„Trúboð England“ — glatað tækifæri
„Trúboð England“ — glatað tækifæri
Eftir fréttarítara „Vaknið“ á Bretlandi
AÐ BRESK dagblöð eyði yfir 120.000 dálksentimetrum í að segja frá trúarbrögðum — einhverjum trúarbrögðum — hlýtur að vera nokkurs konar met. „Trúboð England,“ krossferð sumarið 1984 með Billy Graham og Luis Palau í sviðsljósinu, var sannarlega gerð skil í dagblöðunum. Fjöldasamkomur í 6 fjölmennum borgum víða um Bretland voru tengdar herferðinni í London til að draga að tugþúsundir manna. Hvers vegna var talin þörf fyrir slíkri krossferð? Hvernig tóku íbúar Bretlandseyja vakningarprédikun í amerískum stíl? Hvað ávannst með þessari herferð sem nefnd var „trúboð England“?
Í 10 ár höfðu menn velt fyrir sér þeirri hugmynd að bjóða Billy Graham til Englands, en árið 1980 voru ýmsir háttsettir kirkjuleiðtogar enn á móti því og fóru ekki dult með það. Vafalaust mundu þeir eftir síðustu stóru krossferð Billy Grahams árið 1967 og því að ári síðar héldu, samkvæmt skoðunarkönnun, aðeins 5 af hundraði þeirra, sem lýst höfðu opinberlega yfir trú sinni og byrjað að sækja kirkju, áfram að gera það.
Engu að síður studdu margir þessi áform skilyrðislaust sökum þess hversu illa þeim þótti komið fyrir trúarlífi manna á Bretlandseyjum. „Bretland þarfnast andlegrar endurnýjunar,“ sagði formaður „trúboð England“ herferðarinnar, Tonypandy lávarður sem er meþódisti. Davið Sheppard, biskup í Liverpool, benti á: „Það er fullt af fólki, bæði innan kirknanna og við jaðar þeirra . . . sem þarf á slíkri áskorun að halda til að hætta að tvístíga, og til að fela sig á hendur Jesú Kristi sem fylgjendur hans.“ Var því nokkru að tapa? Eins og dagblaðið The Times benti á varð „trúboð England“ loks að eins konar „fjöldahreyfingu sem flestir kirkjuleiðtogar slógust fúslega í lið með.“
En jafnvel þegar sjálft trúboðið hófst héldu gagnrýnisraddir áfram að heyrast frá klerkastéttinni. Dagblaðið Sunday Telegraph skýrði frá því að Richard Jones, höfuð meþódistakirkjunnar í Austur-Anglía, hefði lýst vanþóknun á hinni „óhefluðu kenningu“ og „óheflaða stíl“ bæði Grahams og Palaus. Meþódistaleiðtoginn Soper lávarður bætti við: „Mér geðjast mjög illa að aðferðum þeirra og auglýingastarfsemi.“ Hvers vegna? Hvað var að?
Auglýsingastarf og persónudýrkun
Trú og trúarbrögð eru mjög persónulegt mál hjá hinum almenna manni á Bretlandseyjum. Slíkir hlutir eru sjaldan ræddir, jafnvel undir fjögur augu, og opinberar kappræður fátíðar. Opinber herferð, sem farin er með lúðrablæstri til að kynna trú og trúarbrögð, gengur því í berhögg við þjóðareðlið. Dagblaðið Liverpool Daily Post, sem að öllu jöfnu var herferðinni meðmælt, sagði: „Leiksýningin á laugardagskvöld — því að þetta var leiksýning — var feimnislaus vakningarsamkoma að amerískum hætti, skoðuð annarsstaðar sem hreinn og beinn skemmtanaiðnaður.“
Öðrum mislíkaði hvernig aðalpersónunum var hampað. „Það er dr. Graham sem er auglýstur til að draga fólk að, ekki inntak boðskapar hans,“ sagði kennimaðurinn Jack Burgoyne við Englandskirkju þegar Graham var í þann mund að hefja samkomu sína í Ipswich. „Samtökin, sem hann hefur að baki sér, hafa breytt honum í átrúnaðargoð.“ Gestkomandi ræðumenn,
vakningarsöngvarar og metorðamenn voru boðnir á samkomurnar til að laða fleiri að. Þegar upp var staðið voru það þó Palau og Graham sem athyglin beindist að. Í varfærinni gagnrýni sagði Church Times: „Menn er mjög efins um ágæti þess stíls sem er á samkomum Grahams og Palaus — um beltingu tónlistar, fjöldasálfræði og persónubundinnar málsnilli til að skapa þrýsting til að ‚ganga fram‘ á ákveðnu kvöldi.“ Átti þessi gagnrýni Church Times rétt á sér?Að fela líf sitt . . . hverjum?
Þegar dró að lokum herferðarinnar „trúboð England“ leiddi talning í ljós að um 100.000 manns höfðu ‚gengið fram‘ til að ‚fela líf sitt Kristi‘ að áeggjan Grahams og Palaus. Það olli þó nokkurri undrun að meirihlutinn hafði þá þegar haft tengsl við einhverja kirkju. Sumir áætluðu að telja mætti 15 af hundraði sem nýja fylgismenn. „Var dr. Graham bókstaflega að prédika fyrir hinum trúuðu?“ var spurt í Church Times. „Það verður að segja að hugsanlegir trúskiptingar . . . voru í augljósum minnihluta. Að mestu leyti var þetta því tækifæri til að örva hersveitirnar til dáða.“ Hvers vegna var slík hvatning nauðsynleg?
„Háttsettum mönnum innan kirknanna er mjög órótt,“ sagði blaðið Sunday Mercury í Birmingham, af því að heildarfjölda guðsdýrkenda í Englandskirkju „fer svo fækkandi að það er verulegt áhyggjuefni.“ Bill Flagg, biskup og formaður „trúboð England“ herferðarinnar á Norðvestursvæðinu, játaði: „Kikjurnar höfðu næstum gefist upp á kristniboði á áttunda áratugnum.“ Ákall Billy Grahams til meðlima þeirra var einfaldlega: „Vera má að þú sért skírður. Vera má að þú sért fermdur og kannski sækir þú kirkju. En innst inni er samband þitt við Guð ekki í lagi.“
Aftur til kirkjunnar
„Öllum sem ganga fram er vísað aftur til einhverrar kirkju,“ sagði einn af aðstoðarmönnum Billy Grahams. „Ef maður gengur fram, sem hefur engri kirkju tilheyrt áður, reynum við að finna honum einhverja kirkju sem hann getur samlagað sig.“ Kenningar kirkjunnar virtust ekki skipta máli. Blaðið Catholic Herald sagði: „Kaþólskir voru þjálfaðir við hlið hvítasunnumanna, baptista, anglíkana, bræðra og annarra“ til að gefa ráð og hjálpa þeim sem gengju fram. Sú staðreynd að rómversk-kaþólskir voru yfirleitt með vakti nokkra undrun og hneykslun innan hins breska kirkjuráðs kristinna mótmælendakirkna, því að mörgum þóttu slíkar sættir jafngilda svikum við frumkenningar kristninnar.
En hvað sem því líður er ástæða til að spyrja hversu djúpt það hafi rist þegar fólk gaf sig Kristi á hönd. Ein frétt hermir að 500 hafi ‚gengið fram,‘ að því er virðist til að „valda ekki frægum, gestkomandi manni vonbrigðum.“ En hvað um eftirleikinn hjá þeim sem fólu líf sitt Kristi þannig? „Kirkjurnar eru ekki undir það búnar að taka á móti nýjum sem ganga til liðs við trúna . . . sumar kirkjur eru svo leiðinlegar að ég myndi ekki sækja þær,“ játaði Anthony Bush, svæðisstjóri herferðarinnar „trúboð England“ á suðvestursvæði, að því er sagði í The Sunday Telegraph.
Að beina fólki aftur til kirknanna jafnast í rauninni á við það að senda hungraðan
mann til að sækja mat í tómt búr. Gallup-skoðanakönnun, sem gerð var fyrir herferðina í Merseyside, leiddi í ljós að tveir þriðju aðspurðra vildu að kirkjan gæfi ekki aðeins „siðferðilega leiðsögn“ heldur líka að hún „kenndi Biblíuna.“ Í áþekkri könnun í Sunderland sagðist fólk vilja fá svör við spurningum varðandi heimsfrið, það að glíma við vandamál nútímans, Guð, Jesú og, eins og annars staðar, Biblíuna. Hvað gerðu Palau og Graham til að fullnægja þessari þörf?Glatað tækifæri
„Ég vil að þið segið við sjálfa ykkur: ‚Ég vil vita að ef ég dæi í kvöld færi ég til himna.‘ Þetta kann að vera ykkar síðasta tækifæri og það næsta sem þið munuð nokkurn tíma komast ríki Guðs.“ Með þessum orðum hvatti Billy Graham fólk til að helga líf sitt Kristi. En slík hugmyndafræði, sem tekur mið af dauðanum, svarar engum spurningum. „Ungt fólk er að leita að einhverju til að trúa á,“ sagði Graham. En ungt fólk þarfnast vonar og ástæðu til að lifa, sannfæringar um að lífið hafi tilgang og að Guð muni ganga fram til að vernda framtíð þess.
Guðsríki er í reyndinni það sem ungt fólk — og líka það sem eldra er — þarfnast svo mjög að heyra um. Þetta ríki er eina von mannkynsins, raunveruleg stjórn sem mun koma á friði um alla jörðina og gefa mannkyninu á ný eilíft líf. (Jesaja 9:6, 7; Matteus 6:9, 10) Jesús spáði að kristnir menn á okkar dögum myndu vera önnum kafnir við að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs öllum þjóðum, en það er starf sem vottar Jehóva hafa nú verið önnum kafnir við í marga áratugi. (Matteus 24:14) Herferð Palaus og Grahams dró til sín þúsundir manna, en hvorugur þeirra greindi mannfjöldanum, sem kominn var saman, frá hinu raunverulega gildi Guðsríkis. Svo sannarlega glatað tækifæri!
Í rauninni er þess þó ekki að vænta að slík krossferð skili miklum eða jákvæðum árangri. Kristnir menn á fyrstu öld útbreiddu ekki orðið með þessum hætti né höfðuðu til fólks á tilfinningalegum grundvelli. Í ritsjórnargrein í Church Times var sagt að í slíkri herferð væri „ómögulegt að ræða á yfirvegaðan og viðkunnanlegan hátt hinar mörgu spurningar . . . sem hljóta að vera í hugum viðstaddra, ef áheyrendurnir eru yfirleitt dæmigerðir.“
Spekingurinn Salómon sagði: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ (Orðskviðirnir 14:15) Í leitinni að sannleikanum þurfum við að sýna góða dómgreind. Langsamlega öruggasta leiðin er að fylgja fordæmi frumkristinna manna í Beroju sem Páll prédikaði fyrir. Þeim var hrósað fyrir það að þeir „rannsökuðu daglega ritningarnar“ af kostgæfni og notuðu þær sem grundvöll trúar sinnar. (Postulasagan 17:11) Vottar Jehóva hafa alltaf fylgt þessu fordæmi. Settu þig í samband við þá og ‚ræddu á yfirvegaðan og viðkunnanlegan hátt‘ spurningar þínar um Biblíuna. Þú hefur engu að tapa — en margt að vinna.
[Mynd á blaðsíðu 14, 15]
Þeim sem gengu fram var vísað aftur til kirknanna sem þeir höfðu yfirgefið vegna þess að þeir fundu enga von þar.