Horft á heiminn
Horft á heiminn
Svefn er heilsuvernd
Hjá mörgum eru helgarnar tími óhóflegrar afþreyingar og er þá oft vakað langt fram á nætur. En að því er dr. Carlos Suárez Zamudio, sem er deildarstjóri við mexíkönsku almannatryggingastofnunina, geta helgarnar gefið mönnum besta heilsulyfið til að fyrirbyggja sjúkdóma og alvarleg slys — svefn! Örlítið meiri svefn um helgar en endranær er besta læknislyf mannsins að sögn dr. Suarez Zamudio, að því er segir í dagblaðinu El Universal sem gefið er út í Mexíkóborg. Svefn hjálpar líkamanum til að jafna sig líkamlega og hugarfarslega, endurnýjar krafta hans, er honum sálræna upplyfting og býr manninn undir að vinna af nýjum krafti í vikunni á eftir, að hans sögn.
Fjárgróði gegn fólki
Alvarleg slys urðu í þrem þróunarlöndum á síðasta ári í tengslum við efna- og eldsneytisiðnað sem kostuðu yfir 3000 mannslíf. Í öllum slysunum voru fórnarlömbin fólk sem bjó í yfirfullum fátækrahverfum of nálægt iðjuverum. Eldar af völdum lekrar bensínleiðslu í Cubatao í Brasilíu og af völdum sprengingar í eldsneytisgeymi í Mexíkóborg urðu hér um bil þúsund fátæklingum að bana. Og versta iðnaðarslys í sögunni varð á Indlandi þegar eiturgas lak úr geymum skordýraeitursverksmiðju og drap að minnsta kosti 2000 manns sem bjuggu í grennd við verksmiðjuna.
Sum þróunarlandanna hafa annaðhvort ekki löggjöf sem aðskilur iðnaðarsvæði og íbúðarsvæði eða fylgir henni lítt eftir. „Og stjórnvöld eru ekki í aðstöðu til að herða reglurnar því að víða er viðkomandi iðnaður aðal tekjulindin,“ sagði ritstjóri skýrlsu um dreifingu hættulegra efna við fulltrúa Associated Press fréttastofunnar. Fátæk ríki, sem gera minni kröfur um öryggi en hin þróuðu, gætu hæglega orðið að „alþjóðlegum sorptunnum,“ segir í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. Svo virðist sem að í baráttunni „fjárgróði gegn fólki“ sé það venjulega fátæka fólkið sem tapar.
Áhrif hungursneyðar á börn
Ein milljón eþíópskra barna undir fjögurra ára aldri sveltur, og sennilega mun helmingur þeirra bíða varanlegt tjón vegna hungursneyðarinnar, að því er segir í The New York Times. „Augljóst er að upp mun vaxa kynslóð eþíópskra barna sem ekki mun ná fullum vexti, hvorki líkamlega né hugarfarslega, vegna þurrkanna sem nú eru þar,“ segir framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Matvæla- og lyfjasendingar geta hjálpað aðeins um stuttan tíma. Í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum er spáð: „Engar horfur eru á að linni hinum þöglu þjáningum sem eru tvímælalaust verstu hörmungar sem menn hafa orðið fyrir á síðari tímum í Afríku.“
Ný reikistjarna fundinn?
Hópur bandarískra vísindamanna við University of Arizona og National Optical Astronomy Observatories hefur uppgötvað hnött utan okkar sólkerfis líkan reikistjörnu. Hann er á stærð við Júpíter. Þeir telja að þessi stóri, gaskenndi hnöttur, sem er á braut um fjarlæga stjörnu í stjörnumerkinu Naðurvaldi, sé reikistjarna — sú fyrsta sem fundist hefur utan okkar sólkerfis. En ekki eru allir stjörnufræðingar á eitt sáttir um það. Sumir halda fram að hér sé hvorki um að ræða reikistjörnu né raunverulega stjörnu, heldur geti þetta verið fyrsta vitneskjan um nýjan flokk himintungla sem kallast brúnir dvergar. En hvort heldur er þykir þeim öllum þetta vera athyglisverður og spennandi fundur. Þetta nýfundna himintungl er í 21 ljósárs fjarlægð frá jörðu — sem er um 198 billjónir kílómetra.
Starfandi heili
„Fólk sem beitir heilanum á miðjum aldri við viðfangsefni svo sem að ráða krossgátur hefir
meiri líkur á að viðhalda hæfni hugans á efri æviárum en þeir sem eru latir að beita huganum,“ segir dagblaðið The Vancouver Sun í frétt um niðurstöður rannsókna við Pennsylvania State University. Rannsóknirnar, sem hófust árið 1956, voru byggðar á prófunum sem gerðar voru á sjö ára fresti á 400 manns, og upplýsingum sem það gaf um störf sín, tekjur, tómstundaiðju og ferðalög. „Augljósrar hrörnunar varð vart hjá þeim sem ekki lifðu sérlega örvandi lífi.“ sagði Warner Schale sem er prófessor í mannlegum þroska og sálfræði og talinn góður heimildarmaður um öldrun. Í niðurstöðunum var þess getið að erfðir og lífeðlisfræðileg atriði hefðu áhrif á hæfni hugans hjá öldruðu fólki, en þær hrekja þá hugmynd að fólk fái engu ráðið um dvínandi getu hugans þegar það eldist, að því er Schale segir.„Málhús“ S.Þ.
„Tæplega nokkur maður hefur tekið eftir þriggja mánaða langri, árlegri helgiathöfn sem nú er að ljúka í New York.“ Svo sagði í tímaritinu The Economist og var þá átt við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna árið 1984 sem stóð frá september til desember. Tímaritið benti á að flestar stjórnir heims sendu þangað fulltrúa „til að flytja ræður og þrefa um ályktanir.“ Þar sagði einnig að „með sárafáum undantekningum féllu þessar ályktanir samstundis í gleymsku. Á hverju þingi verða til talsvert yfir 200 ályktanir sem telja samtals um fjórðung úr milljón orða. Mestur hluti þessa orðaskrúðs er tilgangslaus endurtekning ár eftir ár.“ Blaðið kallaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna „dæmigert leiðinlegt, gagnslaust og dýrt málhús“ og fullyrti að er það „myndi skera niður árleg afköst sín í til dæmis 50 ályktanir gæti kannski heilmingur þeirra haft einhver raunveruleg áhrif.“
Fiskiveiðar með hjálp gervihnattar
Sjávarútvegurinn er farinn að færa sér í nyt veðurathugunarhnetti til að leita uppi bestu fiskimiðin, að sögn Asahi Evening News í Japan. Hvernig er það gert? Bandaríski gervihnötturinn NOAA, sem „sér öll úthöf veraldar, sendir gögn byggð á innrauðum myndum til jarðar á nokkurra klukkustunda fresti fyrir hvern hluta hafsins. Móttökutæki í fiskiskipum vinna úr gögnunum þannig að sjómennirnir geta lesið hitastig sjávar af 16 mismunandi litum sem koma fram á skjá. Á því geta þeir séð hvar hafstraumar mætast en þar eru oft góð fiskimið. Í tilraun, sem gerð var á sínum tíma, veiddu nokkrir fiskibátar 10 tonn af fiski af makrílætt með hjálp þessarar tækni. Nú þegar eru 20 fiskiskip búin þessum tækjum.
Greiðslukortasvik
Greiðslukortasvik nema hundrað milljónum dollara á ári í Bandaríkjunum núna og eru í örum vexti samkvæmt frétt í The Toronto Star í Kanada. „Oft er notuð sú aðferð að flytja vel æfða, sannfærandi lofræðu í gegnum síma“ þar sem boðnir eru til sölu örbylgjuofnar, fiskibátar, sjónvarpstæki, skemmtisiglingar og fleira, allt með miklum afslætti, að því er segir í fréttinni. „Það er beitan til að ná í númerið á greiðslukortinu.“ Síðan er búið til falsað kort með því númeri. Stundum bregða glæpamenn sér í gervi fullgildra kaupmanna og nota hin illa gengnu númer á fölsuðum greiðslukortanótum sem þeir framvísa í banka í skiptum fyrir reiðufé. Þegar bankinn loks uppgötvar svikin er „kaupmaðurinn“ á bak og burt. Greiðslukortahöfum er ráðlagt að gefa ekki upp númerið á greiðslukorti sínu í síma nema þeir séu að skipta við heiðvirt fyrirtæki. Geymið kvittun korthafans og takið með ykkur kalkipappírinn, sem fylgir nótunum, og eyðileggið hann þegar þið komið heim. Að lokum er ráðlegt að fara vandlega yfir mánaðaryfirlitið til að sjá hvort þar séu nokkrar svikafærlsur.
Kvef af höndum
„Vaxandi, vísindaleg rök eru fyrir því að hundruð veira, sem valda venjulegu kvefi, berist aðallega með höndum manna en ekki við það er menn hósta eða hnerra.“ Svo sagði í International Herald Tribune í París þar sem greint var frá nýlega afstöðnum tilraunum tveggja hópa vísindamanna í læknisfræði. Báðir hóparnir, annar við University of Virginia og hinn við University of Wisconsin, sýndu fram á að ný tegund andlitsþurrka, sem fengið hafði sérstaka efnameðhöndlun, kom algerlega í veg fyrir kvefsmit við tilraunaaðstæður. En rannsóknirnar í Virginia sýndu fram á að þótt venjulegar andlitsþurrkur kæmu einnig að notum gat smit borist ef þeir sem kvefaðir voru tókust í hendur við þá sem ekki voru það. Talið er að veirurnar berist af höndum hins kvefaða, en þangað berast þær við það að hann snertir nef og nasir, yfir á hendur heilbrigðra sem síðan sýkjast við það að snerta sitt eigið nef eða augu. Í skýrslunni er mælt með ódýrri og gamaldags aðferð til að koma í veg fyrir að smita aðra af kvefi — „að snýta sér oft með venjulegum andlitsþurrkim og halda höndunum hreinum.“