Hver sagði að það væri epli?
Hver sagði að það væri epli?
HEBRESKA orðið tappuach, venjulega þýtt „epli,“ kemur oft fyrir í Biblíunni. Það er hins vegar ekki notað til að lysa „skilningstrénu góðs og ills.“ (1. Mósebók 2:9, 17; 3:6) Hvaðan er þá komin sú hefðbundna hugmynd að forboðni ávöxturinn hafi verið epli?
Að því er segir í bókinni Plants of the Bible (Jurtir Biblíunnar) eftir H. N. Moldenke er þessi hugmynd „vafalaust komin til vegna áhrifa listamanna endurreisnartímabilsins á miðöldum sem drógu upp þannig myndir af honum.“ Til dæmis sagði Moldenke um hið fræga málverk Paradísargarðurinn eftir Paul Rubens (1577-1640) sem nú er í listasafninu í Haag: „Ávöxturinn á skilningstrénu góðs og ills, þar sem höggormurinn hringar sig um greinarnar, virðist greinilega vera epli. Þetta er sennilega eitt þeirra málverka þaðan sem komin er sú útbreidda en ranga hugmynd að eplatré sé eitt af jurtum Biblíunnar.“
Um málverkið Adam og Eva (að ofan) eftir þýska hirðmálarann Lucas Cranach hinn eldri (1472-1553) þar sem málað er epli, sagði Moldenke að málarar endurreisnartímabilsins hafi haft „yndi af því að eigna sér þann rétt að láta ímyndunaraflið ráða þegar þeim bauð svo við að horfa.“ Aðrir listamenn frá þeim tíma, svo sem Tintoretto og Titian, gerðu slíkt hið sama í málverkum sínum um sama efni.
Sennilega var þó hið kunna enska ljóðskáld John Milton fyrstur manna til að færa þessa hugmynd í letur. Í Paradísarmissi sínum (1667) sagði Milton um það þegar höggormurinn freistaði Evu (lausleg þýðing):
Dag einn, er ég ráfaði um akurinn, kleif ég
fagurt tré langt í fjarska að sjá
hlaðið ávöxtum í fegurstu litum,
rauð, gullin. . . .
Til að seðja skyndilega löngun mína
í að bragða þessi fögru epli, ákvað ég
að draga það ekki; hungur og þorsti —
fortölumeistarar miklir — vakin strax af ilmi
þessa lokkandi ávaxtar, ýtti svo ákaft á eftir mér.
Einhver útbreiddasta goðsögn kristna heimsins er því ekki komin frá orði Guðs, Biblíunni, heldur auðugu en afvegaleiddu ímyndunarafli listamanna og ljóðskálda. Hver var þá ávöxturinn? Biblían segir það ekki því að aðalatriðið er ekki ávöxturinn heldur óhlýðni mannsins. — Rómverjabréfið 5:12.