Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hamingja — það sem þarf til að finna hana

Hamingja — það sem þarf til að finna hana

Hamingja — það sem þarf til að finna hana

ÞÚ ÞARFT að anda, drekka, eta og sofa — það er augljóst. Líkami þinn krefst þess og þarfnast til þess eins að lifa. En meira, miklu meira er krafist til að gera þig hamingjusaman. Að sjálfsögðu þarft þú einnig að hafa fæði og klæði. Þú þarft að hafa aðrar efinslegar nauðsynar ásamt einföldum þægindum og lífsgæðum. Margir segja að mikið af peningum myndi gera þá hamingjusama — samt er margt ríkt fólk líka vansælt.

Hvaða skilyrðum þarf eiginlega að fullnægja til að gera okkur hamingjusöm?

Við skulum taka dæmi. Segjum að þú kaupir bifreið. Framleiðandinn gefur okkur upplýsingar um þarfir hennar — eldsneyti í eldneytisgeyminn, vatn í vatnskassann, loft í hjólbarðana, olíu í sveifarhúsið og svo framvegis. Við sjáum um að þörfum bifreiðarinnar sé fullnægt og hún rennur áfram ljúft og lipurt.

En hverjar eru okkar þarfir? Þær eru langtum flóknari en þarfir nokkurar vélar. Maðurinn hefur anda innra með sér sem þarfnast fleira en efnislegra hluta. Sé þessum þörfum andans innra með okkur ekki fullnægt njótum við engrar lífsfyllingar, engrar hamingju. Vinna þarf að hamingjunni innan frá því að við erum einfaldlega þannig úr garði gerð. Fullnægja þarf þörfum bæði líkama og anda. Jesús benti á það og sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ — Matteus 4:4.

Vera þarf jafnvægi milli hins efnislega og hins andlega. Sé annað hvort vanrækt skortir manninn eitthvað. Af því tvennu er oftar vanrækt það sem meira máli skiptir. Hamingjusamt líf er ekki offylli og óhóf. Hamingjusamur maður gerir sig ekki ánægðan með aðkeyptan, fjöldaframleiddan unað og vellíðan, hann leggur ekki skemmtun að jöfnu við það að fara á diskótek eða skemmtistað. Hann tilenkar sér visku Jesú sem sagði: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvitandi um andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, New World Translation) Því miður láta margir hið efnislega ganga fyrir hinu andlega, þá skortir frið og lífsfyllingu hið innra og þeir vita aldrei hvers vegna.

Sumir virtir vísindamenn hafa komið auga á orsökina fyrir því: Hin núverandi heimsskipan er meingölluð.

René Dubos segir: „Vísindaleg tækni er núna að leiða menninguna út á braut sem leiðir til sjálfstortímingar ef ekki verður snúið við í tæka tíð. . . . [Velmegunarþjóðirnar] haga sér eins og það að fullnægja tafarlaust öllum duttlungum þeirra og hvötum sé eini mælikvarðinn á hegðun . . . Hér er því ekki aðeins verið að misbjóða náttúrunni heldur er sjálf framtíð mannkynsins í húfi. . . . Ég efast um að mannkynið geti þolað fáránlega lífshætti okkar miklu lengur án þess að glata því sem er best í eðli mannsins. Vesturlandabúar verða annaðhvort að velja sér nýtt þjóðfélag eða þá að nýtt þjóðfélag mun útrýma þeim.“

Erick Fromm tekur í sama streng en álítur að „nýja þjóðfélagið og hinn nýi maður geti orðið að veruleika aðeins ef gömlu áhugahvatirnar ágóði, vald og gáfur víki fyrir nýjum. Því að vera til, deila með öðrum, skilja hver annan.“ Hann vísaði til skýrslu, sem gerð var að tilhlutan Rómarklúbbsins, þar sem sagt var að einungis með róttækum breytingum í umhverfis- og tæknimálum geti mannkynið „umflúið stórfelld umbrot sem að síðustu yrðu alheimsumbrot.“ Fromm sagði að þessar breytingar gætu orði aðeins ef fyrst yrði „grundvallarbreyting á eðlisgerð mannsins. . . . Í fyrsta skipti í sögunni er áframhaldandi tilvera mannkynsins komin undir róttækri breytingu á mannshjartanu.“ Albert Schweitzer tók undir það að vandamálin yrðu „á endanum aðeins leyst með innri breytingu á eðli mannsins.“

‚Grundvallarbreyting á eðli mannsins? Breyting á mannshjartanu? Hugarfarsbreyting?‘ Já! Og Biblían benti á það fyrir 19 öldum. „Hegðið yður eigi eftir öld þessari,“ segir þar, „heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins.“ Og enn segir: ‚Afklæðist hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðist hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.‘ — Rómverjabréfið 12:2; Kólossubréfið 3:9, 10.

„Verður þannig mynd skapara síns?“ Já, mynd Jehóva Guðs sem skapaði manninn í sinni líkingu! (1. Mósebók 1:27, 28) Það er sú mynd eða ímynd sem maðurinn ætti að reyna að tileinka sér. Þannig var hann úr garði gerður. Það er það sem ræður því hverjar eru andlegar þarfir hans. Að fullnægja þessum þörfum er allt sem þarf til að gera manninn hamingjusaman!

Jehóva er Guð sem hefur tilgang og hann vinnur til að sá tilgangur verði að veruleika. Maðurinn í mynd hans þarf líka að inna af hendi vinnu sem þjónar jákvæðum tilgangi. Það veldur vissum vanda. „Í iðnaðarþjóðfélagi nútímans,“ segir sálfræðingurinn Smiley Blanton, „finnur sífellt fleira fólk fyrir því að það . . . er ekkert nema örsmá tannhjól í gríðarstórri vél sem stýrt er af fjarlægri yfirstjórn. Vinna er orðin sérhæfð og samhengislaus að því marki að hún hefur litið eiginlegt gildi, og verkamanninum er breytt í nafnlausa fótafjöl fyrir einhvern annan til að stíga á.“

Við þessi skilyrði veldur flest vinna streitu og skortir tilgang. Samt höfum við brennandi þörf fyrir að lífið hafi tilgang. Sálfræðingurinn Viktor Frankl sagði: „Leitin að tilgangi í lífinu er helsta aflið sem knýr manninn. . . . Ég voga mér að segja að ekkert í heiminum geti hjálpað okkur að lifa af jafnvel verstu skilyrði betur en sú vitneskja að líf okkar hafi tilgang.“

En hvernig getum við fundið fyrir því að líf okkar hafi tilgang? Í ómælividdum alheimsins er jörðin okkar rétt eins og lítið rykkorn. Hvert okkar er aðeins einn af rúmlega fjórum milljörðum á þessari rykögn. Hvert okkar er litlu meira en amaban, teygjudýrið. Hvernig getum við skipt einhverju máli. Jafnvel Biblían segir að maðurinn sé eins og grasið sem visnar, blómið sem fölnar, skugginn sem liður hjá, gufa sem sést um stutta stund en hverfur síðan. (Sálmur 103:15, 16; 144:4; Jakobsbréfið 4:14) Nema . . . nema við getum fundið tengsl með okkur og hinum mikla og máttuga sem skapaði alheiminn. Nema þessi máttugi Guðs, sem skapaði okkur líka, hafi einhvern tilgang með okkur. Aðeins þá getur líf okkar haft gildi og enst lengur en grasið, blómið, skugginn og gufan.

Sú er einnig raunin. Maðurinn var skapaður af Guði og gefið það hlutverk að annast jörðina ásamt þeim dýrum og jurtum sem byggja hana. Þetta var verk sem hafði göfugan tilgang — en mannkyninu hefur mistekist hrapallega að inna það af hendi. Því hefur ekki aðeins mistekist að vinna verkið heldur er það í reyndinni að leggja jörðina í rúst. (1. Mósebók 1:28; 2:15; Opinberunarbókin 11:18) Með því hefur maðurinn rænt lífið þeim eina varanlega tilgangi sem það getur haft.

Menn hafa þörf fyrir Guð, innri hvöt sem knýr þá til að ‚leita Guðs ef verða mætti að þeir þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss.‘ (Postulasagan 17:27) Himinninn yfir höfðum okkar og jörðin í kringum okkur gefa okkur spegilmynd af eðli þessa mikla skapara. Ósýnilegir eiginleikar hans — máttur, viska, guðdómur — sjást í þeim verkum sem hann hefur gert. Án nokkurrar afsökunar, án nokkurrar skynsemi kenna margir að jörðin og lífið á henni hafi hreinlega þróast af blindri tilviljun. Með því afneita þeir þeim leiðarreglum og verðmætum sem maðurinn þarfnast svo mjög. Blindir leiða þeir blinda fylgjendur sína burt frá eina möguleikanum á djúpri og varanlegri hamingju. — Rómverjabréfið 1:20; Matteus 15:14.

Engu að síður fálma allir menn, jafnvel veraldarvitrir menntamenn, eftir einhverjum guði og oft finna þeir hvaða guð sem er annan en hinn eina og sanna og alvalda. Margir sálfræðingar gera sér ljósa hina meðfæddu þörf mannsins fyrir að tilbiðja mátt sem er þeim æðri. Rollo May sagði að í gegnum trú á Guð ‚öðlist einstaklingurinn tilfinningu fyrir smæð sinni og lítilvægi andspænis mikilleik alheimsins og tilgangi Guðs í honum. . . . Honum verður ljóst að til er tilgangur sem svífur eftir miklu stærri sporbaug en litli hnötturinn hans, og hann mun leitast við að koma sjálfum sér í samræmi við þann tilgang.‘

C. G. Jung sagði: „Sá maður, sem á sér ekki akkeri í Guði, getur ekki af eigin rammleik veitt mótstöðu líkamlegum og siðferðilegum fagurgala heimsins. . . . Trú er eðlislægt viðhorf sem er einkennandi fyrir manninn, og rekja má í gegnum alla mannkynssöguna hvernig hún hefur birst. . . . Hugmyndin um almáttuga, guðlega veru er allsstaðar, ef ekki viðurkennd vísvitandi þá meðtekin ómeðvitað . . . Þess vegna álít ég viturlegra að viðurkenna meðvitað hugmyndina um Guð; annars verður eitthvað annað að guði, yfirleitt eitthvað sem er algerlega óviðeigandi og fáránlegt.“

Öll saga mannkynsins sannar umfram nokkurn vafa hina meðfæddu tilbeiðsluþörf mannsins. Allt frá frumstæðustu ættbálkum upp í menningarsamfélög í fremstu röð hefur maðurinn búið sér til guði — stundum fáránlega. Steinar, tré, fjöll, dýr, mennskir leiðtogar, peningar, maginn, jafnvel Satan djöfullinn (sem vildi fá tilbeiðslu Jesú) hafa verið dýrkaðir af mönnum. Hin óvísindalega þróunarkenning er orðið að trú fyrir marga — trú sem byggist einvörðungu á ‚lukkugyðjunni.‘ Margir, sem fullyrða að þeir dýrki hinn sanna Guð, þjóna honum aðeins með vörunum og hafa á sér „yfirskyn guðhræðslunnar.“ (Jesaja 65:11; 2. Tímóteusarbréf 3:5; Filippíbréfið 3:19; Kólossubréfið 3:5; Matteus 4:9; 7:21) Maðurinn uppsker ekki djúpa lífsfyllingu eða varanlega hamingju fyrr en þörfinni á að tilbiðja hinn sanna Guð, Jehóva, er fullnægt réttilega, ásamt öllum öðrum þörfum hans. Þetta er veigamikill þáttur í því að gera okkur hamingjusöm.

Jehóva er Guð kærleikans. Sonur hans Jesús gaf líf sitt vegna kærleika síns til okkar. Tvö stærstu boðorðin eru þau að elska Guð og elska náunga okkar. Kærleikur hylur fjölda synda. Kærleikurinn agar okkur og æfir í réttlæti. Kærleikur er fullkomið einingarband okkar á meðal. Kærleikur er aðalsmerki lærisveina Jesú. Það er þessi tegund kærleika, þessi góðviljaði agape-kærleikur, sem bregst aldrei. — 1. Jóhannesarbréf 4:8; Jóhannes 15:13; Matteus 22:36-40; 1. Pétursbréf 4:8; Hebreabréfið 12:6, 11; Kólossubréfið 3:14; Jóhannes 13:35.

Það er þessi guðrækilegri kærleikur sem Páll postuli lýsir svo fagurlega í 1. Korintubréfi 13:4-8: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

Það er þessi kærleikur sem við verðum að endurspegla. Kærleikur er andleg þörf sem þarf að fullnægja til að við séum hamingjusöm. „Frumreglan, sem auðvaldsþjóðfélagið er byggt á, og frumregla kærleikans eru ósamrýmanlegar,“ sagði Fromm, og hann bætti við: „Kærleikur er eina heilbrigða og fullnægjandi svarið við vandamálum mannlegrar tilveru . . . frumþörf og raunveruleg þörf sérhverrar mannveru.“ Að fullnægja þessari þörf er nauðsynlegt til viðhalds lífinu að því er Smiley Blanton segir: „Án kærleika missum við lífslöngunina. . . . Sjálfskærleikur í vissum mæli er eðlilegur sérhverjum heilbrigðum manni. Hæfileg sjálfsvirðing er ómissandi við alla vinnu og árangursríkt starf. Ef við erum of hörð eða gagnrýnin á breytni okkar getur sektarkenndin veikt lífsviljann og, í öfgafullum tilvikum, valdið hreinni sjálfstortímingu.“

Löngu fyrr gaf Jesús til kynna að kærleikur manns til sjálfs sín og annarra væri eðlilegur. Hann sagði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikur styrkist við notkunina alveg eins og vöðvi. Á hinn boginn er kærleikur dauður án verka eins og trúin er dauð án verka. Til að uppskera kærleika þarf að sá kærleika. Kærleikur er það að gefa. „Gefið, og yður mun gefið verða.“ En sá sem elskar og gefur gerir það ekki til að fá endurgjald. Það eitt að gefa veitir sína umbun. Jesús sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ Sá sem gefur hann fær endurgjald, en hann gefur ekki til að fá endurgjald. — Matteus 22:39; Lúkas 6:38; Postulasagan 20:35; Jakobsbréfið 2:26.

Áþekkt því að gefa er að deila með öðrum, ekki efnislegum hlutum heldur hugmyndum, atvikum, gleði, þrám, innstu tilfinningum, jafnvel sorgum. Sálfræðingur sagði: „Einhver dýpsta hamingja, sem manninum hlotnast, er gleði sem hann deilir með öðrum.“ Hefur þú nokkurn tíma verið einn og horft sem bergnuminn á tilkomumikið sólsetur og óskað að ástvinur þinn væri hjá þér til að horfa á það með þér? Hefur þú einhvern tíma heyrt spennandi gleðifréttir en engan haft til að segja þær? Hefur þú horft með lotningu á úfnar, risavaxnar öldur skella af reginafli á klettóttri strönd sendandi sjávarstróka hátt í loft upp, og kennt til vegna þess að enginn var með þér til að horfa með þér á þessa hrifandi sjón? Eða jafnvel orðið fyrir einhverju átakanlega sorglegu, sem snerti þig djúpt, en þú munt aldrei geta tjáð öðrum til fullnustu? Við þráum að tjá öðrum tilfinningar okkar eins og Páll postuli sagði: „Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum. — Rómverjabréfið 12:15.

Þetta hlómar einfalt en það er líka rétt. Sálfræðingurinn James Fisher sagði: „Miklir hugsuðir . . . hafa varað við hættunum samfara því að elta jarðneska fjársjóði og hafa í einlægni mælt með einföldu lífi.“ Sönn ánægja er fólgin í hinu einfalda og þeim mikilfenglegu verkum sem Guð hefur gert: hinni dökku hvelfingu yfir okkur þaðan sem stjörnurnar blika og skína, hlýju sólarljóssins og svala golunnar; í angan blómanna, söng fuglanna og yndisþokka dýranna, í ávölum hæðum og þverhníptum klettum, í drynjandi fossum og lygnum ám, í gróðursælum engjum, þykkum skógum og glitrandi snjóbreiðum í sólinni, í dropahljóði regnsins sem fellur á þakið, suði hunangsflugunnar meðal blómanna, kvaki frosksins í pollinum og skvampi fisksins sem skilur eftir sig hringlaga gárur á vatninu.

Enn meiri ánægja er þó af viðkunnanlegu fólki því maðurinn var skapaður sem félagsvera með þörf fyrir að finna að hann tilheyri hópi eða samfélagi manna. Vingjarnleg hugsun, snerting eða látbragð, hlýlegt bros, kærleiksríkt verk, hlátur barns að leik, hjalandi ungbarn í vöggu, reisn, virðuleikur og viska gamals manns með mikla lífsreynslu — allt gefur þetta lífinu gildi og fyllingu.

Aðalatriðið er ekki hvað við sýnumst vera heldur hvað við erum í reyndinni, ekki staða okkar í þjóðfélaginu heldur kærleikur okkar, ekki það sem við getum fengið heldur það sem við getum gefið, ekki gullið sem við getum safnað okkur hér á jörðinni heldur fjársjóðurinn sem við eigum á himnum, ekki áhyggjurnar út af miklu heldur ánægjan með það litla sem við höfum. Ungi ríki höfðinginn átti margt og farísearnir virtust heilagir, en ungi ríki höfðinginn var ekki hamingjusamur og farísearnir voru ekki heilagir. Það gerir okkur vitur að hafa huga Guðs, að láta þessa visku stýra því hvernig við verjum kröftum okkar, að fylgja meginreglum hans til að tryggja réttvísi, að líkja eftir honum í að sýna kærleika — allt þetta þarf til að seðja það hungur sem hann hefur skapað innra með okkur.

Og allt þessa er það sem þarf til að gera okkur hamingjusöm.

[Innskot á blaðsíðu 5]

Áframhaldandi tilvera er „komin undir róttækri breytingu á mannshjartanu.“

[Innskot á blaðsíðu 7]

„Leitin að tilgangi í lífinu er helsta aflið sem knýr manninn.“

[Innskot á blaðsíðu 9]

„Án kærleika glötum við lífsviljanum.“

[Rammi á blaðsíðu 10]

Hamingja sem viska Guðs veitir

„Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum.“ — Sálmur 41:2.

„Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.“ — Sálmur 106:3.

„Sæl er sú þjóð, sem á [Jehóva] að Guði.“ — Sálmur 144:15.

„Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast. Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull.“ — Orðskviðirnir 3:13, 14.

„Sæll er sá, sem miskunnar sig yfir hina voluðu.“ — Orðskviðirnir 14:21.

„Sá sem gefur gætur að orðinu, hreppir hamingju, og sæll er sá, sem treystir [Jehóva].“ — Orðskviðirnir 16:20.

„Sælir eru þeir sem eru sér meðvitandi um andlega þörf sína.“ — Matteus 5:3, NW.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Maðurinn var skapaður af Guði og fengið það verkefni að annast jörðina og dýrin og jurtirnar á henni.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Hið einfalda er uppspretta ósvikinnar ánægju.