Kol — enn þá brennandi deiluefni
Kol — enn þá brennandi deiluefni
ÞRÁTT fyrir umbættur á síðustu árum 20. aldarinnar er kolanámuvinnsla neðanjarðar enn talið hættulegasta starfið sem menn vinna. Að vinna hundruð metra undir yfirborði jarðar með þúsundir tonna af kolum, bergi og jarðvegi tilbúin að hrynja niður í námugöngin, og sprengifimar, lyktarlausar lofttegundir gera námugröft mjög hættulegt starf. Ætlað er að í Bandaríkjunum einum hafi yfir 114 þúsund karlmenn farist í námuslysum síðan 1910. Yfir 1,5 milljónir námuverkamanna hafa orðið óvinnufærir af völdum slysa frá 1930. Sagt er að dauðsföll tengd námugreftri séu yfir þúsund á ári. Ein af orsökunum er kolaryk sem sest fyrir í lungum námuverkamanna.
„Menn eru ódýrari en kol“
Þótt vinnuaðstæður neðanjarðar hafi batnað stórlega á síðustu árum eru öryggismál námuverkamanna enn brennandi deiluefni. „Námustjórar,“ sagði maður sem skrifar um þessi mál, „hafa venjulega barist gegn þeim aukna kostnaði sem er samfara auknum öryggisráðstöfunum, og telja hann ógna afköstum og hagnaði.“ „Í augum námustjóra eru menn ódýrari en kol,“ segja sumir gagnrýnendur. „Stóru fyrirtækin vilja frekar sóa lífi okkar en peningunum sínum,“ bætti óánægður námuverkamaður við.
Auk þeirra miklu framfara, sem orðið hafa í því að gera námurnar hættuminni en áður, hafa orðið enn meiri framfarir í sjálfum vinnsluaðferðunum. Í stað þess að menn og drengir séu sendir niður í jörðina með haka og skóflur losa gríðarstórar kynjavélar allt að 12 tonnum af kolum á mínútu utan úr námuveggjunum. Þær moka síðan lausu kolunum upp á færibönd sem flytja þau upp á yfirborðið.
Til að koma í veg fyrir að loftið í námugöngunum hrynji niður yfir námuverkamennina, þegar vélarnar éta sig í gegnum jörðina, bora öflugir loftborar djúpar holur með ærandi hávaða í bergið í loftinu, og síðan eru skrúfaðir þensluboltar í holurnar til að koma í veg fyrir hrun. Til að halda kolaryki í skefjum og koma, að svo miku leyti sem unnt er, í veg fyrir kolalungu og sprengihættu úða námuverkamennirnir göngin og vinnustaðina með kalksteinsdufti.
Fyrir sérhver nútímaleg þægindi sem fundin eru upp, og sérhverja nýja vél sem gerð er til að gera kolavinnslu auðveldari og hættuminni hafa námuverkamenn orðið fyrir slæmum aukaverkunum — atvinnuleysi. Þar sem áður þurfti fimm námuverkamenn til að vinna eitt tonn af kolum mátti nú segja upp fjórum vegna hinna öflugu véla sem unnu niðri í jörðinni. Sums staðar sökk fólk niður í mikla fátækt af þeim sökum og námubæirnir urðu að fátækrasamfélögum.
Gagnvart þeim námuverkamönnum, sem enn höfðu atvinnu, kom nú upp nýtt deilumál. Þessi stóru vélaskrímsli voru dýr og námueigendunum sveið sú hugsun að vita þau aðgerðarlaus jafnvel eitt einasta augnablik. Þeir vildu fá námuverkamennina til að halda þeim gangandi allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Námuverkamennirnir risu
öndverðir gegn þeirri hugmynd og þverneituðu að vinna á sunnudögum. Þetta varð aðaldeiluefnið í verkfalli kolanámumanna árið 1981 í Bandaríkjunum. Þessu sinni minntust námueigendur verkfallsins þrem árum áður, sem hafði staðið í 111 daga, og létu undan.Þegar leið að lokum ársins 1984 braust út á Englandi eitthvert versta ofbeldi tengt iðnaði frá stríðslokum — allt tengt kolanámum. Sjö þúsund kolanámumenn í verkfalli fylktu liði gegn 3000 breskum lögregluþjónum á götum úti í því sem kallað var „opið stríð.“ Úr skjóli götuvígja úr upprifnum rafmagnsstaurum köstuðu námuverkamennirnir grjóti, múrsteinum og flöskum og lögðu jafnvel gildrur til að limlesta hesta lögreglunnar. Þeir köstuðu reyksprengjum, kúlulegum, málmstykkjum eða kartöflum sem nöglum var stungið í gegnum, og þeir horfðu á bifreiðar, sem þeir höfðu kveikt í, verða eldinum að bráð.
„Það voru framin næstum ótrúleg grimmdarverk,“ sagði forseti sambands námuverkamanna sem hafði boðað verkfallið. Hundruð manna slösuðust í þessum átökum. Verkfallið þjakaði þjóðina frá miðjum mars árið 1984. Á því ári stöðvaðist vinna í 132 af alls 175 kolanámum á Bretlandi og 130.000 námuverkamenn voru frá vinnu sem kostaði bresku stjórnina yfir einn milljarð sterlingspunda. Verkfallinu var að lokum aflýst í mars 1985.
Víkjum nú að kolavinnslu í yfirborðsnámum. Jarðfræðingar í Bandaríkjunum höfðu lengi vitað að milljarðar tonna af kolum lágu í stórum lögum aðeins 15 til 60 metra undir yfirborðinu. Þegar iðnbyltingin tók fjörkipp eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar og þörfin fyrir kol sem orkugjafa fyrir iðnaðinn jókst var farið að grafa kol úr yfirborðsnámum í stórum stíl. Jarðvegurinn ofan á kolalögunum var losaður með sprengiefni og síðan komu stórir þungaflutningabílar á staðinn og óku burt jarðveginum og kolunum.
Fólkið, sem bjó á þessum svæðum,
mundi hins vegar enn þá tíð þegar fjöllin og fjallshlíðarnar voru grænar og gróðursælar. En núna voru stórar og öflugar vélar að éta upp fjöllin, svo stórar að þær gátu mokað upp 325 tonnum af jarðvegi í einum bita. Vatnsæðar neðanjarðar breyttu um stefnu. Brunnar þornuðu upp. Villidýr þurftu að leita sér að nýju skóglendi og uppblástur og landeyðing tók við með geigvænlegum hraða þegar námumennirnir yfirgáfu staðinn í leit að nýjum kolalögum. Eftir voru skildar stórar og ljótar gryfjur í yfirborð jarðarinnar.Lög voru sett sem kváðu á um að námufyrirtækin yrðu að skilja við slíka staði í sama ástandi og þeir voru fyrir. Jarðvegurinn, sem fjarlægður var til að komast að kolunum, skyldi settur aftur á sinn stað og jafnaður til að falla að landslaginu umhverfis. Ef tré voru felld varð að planta nýjum trjám. Ef graslendi var eytt varð að sá grasi. Ef vatn dælt upp úr jörðinni var súrt svo að það myndi drepa fisk varð að eyða sýrunni áður en vatnið mátti fara út í árnar. Kröfurnar eru margar og uppgræðsla landsins dýr, en flest námufyrirtækin hlýða lögunum. Því miður eru þeir þó enn til sem höggva og hlaupa og skilja eftir stórskemmt land.
Kol — og súrt regn
Síðan kom regnið — súrt regn! Það er nýjasta, brennandi deiluefnið sem snertir kolin. Þegar kolum er brennt losna úr læðingi brennisteinstvíoxíð og köfnunarefnisoxíð. Þegar reykháfar orkuvera og iðnfyrirtækja, sem brenna kolum, dæla reyknum út í andrúmsloftið geta brennisteinstvíoxíð og köfnunarefnisoxíð breyst í brennisteinssýru og saltpéturssýru sem loftstraumar geta síðan borið með sér langar vegalengdir, stundum þúsundir kílómetra, og síðan sent til jarðar í mynd úrkomu.
„Margir vísindamenn,“ segir í U.S. News & World Report, „eru sannfærðir um að súrt regn og súr þoka leysi upp nauðsynleg næringarefni úr jarðvegi og trjálaufi.“ Súrt regn er ekki einskorðað við Norður-Ameríku. „Í Evrópu,“ heldur fréttin áfram, „er hin fordæmislausa hnignun lífsþróttar í skóginum kölluð ‚skógardauði.‘ . . . Eyðileggingin teygir sig út um allt Þýskaland, Tékkóslóvakíu, Pólland, Ungverjaland og Svíþjóð. Í Sviss hefur rýrnun skóglendis vakið nýjan ótta um snjóflóð úr strípuðum fjallshliðum.“
Hver sá sem hefur sér til gamans fiska í fiskabúri veit að vatn sem er of súrt getur drepið fisk. Þegar regnvatn er yfir 700 sinnum súrara en eðlilegt er, miðað við mælingar fyrir fáeinum árum í einu af austurríkjum Bandaríkjanna, verður afleiðingin sú að fiskur deyr. „Hundruð vatna í New York-ríki og þúsundir í Skandinavíu og Kanada eru svo súr að fiskur þrífst ekki í þeim lengur,“ sagði tímaritið Good Housekeeping í júní 1984.
Því heyrast hróp og köll til varúðar og andmæla víða um heim. Súrt regn er vaxandi vandamál. Umhverfisverndarmenn og iðnrekendur geta ekki náð samkomulagi í deilunni.
Þrátt fyrir það er notkun kola sem orkugjafa aftur tekin að aukast. Mörg iðnfyrirtæki eru að taka upp kol sem orkugjafa til að knýja rafala og hverfla. Margt er hægt að vinna úr kolum, svo sem olíu, bensín, ilmvatn, aspirín, sakkarín, nælon, plastefni og fjölda annarra aukaafurða.
Útlit er því fyrir að kolin, ásamt öllum sínum brennandi deiluefnum, eigi eftir að vera lengi á sjónarsviðinu.
[Innskot á blaðsíðu 19]
Síðan kom regnið — súrt regn. Og á eftir því deyjandi skógar og dauð vötn.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Stórar vélar losa 12 tonn á mínútu.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Þensluboltar reknir inn til að koma í veg fyrir hrun.