Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vitum við hvað Biblían upprunalega sagði?

Vitum við hvað Biblían upprunalega sagði?

Vitum við hvað Biblían upprunalega sagði?

FÓLK stynur oft undan öllu fréttafarganinu, ekki aðeins vegna þess hvers eðlis fréttirnar eru heldur líka hversu margar þær eru. Tæpast nokkur maður getur til fullnustu skilið þær allar og melt. Og sökum þess að fæstir geta sannreynt fréttirnar eru sumir orðnir efagjarnir á það sem þeir heyra og sjá. Langoftast eru þó fréttir lesnar og meðteknar án nokkurra efasemda. Fólk lifir og mótar líf sitt eftir þeim.

Þegar Biblían á í hlut finnst hins vegar mörgum réttlætanlegt að vera efagjarnir. Þeir spyrja oft: „Hvers vegna ætti ég að móta líf mitt eftir Biblíunni? Hvernig get ég verið viss um að ‚fréttafrásagnirnar‘ í henni, sem eiga að vera frá Guði, séu í reyndinni frá honum? Og ef svo er, hvernig get ég vitað hvort þær hafa borist okkur — eftir allar þessar aldir — án þess að breytast?“

Bók, sem getur valdið varanlegum breytingum á persónuleika einstaklingsins — eins og margir álíta að Biblían ætti að gera — þarfnast nákvæmrar athugunar, einkum í þá veru hvort henni sé treystandi. Biblían hvetur okkur sjálf til slíkrar rannsóknar. Biblíuritari orðaði það svona: „Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:1.

Slíka athugun þarf samt sem áður að gera af fullkomnum heiðarleika og einlægni. Sá sem gerir það verður að vera fús til að viðurkenna það sem er sannleikanum samkvæmt og hann uppgötvar, jafnvel þótt það sé algerlega andstætt fyrri hugmyndum hans og skoðunum. En er í reyndinni hægt að gera slíka athugun til að sannreyna nákvæmni Biblíunnar?

Nákvæmni Biblíunnar sannreynd

Enda þótt Biblían sé ævaforn bók er eftirtektarvert að mörg forn biblíuhandrit staðfesta nákvæmni hennar. Í bókasöfnum og einkasöfnum út um allan heim er þessi fornu handrit að finna hreinlega í þúsundatali. Þau sanna að Biblían hefur staðist tímans tönn, verið afrituð nákvæmlega og borist okkur óbreytt.

Þetta er hægt að sannreyna. Hin gamalgróna þýska stofnun, sem fæst við textarannsóknir á Nýjatestamentinu, hefur til dæmis gert um 95 af hundraði þeirra um það bil 5300 handskrifuðu eintaka kristnu Grísku ritninganna, sem hún á, aðgengileg til vísindarannsókna, annaðhvort á örfilmum eða ljósmyndum. Því er hægt að sýna áhugasömum gesti, hvort heldur leikmanni eða sérfræðingi, undir sérfræðilegri leiðsögn hversu nákvæmlega texti Biblíunnar hefur varðveist allt fram á 20. öldina. Tímabilið á milli þess að kristnu Grísku ritningarnar voru upphaflega ritaðar og elstu handritanna, sem varðveist hafa, er mjög stutt, ekki lengra en 25 ár.

Því er hægt að fullyrða að texti Biblíunnar hafi varðveist óbrenglaður. Hið sama verður ekki fullyrt með vissu um önnur forn rit. Í bók sinni Das Buch des Bücher (Bók bókanna) segir Karl Ringshausen á 3. blaðsíðu:

„Júlíus Sesar skrifaði Skýringarit um Gallíustríðið árið 52 fyrir Krist. Elstu afritin, sem varðveist hafa, eru gerð síðar, eða á níundu öld eftir Krist. Gríski heimspekingurinn Platon var uppi á árunum 427 til 347 fyrir Krist; elsta afritið af heimspekiritum hans er ársett 895 eftir Krist. Yfirleitt er næstum þúsund ára bil eða lengra milli fyrstu ritunar, frumrita hinna fornu bóka, og elstu afrita sem varðveist hafa.“

Og um fjölda afrita, sem til eru frá þeim tíma, segir bókin The Bible From the Beginning (Biblían frá upphafi): „Þegar allt er talið eru hin klassísku handrit sárafá í samanburði við biblíuleg handrit. Engin forn bók er jafn vel staðfest og Biblían.“

Biblían og nútímarit

Hvernig stenst Biblían samanburð við nýlegri rit? Athyglisvert er að óvissa ríkir um að hinn upprunalegi texti sumra síðari tíma höfunda, sem nú eru látnir, hafi komist óbrenglaður á prent. Til eru sérstakar útgáfur af verkum þýskra höfunda svo sem Goethes, Schillers, Hölderlins og margra fleiri, þar sem reynt hefur verið að endurgera frumtextann með vísindalegum aðferðum. Sérfræðinga greinir oft á um hvaða útgáfa beri þess merki að vera hin upprunalegu orð höfundarins.

Oft blandast jafnvel stjórnmál inn í. Eftir að Mao Tse-tung dó beið fólk lengi eftir fimmta bindinu í safni verka hans. Sérfræðingar um málefni Kína voru þeirrar skoðunar að þessi dráttur stafaði af pólitískum óstöðugleika forystu landsins sem gæti ekki komið sér saman um hvað bæri að viðurkenna sem komið frá penna Maos. Þegar fimmta bindið loksins leit dagsins ljós létu margir sérfræðingar í ljós efasemdir um að það hefði í raun að geyma orð Maos.

Hvers vegna Biblían er svona frábrugðin

Hversu frábrugðin er ekki Biblían þessum verkum manna sem skrifuð voru miklu síðar! Þótt Biblían sé eldri skipar nákvæmni textans henni í sérstakan flokk. Hvernig stendur á því? Hvernig var hægt að koma texta Biblíunnar frá kynslóð til kynslóðar yfir langtum lengra tímabil með slíkri nákvæmni að við getum verið viss um áreiðanleika hennar í sinni núverandi mynd?

Í fyrsta lagi báru flestir þeirra sem afrituðu eða aðstoðuðu við afritun Biblíunnar, djúpa virðingu fyrir höfundi hennar, Guði. Masoretarnir (hópur Gyðinga og biblíufræðimanna sem voru uppi frá sjöttu til tíundu aldar okkar tímatals) eru þekktir fyrir að hafa af stökustu nákvæmni talið hvern einasta bókstaf í texta Biblíunnar til að forðast það að gera nokkur mistök eða jafnvel að sleppa einum einasta bókstaf úr hinum helgu ritum. Þessi örugga aðferð kann að hafa verið notuð jafnvel löngu fyrir þeirra tíð til að forðast mistök í afritun Biblíunnar. Hugsanlegt er að Jesús hafi haft þennan hátt afritaranna í huga þegar hann sagði í fjallræðu sinni: „Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram.“ — Matteus 5:18.

Þessi viðleitni afritaranna til að standa vörð um hreinleika og nákvæmni biblíutextans skýrir hvers vegna Dauðahafshandritin frá fyrstu og annarri öld f.o.t., sem höfðu meðal annars að geyma alla bók Jesaja, eru svo til nákvæmlega samhljóða textanum sem við höfum núna.

Í öðru lagi höfðu flestir þessara fræðimanna og afritara aðeins áhuga á verkinu — að afrita hinn helga texta — ekki að hljóta sjálfir neitt lof fyrir. Meira að segja fórnuðu þessir menn oft heiðri, eignum, heilsu og jafnvel lífinu til að tryggja að handritin væru nákvæmlega afrituð eða þeim komið í hendur fræðimanna sem myndu nota þau til að stuðla að varðveislu biblíutextans.

Konstantin von Tischendorf var til dæmis fús til að bjóða óbyggðum birginn og ferðast mitt í gegnum eyðimörk á miðri 19. öldinni, til að tryggja sér eitt áreiðanlegasta biblíuhandrit 4. aldar. Hann hafði áður fundið það í körfu með bréfarusli í klaustri Heilagrar Katrínar á Sínaífjalli.

Í þriðja lagi báru margir þeirra manna, sem höfðu svona brennandi áhuga á að koma texta Biblíunnar nákvæmlega til skila, djúpan kærleika til orðs Guðs. Eins og ritari sálmanna höfðu þeir yndi af orði Guðs og glöddust yfir því að geta gert öðrum texta Biblíunnar aðgengilegan. — Sálmur 1:1, 2.

Í fjórða lagi, og það er mikilvægast, má ekki gleyma því að hinn guðlegi höfundur Biblíunnar innblés ritun Heilagrar ritningar í upphafi. Hann gaf mönnunum, sem unnu við Biblíuna, þá ákveðnu hjálp sem þeir þurftu til að færa í letur það sem hefur vakið með manninnum hans dýpstu tilfinningar og hjálpað honum að ‚leiðrétta‘ sig. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Rökrétt er að hann myndi hafa umsjón með því að orð hans bærist okkur nútímamönnum óspillt.

Langar þig til að vita meira um mennina sem Guð notaði til að færa þessi áreiðanlegu orð í letur? Vaknið! mun síðar birta grein um mennina sem skrifuðu Biblíuna.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 12]

Hluti af Biblia Hebraica Stuttgartensia, nánar tiltekið 3. Mósebók 11:42, þar sem hebreski bókstafurinn er stækkaður til að láta hann skera sig úr sem miðstafur Fimmbókaritsins.

Hluti Aleppo-handritsins (Sálmur 80:14) þar sem hebreska bókstafnum ajín er lyft upp til að sýna að hann sé miðstafur Sálmanna.

[Rammi]

Að miðbókstafur hinna fimm bóka Móse og Sálmanna skuli auðkenndur svona sýnir að Masoretarnir höfðu talið hvern einasta bókstaf í þessum bókum. Það ber vott um hina gífurlegu nákvæmni afritaranna í því að afrita Biblíuna nákvæmlega.