Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Veist þú hvað börnin þín lesa?

Veist þú hvað börnin þín lesa?

Veist þú hvað börnin þín lesa?

„MAMMA, ég ætla ekki að lesa bækurnar hennar framar,“ sagði ellefu ára stúlka. Hún var að tala um þekktan barnabókahöfund. Þegar móðir stúlkunnar spurði hana hvers vegna sýndi hún henni nokkrar setningar sem höfðu að geyma klúryrði. Móðirinn segir: „Ég varð fyrir nokkru áfalli, því að ég hélt að ég hefði skoðað bækurnar sem börnin okkar voru að lesa, og oftast lesið það sem stendur á bókarkápunum til að athuga hvert efni bókanna væri. En það hvarflaði aldrei að mér að svona málfar fyndist í bókum sem skrifaðar eru fyrir tíu til tólf ára krakka. Eftir að ég hafði hrósað henni fyrir að segja mér frá þessu ákvað ég að skoða lestrarefni barnanna betur í framtíðinni.“

Í mörg ár hafa sumar sjónvarpsstöðvar í Bandaríkjunum sent út þennan boðskap: „Klukkan er tíu. Veist þú hvar börnin þín eru?“ Engir kærleiksríkir foreldrar vilja að börnin þeirra séu úti seint á kvöldin í óæskilegum félagsskap. En hvað er langt síðan þú athugaðir hvað börnin þín eru að lesa? Getur hugsast að í gegnum lestrarefni hafi börnin þín félagsskap við fólk sem stuðlar að leti, uppreisnarhug, þjófnaði, vændi, kynvillu eða jafnvel morðum? VEIST þú í rauninni hvað börnin þín eru að lesa?

Það sem þau lesa

Móðir nokkur kom að níu ára gömlu barni sínu sem var niðursokkið í bók. Henni til ánægju reyndist það vera alfræðibók! Tæplega þarf þó að orðlengja að slíkt er undantekning en ekki regla. Langtum oftar er barn á þeim aldri niðursokkið í teiknimyndabók eða skrípamyndablað. Slík rit geta haft sína kosti en þau hafa takmarkað gildi til að kenna góðar lestrarvenjur.

Og hvað um táninga? Tímaritið Seventeen segir: „Verulegur hluti lestrarefnis á táningamarkaðinum er ástarsögur.“ Haft er eftir 16 ára stúlku: „Bækurnar eru svo raunverulegar. Manni finnst maður vera söguhetjan . . . Ég get gleymt stað og stund þegar ég er að lesa þær.“ Ástarsaga getur örvað draumóra um ást og ástarævintýri löngu áður en unglingurinn er fær um eða í aðstöðu til að ráða við þessar tilfinningar. Og í sumum tilvikum hafa unglingar hreinlega orðið háðir slíkum sögum, jafnvel snúið sér að ástarsögum sem hafa að geyma kynlífslýsingar.

Ein ung kona byrjaði til dæmis að lesa gamlar ástarsögur. En brátt kom að því, segir hún, að henni fannst hún hreinlega verða að lesa að minnsta kosti eina á dag. Til að seðja lestrarlöngun sína fór hún að lesa nýrri ástarsögur. „Þær fóru út í mjög nákvæmar lýsingar á siðlausu kynlífi fyrir hjónaband,“ segir hún.

Og hvað um unga pilta? Þeir hafa kannski ekki áhuga fyrir ástarsögum en þeir geta verið jafnháðir vísindaskáldsögum, ævintýrum og íþróttasögum. Sumar eru heilnæmar, aðrar ekki.

Ekki má láta sér yfirsjást það sem börnum er falið að lesa í skólanum. Þar er oft borið á borð efni svo sem þróunarkenningin, falstrúarkenningar og jafnvel bækur eða kvikmyndir með nákvæmum kynlífslýsingum. Foreldrum er oft ókunnugt um hvað verið er að kenna börnunum þeirra.

Það sem foreldrarnir geta gert

Hvað getið þið foreldrarnir gert til að hjálpa börnunum ykkar? Byrjið á því að setja sjálf gott fordæmi. Að vísu getur það verið erfitt fyrir suma. Einn af trúboðum votta Jehóva í Kenya sagði: „Foreldrarnir eiga sjaldnast langa skólagöngu að baki, ef þá nokkra, og lesa ekki sérlega vel. Þess vegna vita þeir ekki hvað verið er að kenna börnunum þeirra í skóla eða hvað þau lesa sjálf.“ Í slíkum löndum getur því verið nauðsynlegt fyrir foreldra að sækja lestrarkennslu. Slík kennsla er oft fáanleg í söfnuðum votta Jehóva.

Í hinum auðugari ríkjum eru foreldrarnir þó yfirlett læsir. Hvernig getur þú notfært þér slíka kunnáttu? Í stuttu máli, ef þú vilt að börnin þín lesi þurfa þau að sjá þig lesa. Ef þú vilt að þau lesi góðar bækur þurfa þau að sjá þig lesa góðar bækur.

Athygli vekur að Biblían bendir á hversu verðmætt sé að veita slíka kennslu snemma. Hún segir frá ungum manni að nafni Tímóteus sem ‚þekkti heilagar Ritningar frá blautu barnsbeini.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Að því er virðist hafði móðir Tímóteusar lesið Ritninguna fyrir hann jafnvel þegar hann var smábarn! Páll postuli þakkar hinn mikla kærleika Tímóteusar til orðs Guðs að minnsta kosti að nokkru leyti þessum þætti í uppeldi hans.

Það er eins núna að mikilvægt er að lesa fyrir börnin frá því að þau eru ung. Undrabarn eitt, ellefu ára stúlka sem stundaði fornám í læknisfræði (og þrjár systur hennar), eru sagðar hafa fengið afburðahæfileika sína vegna þess að foreldrarnir fóru að kenna þeim mjög snemma. Faðir þeirra segir: „Börnin okkar eru ekkert einstök. Þau fengu bara tækifæri til að læra á unga aldri.“ Að vísu er ekki líklegt að þú væntir þess að börnin þín hafi einhverja afburðahæfileika, en þetta dæmi sýnir hvaða gildi það hefur að koma á góðum lestrarvenjum á unga aldri. Dr. Bettelheim segir: „Komið hefur í ljós að það er mikið til ráðið við lok þriðja bekkjar hverjum mun gang vel í skóla og hverjum illa. Lestarkennsla í fyrstu þrem bekkjunum hefur því úrslitaþýðingu.“

Þegar börnin þín leggja sig fram um að bæta lestrarhæfni sína hafa þau mikla þörf fyrir hvatningu og hrós frá þér. Bókin How to Motivate Adolescents (Hvernig á að hvetja unglinginn) segir: „Hrós er sennilega öflugasta hvatningin sem foreldrar geta gefið unglingum, en um leið sú sem mest er vanrækt!“

En hvernig hafa foreldrar eftirlit með því hvað barnið les? Sumir hafa staðið börnin sín, sem áttu að vara sofnuð, að því að lesa klámrit með hjálp vasaljóss undir sænginni sínni. Þetta þýðir auðvitað ekki að foreldrarnir ættu að snuðra um börnin eða beita einhvers konar lögregluaðferðum. Það undirstrikar þó þörfina á opinskáum samræðum og skoðanaskiptum milli foreldra og barna. Hvers vegna ekki að ræða málin í hreinskilni og útskýra fyrir barni þínu hvað ekki sé við hæfi að lesa og hvers vegna þú lítur það þeim augum? Ef þú gerir það yfirvegað, opinskátt og hreinskilnislega er ólíklegt að barnið fyrtist við það. Að sýna barni rétta „veginn“ hefur oft langvarandi áhrif. — Orðskviðirnir 22:6.

Taktu ekki lestrarefni barns þíns algerlega neikvæðum tökum. Í stað þess að vandræðast yfir því hvers konar efni berist í hendur barna og unglinga skalt þú gera eitthvað í málinu! Sjáðu börnunum þínum fyrir góðum bókmenntum. Barnið, sem las alfræðibækurnar og minnst var á áðan, gat gert það aðeins vegna þess að slíkar bækur voru til á heimilinu. Ætli alfræðibækur af einhverju tagi geti verið viturleg fjárfesting fyrir fjölskylduna þína? Og hvað um „klassískar“ bókmenntir? Oft segja þær ævintýri, undirstrika áreiðanleika og hollustu og auka ímyndunarafl barnanna. Átt þú til slíkar bækur á heimilinu þínu? Ef þér þykja bækur of dýrar til að kaupa þær er hægt að notfæra sér almenningsbókasöfnin.

Hvað um tímarit? Til eru tímarit um ljósmyndun, sagnfræði, landafræði og dýralíf. Tímarit eins og Varðturninn og Vaknið! geta örvað áhuga barns þíns á skaparanum. Séu barninu send þessi tímarit í áskrift undir eigin nafni mun það hafa ríkari tilhneigingu til að lesa þau.

Skólaefni

En hvað um efni sem barninu þínu kann að vera kennt í skóla? Sumir foreldrar hafa verið nægilega umhyggjusamir til að tala við kennara og skólayfirvöld til að beiðast þess að börnin þeirra þyrftu ekki að lesa ákveðið efni sem foreldrunum var ekki að skapi. Engu að síður þarf að gæta jafnvægis í þessu máli. Til dæmis mun lífið stöðugt láta dynja á barni þínu hugmyndir sem eru ekki í samræmi við Biblíuna, og um síðir mun barn þitt þurfa að standa á eigin fótum í heiminum. Barnið mun hafa þörf fyrir þau „hyggindi“ og „aðgætni“ sem Salómon hvatti ungt fólk til að þroska með sér, til að geta síað hið rétta frá hinu ranga. (Orðskviðirnir 1:4) Mun það hjálpa barninu að rækta þessa hæfileika ef reynt er að skýla því hverri einustu rangri hugmynd?

Sumir foreldrar leyfa því börnunum sínum að vinna þau heimaverkefni, sem þeim eru sett fyrir, en fylgjast um leið náið með því sem verið er að kenna þeim. Þeir skoða vandlega námsbækurnar sem börnunum eru fengnar. Þeir ræða daglega um það sem börnunum hefur verið kennt í skólanum. Reglulegt nám í Biblíunni og hreinskilnar og opinskáar samræður og skoðanaskipti hjálpa þeim að halda hugsun barnanna á réttri braut. — 5. Mósebók 6:6-9.

Að sjálfsögðu getur stundum verið nauðsynlegt að ræða við kennara og skólayfirvöld, einkum ef námsefnið er augljóslega óviðunandi. Mundu samt sem áður að kennararnir, sem kenna barninu þínu, eru ekki fjandmenn þínir. Kennarar eru yfirleitt samviskusamir og hafa jafnmikinn áhuga á námshæfni og framförum barn þíns og þú. Því er gott að heimsækja kennslustofuna reglubundið til að kynnast kennurunum, eftir því sem tími þinn og aðstæður leyfa.

Lestrarkunnátta er undirstaða alls lærdóms. Án hennar er erfitt að læra nokkuð. Með henni er tæpast nokkuð sem ekki er hægt að læra. Börn, sem njóta þess að lesa, eru því í mjög góðri aðstöðu.

[Innskot á blaðsíðu 26]

Ef þú vilt sjá þau lesa góðar bækur þurfa þau að sjá þig lesa góðar bækur.