Postulínsleir — lítilmótlegur en verðmætur
Postulínsleir — lítilmótlegur en verðmætur
EF þú værir spurður að því til hvers postulínsleir væri notaður myndir þú sennilega svara: ‚Til að framleiða postulínsmuni og leirtau, auðvitað.‘ Og þú hefðir rétt fyrir þér. En vissir þú að hann er líka notaður við að búa til gúmmí og plast, vefnaðarvörur og málningu, blýanta og veggfóður, einangrara og frárennslisrör, skordýraeitur og áburð, og að hann er oft að finna í lyfjum sem þú kaupir í lyfjabúð? Þetta er sannarlega fjölhæft efni! En hvaðan er það komið? Hvernig er það unnið? Hvaða eiginleikar gera það hæft til svona margvíslegra nota?
Hvar myndaður og hvernig
Postulínsleir er einnig þekktur sem kaólín en það er dregið af kínversku orðunum „kao“ (hár) og „ling“ (brún). Með því er átt við hæðirnar í Kiangsihéraðinu þar sem hann fyrst fannst. Um aldaraðir höfðu Kínverjar notað postulínsleir ásamt postulínssteini til að gera sína frábæru postulínsmuni. Af því er komið að orðið china, sem merkir einnig Kína, er í enskumælandi löndum notað um postulínsmuni og leirtau. Marco Póló tók með sér ýmsa postulínsmuni heim til Feneyja árið 1295 og kallaði þá porcellana — postulín.
Það var þó ekki fyrr en á 18. öld að leirkerasmiðir á Vesturlöndum uppgötvuðu leyndarmál Kínverjanna við það að búa til postulín. Síðan hefur postulínsleir fundist víða á Vesturlöndum. Núna er hann framleiddur einkum í Bandaríkjunum, Frakklandi, Tékkóslóvakíu, Þýskalandi, Sóvétríkjunum og á Englandi.
Ekki er í rauninni vitað hvernig þessi leirlög urðu til. Ein kenning hljóðar svo að þegar heitar, súrar lofttegundir úr iðrum jarðar hafi þrengt sér undir þrýstingi gegnum granítið, hafi þær breytt hinum hörðu steinkristöllum í hvítan postulínsleir og önnur jarðefni. Önnur kenning er á þá lund að eftir einhvern uppblástur hafi súrt yfirborðsvatn seytlað niður í hið veðraða granít á löngu tímabili, leyst upp sum af efnunum í því og skilið eftir hinn mjúka, hvíta postulínsleir blandaðan leifum af kvarsi og gljásteini. Vera má að í reyndinni hafi hvorttveggja átt sinn þátt í að mynda postulínsleirinn.
Í leirnámu
Auðugustu postulínsleirnámur veraldar eru nú í Cornwall og Devon á Englandi. Um 2,5 milljónir tonna eru unnar úr námunum ár hvert og um þrír
fjórðu af því magni er flutt út til um það bil 60 landa víða um heim.Í námunum í Cornwall er notað vatn við leirvinnsluna. Vatni er sprautað undir háum þrýstingi á hálfuppleyst granítið, og við það blotnar það upp og leysist í sundur. Leirinn skolast burt ásamt hinum grófari og þyngri sand- og gljásteinsögnum. Sandurinn og gljásteinninn er skilinn frá og notaður í hleðslusteina og aðrar steinsteypueiningar. Postulínsleirinn, sem enn er í vatnslausn, er síðan blandaður og hreinsaður. Að lokum er leirinn þurrkaður til að ná úr honum vatninu sem eftir er.
Hið margvíslega notagildi leirsins
Þótt undarlegt kunni að virðast er hið margvíslega notagildi postulínsleirsins ekki að þakka neinum flóknum né fágætum eiginleikum, heldur miklu fremur vöntun á þeim. Það sem gerir þetta einfalda og lítilmótlega efni afar nýtsamlegt, er hversu ógjarnan það gengur í samband við önnur efni, hversu hreint það er, fíngert og, ekki síst, ódýrt.
Til dæmis er þér sennilega kunnugt að pappír er gerður úr trjámauki og öðrum trefjum. En vissir þú að stór hluti pappírs er „fylltur“ með postulínsleir? Trefjarnar einar sér þjappast ekki nógu vel saman til að gefa pappírnum gott yfirborð til að prenta á. Bilið á milli trefjanna er því fyllt með fíngerðum, hvítum postulínsleir. Við þetta verður pappírinnn síður gagnsær, það sem prentað er öðrum megin á hann sést síður í gegn og árangurinn er snyrtileg blaðsíða með góðri prentáferð.
Pappírinn, sem notaður er í sum vinsæl tímarit, getur verið postulínsleir allt að einum fimmta hluta. Gljápappírinn, sem notaður er í dýrari tímarit, á þessu jarðefni enn meira að þakka. Gljáinn stafar í rauninni af postulínsleir blönduðum einhvers konar límefni sem borinn er á yfirborð pappírsins.
Þar eð postulínsleir er víða ódýrari en trjámauk má lækka verðið á pappírnum verulega með því að blanda honum saman við. Það er engin furða að pappírsiðnaðurinn er núna stærsti notandi postulínsleirs í heiminum.
Margir halda kannski að leirtau og postulínsmunir séu gerðir eingöngu úr postulínsleir. Í reyndinni getur psotulínsleirinn numið aðeins 10 til 60 af hundraði efnisins. Afgangurinn er sandur, tinnusteinn, kvars og svo framvegis. Leirinn þjónar aðallega því hlutverki að hægt sé að móta hlutinn og að hann verði hvítur þegar hann er brenndur.
Vissir þú að postulínsleir er ekki aðeins undir fótum manna í jörðinni heldur einnig í gúmmísólunum eða stígvélunum sem menn nota til að blotna ekki í fæturna? Þegar postulínsleir er blandað í náttúrlegt gúmmí eða gervigúmmí bæði lækkar þeð verð og eykur styrk og slitþol gúmmísins. Árangurinn er ódýrari og endingarbetri skófatnaður en ella væri. Postulínsleir er einnig notaður við málningargerð. Sökum þess hversu fínn hann er verður auðveldara að draga jafnt úr málningunni, auk þess að hann á þátt í því að halda litarefnunum í sviflausn og koma í veg fyrir að þau botnfalli of fljótt.
Vera má að atugasemd okkar um notkun postulínsleirs við lyfjagerð hafi verið þér undrunarefni. Já, með því að hann er algerlega óvirkur fyrir efnabreytingum og afar fíngerður kemur hann að notum þegar honum er hreinlega hrært út í vatn eða notaður sem grunnur eða burðarefni fyrir önnur virk efni í töflum eða dufti. Hann er jafnvel notaður í sumar tegundir tannkrems, sápu og snyrtivara.
Við höfum aðeins drepið á sumt af helsta notagildi þessa einfalda efnis. Hefur það komið þér á óvart hversu fjölbreytt notagildi þess er? Hverjum myndi detta í hug að efni sem er svona einfalt og til í svona miklu magni skuli vera svona nytsamlegt! Hér höfum við enn eitt merki um tilvist elskuríks skapara sem sá vel fyrir mannkyninu og bjó jörðina öllu sem við þurfum.