Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Flugöryggi

Ástralía hefur öruggustu flugþjónustu í heimi, bæði innanlands og á alþjóðaleiðum, að því er segir í niðurstöðum 10 ára rannsókna á flugslysum sem birt var í Flight International. Dauðaslysatiðni, byggð á tölum frá 25 helstu flugsamgönguþjóðum heims á árabilinu 1973 til 1984, var 1,8 fyrir hverjar milljón lendingar, en talan fyrir Ástralíu var aðeins 0,06. „Skandinavía, Japan, Bandaríkin, Frakkland, Bretland og Vestur-Þýskaland koma á eftir Ástralíu í skránni um flugöryggi,“ segir í dagblaðinu The Sidney Morning Herald. „Minnsta öryggið var í Kólombíu, Tyrklandi, Egyptalandi, Indónesíu og Sovétríkjunum.“ Sérfræðingur um flugöryggismál, Mike Ramsden að nafni, nefndi „aga gangvart einstaklingshyggju og virðingu fyrir yfirvaldi án ótta“ sem aðalástæðurnar fyrir því að Ástralía hefði „óvéfengjanlega verið öruggasta flugsamgöngulandið í hópi helstu þjóða heims í meira en 20 ár.“

Spánverjar — heimsmeistarar í reykingum

Samkvæmt talnaskýrslum reykti hver maður á Spáni að meðaltali 2647 vindlinga árið 1980. Þar með skipa Spánverjar efsta sætið á listanum um tóbaksneytendur í Evrópu. Á meðan íbúatala á Spáni hefur aukist um 22 af hundraði síðastliðin 20 ár hefur tóbaksnotkun aukist um 146%. Að því er segir í dagblaðinu El País mun eitt af hverjum sex dauðsföllum árið 1985 vera tengt tóbaki — og þar með er tóbaksnotkun „langalgengasta orsök sjúkdóma og ótímabærs dauða á Spáni á okkar dögum.“ Enn fremur eru reykingar mun algengari meðal spænskra lækna en annarra starfsstétta svo sem lögfræðinga, verkfræðinga eða framkvæmdastjóra. Kannanir sýna að 80 af hundraði tóbaksneytenda á Spáni segjast myndu hætta að reykja ef læknirinn þeirra mælti með því, en aðeins 10 af hundraði hafa nokkurn tíma fengið slík ráð frá lækni.

Tilbúið heróín

Nú má bæta tilbúnu heróíni við listann yfir hættuleg efni sem eru í umferð í sumum bandrískum borgum. Eiturlyfið er unnið úr fentanýl, löglegu svæfingalyfi, sem hefur verið breytt með efnafræðilegum aðferðum. Eitt afbrigðið er álitið vera allt að 3000 sinnum sterkara en heróín. Neytandi þarf innan við einn milljónasta úr grammi til að vera í vímu í fjórar til sex klukkustundir. Robert Robertson, forstöðumaður stofnunar í Kaliforníu sem fæst við fíkniefnavandamál, segir: „Við erum hér að tala um fíkniefni framtíðarinnar. Það mun koma í staðinn fyrir heróín. . . . Hvers vegna að standa í því að rækta, hreinsa og smygla heróíni yfir landamæri þegar hægt er að búa til jafngott, ef ekki betra, efni svona ódýrt og svona fljótt?“ Að því er segir í dagblaðinu Daily News í New York getur lítil rannsóknastofa — með hráefni sem kosta ekki meira en 10.000 bandaríkjadali — framleitt nóg gervi-heróín á fáeinum vikum til að sjá New York-borg, ef ekki öllu landinu, fyrir nægu magni í mörg ár.

Upp undir 41 þúsund mannslíf á mánuði

Vopnuð átök hafa kostað 21 milljón manns lífið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar — á bilinu 33.000 til 41.000 mannslíf á mánuði — að því er segir í nýlegri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. Áttatíu af hundraði allra hernaðarútgjalda í heiminum — yfir 800 milljarðar bandaríkjadala á síðasta ári — var eytt í vopn og venjulegar fastarhersveitir. Skýrsla Sameinuðu þjóðanna segir að „einn einstakur kjarnorkukafbátur kosti jafnmikið og ársútgjöld 23 þróunarríkja til menntamála, með alls 160 milljónir barna á skólaaldri.“

Lýstu upp tilveruna

Björt ljós hafa „greinileg áhrif gegn þunglyndi,“ segir í niðurstöðum könnunar sem gerð var á vegum bandarísku geðverndarstofnunarinnar. Að því er segir í könnuninni sýndu 10 af 13 sjúklingum sem þjáðust af vetrarþunglyndi — þunglyndi af völdum skammrar dagsbirtu og langrar inniveru — jákvæð viðbrögð við ljósi sem var nokkrum sinnum bjartara en venjulegt herbergisljós. Ljósin ollu „greinilega betra skapi sem sýndi sig innan fáeinna daga og stóð alla vikuna sem meðferðin tók,“ segir í niðurstöðum rannsóknarinnar. „Væru ljósin tekin fór allt í sama farið hjá flestum innan fáeinna daga.“

Biblíutextinn áreiðanlegur

Aukin sönnunargögn fyrir áreiðanleika hins núverandi biblíutexta voru nýlega lögð fram á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í Basel í Sviss. Prófessor Barbara Aland við stofnun í Münster í Þýskalandi, sem fæst við rannsóknir á biblíuhandritum, lagði fram ágrip rannsókna sem hún hefur unnið að á grískum biblíuhandritum sem fundust árið 1975 í klaustri Heilagrar Katrínar á Sínaífjalli. „Textarannsóknum á Nýjatestamentinu hafa bæst nýtt, dýrmætt vitni,“ sagði hún í viðtali við þýska dagblaðið Westfelische Nachtrichten. „Rannsóknir á 69 áður óþekktum handritum Nýjatestamentisins . . . staðfestir textann sem viðurkenndur hefur verið fram að þessu,“ segir greinin.

Reiðhjólaflóð í Tókýó

Vandamál umferðarinnar í Tókýó stafa af reiðhjólum, ekki bifreiðum. Í Japan eru „55 milljónir reiðhjóla — yfir tvöfalt fleiri en farþegabifreiðir,“ segir í dagblaðinu The Atlanta Journal and Constitution, en það jafngildir næstum „einu reiðhjóli á hverja tvo Japani, að meðtöldum ungbörnum og öldruðum.“ Með því að yfir 5,6 milljónir reiðhjóla eru í Tókýó er þeim lagt út um allt. Þau standa stundum „í sexfaldri röð“ og tálma umferð um göturnar. Þetta hefur valdið bæði smáum og stórum fyrirtækjum erfiðleikum. „Við höfum algerlega tapað viðskiptavinum, sem koma á bifreiðum, því að vegurinn er hreinlega lokaður,“ er haft eftir talsmanni eins af bönkunum þar. Eftir nýlega athugun á reiðhjólum, sem var lagt ólöglega, fjarlægði lögreglan í Tókýó 28.000 reiðhjól. Þrátt fyrir það birtast reiðhjólin aftur.

Skilafrestur útrunnin

„Aldrei hefur bókasafnsbók á Bretlandi farið jafnlangt yfir tiltekinn skilafrest en sú sem skilað var um daginn eftir meira en 300 ára útlánstíma, en það varðar sekt að upphæð rúmlega 3000 sterlingspund, sagði í dagblaðinu The Times í Lundúnum. Biskupinn af Winchester tók bókina að láni einhvern tíma á árabilinu 1641 til 1648 og hún varð eftir á skrifstofu hans þegar hann dó. Embættismaður við þjóðskjalasafnið í Somerset sagði: „Við vissum að hún týndist um miðbik 17. aldar en við vissumaldrei hvert hún fór.“

Plast í höfunum

„Heimshöfin, sem eru þegar menguð af olíu, eiturefnum og geislavirkum úrgangi, eru nú að fyllast af nýjum en hættulegum úrgangi — plastúrgangi,“ segir í The New York Times. Að því er bandaríska vísindaakademían segir hendir fiskiskipafloti heims — einn af stærstu mengunarvöldunum — yfir 24.000 tonnum af plastumbúðum í hafið og tapar yfir 135.000 tonnum af viðarfærum úr plasti, þar á meðal netum, línum og baujum. Ætlað er að ein til tvær milljónir sjófugla og yfir 100.000 sæspendýr deyi ár hvert eftir að hafa etið fljótandi plasthluti eða fest í netum úr plasti.

Hættur í paradís

Á flestum þéttbýlissvæðum heims eru bifreiðaslys algengasta orsök meiðsla á mönnum. Í strjábýli eru hætturnar aðrar. Sums stðar á Papúa Nýju-Gíneu eru til dæmis flest slys af völdum trjáa, að því er segir í breska læknatímaritinu British Medical Journal. Þegar skoðaðar voru innlagnir á héraðssjúkrahúsið í Milne Bay-héraði kom í ljós að 41 prósent sára og meiðsla voru tengd trjám. Slysin voru meðal annars af því tagi að menn höfðu dottið úr trjám sem þeir voru að klifra í og orðið fyrir fallandi trjágreinum eða kókoshnetum — sem geta lent á manni niðri á jörðinni með næstum 900 kílogramma afli. Margir ímynda sér eyjarskeggja þannig að þeir sitji í rólegheitum undir tré, en þeir sem athugunina gerðu segja: „Flestir þorpsbúar vinna hörðum höndum við að rækta garða sína og hætta oft lífinu við það að klifra hátt upp í tré til að sækja uppskeruna af hæstu trjánum.“

Refsing gegn ölvun við akstur

Blóðbaðið, sem drukknir ökumenn eiga stundum sök á, hefur valdið hörðum viðbrögðum löggjafarvaldsins í ýmsum löndum. Blaðið The Medical Post í Kanada hefur eftir Health News Digest að í Tyrklandi „fari lögreglan með drukkna ökumenn 32 kílómetra út fyrir bæinn og þeir séu síðan neyddir (undir eftirliti) til að ganga til baka.“ Í Finnlandi „eru menn sviptir ökuleyfi ævilangt séu þeir teknir ölvaðir við akstur öðru sinni.“ Í Kentucky í Bandaríkjunum verða ökumenn, sem hafa verið teknir ölvaðir við akstur, að aðstoða lögreglu við að hreinsa til eftir árekstra af völdum ölvaðra ökumanna. Í El Salvador eru slíkir ökumenn „teknir af lífi með skotsveit,“ segir í greininni.