Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að seðja hina hungruðu — hverjar eru horfurnar?

Að seðja hina hungruðu — hverjar eru horfurnar?

Að seðja hina hungruðu — hverjar eru horfurnar?

Í 65 hektara neðanjarðarhvelfingu í Missouri í Bandaríkjunum er staflað veggjanna á milli og alveg upp í loft 1,2 milljónum tonna af smjöri, osti og þurrmjólk. Þetta er einn af mörgum geymslustöðum víða um Bandaríkin þar sem geymd eru umframmatvæli sem stjórnvöld kaupa af bændum fyrir um 3 milljarða bandaríkjadala á ári. Rekstur þessara birgðageymslna kostar 58 milljónir dollara að auki á ári. Við það bætist að stjórnvöld eyða milljörðum dollara ár hvert til að greiða bændum fyrir að láta ónotað allt að 20 af hundraði af landi sínu í þeim tilgangi að draga úr framleiðslu landbúnaðarafurða.

Gefur þessi vitneskja um ofgnótt matvæla í sumum löndum til kynna að hægt væri að binda enda á hungrið í heiminum ef einhvern veginn tækist að tryggja réttláta og jafna dreifingu þessara umframbirgða? Geta þær þjóðir heims, sem skortir matvæli, reitt sig endalaust á þessar, að því er virðist, ótakmörkuðu matvælabirgðir?

Svörin við þessum spurningum hafa geysimikla þýðingu, því að ekki aðeins væntir hinn sveltandi fjöldi í þriðja heiminum matvælaaðstoðar frá þeim fáu þjóðum, sem eru aflögufærar, heldur eru auk þess mörg hinna þróuðu ríkja mjög háð aðkeyptum matvælum frá þessum sömu þjóðum. Skýrslur sýna meira að segja að það eru þróuð ríki á borð við Sovétríkin, Japan og sum Evrópuríki sem kaupa stærstan hluta umframbirgðanna, því að þau hafa efni á því. Svo lengi sem aflögufæru þjóðirnar geta framleitt meira en þær þurfa og fengið gott verð fyrir verður umframframleiðslunni haldið áfram. Ýmislegt bendir þó til að sú staða haldist ekki endalaust.

Ógnvekjandi horfur

Þegar sérfræðingar horfa fram í tímann sjá þeir flestir fram á að eftirspurn verði meiri en framboð. Margir þeirra benda á að dregið hafi úr aukningu á matvælaframleiðslu í heiminum á síðasta áratug enda þótt eftirspurnin hafi sífellt aukist. Þeir sjá bilið milli framboðs og eftirspurnar fara síminnkandi. Hvað hefur valdið því?

Viðurkennt er að slæmt veður á sinn þátt í því. Hið langa og heita sumar 1980 í Bandaríkjunum og slæmt tíðarfar í Sovétríkjunum hefur valdið alvarlegum uppskerubresti. Sérfræðingar í umhverfismálum fullyrða hins vegar að slíkur uppskerubrestur sé í rauninni afleiðing kapphlaupsins um aukinn afrakstur og afköst í landbúnaði. Á þeim tíma þegar jarðir voru smærri og skiluðu minni afrakstri var sáð fleiri tegundum nytjajurta og bændur reiddu sig ekki eins mikið og nú á gott veður. Núna, þegar viðskiptasjónarmið ráða öllum landbúnaði, er sömu tegundinni sáð í þúsundir eða jafnvel milljónir hektara.

Þaulræktun, þar sem stefnt er að sem mestum afrakstri hvers landskika, dregur úr jarðveginum eins mikið og frekast er unnt en skilar mjög litlu til hans aftur. Sama tegundin er ræktuð ár eftir ár í sama jarðvegi og næringarefni og lífræn efni í gróðurmoldinni eru ekki endurnýjuð. Samhliða því eru vatn og vindar að eyða ræktarlandi á helstu landbúnaðarsvæðum jarðarinnar með ógnvekjandi hraða. Í Iowa í Bandaríkjunum tapast til dæmis ár hvert að meðaltali 25 tonn af gróðurmold af hverjum hektara, eða sem nemur 0,25 sentimetrum. Rannsóknir stofnunar, sem hefur verndun gróðurmoldar á sinni könnu, sýna til dæmis að jarðvegseyðing sem nemur 2,5 sentimetrum af gróðurmold dregur úr kornuppskeru sem nemur 6 af hundraði. Stofnunin varar við því að verði ekki stemmt stigu við núverandi jarðvegseyðingu gæti kornframleiðsla í Bandaríkjunum dregist saman um allt að þriðjung á næstu fáeinum áratugum.

Framleiðni fer minnkandi af öðrum orsökum. Gott ræktarland hverfur ört. Uppsprengt fasteignaverð, dýrt eldsneyti, áburður, vinnuafl og tækjabúnaður, svo og of lágt afurðaverð vegna mikillar landbúnaðarframleiðslu, ýtir allt saman fast á smábændur að selja jarðir sínar. Af því leiðir að allt að 400.000 hektarar ræktarlands eru ár hvert teknir undir íbúðabyggingar, verslanamiðstöðvar, vatnþrær og vegi í Basndaríkjunum.

„Hin mikla offramleiðsla, hungrið í heiminum og lítil arðsemi í landbúnaði sýnir ljóslega að núverandi kerfi virkar ekki,“ er haft eftir hagfræðingi við bandaríska landbúnaðarráðuneytið.

Hverjar eru horfurnar?

Hvað getum við ályktað um horfurnar á því að takast megi að næra hina hungruðu í heiminum, eftir að hafa athugað báðar hliðar málsins — bæði ástandið í löndum þriðja heimsins sem skortir matvæli og í hinum þróuðu löndum sem framleiða meira en þau þurfa? „Af öllum þeim meinum, sem þjá mannkynið, viðrist ekkert jafnauðleyst — og samtímis jafnerfitt viðureignar — og hungrið.“ Þetta var niðurstaða The New York Times í langri greinaröð um hungurvandamálið. Greinin benti á „ójafna tekjuskiptingu og fátækt“ sem aðalorsök hungursins í heiminum og sagði síðan: „Þar til þessi þrálátu þjóðfélags- og efnahagsvandamál eru leyst mun ekkert fúsk með matvælaaðstoð og mannfjöldastýringu vinna bug á hungrinu í heiminum.“

Sú spurning liggur augum uppi hver geti leyst þessi „þrálátu, þjóðfélags- og efnahagsvandamál“ og komið á raunverulegum umbótum? Er nokkur vísindamaður, hagfræðingur, bóndi eða stjórnmálaleiðtogi svo vitur og voldugur að hann geti brotist í gegnum alla hina þjóðfélagslegu, efnahagslegu og stjórnmálalegu múra og upprætt ágirnd, eigingirni og framasýki til að koma til hjálpar hinum hungruðu í heiminum? „Aðferðin til að framleiða miklu meira er kunn,“ sagði í greininni í Times, „en enginn veit fyrir víst hvernig á að koma því til þeirra sem þarfnast þess.“

Jesús Kristur spáði fyrir um þetta torleysta vandamál með þessum orðum: „Þá verður hungur . . . á ýmsum stöðum,“ og „á jörðu angist þjóða, ráðalausra.“ (Matteus 24:7; Lúkas 21:25) Enda þótt Jesús segði ekki í smáatriðum hvernig og hvers vegna slíkur matvælaskortur yrði lýsa orð hans nákvæmlega þeim veruleika sem við sjáum núna.

Það er að sjálfsögðu eitt að segja fyrir um þessa erfiðleika en annað að koma fram með lausn sem dugir. Eins og við höfum séð er lausnin á hungurvandamálinu ekki aðeins sú að framleiða meiri matvæli. Það sem vantar er sanngjörn og réttlát yfirstjórn. Jesús Kristur kenndi fylgjendum sínum að biðja um komu slíkrar stjórnar: „Til komi þitt ríki.“ — Matteus 6:10.

Undir stjórn þessa réttláta ríkis mun frjósemi jarðarinnar aftur ná hátindi sínum. „Því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum.“ (Jesaja 35:6, 7) Afleiðingin verður sú að „landið gefur sinn gróða“ og „gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ — Sálmur 67:7, Ísl. bi. 1859; 72:16.

Og enginn mun vera hungraður sökum fjárskorts. Allir, ríkir sem fátækir, geta deilt með sér gnægðum jarðarinnar. Öllu mannkyninu verður boðið að njóta þeirra í anda Jesaja 55:1 sem hljóðar svo: „Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins, og þér sem ekkert silfur eigið, komið, kaupið korn og etið! Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk!“

Hvílík blessun verður það að lifa í nýrri skipan Guðs þar sem ‚réttlæti mun búa‘! — 2. Pétursbréf 3:13.

[Myndir á blaðsíðu 10]

„Landið gefur sinn gróða.“