Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Blóðsala er arðsöm atvinnugrein

Blóðsala er arðsöm atvinnugrein

Blóðsala er arðsöm atvinnugrein

RAUÐA GULLIÐ! Eins og þessi nafngift gefur til kynna er um að ræða efni sem selst háu verði. Þetta er verðmætur vökvi, lífsnauðsynleg náttúruauðlind sem líkt hefur verið bæði við gull, olíu og kol. En rauða gullið er ekki unnið með haka og dínamíti úr æðum í iðrum jarðar — það er unnið úr æðum fólks með snöggt um fínni aðferðum.

„Hjálpaðu stúlkunni minni, hún þarfnast blóðs,“ segir á auglýsingaskilti sem gnæfir yfir fjölfarna götu í New Yorkborg. Aðrir auglýsingatextar eru á þessa leið: „Ef þú gefur blóð ert þú ómissandi fyrir heiminn.“ „Blóð þitt er mikils virði. Réttu okkur hjálparhönd.“

Boðskapurinn nær greinilega til þeirra sem vilja leggja samborgurum sínum lið. Um allar jarðir bíða menn í biðröðum til að gefa blóð. Vafalaust vilja flestir blóðgjafar, og eins þeir sem safna blóðinu og gefa sjúkum blóð, hjálpa sjúkum og þjáðum og trúa að þeir séu að gera það.

En eftir að blóðinu er safnað og áður en það er gefið öðrum manni í æð gengur það milli fleiri aðila og gegnum meiri úrvinnslu en við flest gerum okkur grein fyrir. Líkt og gull hefur blóð náð að vekja upp fégræðgi manna. Það er hægt að selja það með hagnaði og selja á ný með enn meiri hagnaði. Sumir berjast um réttinn til að safna blóði, selja það á okurverði, græða stórfé á því og jafnvel smygla því milli landa. Blóðsala er arðsöm og umfangsmikil atvinnugrein um víða veröld.

Í eina tíð var blóðgjöfum greitt út í hönd í Bandaríkjunum fyrir það blóð sem úr þeim var tekið. En árið 1971 kom breski rithöfundurinn Richard Titmuss fram með þá ásökun að bandaríska blóðbankakerfið væri varhugarvert fyrir þá sök að það lokkaði fátæka og sjúka með þessum hætti til að gefa blóð í skiptum fyrir fáeina dali. Hann hélt því einnig fram að það væri siðlaust að græða á því að gefa blóð sitt öðrum til hjálpar. Árás hans varð til þess að hætt var að greiða blóðgjöfum í Bandaríkjunum fyrir heilblóð (þótt það sé enn gert í sumum löndum heims). Þessi breyting hafði þó ekki í för með sér að blóðverslunin yrði ábataminni. Hvers vegna?

Blóð áfram arðvænleg verslunarvara

Á fimmta áratug aldarinnar tóku vísindamenn að aðskilja blóð í efnisþætti sína. Þessi aðferð, sem núna er nefnd þættun, gerir blóðverslunina enn arðvænlegri atvinnugrein. Hvernig þá? Tökum dæmi: Sé nýleg bifreið rifin og seld í pörtum getur fengist allt að fimmfalt meira fyrir hana en væri hún seld í heilu lagi. Á sama hátt fæst mun meira fyrir blóðið ef það er skilið í efnisþætti sína og þeir seldir hver í sínu lagi.

Blóðvökvi (plasma), sem er um helmingur af heildarrúmmáli blóðs, er sérstaklega ábatasöm söluvara. Með því að blóðvökvi inniheldur enga af frumuhlutum blóðsins — rauðkornum, hvítfrumum og blóðflögum — má þurrka hann og geyma þannig. Auk þess má blóðgjafi gefa heilblóð einungis fimm sinnum á ári, en hins vegar getur hann gefið blóðvökva allt að tvisvar í viku. Það fer þannig fram að blóð er tekið úr manni, frumur skildar frá blóðvökvanum og þeim síðan skilað aftur í saltlausn eða öðru blóðþenslulyfi.

Í Bandaríkjunum má enn greiða blóðgjöfum fyrir blóðvökva. Þar í landi mega blóðgjafar meira að segja gefa fjórfalt meiri blóðvökva á ári en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með! Það kemur því ekki á óvart að Bandaríkin skuli leggja til yfir 60 af hundraði þess blóðvökva sem notaður er í heiminum. Allur sá blóðvökvi sem slíkur er metinn á 450 milljónir bandaríkjadala (um 24 milljarða ÍSK). Hann gefur hins vegar miklum mun meira í aðra hönd vegna þess að hægt er að skilja hann í ýmsa fleiri efnisþætti. Á heimsmælikvarða veltir blóðvökvaiðnaðurinn tveim milljörðum bandaríkjadala eða um 108 milljörðum ÍSK á ári!

Dagblaðið Mainichi Shimbun segir Japani nota um þriðjung alls blóðvökva sem safnað er í heiminum. Japanir flytja inn 96 af hundraði þeirra blóðhluta sem þeir nota, aðallega frá Bandaríkjunum. Gagnrýnisraddir heyrast í Japan sem hafa kallað Japani „blóðsugu heimsins“ og japanska heilbrigðisráðuneytið hefur reynt að draga úr þessum viðskiptum á þeim forsendum að það sé óeðlilegt að hagnast á blóði. Ráðuneytið staðhæfir að japönsk lyfjafyrirtæki hafi um 200 milljónir bandaríkjadala (um 11 milljarða ÍSK) í tekjur ár hvert af aðeins einum blóðvökvahluta, albúmíni.

Sambandslýðveldið Þýskaland notar meiri blóðafurðir en öll önnur Evrópulönd samanlagt, og meira á hvert mannsbarn en nokkurt annað land veraldar. Bókin Zum Beispiel Blut (Til dæmis blóð) segir um þessar blóðafurðir: „Yfir helmingur þeirra er innfluttur, aðallega frá Bandaríkjunum, en einnig frá þriðja heiminum. Í öllum tilvikum er það komið frá hinum fátæku sem reyna að drýgja tekjur sínar með því að gefa blóðvökva.“ Sumir þessara fátæklinga selja svo mikið blóð að þeir deyja af blóðskorti.

Mörg fyrirtæki, sem versla með blóðvökva, staðsetja söfnunarstöðvar á lágtekjusvæðum eða meðfram landamærum fátækra ríkja. Þær lokka til sín fátæka og flækinga sem eru meira en fúsir til að selja blóðvökva fyrir reiðufé og hafa kappnóg tilefni til að gefa meira en þeir ættu að gera eða þegja yfir sjúkdómum sem þeir kunna að vera haldnir. Slík viðskipti eru stunduð í 25 löndum víða um heim. Þau eru ekki fyrr stöðvuð í einu landi en þau spretta upp í öðru. Smygl og mútur til embættismanna eru ekki óalgengar.

Gróði í nafni mannúðar

En blóðbankar í Bandaríkjunum, sem teljast ekki reknir í hagnaðarskyni, hafa einnig sætt harðri gagnrýni upp á síðkastið. Árið 1986 upplýsti blaðamaðurinn Andrea Rock í tímaritinu Money að það kostaði blóðbanka 57,50 dali (um 3100 ÍSK) að safna sem svarar einum poka af blóði frá blóðgjafa, að spítalinn þurfi að greiða blóðbankanum 88 dali (um 4800 ÍSK) fyrir sama skammt og að sjúklingurinn þurfi að reiða af hendi allt frá 375 upp í 600 dali (20.000 til 32.000 ÍSK) fyrir pokann sem honum er gefinn.

Hefur staðan breyst eitthvað síðan? Í september 1989 skrifaði blaðamaðurinn Gilbert M. Gaul hjá blaðinu The Philadelphia Inquirer greinaröð um bandaríska blóðbankakerfið. a Eftir eins árs rannsóknir skýrði hann frá því að sumir blóðbankar sárbændu fólk um að gefa blóð en seldu síðan öðrum blóðmiðstöðvum allt að helming þessa blóðs út um bakdyrnar með töluverðum hagnaði. Gaul áætlar að blóðbankarnir selji um hálfa milljón lítra af blóði ár hvert með þessum hætti á skuggalegum markaði er velti um 50 milljónum bandaríkjadala (um 2,7 milljörðum ÍSK) á ári, en sá markaður starfar með líku sniði og verðbréfamarkaður.

Og þó er einn mikill munur á: Þessi blóðmarkaður lýtur ekki eftirliti ríkisvaldsins. Enginn veit nákvæmlega hve umfangsmikill hann er og enginn hefur eftirlit með verðlagningunni. Margir blóðgjafar vita ekkert um hann. „Það er verið að blekkja fólk,“ sagði blóðbankamaður, sem kominn er á eftirlaun, í viðtali við dagblaðið The Philadelphia Inquirer. „Enginn segir því að okkur er selt blóðið sem það gefur. Það yrði ævareitt ef það vissi það.“ Fulltrúi bandaríska Rauða krossins sagði stutt og laggott: „Blóðbankarnir hafa blekkt bandarískan almenning um áraraðir.“

Í Bandaríkjunum safna blóðbankar um 6,75 milljónum lítra af blóði á ári og selja yfir 30 milljónir blóðafurðaeininga fyrir um það bil 1 milljarð dala (54 milljarða ÍSK). Það er gríðarleg fjárhæð. Blóðbankarnir nota reyndar ekki hugtakið „hagnaður“ heldur „tekjur umfram gjöld.“ Bandaríski Rauði krossinn skilaði til dæmis 300 milljónum dala (16 milljörðum ÍSK) í „tekjur umfram gjöld“ á árabilinu 1980 til 1987.

Blóðbankarnir halda því fram að þeir séu ekki reknir í hagnaðarskyni. Þeir staðhæfa að þeir greiði ekki arð til hluthafa líkt og stórfyrirtækin við Wall Street. En ef bandaríski Rauði krossinn væri hlutafélag væri hann í hópi ábatasömustu fyrirtækja Bandaríkjanna, í flokki fyrirtækja á borð við til dæmis General Motors. Og þeir sem gegna æðstu embættum hjá blóðbönkunum þiggja þokkaleg laun fyrir störf sín. Af stjórnarmönnum 62 blóðbanka, sem könnun The Philadelphia Inquirer náði til, þénaði fjórðungur yfir 100.000 dali (um 5,4 milljónir ÍSK) á ári. Sumir höfðu yfir tvöfalt hærri tekjur.

Blóðbankarnir staðhæfa jafnframt að þeir „selji“ ekki blóðið sem þeir safna — þeir setji einungis upp meðferðargjald. Forystumaður eins blóðbanka svaraði fast um hæl: „Ég verð ævareiður þegar ég heyri Rauða krossinn staðhæfa að hann selji ekki blóð. Það er sambærilegt við að matvöruverslun segðist aðeins taka gjald fyrir umbúðirnar, ekki mjólkina.“

Heimsmarkaðurinn

Viðskipti með heilblóð eru stunduð um allan heim, líkt og viðskipti með blóðvökva. Gagnrýnisraddirnar óma líka um allan heim. Japanski Rauði krossinn vakti til dæmis mikla reiði almennings í október 1989 er hann reyndi að olnboga sig inn á japanska markaðinn með því að gefa mikinn afslátt af efnum er unnin voru úr gjafablóði. Spítalar stórhögnuðust á því að gefa upp í tryggingaskýrslum að þeir hefðu keypt blóðið á venjulegu markaðsverði.

Að sögn taílenska dagblaðsins The Nation hafa sum Asíuríki neyðst til að herða tökin á markaði rauða gullsins með því að banna að blóðgjafar fái greiðslu fyrir blóð. Á Indlandi lifa allt að 500.000 manns á því að selja blóð sitt. Sumir fátæklingar, guggnir og teknir, dulbúast til að geta gefið meira blóð en leyft er. Stundum taka blóðbankar mönnum vísvitandi meira blóð er leyfilegt er.

Í bók sinni Blood: Gift or Merchandise fullyrðir Piet J. Hagen að vafasöm verk blóðbankanna séu hvergi verri en í Brasilíu. Þar eru reknir blóðbankar í hundraðatali sem verslunarfyrirtæki og samanlögð ársvelta nemur 70 milljónum bandakríkjadala (um 4 milljörðum ÍSK). Þessi starfsemi dregur til sín aðila sem eru lítt vandir að virðingu sinni. Að sögn bókarinnar Bluternte (Blóðuppskera) streyma fátækir og atvinnulausir til óteljandi blóðbanka í Bógóta í Kólumbíu. Þeir selja hálfan lítra af blóði sínu fyrir aðeins 350 til 500 pesóa (35 til 49 ÍSK). Sjúklingar greiða allt frá 4000 til 6000 pesóa (390 til 590 ÍSK) fyrir sama skammt af blóði!

Eitt er að minnsta kosti ljóst af því sem hér hefur verið talið: Verslun með blóð er arðvænleg og umfangsmikil starfsemi. ‚Og hvað með það? Hví skyldi það ekki vera í lagi?‘ spyrja kannski sumir.

Hvað er það sem gerir fólk yfirleitt tortryggið í garð stórfyrirtækja og stórgróðastarfsemi? Það er fégræðgin sem þar ræður oft ferðinni. Fégræðgin stingur til dæmis upp kollinum þegar fyrirtæki tæla fólk til að kaupa varning sem það þarfnast í rauninni ekki, eða það sem verra er, þegar þau halda áfram að pranga inn á fólk varningi sem talinn er hættulegur eða þverskallast við að eyða fé í að gera söluvöru sína öruggari.

Ef blóðverslunin ber keim af þess konar fégræðgi eru milljónir mannslífa um allan heim í hættu. Hefur fégræðgi spillt blóðversluninni í heiminum?

[Neðanmáls]

a Í apríl 1990 voru Gaul veitt Pulitzer-verðlaunin fyrir þjónustu í þágu almennings. Afhjúpun hans varð jafnframt til þess að Bandaríkjaþing fyrirskipaði rannsókn síðla árs 1989 á blóðiðnaðinum.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 14]

Verslað með legkökur

Fæstar konur, sem eru nýbúnar að ala barn, leiða líklega hugann að því hvað verður um legkökuna eða fylgjuna sem nærir barnið meðan það er í móðurkviði. Að sögn blaðsins The Philadelphia Inquirer er algengt að spítalar safni legkökunum í frysti og selji síðan. Árið 1987 fluttu Bandaríkin út um 770 tonn af legkökum. Fyrirtæki í grennd við París kaupir 15 tonn af legkökum á dag! Legkökurnar eru góður blóðvökvagjafi sem fyrirtækið notar til framleiðslu ýmissa lyfja er það selur til um 100 landa.

[Línurit/Mynd á blaðsíðu 12]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðínu)

Helstu efnisþættir blóðs:

Blóðvökvi: Um 55 prósent blóðsins. 92 prósent er vatn en afgangurinn flókin prótín svo sem glóbúlín, fíbrínógen og albúmín.

Blóðflögur: Um 0,17 prósent blóðsins.

Hvítfrumur: Um 0,1 prósent.

Rauðkorn: Um 45 prósent.

[Aukarammi á blaðsíðu 13]

Á þessu augnabliki erum við öll önnum kafin við að framleiða hráefni sem heldur starfsemi þeirra gangandi. Við ráðum yfir auðlind sem þeir sækjast eftir. Hverjir eru „þeir“? Blóðbankarnir og söfnunarstöðvar fyrir blóðvökva.

Margir trúa að þessi starfsgrein hafi það markmið eitt að bjarga mannslífum. En þær raddir gerast háværari sem gagnrýna blóðbankastarfsemina og halda því fram að hún sé eins og hver önnur stórgróðastarfsemi.