldarinnar á heimsmælikvarða, fyrri heimsstyrjaldarinnar. Sú varð raunin. Síðari heimsstyrjöldin olli en meira tjóni og matvælaskorturinn, sem hún átti þátt í að valda, var í samræmi við það.
Vandinn við lok síðari heimsstyrjaldarinnar var slíkur að árið 1945 komu Sameinuðu þjóðirnar á fót sinni fyrstu fastastofnun, FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni). Henni var ætlað það hlutverk að ráða bót á hungrinu í heiminum, og hún áorkaði mörgu jákvæðu á fyrstu 20 starfsárum sínum. En þó breyttist ástandið ekki til muna eins og fram kemur í Britannica Book of the Year 1966. Við lesum þar:
„Skýrsla Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar árið 1965 um hið vaxandi ójafnvægi milli íbúatölu jarðar og líklegrar getu þeirra til að brauðfæða sig, leiddi í ljós ástand sem margir álítu alvarlegt ef ekki ógnvekjandi. . . . George McGovern, öldungadeildarþingmaður frá Suður-Dakota, kallaði matvælagatið ‚langstærsta vandamál síðasta þriðjungs 20. aldarinnar.‘“
Árið 1978, meira ein tíu árum síðar, var vandinn enn við lýði. Meira að segja fór hann versnandi (sjá línurit) sem varð til þess að Carter, þáverandi Bandaríkjaforseti, stofnaði 20 manna nefnd um hungrið í heiminum. Hlutverk nefndarinnar var að ganga úr skugga um hvernig mætti sigrast á hungrinu í heiminum fyrir aldamót. Markmiðið var hrósunarvert en er mögulegt að ná því?
Hvað olli vandanum?
Það væri villandi að kenna einungis offjölgun mannkynsins um. Málið er í reyndinni miklu flóknara en það. Vísindatímaritið Bild der Wissenschaft segir: „Það sem úrslitum ræður virðist ekki vera það hversu hratt mannkyninu fjölgar, heldur að stjórnvöld hafa látið undir höfuð leggjast að framfylgja réttri stefnu í landbúnaðarmálum.“
Ekki má heldur gleyma svokölluðum náttúrlegum orsökum svo sem þurrkum og flóðum, en ætlað er að árið 1981 hafi 14 milljónir Kínverja liðið matvælaskort af þeim orsökum. Umbrot í stjórnmálum og ókyrrð á vinnumarkaðinum getur líka valdið því að fólk þurfi að standa í löngum biðröðum til að afla sér matvæla, ein og gerðist í sumum löndum Austur-Evrópu sama ár.
Annarri orsök matvælaskorts verður best lýst með því að skoða Afríku sem dæmi. Tímaritið New African segir um hungraðasta meginland veraldar þar sem er að finna 23 af 29 þjóðum sem FAO segir búa við „óeðlilegan matvælaskort“:
„Áður en áhrif nýlendustefnunnar fór að gæta var Afríka sjálfri sér nóg um matvæli. Sums staðar var offramleiðsla sem verslað var með innan meginlandsins. Þegar Evrópuríki hins vegar skiptu Afríku á milli sín þröngvuðu þau líka afrískum
þjóðfélögum til að fara að rækta matvæli til endursölu fremur en til eigin nota.Þessi umskipti hafa aukið hraðann frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Afríka hefur ‚þróast‘ í þá átt að framleiða afurðir til endursölu fyrir Vesturlönd. . . . Munaðaraffurðir svo sem blóm, te, kaffi og kakó, og iðnaðarafurðir, svo sem gúmmi, baðmull og sísalhamp.“
Þetta og margt fleira hefur stuðlað að því að gera matvælaskort að alþjóðlegu vandamáli. Hversu margar milljónir í viðbót eru dæmdar til að deyja áður en unnt er að leysa það?
Horfurnar á níunda áratugnum
Ráðstefna Alþjóða matvælaráðsins, haldin í Arusha í Tansaníu árið 1980, sendi frá sér skýrslu þar sem sagði að horfurnar í þróunarlöndunum hefðu aldrei verið verri. Þar var því spáð að níundi áratugurinn gæti hæglega orðið „áratugur matvælaskorts.“ Framkvæmdastjóri ráðsins, Maurice Williams, sagði: „Ég vildi að ég gæti sagt að ég eygði vonarglætu en ég óttast að við stefnum í varanlega matvælakreppu í Afríku.“
Árangur mannsins í að vinna bug á orsökum hungurs og matvælaskorts — þurrkum, styrjöldum, pólitísku umróti, sjúkdómum eða farsóttum og náttúruhamförum — er takmarkaður þegar best lætur. Og pólitísk hentistefna, léleg yfirstjórn, tafvaldar í flutningum, skriffinska, skammsýni og ágirnd gera vandann enn erfiðari viðureignar. Gordon Taylor, höfundur bókarinnar The Doomsday Book, segir að ‚kreppan muni vofa yfir af æ meiri þunga eftir þvi sem við nálgumst aldamót.‘
Nefnd Bandaríkjaforseta um hungrið í heiminum hefur komist að svipaðri niðurstöðu. Tímaritið Time sagði svo um niðurstöður hennar: „Hungurvandinn nú á dögum er gerólíkur slíkum vanda í fortíðinni þegar endurteknar hungursneyðir lögðu milljónir manna að velli. Núna eru svo lítil matvæli í svo mörgum heimshlutum ár eftir ár að fullur fjórðungur jarðarbúa er hungraður eða vannærður, og einn af hverjum átta er sjúklega vannærður. . . . Í skýrslunni er spáð að meiriháttar matvælaskortur gæti orðið á næstu 20 árum — með geigvænlegum afleiðingum.“ — Leturbreyting okkar.
Hvað sýna þessar staðreyndir í stuttu máli sagt? Að núverandi matvælaskortur snerti fleira fólk en á nokkrum öðrum tíma mannkynssögunnar, að hann sé að verða fastur þáttur í stað þess að vera tímabundinn eins og áður, og að þrátt fyrir framfarir vísindanna virðist engin lausn frá mönnum í sjónmáli. Þessar staðreyndir segja okkur að matvælaskorturinn sé að þessu leyti nýtt fyrirbæri, nákvæmlega eins og búast mátti við í uppfyllingu á ‚tákni‘ Jesú.
En gleymum ekki að Jesús sagði að „hungur á ýmsum stöðum“ yrði augljóst merki þess að ‚lausn okkar væri í nánd.‘ Vottar Jehóva munu fagna því að hjálpa þér að kynnast hrífandi framtíðarhorfum nánar.
[Skýringrmynd/mynd á blaðsíðu 27]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
HUNGRIÐ Í HEIMINUM
MILLJÓNIR SEM EKKI HAFA NÓG AÐ BORÐA
0 100 200 300 400 500 600 700 800 900 1000
1970 360 1977 420 1981 800
(SAMKVÆMT TÖLUM FAO)