Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einnota vörur — eilífðarvandi

Einnota vörur — eilífðarvandi

Einnota vörur — eilífðarvandi

EF VIÐ látum sem við sjáum ekki sorpvandann og það sem stuðlar að honum, þá erum við um leið að loka augunum fyrir því að við búum í þjóðfélagi sem er vant því að kaupa og kasta. Finnst þér til dæmis hentugara að nota pappírsþurrkur í eldhúsinu en tauþurrkur? Notar þú pappírsmunnþurrkur við matborðið í staðinn fyrir tauþurrkur? Notar þú einnota bleiur í staðinn fyrir taubleiur, ef þú átt bleiubörn? Þykir þér einnota rakvélar og myndavélar svo þægilegar að ekki sé annað hægt en kaupa þær? Fáir meðal unga fólksins núna hafa nokkurn tíma skrifað með lindarpenna; kúlupennar, sem sumum er hent í heilu lagi eftir að þeir hafa tæmst, eða með fyllingum sem hent er, eru löngu komnir í þeirra stað. Fyrirtæki kaupa kúlupenna í þúsundatali og þeir eru gefnir í auglýsingaskyni í milljónatali.

Te, kaffi, gosdrykkir, mjólkurhristingur og skyndibitar eru ekki lengur seldir í pappírsglösum eða -umbúðum. Plastumbúðir eru löngu búnar að ryðja þeim úr vegi. Hnífar, gafflar og skeiðar eru úr plasti og kastað í ruslafötuna eftir að hafa verið notuð einu sinni. Einnota varningur er til í endalausri fjölbreytni. „Við erum búin að venja okkur á að henda hlutunum eftir notkun,“ segir forstöðumaður sorphreinsunar New Yorkríkis. „Við neyðumst til að breyta háttsemi okkar.“

Mjólk er seld í plasthúðuðum pappaumbúðum eða plastflöskum í stað glerflaskna, skór eru framleiddir úr plasti í stað leðurs og gúmmís, regnföt úr plasti í stað vatnsfælinna náttúrutrefja. Sumir eiga sjálfsagt erfitt með að ímynda sér hvernig hægt var að halda heiminum gangandi áður en plastið var fundið upp. Í hillum stórmarkaða og víðar eru langar raðir af vörum og varningi í allt of stórum umbúðum sem æpa á væntanlegan kaupanda. Tölvurnar spýta út úr sér milljónum síðna af pappír í viðbót við það himinháa pappírsfjall sem fyrir er.

Hve mikil óþægindi getum við sætt okkur við til að draga eitthvað úr þessu gríðarlega sorpvandamáli? Talið er að Bandaríkjamenn einir hendi að meðaltali í ruslatunnuna 4,3 milljónum kúlupenna og 5,4 milljónum einnota rakvéla á dag. Ekki er talið líklegt að það þjóðfélag muni hverfa um hálfa öld aftur í tímann til þess tíma þegar ekki var farið að framleiða alls konar einnota hluti úr plasti, jafnvel þótt þessi þægindi séu mjög dýru verði keypt.

Hið sama má segja um einnota bleiur. „Ár hvert lenda yfir 16 milljarðar bleia, með á að giska 2,8 milljónir tonna af saur og þvagi, á sífellt færri sorphaugum landsins,“ sagði í dagblaðinu The New York Times. Það opnar kannski augu sumra að vita að það skuli vera kastað yfir 4.275.000 tonnum af bleium. „Þetta er ágætis dæmi,“ segir sorpeyðingarsérfræðingur frá Washington. „Þarna notum við einnota vöru sem er dýrari en sú sem hægt er að nota aftur og aftur, er hættuleg umhverfinu og eyðir upp óendurnýjanlegum auðlindum.“ Eru foreldrar fúsir til að þola óþægindin samfara því að þvo bleiur eða senda þær í þvottahús? Sumir geta ekki hugsað sér að vera án einnota bleija.

Í hugum umhverfisverndarmanna eru einnota bleiur orðnar tákn sorpvandans í heild sinni. „Það sem verra er,“ segir í U.S. News & World Report, „hver einasta plastbleia, sem framleidd hefur verið frá því að þær komu fyrst á markað árið 1961, er enn til; þær þurfa um 500 ár til að eyðast.“

Sérfræðingar í umhverfismálum og opinberir embættismenn benda á að við verðum að breyta lífsháttum okkar, ella munum við kafna í eigin sorpi. Einnota vörur nútímans eru sjálfsagt ósköp þægilegar fyrir neytendur en þær eru hið versta vandamál fyrir sorphaugana. Ekki verður séð fyrir endann á líftíma þess plasts sem hent er. Gagnstætt því sem almennt er talið tekur það fjölda ára fyrir þau 160.000 tonn af pappír, sem Bandaríkjamenn henda dag hvern, að rotna og hverfa á sorphaugum, jafnvel undir margra tonna sorpfargi. Menn hafa fundið dagblöð, sem hafa legið grafin á sorphaugum í meira en 35 ár og reynst jafnlæsileg og á útgáfudegi sínum.

Endurvinnsluvandinn

Sagt hefur verið að það séu aðeins fjórar leiðir til að losna við sorp: „Grafa það, brenna það, endurvinna það — eða búa til minna af því.“ Urðað sorp er bæði þyrnir í auga allra þeirra sem búa í grenndinni og getur auk þess verið hættulegt heilsunni. Við rotnun sorpsins myndast litlaus, lyktarlaus og eldfim lofttegund sem nefnist metan. Sé aðgát ekki höfð getur metanið borist neðanjarðar frá sorphaugnum, drepið gróður, seytlað inn í byggingar í grenndinni og sprungið ef neisti kemst að. Í sumum tilvikum hefur það valdið dauðaslysum. Vatnsæðar neðanjarðar eru í hættu er skaðleg efnasambönd síast gegnum jarðlögin og menga vatnsból manna.

Vandinn við endurvinnslu dagblaðapappírs er sá að framboð er margfalt meira en eftirspurn. „Aldrei hafa verið til meiri birgðir af notuðum dagblaðapappír,“ segir talsmaður bandarísku pappírsstofnunarinnar. „Pappírsverksmiðjur og pappírssalar sitja uppi með liðlega eina milljón tonna af dagblöðum í vörugeymslum sínum, en það nemur þriðjungi ársframleiðslunnar. Það kemur að því að vörugeymslurnar fyllast alveg.“ Þessi gríðarlega pappírsnotkun veldur því að borgir, sem fengu um 2200 krónur fyrir tonnið af pappírnum fyrir um það bil ári, þurfa nú að greiða um 1400 krónur fyrir að fá sama magni af pappír ekið burt á sorphauga eða í sorpbrennslu.

Hvað má segja um plastið? „Plastiðnaðurinn hefur baslað við að styðja endurvinnslu, aðallega af ótta við að framleiðsluvörur hans, sem eru alls staðar, yrðu bannaðar ella,“ sagði í U.S. News & World Report. Til dæmis er hægt að breyta plastflöskum í trefjar sem nota má við framleiðslu pólýesterteppa, sem fóður í kuldaúlpur og fjöldamargt annað. Plastiðnaðurinn hefur fulla ástæðu til að óttast um markaði sína. Sums staðar hefur notkun og sala frauðplasts og PVC í smásöluverslun með matvæli verið bönnuð með öllu. Bannið nær til innkaupapoka úr plasti, bolla og kjötbakka úr frauðplasti og frauðplastbakka undir hamborgara.

Áætlað er að hægt sé að endurvinna yfir 75 af hundraði allra fastra úrgangsefna frá bandarískum borgum. Áhugaleysi almennings og ónóg tækni veldur því hins vegar að þessir möguleikar eru ekki nýttir. „Það er að renna upp mjög hættulegt skeið fyrir endurvinnsluna,“ sagði sérfræðingur um endurvinnslu. „Margar ríkisstjórnir munu eiga erfitt með að valda þessum vanda.“

Sumir embættismenn álíta að sorpbrennslustöðvar séu besta lausnin. En þar er einnig við vandamál að glíma. Umhverfisverndarmenn vara við því að brennsla plasts og annars úrgangs leysi úr læðingi eiturefni, meðal annars díoxín, er komist þá út í andrúmsloftið. „Það má hugsa sér sorpbrennslustöð sem díóxínverksmiðju,“ sagði kunnur umhverfisverndarmaður. „Sorpbrennsluofnarnir skilja einnig eftir ösku í tonnatali sem oft inniheldur blý og kadmíum,“ sagði í tímaritinu Newsweek. Þeir sem búa í grennd við fyrirhugaðar sorpbrennslustöðvar mótmæla öllum slíkum áformum hástöfum. Enginn vill búa í næsta nágrenni við sorpbrennslustöð. Þær eru taldar hættulegar heilsu manna og umhverfi. Sorpvandamálið er því óleyst sem fyrr og versnar jafnt og þétt. Er til einhver lausn?