Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve áreiðanlegir eru spádómar Biblíunnar?

Hve áreiðanlegir eru spádómar Biblíunnar?

Hve áreiðanlegir eru spádómar Biblíunnar?

ÁHUGI á framtíðinni er manninum eðlilegur. En hvað vita menn í rauninni um það sem framtíðin ber í skauti sínu? Er ekki reyndin sú að spár manna bregðast oft vegna ófyrirsjáanlegra atvika eða vegna atburða sem fólk vonar í örvæntingu að gerist ekki og neitar því að taka með í reikninginn?

Þýðir þetta að enginn geti sagt fyrir um framtíðina? Hvað um hinar fjölmörgu spár Biblíunnar? Eru þær áreiðanlegar? Sumir þessara spádóma varða uppgang og fall heimsvelda. Þar er fjöldi spádóma um fæðingu, ævi og dauða Jesú Krists. Aðrir snúast um ástandið á jörðinni á endalokatíma veraldar, og boða að á eftir þeim tímum komi ný skipan undir stjórn Guðsríkis.

Voru sumir skráðir eftir að þeir rættust?

Það er sú niðurstaða sem guðsafneitarar hafa komist að. Við skulum taka sem dæmi orð Jesú um eyðingu Jerúsalem og musteris hennar sem sögð var eiga að gerast á æviskeiði þeirrar kynslóðar sem heyrði hann mæla fram spádóminn. Um þennan spádóm segir sovéska alfræðibókin The Great Soviet Encyclopedia sem beitir sér fyrir guðsafneitun: „Í ljósi þess hversu oft guðspjöllin vísa til uppreisnar Gyðinga á árunum 66-70 er auðsætt að þau hafa ekki getað verið rituð fyrir árið 70. Enn fremur hafa varðveist papýrusslitur af Jóhannesarguðspjalli sem eru frá því um árið 125. Þar af leiðandi virðist rökrétt að ætla að guðspjöllin hafi verið skrifuð einhvern tíma um aldamótin 100.“

Rétt er að Jóhannesar guðspjall var skrifað „um aldamótin 100,“ nánar tiltekið árið 98, en svo er ekki um hin guðspjöllin þrjú. Vitnisburður fjölmargra kristinna manna frá þessum tíma og skrár þeirra um biblíubækur, sem allar bera því vitni að þessar frásögur séu ósviknar, eru traustar sögulegar heimildir. Guðspjöll Matteusar, Markúsar og Lúkasar voru skrifuð áður en Rómverjar réðust á Jerúsalem árið 66, en um það var spáð í þeim öllum. — Matteus 24:15, 16; Markús 13:14-20; Lúkas 19:41-44; 21:20-24.

Athyglisvert er að söfn veraldar, sem geyma fornar menjar, eru full af biblíuhandritum með spádómum sem skrifaðir voru mörg hundruð árum áður en þeir rættust. Til dæmis segir The Great Soviet Encyclopedia að Dauðahafshandritin hafi verið „skrifuð á bilinu frá annarri öld f. Kr. til ársins 68 e. Kr.“ Hvaða ályktun á hugsandi maður að draga af því?

Eitt elsta Dauðahafshandritið er handrit Jesajabókar (MS. 1). Um þetta handrit sagði hinn kunni prófessor í fornleifafræði, Yigael Yadin, fyrir skömmu: „Bókrollan . . . geymir alla kafla Jesajabókar frá fyrsta til 66. . . . Þetta er elsta heila biblíuhandritið sem nú er til í heiminum. Ekki hafa liðið nema 5 til 600 ár frá því að Jesaja bókstaflega talaði þangað til þessi bók var afrituð á 2. öld f. Kr. Það er furðulegt að sjá hversu lík þessi bókrolla er Biblíunni sem við lesum núna, annaðhvort á hebresku eða þýðingum hennar úr frumhebreskunni á ensku eða önnur tungumál, þótt hún sé yfir 2000 ára gömul.“

Taktu eftir atriðum númer 1, 10, 11 og 17 í skránni á blaðsíðu 26 og 27. Þar eru fáein dæmi um spádóma, sem Jesaja skráði, og rættust löngu eftir að Dauðahafshandrit Jesajabókar voru gerð. Þessi staðreynd og margar fleiri sanna að spádómar Biblíunnar voru í reyndinni skráðir áður en atburðirnir gerðust. En þú kannt að spyrja:

Eru þeir óljósir eða nákvæmir?

Spasagnamenn eins og Nostradamus notuðu oft margrætt orðalag sem túlka má á fleiri en einn veg. Þeir gerðu það til að vernda sig fyrir þeim hnekki sem það yrði fyrir þá ef spár þeirra rættust ekki. Má segja hið sama um spádóma Biblíunnar? Eru þeir óljósir eða eru þeir nákvæmir?

Þegar þú skoðar skrána á næstu opnu munt þú sjá að spádómarnir eru nákvæmir. Sagt var greinilega fyrir um að Babýlon og Edom myndu leggjast í eyði aðeins um tíma, reyndar um ákveðinn, tilgreindan tíma — 70 ár. (Jeremía 29:10) Meira að segja sagði Jesaja 190 árum fyrirfram hvað sá myndi heita sem sigraði Babýlon — Kýrus. Jesaja spáði því um Messías að dauði hans yrði settur í samband við illræðismenn, svo og hina ríku. Frásögur guðspjallanna lýsa því skýrt og greinilega að Jesús hafi verið líflátinn með tveim afbrotamönnum og síðar lagður í gröf ríks manns. — Jesaja 53:9; Lúkas 23:32; Jóhannes 19:38-42.

Ástæðan fyrir því að spádómar Biblíunnar eru nákvæmir er sú að þeir koma frá aðila sem er manninum æðri. Skaparinn, Jehóva Guð, sem innblés mönnum að færa þessar spár í letur, veit hvernig mennirnir eru gerðir og hvað kemur þeim til að breyta eins og raun ber vitni. Hann getur sagt fyrir með nákvæmni hvernig fari fyrir fólki sem hlýðir réttlátum boðum hans og þeim sem reyna að láta þau sem vind um eyru þjóta. Hann veit hver er tilgangur hans og ræður yfir visku og mætti til að tryggja að hann rætist. Hann segir: „Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. . . . Allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.“ — Jesaja 46:9, 10.

Atriði númer 14-17 í meðfylgjandi skrá vekja athygli á sönnunargögnunum fyrir því að við lifum á þeim tíma sem Biblían kallar ‚síðustu daga.‘ ‚Síðustu daga‘ hvers? Alls kerfisins um allan hnöttinn sem hafnar drottinveldi Jehóva yfir alheimi, annaðhvort með því að láta sem Guð sé ekki til eða með því að gefa stórbrenglaða mynd af vegum hans. Biblían sýnir okkur að hræsnisfull og fölsk trúarbrögð munu líða fyrst undir lok fyrir hendi stjórnmálaafla þessa heims á tilsettum tíma Guðs. (Opinberunarbókin 17:16, 17; 18:2-8) Að því búnu mun Guðsríki sjálft knosa allar stjórnir mannanna — sem hafa allar blóði drifnar hendur og setja sínar eigin langanir ofar boðum Guðs — og sameina allan heiminn undir eina stjórn Guðs. — Daníel 2:44; 7:13, 14.

Undir ríki Guðs munu þeir sem lifa af áðurnefnd endalok loksins njóta ósvikins friðar þar sem verður nægur matur, ekki aðeins fyrir sumar þjóðir og þjóðfélagshópa heldur fyrir allt mannkynið. (Sálmur 37:10, 11; Jesaja 25:6) Sjúkdómar og dauði munu heyra fortíðinni til. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Jafnvel þeir dánu menn, sem Guð kýs að muna eftir, verða reistir upp. — Jóhannes 5:28, 29.

Munu allir þessir dýrlegu spádómar í raun og veru rætast? Engin gild ástæða er til að efast um það. Hundruð annarra spádóma hafa reynst áreiðanlegir svo að við getum treyst því skilyrðislaust að þessir muni líka rætast.

Hvernig getur þú lifað af eyðingu þessa gamla kerfis, sem spáð hefur verið, og komist inn í nýjan skipan Guðs? Spámaðurinn Sefanía svarar: „Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu . . . Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ — Sefanía 2:3.

[Skýringarmynd á blaðsíðu 28, 29]

Nokkrir biblíuspádómar og uppfylling þeirra

Efni spádóms

1. Babýlon, sem átti eftir að verða höfuðborg mikils heimsveldis, átti að verða að auðn og aldrei verða byggð á ný. Jesaja 13:19, 20

Hvenær fluttur

Fyrir 732 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

900 árum síðar,

Staðfesting á uppfyllingu

„Babýlon glataði forystuhlutverki sínu og var horfin af vettvangi sögunnar á annarri öld e.Kr.“ — The Great Soviet Encyclopedia, ensk útg. 1974, 4. bindi, bls. 8.

Efni spádóms

2. Valdhafi að nafni Kýrus átti að sigra Babýlon. Jesaja 45:1-3; 47:1-5

Hvenær fluttur

Fyrir 732 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

193 árum síðar,

Staðfesting á uppfyllingu

„Kýrus persakonungur tók Babýlon árið 539 f.Kr.“ — Sama, bls. 9.

Efni spádóms

3. Á eftir Babýlon myndi koma medísk-persneska heimsveldið, táknað af tvíhyrndum hrúti. Hærra hornið spratt síðar upp. Daníel 8:1-4, 20

Hvenær fluttur

Um 551 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

12 árum síðar, árið 539 f.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Meðaveldi var fyrst í röðinni en Persaveldi, sem kom á eftir því, varð öflugra. — Encyclopedia Britannica útg. 1959, 15. bindi bls. 172 og 17. bindi bls. 550

Efni spádóms

4. Einhyrndur getihafur, sem táknaði Grikkland undir stjórn voldugs konungs, myndi brjóta hið tvíhyrnda medísk-persneska heimsveldi. Daníel 8:5-7, 21

Hvenær fluttur

Um 551 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

217árum síðar, árið 334 f.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Alexander mikli gersigraði Persaveldi og grundvallaði þar með gríska heimsveldið. — The Outline of History eftir H. G. Wells, 1921, bls. 321.

Efni spádóms

5. Þessi voldugi konungur Grikklands félli þegar vald hans yrði mest. Heimsveldið gengi ekki til afkomenda hans heldur klpfnaði í fernt. Daníel 11:2-4

Hvenær fluttur

539 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

216 árum síðar, 323 til 301 f.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Alexander lést úr mýraköldu 33 ára gamall; stuttu síðar voru báðir synir hans myrtir. Eftir stríð milli hershöfðingja hans skiptist veldi hans milli Selevkosar, Ptólómeusar, Lýsimakosar og Cassanders. — Sama, bls. 336, 337.

Efni spádóms

6. Hin auðuga hafnarborg Týrusar yrði unnin af Nebúkadnesar konungi. Svo rækileg yrði eyðingin að jarðveginum yrði sópað burt og fiskimenn myndu þurrka net sín þar. Esekíel 26:4-7

Hvenær fluttur

607 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

275 árum síðar, árið 332 f.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Nebúkadnesar eyddi borgarhlutanum á meginlandinu. Öldum síðar sópaði Alexander rústum borgarinnar í sjóinn, gerði veg út í eyborgina og vann hana. Nú á dögum má stundum sjá þar fiskinet lögð til þerris. — Encyclopedia Britannica 1959, 22. bindi bls. 653.

Efni spádóms

7. Júdaríkið yrði lagt í auðn, fjársjóðir þess og þegnar fluttir til Babýlonar. (Þessi spádómur var borinn fram á tímum hins volduga Assýríuríkis meðan Babýlon var enn lénsríki þess.) Jesaja 39:5-7

Hvenær fluttur

Fyrir 732 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

125 árum síðar, árið 607 f.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

„‚Diaspora‘ getur um tilvist Gyðinga utan Palestínu, einkum eftir útlegð þeirra af völdum Nebúkadnesars II Babýloníukonungs.“ — The Great Soviet Encyclopedia, ensk útg. 1975, 8. bindi bls. 198.

Efni spádóms

8. Sigurvegari Babýlonar, Kýrus, skyldi sleppa Gyðingunum. Þeir myndu endurbyggja Jerúsalem og musteri hennar og verða vitnisburður þess að Jehóva er Guð sannra spádóma. Jesaja 43:8-10, 14; 44:26-28

Hvenær fluttur

Fyrir 732 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

195 árum síðar, frá 537 f.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

„Gyðingar . . . sneru aftur . . . til Jerúsalem frá Babýloníu á tímum Kýrusar. — The Outline of History eftir H. G. Wells, 1921, bls. 230. Fyrstu aldar sagnfræðingurinn Flavíus Jósefus skráði uppfyllinguna í fornaldarsögu sinni.

Efni spádóms

9. Hinn langþráði messíasarkonungur Ísraels myndi fæðast í Betlehem. Míka 5:1

Hvenær fluttur

Fyrir 716 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

714 árum síðar,

Staðfesting á uppfyllingu

Matteus 2:1 og Lúkas 2:1-14 staðfesta að Jesús hafi fæðst í Betlehem árið 2. f.o.t.

Efni spádóms

10. Hann myndi fæðast af mey. Að lokum myndi hann, sem konungur útvalinn af Guði, láta alla mennska valdhafa svara til saka, þeim til mikillar undrunar, og koma á varanlegum friði á jörðinni. Jesaja 7:14; 9:6, 7; 52:13-15

Hvenær fluttur

Fyrir 732 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

730 árum síðar, árið 2 f.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Matteus 1:18-23 og Lúkas 1:26-2:14 skýra frá undraverðri fæðingu Jesú af mey. Jafnvel Kóran múhameðstrúarmanna viðurkennir hana í súra III, versum 40-48. Brátt mun hann, í Harmagedón, gereyða öllu stjórnmálaskipulagi veraldar.

Efni spádóms

11. Fyrst yrði þessi messíasarkonungur auðmýktur og líflátinn af sinni eigin þjóð, þrátt fyrir að hann læknaði menn af meinum sínum. Dauði hans myndi friðþægja fyrir syndir mannanna. Jesaja 53:3-12

Hvenær fluttur

Fyrir 732 f.o.t.

Hvenær uppfylltur

760 árum síðar, frá 29-33 e.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Guðspjöllin fjögur bera vitni um kraftaverkalækningar Jesú, svo og þjáningar hans og dauða af hendi Gyðinga. (1. Korintubréf 15:3-8) Í hans nafni er hjálpræði prédikað um víða veröld.

Efni spádóms

12. Jerúsalembúar, sem myrtu hann, myndu sjá borg sína umkringda herfylkingum. Borgarbúar myndu þó ekki falla í þeirri árás. Hún yrði tákn fyrir fylgjendur Jesú um að flýja borgina og Júdeu. Lúkas 21:20-24

Hvenær fluttur

33 e.o.t.

Hvenær uppfylltur

33 árum síðar, árið 66 e.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Chronicles — News of the Past eftir Israel Eldad og Moshe Aumann gefur sögulega lýsingu á 30. degi tunglmánaðarins tísrí árið 66 e.o.t.: „Rómverjar sækja að Jerúsalem, hefja umsátur um borgina.“ Síðar í ritinu segir: „HER RÓMVERJA GERSIGRAÐUR . . . nálega 6000 rómverskir hermenn og riddarar . . . felldir.“

Efni spádóms

13. Í næstu atrennu skyldi herinn vinna borgina. Hann myndi umkringja hana og reisa um hana hervirki úr oddhvössum staurum. Borgarbúar yrðu drepnir og musterið jafnað við jörðu. Kynslóðin, sem Jesús prédikaði fyrir, yrði látin svara til saka fyrir að úthella blóði spámanna Guðs. Lúkas 19:43, 44; 21:5, 6; 11:47-51

Hvenær fluttur

32 og 33 e.o.t.

Hvenær uppfylltur

37 árum síðar, árið 70 e.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Chronicles — News of the Past lýsir 10. degi mánaðarins ab árið 70 e.o.t.: „JERÚSALEM FELLUR; MUSTERIÐ Í LJÓSUM LOGUM . . . Yfir milljón fallnir . . . Sumir hlutar musterisins voru enn að brenna . . . Annað var ekkert annað en rjúkandi rústir.“ Sjá einnig frásögn Flavíusar Jósefusar, sem var sjónarvottur, í Wars of the Jews.

Efni spádóms

14. Tákn um að endir núverandi heimsskipanar sé nálægur — miklar styrjaldir, útbreiddur matvælaskortur, jarðskjálftar, prédikun fagnaðarerindisins um hina komandi heimsstjórn Guðs. Allt þetta, ásamt ‚endinum,‘ myndi gerast innan einnar kynslóðar. Matteus 24:3, 7, 14, 21, 32-34

Hvenær fluttur

33 e.o.t.

Hvenær uppfylltur

1881 árum síðar, frá 1914 e.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Frá 1914 hefur heimurinn séð tvær heimsstyrjaldir, hinar einu í sögunni. Fjórðungur jarðarbúa sveltur, 40 milljónir deyja ár hvert. Einnig hefur verið veruleg aukning jarðskjálfa á þessari öld. Aðeins á árinu 1984 vörðu vottar Jehóva yfir 505 milljónum klukkustunda til að prédika „fagnaðarerindið“ út um heiminn.

Efni spádóms

15. Á „síðustu dögum“ yrði veruleg aukning á siðleysi, skemmtanafíkn, afbrotum, fjölskylduerfiðleikum, og unglingaafbrotum. 2. Tímóteusarbréf 3:1-5

Hvenær fluttur

Um 65 e.o.t.

Hvenær uppfylltur

1849 árum síðar, frá 1914 e.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Glæpir, ofbeldi og hryðjuverk eru sem plága í heiminum. Hjónaskilnuðum fjölgar ört og kynsjúkdómar eru sem faraldur. Ungt fólk yfirleitt ófúst til að lúta yfirvaldi.

Efni spádóms

16. Margir myndu gera gys að öllum sönnunargögnum þess að ‚síðustu dagar‘ núverandi heimsskipanar væru runnir upp. 2. Pétursbréf

Hvenær fluttur

Um 64 e.o.t.

Hvenær uppfylltur

1850 árum síðar, frá 1914 e.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Sífellt verður vinsælla að skoða Biblíuna með efagirni. Margir hæðast að hugmyndinni um að endalok illskunnar séu í nánd.

Efni spádóms

17. En á „hinum síðustu dögum“ myndi fólk af öllum þjóðum hjálpa hvert öðru af ákefð að læra um vegu Jehóva og allt myndi það hætta að temja sér hernað. Jesaja 2:1-4

Hvenær fluttur

Fyrir 732 e.o.t.

Hvenær uppfylltur

2666 árum síðar, frá 1935 e.o.t.

Staðfesting á uppfyllingu

Yfir 2.800.000 vottar Jehóva í 203 löndum verja tíma til að hjálpa öðrum að læra sannindi Biblíunnar. Alkunnugt er að þetta alþjóðlega bræðrafélag tekur ekki þátt í hernaði.