Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hamingja — í leit að henni

Hamingja — í leit að henni

Hamingja — í leit að henni

Í HINNI þekktu sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna er lýst yfir réttinum til ‚lífs, frelsis og leitarinnar að hamingjunni.‘ Fyrir margan manninn er leitin það sem allt snýst um. Þeir leita hennar af ofurkappi og eru uppteknir hverja einustu mínútu af æðisgengnu tómstundakapphlaupi. Þeir streyma inn á íþróttaleikvanga til að horfa á kappleiki, húka yfir tölvuskjám og tölvuspilum, sitja sem límdir við sjónvarpið til að fylla kvöldstundirnar, eru önnum kafnir allar helgar við að skemmta sér, þeytast um heiminn þveran og endilangan og snarsnúast á annan hátt með hringiðu skemmtana- og félagslífsins. Margir grípa jafnvel til skaðlegra fíkniefna til að örva tilfinningar sínar. Menn gera hvað sem er til að forðast stundir þegar þeir gætu þurft að sitja hljóðir og horfast í augu við sjálfa sig — og leiðindi. En þrátt fyrir þennan æðisgengna eltingaleik við hamingjuna ná þeir aldrei að höndla sanna hamingju.

Sumir taka upp nýjan lífsstíl í leit sinni að hamingjunni. Hjónaband er ekki lengur álitið bindandi — fólk hefur sambúð eða slítur sambúð eins og ekkert sé, hjón skilja af hvaða tilefni sem er eða engu, börnin hrekjast fram og aftur milli foreldranna. Einhleypt fólk lifir frjálsu kynlífi. Fólk býr í óvígðri sambúð — án skuldbindinga, án traustra banda sín í milli, frjálst til að slíta samvistum og hlaupast á brott af einskærum duttlungum. Kynvillingar búa saman eins og hjón eða stunda öfuguggahátt sinn með hverjum sem er. Með öllum þessum happa-glappa tilraunum er fólk einungis að sá í holdið og það mun óhjákvæmilega uppskera angist, sektarkennd, afbrýði, sálræn áföll og sjúkdóma — oft ólæknanlega. Hið „nýja siðgæði“ skilar enn meiri eymd og hörmung en gamla siðleysið.

Margir aðrir leggja hamingjuna að jöfnu við auð og eignir, en því meiru sem þeir safna í kringum sig, því sterkari verður eignafíknin sem rekur þá áfram. Auglýsendur iða í skinninu og ala á lokkandi tálsýn um hina einu sönnu ímynd sem menn skuli gefa — ímynd sem byggist á því að klæðast fötum með réttum vörumerkjum, drekka vín af réttri tegund, eiga bifreið af réttri gerð eða hús frá réttum framleiðanda að viðbættri endalausri runu annarra hluta til að raða í kringum sig.

Vísindin ýta undir efnishyggjuholskefluna eins og líffræðingurinn René Dubos sagði í kvörtunartón: „Allt of oft er vísindunum beitt til tæknilegra nota sem eiga ekkert skylt við mannlegar þarfir og hafa það markmið eitt að búa til nýjar gerviþarfir.“ Þessar gerviþarfir, segir hann, „hafa ekki aukið hamingju manna eða gildi lífsins að marki“ þegar þeim hefur verið fullnægt. Í velmegunarríkjum heims hefur tækninni verið beitt til vitleysislegrar framleiðslu sem ætluð er til hugsunarlausrar neyslu. Hjá mörgum jaðrar fjáraustur neysluhyggjunnar við óviðráðanlega áráttu. Andleg verðmæti kafna undir holskeflu efnishyggjunnar.

Þegar Stewart Udall var innanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði hann: „Við eigum fleiri bifreiðar en nokkurt annað ríki heims — og verstu skranhaugana. Við ferðumst meira en nokkur önnur þjóð á jörðinni — og megum þola versta umferðaröngþveitið. Við framleiðum mestu orkuna og höfum óhreinasta andrúmsloftið.“ Hann sagði þetta fyrir mörgum árum og kallaði það „meiri háttar ógæfu sem varðaði heilt meginland.“ Núna, mörgum árum síðar, er þetta orðið að meiri háttar ógæfu sem varðar allan heiminn. Fyrir allmörgum árum lét borgarstjóri stórrar, bandarískrar borgar falla þá hnyttilegu athugasemd að „ef við gættum okkar ekki yrði okkar minnst sem kynslóðarinnar er sendi menn til tunglsins um leið og hún stóð sjálf í sorpi upp að hnjám.“ Núna, mörgum árum síðar, vara margir vísindamenn við því að við kunnum að vera síðasta kynslóðin.

Ef sjálfsvirðing okkar nærist eingöngu á hinum ytri eigum, en ekki okkar innra manngildi, verður hún fljótt þróttlítil og gerir okkur berskjölduð fyrir nagandi óánægju. Efnishyggjan, með sínum yfirborðskennda skrautbúningi, getur í engu fullnægt hinum djúpu innri þörfum mannsandans, og hún mun aldrei veita okkur hamingju. „Óheft fullnæging allra langana,“ sagði sálkönnuðurinn Erick Fromm, „stuðlar ekki af vellíðan og er ekki leiðin til hamingjunnar eða einu sinni unaðar í sinni æðstu mynd.“ En löngu fyrir daga Fromms sagði innblásinn spekingur þetta með enn hnitmiðaðri orðum: „Ég hef einnig komist að því hvers vegna fólk leggur svona mikið á sig til að komast áfram: Það er vegna þess að það öfundar nágranna sína af því sem þeir eiga.“ — Prédikarinn 4:4, Today’s English Version.

Sumir, niðurdregnir og vonsviknir, leita að fullnægju með því að sökkva sér niður í innihaldslaust vafstur í kringum sjálfa sig. Um þá viðleitni segir bókin The Culture of Narcissism: „Með því að fólk er orðið vonlaust um að bæta líf sitt á nokkurn þann veg sem máli skiptir, hefur það sannfært sig um að sálarleg sjálfsbót sé það sem er einhvers virði — að komast í tengsl við tilfinningar sínar, borða heilsufæði, sækja tíma í ballett eða magadansi, sökkva sér niður í speki Austurlanda . . . Það leggur rækt við fjörlegri viðburði, reynir að koma lífi í hvapkennt hold, reynir að skerpa sljóa lyst og langanir.“ — Bls. 29, 39, 40.

Þótt hamingjunnar sé leitað í hringiðu athafnasemi, nýjan lífsstíl eða vafstri í kringum sjálfan sig er aldrei hægt að finna sanna og varanlega hamingju með þeim hætti.

Hvað þarf þá til að svo menn verði hamingjusamir?