Hungur mitt í gnægð — hvers vegna?
Hungur mitt í gnægð — hvers vegna?
„Það er staðreynd að sé lagt saman heildarmagn korns, sem framleitt er, að viðbættu heildarmagni annarra matjurta, að viðbættum öllum öðrum matvælum sem framleidd eru, þá nægir það til að sjá öllum hinum fimm milljörðum jarðarbúa fyrir nægum og góðum mat.“ — The Gazette í Montreal.
„Síðan 1974 hafa þróunarlöndin í heild aukið heildarmatvælaframleiðslu um 3,4% á ári og þar með aukið néttó matvælaframboð umtalsvert. Matvælaframleiðsla í Rómönsku-Ameríku og Asíu jókst um meira en 32% á síðasta áratug.“ — Los Angeles Times.
HUNGURVANDAMÁLIÐ er langt frá því að vera leyst. Þrátt fyrir það hafa sífellt fleiri sérfræðingar á því sviði gert sér ljóst að skortur á matvælum er ekki hinn raunverulegi sökudolgur. Það virðist sameiginlegt álit flestra að eitthvað annað en matvælaframboð valdi þeirri staðreynd að aragrúi manna víða um heim líður af hungri og vannæringu. Eiginlega blasir við okkur æpandi mótsögn: hungur mitt í gnægð. Hvers vegna? Þótt vandinn sé afar flókinn hafa allmörg undirstöðuatriði stuðlað að þessari þversögn.
Röng forgangsröð
Að koma á góðu og afkastamiklu akuryrkjukerfi er dýrt. Tilbúinn áburður, skordýraeitur, nútímaleg landbúnaðartæki og gott útsæði kostar sitt. Það kostar bæði tíma og fé að byggja upp birgðageymslur, flutningakerfi og áveitukerfi.
Augljóst er að vilji þróunarland taka einhverjum framförum á þessum sviðum þarf það að vera fúst til að verja umtalsverðum hluta af þjóðarauðnum til þess. Þjóðum sem hafa gert það, svo sem Kínverjar og Indverjar, tvær fjölmennustu þjóðir jarðarinnar, hefur orðið verulega ágengt í því að vera sjálfum sér nógar um matvæli.Því miður hefur ekki verið svo um flestar þjóðir þriðja heimsins, einkanlega Afríkuþjóðir þar sem alvarlegur matvælaskortur er að verða sífellt og vaxandi vandamál. Í skýrslu FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar) um 13. svæðaþingið haldið í Zimbabwe í júlí 1984 var sagt afdráttarlaust: „Rætur matvælavandans liggja meðal annars í því að aðildarríkin hafa oftast ekki lagt næga áherslu á landbúnað.“ Hvers vegna hefur það ekki verið gert?
Þeir sem eru málum kunnugir benda á að stjórnir margra ríkja í Afríku og víðar, sem hafa nýlega hlotið sjálfstæði, leggi landbúnað oft að jöfnu við nýlendustefnu og vanþróun. Þær álíta að leiðin til framfara sé að iðnvæða þjóðir sínar. Til að framfylgja slíkri stefnu hafa þessar stjórnir tilhneigingu til að styðja við bakið á iðnaði í bæjum og borgum á kostnað bændanna úti í sveitum. Í stað þess að nota sjóði sína til að koma sér upp og bæta áveitu- og flutningakerfi, eða hvetja bændur til að auka framleiðslu sína, halda stjórnir sumra landa gerræðislega niðri verði á matvælum til að hjálpa iðnverkafólki í þéttbýli og hinum nýju iðngreinum. Slík stefna hefur valdið því að til sveita er nú aðeins stundaður sjálfsþurftarbúskapur, og að þessar sömu þjóðir, sem áður voru sjálfum sér nógar, og jafnvel fluttu út matvæli, framleiða ekki lengur nóg til eigin þarfa og verða því að flytja þau inn.
Breyttir lífshættir
Sökum þess að sveitirnar voru svona afskiptar fór fólk að flytjast þaðan í borgirnar í stórum stíl í leit að atvinnu. Rannsóknir sýna að árið 1960 bjó einn Afríkubúi af hverjum tíu í þéttbýli, en árið 1980 var talan komin upp í einn af hverjum fimm. Ætlað er að haldi fram sem horfir muni helmingur Afríkubúa eiga heima í borgum um næstu aldamót. Það mun auðvitað bitna enn frekar á akuryrkju og matvælaframleiðslu.
Enn er þó ekki allt upptalið. Vegna skorts á fullnægjandi geymslurými og flutningatækjum er erfitt að flytja það sem framleitt er í sveitunum til borganna til sölu. Þar að auki er ekki lengur eftirspurn eftir staðbundnum afurðum, svo sem hirsi og kassavarótarmjöli, því að borgarbúar vilja fá matvæli sem er auðvelt að matreiða, svo sem brauð og hrísgrjón. Bændur fá því enga hvatningu til að auka framleiðslu sína og borgarbúar snúa sér að innfluttum matvælum. Heimildir sýna að á árabilinu 1960 til 1982 nær fjórfaldaðist innflutningur kornmetis til Afríku en matvælaframleiðsla þar dróst enn meira saman miðað við fólksfjölgun.
Auk hins dýra innflutnings á matvælum eykur hinn mikli orkukostnaður nýju iðngreinanna enn á matvælavanda margra þjóða í þriðja heiminum. Fregnir frá Nairobí í Kenýa sýna til dæmis að „60 af hundraði gjaldeyrisviðskipta þjóðarinnar fara til innflutnings á olíu.“ Grannlandið Úganda „eyðir öllum gjaldeyristekjum sínum, tíu milljónum bandaríkjadala á mánuði, til að greiða sinn mánaðarlega olíureikning.“
Til að létta sér þessa byrði taka stjórnir þrónarlandanna oft stefnu sem einungis eykur hungurvandann. Til dæmis sýna rannsóknir að um helmingur ræktunarlands í Mið-Ameríku er notað til að framleiða útflutningsafurðir svo sem sykur, kaffi og tóbak, í stað þess að framleiða matvæli sem brýn þörf er fyrir. Eins er það í mörgum löndum Afríku þar sem ræktuð eru jarðarber og nellíkur til að selja í Evrópu, eða þá nautgripir, sauðfé og geitur til útflutnings til Arabaríkjanna, samtímis og landsmenn hafa ekki nóg að eta.
Stjórnmál stuðla að hungri
Órói og tíðar breytingar í þjóðfélagsmálum og stjórnmálum margra þróunarlandanna gerir oft illt verra. Frá 1960 er ætlað að Afríka hafi mátt þola yfir 12 stríð og 50 valdarán. Þrettán þjóðhöfðingjar hafa verið ráðnir af dögum og flóttamannavandamál eru mjög útbreidd. Ástandið er svipað á ýmsum öðrum stöðum í heiminum. Þetta er ekki aðeins skaðlegt viðkvæmu akuryrkjukerfi heldur gera há hernaðarútgjöld auk þess bágan efnahag enn verri. Þjóðirnar virðast hafa meiri áhuga á að birgja sig upp af vopnabúnaði en að fylla tóma maga.
Fyrir nokkru vakti til dæmis mikla
athygli að ríki í Austur-Afríku, sem fékk tvo milljarða bandaríkjadollara í hernaðaraðstoð, eyddi um 100 milljónum dollara í að halda upp á tíu ára byltingarafmæli sitt á sama tíma og sex milljónir landsmanna horfðust í augu við hungurdauða af völdum alvarlegra þurrka og matvælaskorts.Helgreipar fátæktarinnar
Af öllum huldum orsökum hins útbreidda hungurs í heiminum á fátæktin þó sennilega dýpstar rætur. „Umframframleiðsla korns er ekki það eina sem þarf til að gefa hinum hungruðu í heiminum nóg að borða,“ segir Barbara Huddleston, sem er heimildarmaður um alþjóðlega matvælaaðstoð. „Heimurinn á nú þegar umframbirgðir af korni. Það sem gerast þarf er hreint og beint að flytja kaupmátt til staða eins og Afríku.“ Ekki einu sinni sérfræðingarnir geta sagt hvernig það muni gerast.
Jafnvel þar sem matvæli eru fáanleg hafa margir hinna fátæku hreinlega ekki efni á að kaupa þau. Fréttir frá Ghana greina til dæmis frá því að „það myndi kosta sexfaldar tekjur tveggja fullorðinna, sem báðir ynnu úti, að gefa dæmigerðri, sex manna fjölskyldu þrjár staðgóðar máltíðir á dag.“ Á meðan hinir ríku gæða sér á dýrum innfluttum mat eiga hinir fátæku erfitt með hreinlega að draga fram lífið. Á svæðum þar sem skortur er á atvinnu, eða atvinna hreinlega alls ekki til, getur ástandið verið næsta vonlaust. „Ekkert annað en allsherjar endurskoðun og endurskipulagning þjóðfélags- og efnahagslegra forgangsmála . . . mun koma heiminum aftur inn á efnahagslegra og lýðfræðilega braut sem getur dregið úr hungrinu í stað þess að auka það,“ segir Lester Brown hjá Worldwatch-stofnuninni.
Hjálparstarf — kemur það að gagni?
Ef fátæku þjóðirnar hafa hvorki landbúnaðartæki til að framleiða næg matvæli né ráða yfir fé til að kaupa þau á alþjóðlegum samkeppnismarkaði, hvernig fara þær þá að því að afla sér nægilegs viðurværis? Svarið er að fáar þeirra gera það. Margar þeirra reiða sig á matvælaaðstoð erlendis frá og, þegar verst lætur, neyðarhjálp. Heildar-matvælaaðstoð í heiminum, að meðtalinni neyðarhjálp, nemur um það bil 45 milljónum tonna á ári, og fræðilega ætti það að duga til að brúa bilið milli þess sem fátæku þjóðirnar geta framleitt og keypt og þær í reyndinni þurfa. En hvort hjálpin berst þeim sem mest þurfa hennar er allt annað mál.
Matvæli eru öflugt vopn á alþjóðavettvangi og þjóðum, sem eiga umframbirgðir, er það vel kunnugt. „Þegar umframbirgðir eru af skornum skammti beinist aðstoðin frekar til vinsamlegra ríkja,“ sagði bandarískur embættismaður. „Þessari sömu reglu er fylgt af hverri einustu stjórn sem ég veit um,“ hélt hann áfram. Pólitísk afstaða hinna illa settu þróunarlanda hefur því veruleg áhrif á hvaða hjálp þau fá og hve mikla. Og jafnvel þegar hjálpargögn berast er samgöngukerfið oftast slíkt í þessum
löndum að stór hluti hjálpargagnanna berst aldrei til þeirra sem raunverulega þarfnast þeirra úti í sveitahéruðunum.Þótt matvælaaðstoðin sé þýðingarmikil er hún aldrei annað en bráðabirgðaúrræði. „Regluleg matvælaaðstoð við fátæk ríki,“ segir í kanadíska blaðinu Globe and Mail, „hefur komið mörgum af þeim til að verða háð hinum þróuðu ríkjum, dregið úr frumkvæði þeirra til að verða sjálfum sér nóg um matvæli og valdið því að stór hluti ræktanlegs lands er vannýttur.“ Þótt þjóðirnar, sem veita hjálp, setji venjulega sem skilyrði að ríkin, sem njóta aðstoðar, komi á vissum umbótum á efnahagsmálum og geri aðrar langtímaáætlanir, er oft litið á slíkt sem íhlutun í innanríkismál annarrar þjóðar og leiðir oft til uppþota og ofbeldis. Auk þess er mannlegt eðli einu sinni svo að fáir vita af eða láta sig raunverulega varða nógu mikið um þau langvinnu vandamál sem fólk á fjarlægum stöðum þarf að horfast í augu við dags daglega. Þegar algert neyðarástand skapast tekur fólk við sér, en það sem er gert er oft of lítið eða gerist of seint.
Hin hliðin á málinu
Hin stutta athugun okkar leiðir í ljós að hungurvandamálið er svo sannarlega þversagnarkennt. En það sem við höfum rætt fram til þessa er einungis hluti heildarmyndarinnar — hinn hungraði og fátæki múgur í Afríku eða annars staðar í þróunarlöndunum. Hvað um hina hliðina á málinu — hin þróuðu ríki? Stór hluti þriðja heimsins vonast eftir hjálp frá þessum þjóðum, bæði nú og um ófyrirsjáanlega framtíð. Geta þau haldið áfram að veita aðstoð? Geta þau fundið lausn á hinu flókna fæðuöflunarvandamáli? Hvaða horfur eru eiginlega á að takast muni að sjá hinum hungruðu í heiminum fyrir nægum mat?
[Rammagrein á blaðsíðu 5]
Örvæntingafullir í matarleit
TUGIR milljóna manna í að minnsta kosti tuttugu Afríkuríkjum eru hungraðir, vannærðir eða hreinlega svelta. Milljónir þeirra eru börn. Þau skjótast um við fætur markaðskvennanna og leita innan um rusl og óhreinindi að þeim fáu frækornum eða baunum sem kunna að hafa fallið til jarðar. Það litla sem þau finna fer annaðhvort beint í munninn eða í betliskálina þeirra. Stundum stinga þau upp í sig trénuðum grænmetisstöngli, sem talinn hefur verið óætur og kastað, og tyggja til að ná úr honum safanum, og spýta síðan afganginum út úr sér.
Mauraþúfur eru fínkembdar í leit að korni. Konur eyða heilu dögunum í að höggva í sundur stóra, harða termítahauga til að ná í villikornið sem skordýrin hafa safnað og geymt. Margir týna upp geitatað til ná úr því ómeltum pálmafrækjörnum sem dýrin hafa gleypt ótuggna. Úr laufi og grasi mala konur duft sem hefur ekkert næringargildi — og það er eina fæðan sem margir fá. Aðrir salta og sjóða lauf sem þeir hafa slitið af trjám. Oft verða bændur að eta útsæðið sem þeir hafa keypt.
Börnin ganga í tötrum — sum eru nakin ef frá er talið geitarskinn sem þau hafa sveipað um grannan líkama sinn. Oft er kalt á nóttinni og hinir vannærðu ofkælast oft og fá lungnabólgu, hósta og hita.
Ýmsar hjálparstofnanir hafa sett upp matardreifingarmiðstöðvar, en birgðir eru takmarkaðar og einungis minnihluti hinna hungruðu og sveltandi geta fengið mat. Í einni hjálparstöðinni standa hundruð barna, sem ekki er gefinn matur, utan afmarkaðs svæðis og horfa á hina borða. Móðir heldur á fjögurra ára gömlu barni sínu sem er of veikburða til að geta gengið. Það vegur aðeins um 5 kíló.
Í annarri matardreifingarstöð bar móðir þriggja ára gamla dóttur sína sem vóg rétt um 3 kíló. Í fréttinni af því sagði: „Rifbein og bringubein barnsins virtust vera að brjótast út í gegnum húðina sem var strekkt af völdum hungurs og óvarin fyrir hörðum beinunum. Handleggir hennar og fótleggir voru eins og tálgaðar spýtur.“
Í tilfelli sem þessu hefur sveltið valdið ástandi sem kallað er kröm, en það er sjúkdómur sem lýsir sér þannig að líkami hins langsvelta byrjar að eta sjálfan sig upp. Andlit barnanna verða að sjá eins og á gamalmennum. Þau ber fyrir augu alls staðar meðal hinna hungruðu þjóða Afríku.
[Myndir á blaðsíðu 6, 7]
Til er nægur matur fyrir alla . . . en þó svelta milljónir
[Credit line]
FAO ljósmynd/B. Imevbore