Hve mikið er of mikið?
Hve mikið er of mikið?
ÁFENGI getur verið gott eða mjög slæmt. Það getur gert þig glaðan eða mjög hryggan. Það er undir því komið hvert það fer og hversu mikið kemst þangað. Lítið eitt af víni getur verið gott fyrir magann og glatt hjart þitt. (1. Tímóteusarbréf 5:23; Sálmur 104:15) Of mikið getur valdið þér óþægindum út um allan líkamann — og líka valdið þeim sem eru í kringum þig óþægindum.
Í hófi getur vínblanda, glas af léttu víni eða áfengu öli hjálpað þér að slaka á og létt af þér um stund áhyggjum, gert þér glatt í geði og gert þig viðfelldnari eða mannblendnari. Það getur jafnvel veitt þér nokkra vörn gegn hjartaáfalli því að það dregur úr streitu og hækkar hlutfall háþéttilípópróteina (HDL) í líkama þínum. En jafnvel í lítlu magni hægir áfengi á viðbrögðunum þínum svo að óhyggilegt er að aka bifreið jafnvel eftir að þú hefur drukkið í hófi. Og áfengi er auðugt af hitaeiningum svo að það á ekki sérlega vel við þig ef þú ert að berjast við aukakílóin.
Við skulum fylgjast með vínblöndunni þinni á leið hennar í gegnum líkamann. Hún hefur ekki langa viðdvöl í tómum maga, og í þörmunum berst vínandann fljótt út í blóðrásina. Blóðið ber hann til lifrarinnar þar sem hann er brotinn niður og skilinn út úr blóðinu. Lifrin getur á einni klukkustund brotið niður og skilið út vínandann í einu glasi af vínblöndu, einu glasi af léttu víni eða einni dós af áfengu öli.
Ef þú drekkur meira en það á klukkustund verður vínandi eftir í blóðinu og berst til heilans. Þangað komið getur örlítið gert þig viðfelldinn en of mikið leiðinlegan. Ef einn fimmhundraðasti úr prósenti af heildarrúmmáli blóðs þíns er vínandi verður þú kenndur; en með tíu til fimmtán hundruðustu telst þú lögum samkvæmt ölvaður.
En hvað gerist þegar þú drekkur of mikið og áfengið berst um líkama þinn? Fyrsti viðkomustaður er maginn. Þar getur það skemmt slímhimnuna sem verndar innra borð magans gegn magasýrunni. Það getur líka látið magann gefa frá sér meiri sýru.
Vínandi dregur vatn úr líkamsfrumum þínum. Óhóflegt magn áfengis þurrkar upp lifrarfrumurnar og eyðileggur þær að síðustu þannig að þú situr eftir með skorpulifur. Sködduð lifur getur ekki lengur tryggt blóðrásinni nægan sykur þannig að hætta er á of lágum blóðsykri. Lifrin glatar smátt og smátt hæfni sinni til að losa út vínanda úr blóðinu. Þá berst vínandinn út um líkamann og dregur vatn og drepur frumur út um allt. Æðarnar þrengjast, blóðstreymi til hjartans minnkar og hjartvöðvarnir verða slappir.
Þegar vínandinn berst til heilans dregur hann vatn úr heilafrumunum og truflar rafboð heilans. Þegar vínandinn yfirgefur líkamann draga heilafrumurnar aftur til sín vatn. Sé hins vegar drukkið of mikið um langan tíma getur það skert greindina og minnið. Heilinn skreppur saman þegar frumurnar eyðileggjast og gáfnastuðullinn lækkar varanlega.
Of mikil drykkja getur kallað fram kvenleg einkenni hjá karlmönnum. Karlmenn framleiða bæði karl- og kvenhormóna en lifrin eyðir kvenhormónunum. Sködduð lifur gerir það hins vegar ekki. Mikil drykkja eykur líkurnar á fósturláti eða andvanaburði hjá barnshafandi konum. Ef barnið fæðist lifandi er veruleg hætta á fæðingargöllum.
Fyrir barnshafandi konur og drykkjusjúklinga er jafnvel örlítið af áfengi of mikið. Hjá körlum og konum yfirleitt kemst aðeins örlítil vínandi til heilans við hóflega drykkju. Nokkrir drykkir með stuttu millibili er of mikið fyrir hvern sem er. Einn drykkur fyrir áfengissjúkling er einum of mikið.
Niðurstaða málsins er þessi: Drekktu lítið eitt af víni vegna magans, en ekki of mikið vegna lifrarinnar, hjartans og heilans — og vegna þeirra sem eru í kringum þig.