Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég leitaði orsaka dauðans en fann lífið

Ég leitaði orsaka dauðans en fann lífið

Ég leitaði orsaka dauðans en fann lífið

Sjúkdómafræðingur segir frá

„ÉG HEF von um að deyja aldrei,“ sagði vinur minn. Ég brosti hæðnislega að þessu en samtímis vakti það með mér brennandi forvitni. Ég þekkti vin minn vel. Við höfðum stundað nám saman í skóla og hann hafði aldrei gefið mér nokkra ástæðu til að efast um geðheilsu sína. Sem sjúkdómafræðingur þekkti ég vel til dauðans og hinna mörgu orsaka hans, en hugmyndin um endalaust líf hafði aldrei komið upp í huga mér.

Að samræðunum lokum gaf hann mér tvær bækur: Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs og Er Biblían í raun og veru orð Guðs? Þetta voru mín fyrstu kynnir af boðskapnum sem vottar Jehóva prédika frá Biblíunni. Þessar tvær bækur áttu eftir að valda mikilli breytingu á lífi mínu og jafnvel fá mig til að breyta um stefnu í rannsóknum mínum í þágu læknavísindanna.

Ég hafði eytt mörgum árum í rannsókir á æxlum og meðhöndlun þeirra. Sem sjúkdómafræðingur hafði ég áhuga á uppruna og orsökum sjúkdóma. Ég stóð dag hvern frammi fyrir tveim föstum forsendum — lífi og dauða. Ég hreifst af því kraftaverki sem lífið er og þeim leyndardómi sem dauðinn er. Og núna, alveg óvænt, heyrði ég mann fullyrða að hann myndi aldrei deyja vegna þess að hann byggist við að Guðsríki kæmi áður en ævi hans væri öll. — Matteus 6:9, 10.

Ég vel mér ævistarf

Trú og trúarlíf gegndu ekki sérlega stóru hlutverki á heimili mínu. Faðir minn, vel gefinn maður og viðlesinn, hafði fengið að vita nógu mikið um hina kaþólsku trúarleiðtoga á Spáni til þess að hann hafði enga löngun til að innprenta okkur hugmyndir þeirra. Á þeim tímum var trúfræðsla kaþólskra skyldunám í skóla, en þegar ég varð 15 ára og byrjaði að rökhugsa um hinar kaþólsku kenningar ákvað ég að segja skilið við kirkjuna.

Um tíma hafði ég hug á ævistarfi í hernum, en þegar ég lauk námi í bachillerato (menntaskóla) stóð valið á milli verkfræði og læknisfræði. Ég hafði lesið mikið um lækna og oft heyrt föður minn tala með virðingu um kunna spænska lækna svo sem Santiago Ramón y Cajal sem hafði hlotið Nóbelsverðlaun í læknisfræði. Ég kaus því að lokum hinn hrifandi heim læknisfræðinnar.

Kaþólskur guðfræðingur reynir að snúa mér

Þegar tímar liðu varð ég sífellt ósveigjanlegri í andstöðu minni gegn kaþólskri trú. Ég komst á það stig að verða algjör efasemdamaður. Ég var sífellt að færa rök gegn kenningunum um þrenningu, helvíti og óskeikulleika páfans svo nefnd séu dæmi.

Dag einn, þegar ég átti í rökræðum við nokkra vini í þjóðarbókasafninu í Madrid, bauð einn þeirra mér að hitta kunnan kaþólskan guðfræðing sem myndi, að hans sögn, geta þurrkað út efasemdir mínar og hrakið rök mín. Ég tók áskoruninni og sama dag heimsóttum við prestinn.

Þegar við komum var hann mjög vingjarnlegur og sagðist hafa allt siðdegið til að sinna okkur. Það myndi gleðja hann mjög að hjálpa mér að snúa aftur til kaþólsku kirkjunnar. Eftir hálfrar klukkustundar rökræður mundi hann skyndilega eftir því að hann hafði mælt sér mót við einhvern! Vinur minn varð fyrir miklum vonbrigðum að sjá guðfræðinginn sinn gefast upp.

Ég gat ekki meðtekið einhver hálfsannindi klædd í skrúðklæði falskrar heimspeki manna sem leyfði sér að gera Guð að ópersónulegri þrenningu, lýsa honum sem grimmum, illskeyttum höfundi eilífra kvala í vítiseldi. Slíkur Guð var mér ekki að skapi.

Hrifning mín af læknisfræðirannsóknum

Árin liðu fljótt og ég öðlaðist réttindi sem læknir. Ég sérhæfði mig í innvortis lækningum og stundaði nám mitt og störf af miklu kappi. Mig langaði til að hjálpa sjúku fólki. Dag einn var ég beðinn að annast unga stúlku sem var með hvítblæði. Það hafði djúp áhrif á mig — að hugsa til þess að hún yrði bráðlega að deyja. Ég varð gagntekinn hugsuninni um þennan hræðilega sjúkdóm sem batt enda á svo mörg mannslíf allt of snemma.

Þegar ég kom heim þann dag fór ég rakleiðis inn í bókaherbergið mitt, dró fram allar bækur og rit um þennan sjúkdóm og byrjaði að lesa mér til um hann af áfergju. Mig langaði til að komast að því hver væri frumorsök sjúkdómsins og síðan finna út hvernig mætti lækna hann. Ég sat yfir bókunum alla nóttina.

Í dögun var ég allur í uppnámi því að ég hafði myndað mér heila kenningu um hugsanlegar orsakir hvítblæðis. Ég var staðráðinn í að birta kenningu mína. En ég mundi eftir ráðleggingum Santiago Ramón y Cajal: Það er eitt að slá fram kenningu — annað að færa sönnur á hana. Kenningin ein var ekki nóg. Ég yrði að stunda tilraunir og rannsóknarstörf til að sanna hana. Afleiðingin varð sú að ég ákvað að helga líf mitt rannsóknarstörfum í þágu læknavísindanna. Ég ákvað því að sérhæfa mig í rannsóknum á æxlum og meðhöndlun þeirra, líffæra-meinafræði og öðrum greinum sjúkdómafræði.

Rannsóknum mínum miðaði það vel áfram að ég var beðinn að reyna árangurinn af tilraunum mínum með dýr á krabbameinssjúklingum. Ég neitaði að gera það því að ég hafði aðeins gert tilraunir á einni tegund æxla. Fyrst vildi ég gera tilraunir á annarri tegund sem ég þekkti einnig vel. Ég var sannfærður um að hver einstök axlistegund krefðist sérstakrar ónæmingar.

Ég hlaut árlega fjárstyrki til rannsókna minna frá spænska krabbameinsfélaginu og Alþjóða heilbriðgisstofnuninni. Þá gerðist nokkuð sem kom mér mjög á óvart. Mér var sagt að til að halda áfram að hljóta slíka styrki yrði ég að afhenda annarri rannsóknardeild, sem ekki var í minni umsjá, niðurstöður mínar. Ég var ekki fús til að fallast á þessa stefnu og varð, hennar vegna, að hætta rannsóknarstörfum mínum.

Nýtt rannsóknarsvið

Þannig var ég staddur þegar vinur minn, sem var vottur, kom til mín. Konan mín og ég höfðum nýlega eignast biblíu og ég hafði lesið hluta „Nýjatestamentisins.“ Áhugi minn á andlegum málum kviknaði á ný. Þetta kvöld byrjaði ég að lesa bókina Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs.

Undir dögun hafði ég næstum lokið við að lesa bókina. Ég hafði lesið hana rólega og ýtarlega, þó mjög spenntur. Ég varð að fá einhvern svefn, en fyrst bað ég til Guðs með mikilli gleði, virðingu og í djúpri geðshræringu. Ég þakkaði honum fyrir hvað ég hefði lært þá nótt um hann, ekki aðeins sem skapara heldur einnig sem lifandi Guð gæddan dýrlegum eiginleikum svo sem kærleika, visku, réttvísi og mætti. Þetta var Guð sem ég gat virt og tilbeðið.

Ég las þessa bók og bókina Er Biblían í raun og veru orð Guðs? á tveim dögum. Daginn eftir hringdi ég til vottanna og bað um að mér yrðu sendar fleiri bækur sem aulýstar voru. Þær bárust fljótlega ásamt bókinni um þróunarkenninguna. Ég las þær af áfergju og komst að þeirri niðurstöðu að einungis vottar Jehóva hefðu sannleikann um tilbeiðslu og þjónustu við hinn sanna Guð, Jehóva. Ég hafði aldrei lesið nokkuð þessu líkt í trúarlegum ritum áður — þetta var svo skýrt og greinilegt sem verið gat.

Ég var því vanur að lesa vísindarit með sínum yfirgripsmiklu heimildaskrám, og þær kröfur, sem vottarnir gerðu, höfðu mikil áhrif á mig. Í bók þeirra um þróunarkenninguna (Did Man Get Here by Evolution or by Creation?) var skrá um 248 heimildir! Augljóst var að miklar rannsóknir lágu að baki þessari bók.

Ég talaði við konuna mína um niðurstöður mínar í sambandi við Biblíuna og vottana. Hún las þá sjálf „Sannleiksbókina“ og féllst á að taka þátt í kerfisbundnu biblíunámi með vottunum. Við notuðum tvær biblíur, hina kaþólsku Nácar-Colunga og Nýheimsþýðingu vottanna. Um tíma var numið þrísvar í viku. Fljótlega fórum við að sækja samkomur í ríkissal í Madrid.

Því meira sem ég nam Biblíuna því ljósara varð mér að læknisfræðin myndi aldrei vera hin raunverulega lausn á vandamálum mannsins. Við gætum náð vissum árangri í baráttunni við vissa sjúkdóma, en sem læknir kom ég alltaf aftur og aftur að því sem ekki var hægt: Að knésetja dauðann. Engin grein læknavísindanna gæti mælt fram hin kjarnmiklu orð í Biblíunni: „Dauðinn er uppsvelgdur í sigur“ og „dauðinn mun ekki framar til vera.“ Aðeins Guð, ‚sem óhugsandi er að fari með lygi,‘ getur tryggt að þessi von, sem svo margir þrá, rætist. — 1. Korintubréf 15:54; Opinberunarbókin 21:4; Hebreabréfið 6:18.

Með þessum breyttu viðhorfum ákvað ég að hætta krabbameinsrannsóknum og þáði stöðu sem forstöðumaður þjónustustofnunar í sjúkdómafræði í borginni Orense á norðvesturhluta Spánar. Í samanburði við rannsóknarstörf leit það út eins og álitshnekkir í heimi læknavísindanna. En annað, sem hafði áhrif á ákvörðun mína, var vitneskja mín um að söfnuður votta Jehóva í Orense þarfnaðist hjálpar. Við létum síðar skírast sem kristnir vottar Jehóva þann 29. maí 1971 í Orense.

Borið vitni fyrir drottningu

Síðan þá hef ég notið margra sérréttinda í sambandi við söfnuðinn. Ég hef verið öldungur í nokkur ár og líka haft umsjón með skyndihjálp á mörgum mótum. Sem læknir og sjúkdómafræðingur hef ég — í útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum — varið afstöðu votta Jehóva gegn blóðgjöfum. Okkar biblíulegu rök eru traust, og sterk rök í heimi læknavísindanna fyrir aðhaldi í þessum efnum. — 1. Mósebók 9:4; 3. Mósebók 17:14; Postulasagan 15:28, 29.

Árið 1978 var mér boðið að flytja erindi um viðfangsefnið „blóð, læknavísindin og lög Guðs“ á vegum ráðs um vísindarannsóknir í Madrid. Níu árum áður hafði ég flutt erindi um krabbameinsrannsóknir á þessum stað. Hvílíkur munur! Núna voru áheyrendur mínir læknar og klerkar, ásamt Sophiu Spánardrottningu sem var þar viðstödd sem nemandi í hugvísindum. Erindið átti að taka klukkustund en þegar upp var staðið höfðu umræðurnar teygst í næstum þrjár stundir. Ég fékk tækifæri til að svara mörgum spurningum og í lokin óskaði Sophia drottning mér til hamingju. Það var mér gleðiefni að geta borið vitni Jehóva til lofs.

Þegar ég rýni í smásjána mína núna til að rannsaka orsakir sjúkdóma og dauða finn ég mig líka knúinn til að lofa Jehóva Guðs fyrir það hversu stórkostlega flókinn heimur hins smásæja er. Það kraftaverk sem lífið er vekur stöðugt hjá mér hrifningu og undrun og ráðgátunni um dauðann hefur núna verið svarað skýrt og greinilega — dauðinn er launin fyrir syndina. — Rómverjabréfið 6:23.

Nám mitt í Biblíunni hefur fært mér þá vitneskju að raunveruleg von hinna dánu sé fólgin í upprísunni sem Jesús kenndi um. Hann sagði: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.

Ég ber í brjósti djúpa þakkarkennd til Jehóva fyrir að veita mér þekkingu á sannleikanum, veita mér að vita að bráðlega mun hlýðið mannkyn endurheimta fullkomna heilsu og líf. Sem læknir og sjúkdómafræðingur verð ég atvinnulaus því að enginn mun þá segja: „Ég er sjúkur“; meira að segja „dauðinn mun ekki framar til vera.“ (Jesaja 33:24; Opinberunarbókin 21:3, 4) En ég mun fagna því að verða atvinnulaus í þeirri grein, því að núna ber ég í brjósti sömu von og vinur minn, sem ég gat um í inngangi frásögunnar, vonina um að deyja aldrei! — Sagan er sögð af dr. Salvador González.