Eigum við eftir að kafna í sorpi?
Eigum við eftir að kafna í sorpi?
ÞETTA er undarleg þversögn. Á okkar kynslóð hafa menn ferðast til tunglsins og heim aftur. Háþróuð geimför, búin nákvæmustu myndavélum, hafa verið send þúsundir milljóna kílómetra út í geiminn og skilað okkur nærmyndum af fjarlægum reikistjörnum. Maðurinn hefur kafað niður í hafdjúpin og fundið skipsflök frá fyrri öldum og bjargað úr þeim verðmætum fjársjóðum löngu liðinna tíma. Vísindamenn hafa beislað orku atómsins, ýmist til friðsamlegra nota eða þá til þess að geta lagt í rúst heilar borgir og útrýmt íbúum þeirra öllum með tölu. Fáeinar, örsmáar kísilflögur, ekki stærri en fingurnögl, duga til að geyma texta allrar Biblíunnar svo kalla megi fram á tölvuskjá í einu vetfangi. En þetta sama fólk, sem býr yfir slíkri gullnámu kunnáttu og gáfna, getur á sama tíma ekki tekið út sitt eigið rusl og losað sig við það á sómasamlegan hátt þannig að þeirra eigin kynslóð þurfi ekki að óttast að kafna í því.
Við skulum byrja á því að virða fyrir okkur þær ógöngur sem Bandaríkin eru komin í á þessu sviði. Að því er fréttir herma leggjast til þar í landi yfir 400.000 tonn af sorpi á dag. Þótt ekki sé reiknað með holræsabotnfalli og úrgangi vegna byggingaframkvæmda nemur sorpið 160 milljónum tonna á ári sem er, að sögn tímaritsins Newsweek, „nóg til að þekja 1000 fótboltavelli með sorplagi á hæð við 30 hæða byggingu, eða nóg til að fylla sorpflutningabílalest sem næði hálfa leið til tunglsins.“ Yfir 90 af hundraði þessa sorps er flutt á sorphauga sem geta orðið tugir metra á hæð.
Engin borg í heimi hefur aðgang að stærri sorphaug en New York. Hann er á Staten Island og er um 800 hektarar að stærð. Dag hvern er safnað 24.000 tonnum af sorpi í borginni. Tveir tugir flutningapramma eru í förum allan sólarhringinn með sorpið milli lands og eyjar. Talið er að árið 2000 muni sorphaugurinn „ná hálfri hæð Frelsisstyttunnar og vera stærri að rúmfangi en stærsti pýramídi Egyptalands.“ Talið er að sorpfjallið verði orðið 150 metra hátt þegar sorphaugnum verður lokað innan tíu ára. Er David Dinkins, nýkjörinn borgarstjóri New Yorkborgar, tók við embætti bauð forstöðumaður sorphreinsunarinnar hann velkominn með eftirfarandi kveðju: „Sæll. Velkominn í ráðhúsið. Vel á minnst, þú hefur hvergi pláss fyrir sorpið.“
„Allar stórborgir í Bandaríkjunum eru í vandræðum með sorpið,“ segir sérfræðingur. „Sorphaugar Bandaríkjanna eru hreinlega að fyllast og engir nýir eru teknir í notkun,“ segir í tímaritinu U.S. News & World Report. „Árið 1995 verður búið að loka helmingi þeirra sorphauga sem nú eru opnir. Margir uppfylla ekki umhverfiskröfur nútímans,“ segir áfram í fréttinni.
Það er áætlað að sérhver Kaliforníubúi hendi að meðaltali um 1100 kílógrömmum af sorpi á ári. „Í Los Angeles fellur til nógu mikið sorp til að fylla Dodger-leikvanginn með sorpi á 9 daga fresti eða þar um bil,“ segir umhverfissérfræðingur. Talið er að sorphaugar Los Angeles verði fullir árið 1995. Hvað tekur þá við? spyrja borgarbúar. En reikningsskiladagurinn kann að renna upp fyrr en menn hyggja, eins og umhverfisverndarmaður í Kaliforníu bendir á: „Sannleikurinn er sá að á hverjum degi má sjá sorpflutningabíla á ferð um borgina sem geta hvergi losað sig.“
Chicago stendur frammi fyrir því að loka sínum 33 sorphaugum á fyrri helmingi þessa áratugar. Ýmsar aðrar stórborgir, sem eiga í erfiðleikum með að losna við sorp, flytja það hreinlega á sorphauga í öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Það hefur vakið mikla reiði í þeim ríkjum sem hafa tekið við sorpinu frá öðrum. Um 28.000 tonn af sorpi eru flutt um þjóðvegi Bandaríkjanna dag hvern á meðan einhver leitar að sorphaug þar sem hægt er að losna við það. Sagt er að New York, New Jersey og Pennsylvanía „flytji út“ átta milljónir tonna af sorpi á ári. Það er dýr lausn. „Það
sem verra er,“ segir tímaritið Newsweek, „sumir flutningabílstjórar, sem flytja kjöt og annan varning til austurs í kælibílum, flytja sorp, sem er morandi í möðkum, með sömu flutningabílum til vesturs á heimleiðinni.“ Bandaríkjaþing íhugar að banna slíka flutninga vegna hinnar augljósu hættu sem almennu heilsufari stafar af.Sorpvandamálið er hvergi nærri einangrað við Bandaríkin. Aðrar þjóðir eru líka að kafna í sorpi. Meðal annarra eru Japanir að reyna að leysa þetta vandamál. Talið er að árið 2005 muni Tókíó og þrjár grannborgir sitja uppi með 3,43 milljónir tonna af sorpi sem þær neyðast til að flytja út. „Sorp er útflutningsvara sem Japanir finna ekki markað fyrir,“ segir rithöfundur.
Þótt margar þjóðir eigi enn ekki í neinum erfiðleikum með að koma fyrir húsasorpi eiga sumar í allnokkrum erfiðleikum með að ganga tryggilega frá iðnaðarúrgangi. Í þeim löndum, þar sem sorp er brennt í gríðarmiklum sorpeyðingarstöðvum, sitja menn til dæmis uppi með þúsundir tonna af ösku sem er stundum baneitruð. Flestir andmæla því hástöfum að sorpinu sé komið fyrir „að húsabaki“ hjá þeim. Þeir sem málið varða eru í slæmri klemmu. Flutningaprammar með þúsundum tonna af eitruðum úrgangsefnum sigla um í leit að einhverju „húsabaki“ á erlendri strönd. Margir eru gerðir afturrækir. Enginn vill hafa sorp í grennd við heimili sitt.
Á síðustu árum hafa þróunarlöndin verið gerð að sorphaugum fyrir þúsundir tonna af úrgangi sem enginn vill helst taka við. Ófyrirleitnir menn hafa í sumum tilfellum einfaldlega skilið hann eftir á auðum svæðum. „Evrópubúar og Bandaríkjamenn eru að uppgötva að þeir geta þurft að menga umhverfið í öðrum löndum til að vernda sitt eigið,“ sagði í tímaritinu World Press Review.
Dagblaðið The German Tribune sagði í október 1988 frá því að Zürich í Sviss flytti umframsorp út til Frakklands, og að Kanada, Bandaríkin, Japan og Ástralía hefðu fundið sér sorphauga „að húsabaki“ í Austur-Evrópu.
Þannig mætti lengi telja. „Sorpeyðingarvandinn er ólíkur öllum öðrum vandamálum sem við höfum staðið frammi fyrir,“ var haft eftir bandarískum embættismanni. „Ef þurrkur skellur á dregur fólk úr vatnsnotkun, en þessi kreppa er þannig að við hendum bara meira sorpi.“
[Innskot á blaðsíðu 4]
‚Nóg til að fylla sorpflutningabílalest sem næði hálfa leið til tungslins.‘
[Innskot á blaðsíðu 5]
„Sorp er útflutningsvara sem Japanir finna ekki markað fyrir.“