Kol — brennandi deiluefni í fortíðinni
Kol — brennandi deiluefni í fortíðinni
NÆTURÞOKAN grúfir þyngslalega yfir fjöllunum og morgunsólin reynir að brjótast í gegnum hana á austurhimninum. Það glittir í flöktandi olíulampa í gegnum gluggaborurnar á illa hirtum kofaskriflum sem standa í löngum röðum utan í fjallshliðinni. Í hálfrökkrinu inni fyrir eru eiginkonur og mæður að reyna að tína eitthvað til í hádegisverðarboxin fyrir karlmennina í fjölskyldunni.
Nokkrum mínútum síðar koma þreytulegir mennirnir út úr húsunum. Dauð ljós loga á hjálmunum þeirra, svo að þeir líkjast einna helst mörg hundruð risastórum eldflugur þegar þeir streyma niður á grýttan veginn fyrir neðan. Þeir ganga hægt eins og væru þeir í skrúðgöngu — hinir öldruðu, miðaldra, ungu og mjög ungu. Þeir eru amerískir, enskir og þeldökkir, írskir og velskir, tékkneskir og slóvenskir. Þeir eru ítalskir og ungverskir, pólskir og grískir — sambland manna frá næstum hverju einasta Evrópuríki — allt saman verkamenn í kolanámum.
Þeir nema staðar til að bíða eftir hrörlegri lyftunni sem á að flytja þá hundruð metra niður í iður jarðar. Lyktin af fúnu timbri, sem heldur uppi tonnum af jarðvegi yfir höfðum þeirra, og þungur sagga- og mygluþefur fyllir vit þeirra. Stöðugt heyrist vatn drjúpa. Þeir verða að venjast braki og brestum jarðarinnar umhverfis sig.
Þannig hefst dagurinn hjá sérhverjum námuverkamanni sem á eftir að grafa 16 tonn af kolum úr iðrum jarðar yfir daginn.
Eftirspurn um allan heim eftir kolum
Iðnbylting 19. aldarinnar var hafin. Nýjar verksmiðjur voru að spretta upp um landið þvert og endilangt og gamlar stækkaðar til að fullnægja þörfum vaxandi þjóðar. Kol var efnið sem þurfti til að kynda gufukatla og búa til orku handa iðnaðinum. Kol voru eftirsótt um allan heim og frá Ameríku var seilst yfir hafið eftir verkamönnum til að vinna í námunum.
Hinir reyndu kolanámumenn á Englandi og Wales heyrðu að verkamenn vantaði handan hafsins. Þar eð þeir álitu „nýlendurnar“ vera land tækifæranna fluttist fjöldi þeirra yfir til Ameríku. Á Írlandi var einnig leitað eftir verkamönnum en þangað höfðu kolanámueigendur sent sölumenn til að selja „ameríska drauminn“ um land nægtanna — háar tekjur, góð hýbýli, kirkjur og skóla og þjóðfélag sem byggt væri á jöfnum réttindum allra. Sú staðreynd að námueigendur myndu kosta flutning þeirra einungis undirstrikaði trú þeirra á að Ameríka væri svo sannarlega land sem flóði í auðæfum og tækifærum.
Ef einhverjum fannst græna eyjan of fögur til að yfirgefa hana og níu vikna sigling þvert yfir hafið of löng, jafnvel til að eignast betri tilveru, þá áttu þær hugmyndir eftir að breytast þegar kartöfluhallærið brast á! Kartaflan var undirstaða lífsins hjá Írum. Fullvaxta meðalmaður át á bilinu 4 til 6 kílógrömm á dag. Árið 1845 skall á dularfull kartöfluplága
sem átti eftir að leggja margan manninn að velli næstu sex árin. Yfir ein milljón manna dó af völdum plágunnar á Írlandi. Þeir sem voru að selja ameríska drauminn voru skyndilega umsetnir mönnum sem báðu um að fá að komast á skip. Öll tiltæk skip voru tekin í notkun, oft með óviðunandi vistarverum og hreinlætisaðstöðu fyrir þau hundruð manna sem tróðu sér í þau. Margir dóu. Heilar fjölskyldur þurrkaðist út. Ætlað er að 5000 manns hafi látist á leiðinni til Ameríku og líkum þeirra varpað í hafið. Engu að síður náðu 1,2 milljónir írska innflytjenda strönd Ameríku á árum kartöfluhallærisins.Þar sprakk loftbólan hjá mörgum. Draumurin breyttist í martröð. „Góðu húsin“ voru illa byggðir, ómúrhúðaðir kofar, án loftsúðar og veggfóðurs og kaldur vindurinn næddi í gegnum þá á veturna. Húsgögnin voru óvönduð rúm og borð og harðir stólar. „Háu launin“ voru fáein cent á klukkustund — innan við einn dalur fyrir langt dagsverk. Skólarnir, sem lofað hafði verið, fundust hvergi. Börnin ólust upp ólæs og óskrifandi á sitt eigið nafn. Margir námumannanna og fjölskyldur þeirra lentu í hálfgerðri þrælkun og áttu litla möguleika á undankomu.
Tökum dæmi: Námufélögin bæði áttu og starfræktu hreysaborgirnar. Svo var einnig um námufélagsverslanirnar. Fæstir námueigendur leyfðu að önnur verslun væri starfrækt innan bæjarfélagsins. Þar af leiðandi voru námuverkamennirnir neyddir til að kaupa allan varning í námufélagsbúðinni — matvæli, fatnað og verkfæri — á töluvert hærra verði en gerðist í öðrum verslunum, stundum þrefalt hærra. Ef aðrar verslanir voru starfræktar í grenndinni var námuverkamönnunum ekki greitt í peningum heldur í miðum og málmmerkjum, nefnd vörupeningar, sem voru innleysanleg aðeins í námufélagsversluninni. Ef námuverkamaður neitaði að versla í námufélagsbúðinni var hann rekinn og settur á svartan lista og aðirir námueigendur neituðu að taka hann í vinnu.
Ekki var óalgengt að börn yrðu að vinna upp í skuldir við námufélagsverslunina sem þau höfðu tekið í arf frá feðrum sínum. Tökum til dæmis eftir því sem sagði í ritstjórnargrein í dagblaði í New York árið 1872: „Stundum verður kynslóð eftir kynslóð að vinna til að greiða niður skuldir sem afinn stofnaði til. Þeir sem eiga fáeina skildinga í vasanum þéna þá með lítilmótlegri stritvinnu eftir langan vinnudag niðri í jörðinni.“
Úr því að námuverkamennirnir áttu ekki í annað hús að venda og áttu ekkert fé aflögu urðu þeir þrælar nálmueigendanna.
Með því að lög, sem bönnuðu barnavinnu. voru óþekkt þá færðu námueigendur sér í nyt unga pilta og sendu þá, enn á barnsaldri, niður í námurnar til að vinna langan vinnudag i þrengslum þangað sem aðeins smár líkami þeirra gat komist. Allt niður í fimm ára drengir voru látnir vinna ofanjarðar við að greina kol frá flöguberginu á færiböndunum, og fingur þeirra og hendur krömdust oft svo að þær voru nær óþekkjanlegar. Aðrir, úrvinda eftir 14 stunda vinnudag, duttu niður á færiböndin og krömdust til bana. Litlir drengir voru látnir sitja einir í dimmum neðanjarðargöngum 12 stundir á dag og opna dyr sem múludýrin fóru um — þau fengu betri meðferð en mennirnir.
Vinnuaðstæður bæði ungra og aldinna voru slíkar að líf þeirra var stöðugt í hættu. Sprengingar neðanjarðar, eldsvoðar í námugöngum, hrun, flóð, eitraðar lofttegundir eða köfnun, það að lokast inni svo dögum skipti án ljóss, matar og vatns — þetta voru hinar daglegu hættur sem gátu rænt þá vitinu.
Námuverkamennirnir ákváðu að aðstæður þyrftu að breytast til batnaðar, bæði ofan jarðar og neðan. Reynt var að stofna verkalýðsfélög og kvartað var við námueigendur og farið fram á betri og öruggari vinnuskilyrði, hærri laun, afnám námufélagsverslananna, að hætt yrði að láta börn vinna í námunum — en námuherrarnir létu það allt sem vind um eyru þjóta.
Þá tóku námuverkamennirnir það til bragðs að leggja niður vinnu. Verkföll í kolanámum urðu daglegt brauð. Námum var lokað og námueigendur leigðu sér ofbeldismenn til að brjóta verkföllin á bak aftur. Heilar fjölskyldur voru reknar út úr kofaskriflunum út í nístandi kuldann. Karlmönnum var misþyrmt og konur, komnar að barnsburði, voru reknar með valdi úr húsum sínum. Að boði námueigendanna neituðu námufélagslæknar að veita nokkra læknishjálp.
Molly Maguires-leynifélagið
Löngu áður en Írar fluttust til Ameríku hafði ríkt djúptæk beiskja milli hinna ensku mótmælenda og hinna kaþólsku Íra. Það var því erfitt fyrir Íra að kyngja því, þegar þeir voru komnir á ameríska grund, að þurfa að lúta enskum námuherrum og yfirmönnum. Í deilunni miklu milli námuverkamanna og námueigenda mynduðu Írar leynilegan félagsskap sem kallaður var Molly Maguires. Þetta var lítil sveit írskra námuverkamanna sem kom fram hefndum á námueigendum, forstjórum og námustjórum með því að myrða þá á heimilum þeirra, á götum úti og í námunum.
Ótti greip um sig í námubæjunum. Sprengjur sprungu í námunum og járnbrautarvagnar, sem fluttu kol, voru sprengdir af teinunum og eyðilagðir. Hinir ensku yfirmenn og námueigendur urðu fyrir miklum búsifjum. Að löngum tíma liðnum, eftir að njósnari hafði komist inn í raðir Molly Maguires-leynisamtakanna, hlutu þau skelfileg endalok — 20 af meðlimum þeirra voru hengdir, þar af 10 á einum degi.
„Molly“-samtökin voru aðeins eitt tannhjólið í hinni rísandi vél námuverkamannanna sem átti eftir að brjóta harðstjórn námueigendanna á bak aftur. Að því kom að öflug verkalýðsfélög voru stofnuð sem ráku réttar námuverkamanna út um öll Bandaríkin og tryggðu þeim betri laun, öruggari vinnuaðstæður, afnám barnavinnu og svo framvegis. Núna er námugröftur virt starfsgrein og býður upp á laun sem lokka þúsundir manna niður í jörðina í leit að kolum.
[Innskot á blaðsíðu 16]
Sprengingar, eldsvoðar, hrun, eiturloft — þetta voru hinar daglegu hættur.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Námufélagsverslun ásamt vörupeningum sem laun voru greidd með.