Vindmyllurnar rísa aftur
Vindmyllurnar rísa aftur
Vindhverflar eru farnir að spretta upp í Kalíforníu, á hinum einangruðu gresjum í Sovétríkjunum, meira að segja á Suðurskautslandinu. Svo er skýrt frá í hollensku fréttatímariti, Weerberichten (veðurskýrslur). Hver er ástæðan? Vindur er hagkvæmur orkugjafi og nóg til af honum.
Í Tehachapi-dal, 300 km norður af Los Angeles í Kalífórníu, eru nú þegar 50 vindhverflar sem munu skila alls 13,5 megavöttum þegar þeir eru fullgerðir. Austur af San Francisco er vindorkuver með 44 hverflum sem selur orku er nægir 400 heimilum. Áform eru uppi um að fjölga hverflunum í nokkur hundruð sem gætu skilað 30 milljónum kílóvattstunda á ári — nægilegt fyrir 4800 heimili.
Í Cycloon, í grennd við Moskvu, er nú verið að prófa 12 ólíka vindhverfla til framleiðslu á raforku og hreyfiorku fyrir einangruð byggðarlög og þurrviðrasöm svæði í Sovétríkjunum. „Þessi búnaður gefur möguleika á að breyta gresjunum í gróðursæla vin,“ sagði fréttaskýrandi í Moskvuútvarpinu.
Fjórir aðrir hverflar munu verða reistir á mjög einangruðum slóðum — á Suðurskautslandinu. Þegar kaldur pólarvindurinn gnauðar ættu vísindamennirnir, sem þar eru, að vera ánægðir. Þeir þarfnast raforkunnar til að halda rannsóknarstöðvunum gangandi og láta sér líða vel.