Hungrið í heiminum — snýst um fleira en matvæli
Hungrið í heiminum — snýst um fleira en matvæli
„35 milljónir svelta í skrælnaðri Afríku“
„Matvælaskortur og þunglamalegt stjórnkerfi svelta heilt meginland“
„Þurrkar, dauði og örvænting“
ÞÚ hefur sennilega séð fjöldann allan af fyrirsögnum líkum þessum á síðustu árum. Þeim fylgja venjulega myndir af sveltandi börnum með starandi augu og þaninn kvið, sóðalegum flóttamannabúðum þéttsetnum fólki sem er vart meira en skinn og bein, skrælnuðu landi þar sem hræ dauðra dýra liggja á víð og dreif — allt ásæknar myndir sem ekki vilja hverfa úr huganum.
Allar þessar frásagnir og fréttamyndir vekja hjá okkur hroll. Í sérútgáfu tímaritsins Courier, sem er eitt opinberra málgagna Sameinuðu þjóðanna, var bent á að margir hefðu verið bjartsýnir fyrir tíu árum, en síðan var sagt: „Nú verður samt sem áður að viðurkenna að neyð hinna bágstöddu í heiminum fer síversnandi. Nálega 500 milljónir manna, staðnaðar í fátækt, hafa hungurvofuna yfir sér dag hvern.“ Matvælaráð Sameinuðu þjóðanna áætlar að „fimmtán milljónir barna deyi af vannæringu ár hvert í þróunarlöndunum,“ en það þýðir að dánartíðni barna þar er þrítugfalt hærri en í þróuðu ríkjunum. Og að því er Alþjóðabankinn hefur látið frá sér fara eta 200 milljónir Afríkumanna — sem er yfir 60 af hundraði íbúa á því meginlandi — minna en líkamanum er nauðsynlegt.
Á hinn bóginn má vera að þú hafir einnig lesið bjartsýnar fréttir um stórstígar framfarir í erfðatækni sem sagðar eru lofa góðu um að þróa megi ný afbrigði matjurta sem bæði gefa af sér mikið og eru auk þess þolnar gegn sjúkdómum og þurrkum. Verið er að þróa nýjar og byltingarkenndar aðferðir í landbúnaði til að auka framleiðni. Stjórnvöld og stofnanir víða um heim eru að hrinda í framkvæmd hjálparstarfi af einu eða öðru tagi. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að væri öllum matvælum, sem framleidd eru í heiminum, skipt jafnt, myndi hver maður fá jafngildi 3000 hitaeininga á dag sem er meira en flestir þurfa. Í sumum löndum greiða stjórnvöld jafnvel bændum fyrir að draga úr framleiðslu, bæði til að draga úr umframbirgðum matvæla og til að halda verði stöðugu. Þegar þetta er skoðað lítur einna helst út fyrir að verið sé að yfirvinna hungrið í heiminum.
Þegar við skoðum staðreyndir málsins verður eitt ljóst. Sá vandi að sjá hinum hungruðu í heiminum fyrir matvælum er ekki allur sem sýnist. Vísindamenn og bændur búa kannski yfir tæknikunnáttu til að auka matvælaframleiðslu. Stjórnvöld og alþjóðastofnanir hafa kannski trúverðuglegar tillögur og áætlanir á takteinum um hvernig leysa megi eitt vandamálið eða annað. Samt sem áður virðist einhver hulinn þáttur eða öfl koma í veg fyrir nokkrar framfarir að heitið geti og sífellt hallar meira á ógæfuhliðina í baráttunni við hungrið. Hvers vegna er það svo? Hvaða hulin áhrif standa í vegi framfara? Og er í rauninni hægt að gefa hinum hungruðu í heiminum nóg að borða?
[Rammi á blaðsíðu 3]
Hungurdauði
„FULLVAXTA, heilsuhraustur maður deyr á 50 til 70 dögum sé honum aðeins gefið vatn en enginn matur. Veikburða af vannæringu bíður fórnarlambið þó nær alltaf lægri hlut fyrir öðrum sjúkdómum. Dauðinn kemur síðan eftir að líkami sveltandi manns hefur í reynd eytt sjálfum sér. Líkaminn geymir í mesta lagi um það bil eins dags birgðir af helsta orkugjafa sínum, glúkósa, og þegar þær birgðir eru uppurnar byrjar hann að afla sér orku með því að brenna fitu, annaðhvort sem fitusýrum eða ketónum. Þegar líkamsfitan er búin verður líkaminn að brjóta niður próteinin í vöðvanum og öðrum mikilvægum vefjum, og þannig eyðileggur hann smám saman hjartað, nýrun, miltað og önnur líffæri. Oft myndast bjúgur í kviðarholi svo að kviðurinn verður bóginn eða þaninn vegna óeðlilegrar vökvauppsöfnunar. Þegar holdið tærist upp verður húðin þurr, beinin brothætt og hárið dettur af. Blóðþrýstingurinn lækkar. Í börnum hættir heilinn að þroskast. Ónæmiskerfið fer að gefa sig sem leiðir venjulega til banvænnar sýkingar. Þarmarnir visna. Sjón, heyrn og máli hrakar. Þegar líkaminn reynir að draga úr orkuþörf sinni lækkar líkamshiti og of lágur líkamshiti er tíður. Að lokum er líkaminn yfirbugaður og umfangsmikil líffærabilun dregur fórnarlambið til dauða.“ — Af vísindasíðum The New York Times, 1. janúar 1985.