Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er blóðgjöf eina bjargráðið?

Er blóðgjöf eina bjargráðið?

Er blóðgjöf eina bjargráðið?

ÁRIÐ 1941 setti dr. John S. Lundy staðal um það hvenær blóðgjafar væri þörf. Hann sagði að sjúklingur þyrfti blóðgjöf ef blóðrauði hans, sem flytur líkamanum súrefni, færi niður í tíu grömm miðað við desilítra af blóði, eða neðar. Ekki er að sjá sem hann hafi byggt það á beinni skoðun sjúklinga eða rannsóknum. Eftir það hafa læknar miðað við þá tölu.

Í nálega 30 ár hefur þessi tíu gramma viðmiðunarregla verið umdeild. Árið 1988 sagði The Journal of the American Medical Association berum orðum að engar rannsóknaniðurstöður styðji þessa reglu. Svæfingarlæknirinn Howard L. Zauder segir að hún sé „hjúpuð erfðavenju, hulin myrkri og eigi sér enga fótfestu í klínískum athugunum eða tilraunum.“ Aðrir kalla hana hreinlega goðsögn.

Þrátt fyrir þessar harkalegu afhjúpanir er goðsögnin enn virt sem heilbrigð viðmiðunarregla. Blóðrauðastig undir tíu fær marga svæfingarlækna og aðra lækna nánast sjálfkrafa til að gefa sjúklingi blóð.

Vafalaust er hér að nokkru leyti fundin skýring á hinni óhóflegu notkun blóðs og blóðafurða nú á dögum. Dr. Theresa L. Crenshaw, sem átti sæti í ráðgjafarnefnd Bandaríkjaforseta um eyðnifaraldurinn, áætlar að í Bandaríkjunum einum séu gefnar um tvær milljónir óþarfra blóðgjafa á ári hverju og að hægt væri að fækka blóðgjöfum um helming. Japanska heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið hefur átalið „hóflausar blóðgjafir“ í Japan og hina „blindu trú á gagnið af þeim.“

Gallinn við það að reyna að lækna blóðleysi með blóðgjöf er sá að blóðgjöfin sjálf getur verið lífshættulegri en blóðleysið. Vottar Jehóva, sem afþakka blóðgjafir af trúarástæðum fyrst og fremst, hafa átt sinn þátt í að sýna fram á það.

Þú kannt að hafa séð fyrirsagnir í dagblöðum greina frá að einhver votta Jehóva hafi dáið vegna þess að hann neitaði að þiggja blóð. Því miður segja slíkar fréttir sjaldan alla söguna. Þegar vottar Jehóva deyja við slíkar aðstæður má oft rekja það til þess að læknar hafa neitað þeim um skurðaðgerð eða farið of seint af stað með hana. Sumir læknar neita að skera upp nema þeir megi gefa blóð ef blóðrauðastigið fer niður fyrir tíu. Fjölmargir skurðlæknar hafa hins vegar gert velheppnaðar skurðaðgerðir á vottum Jehóva, þótt blóðrauðastigið hafi farið niður í fimm, tvo eða jafnvel neðar. Skurðlæknirinn Richard K. Spence segir: „Reynsla mín af vottunum er sú að lágt blóðrauðastig hafi alls engin áhrif á dánartíðnina.“

Gnægð valkosta

‚Blóð eða dauði.‘ Þannig lýsa læknar stundum þeim valkostum sem vottar Jehóva standa frammi fyrir er þeir þarfnast læknishjálpar. Í reyndinni koma margir aðrir kostir en blóðgjöf til greina. Vottar Jehóva hafa engan áhuga á að deyja. Þeir hafa áhuga á læknismeðferð þar sem blóð er ekki notað. Með því að Biblían bannar inntöku blóðs er það afstaða þeirra að blóðgjöf sé valkostur sem komi alls ekki til greina.

Í júní 1988 var lagt til í skýrslu ráðgjafarnefndar Bandaríkjaforseta um eyðnifaraldurinn að öllum sjúklingum yrði veitt það sem vottar Jehóva hafa farið fram á um árabil: „Áður en sjúklingur samþykkir blóðgjöf eða blóðhlutagjöf ætti að upplýsa hann um áhættuna sem henni fylgir . . . og um viðeigandi valkosti aðra en framandi blóðgjöf.“

Það ætti með öðrum orðum að veita sjúklingum valfrelsi. Einn af valkostunum er viss tegund eiginblóðgjafar. Þá er því blóði, sem sjúklingurinn missir við skurðaðgerð, safnað og veitt aftur inn í blóðrás hans. Þegar slík aðgerð er einungis framlenging á blóðrásarkerfi sjúklingsins er þetta ásættanlegur valkostur fyrir flesta votta. Skurðlæknar leggja einnig áherslu á mikilvægi þess að auka blóðrúmmál sjúklings með blóðþenslulyfjum og láta síðan líkamann bæta sjálfan upp rauðkornatapið. Slíkar aðferðir hafa verið notaðar í stað blóðgjafar, án þess að dánartíðnin hafi aukist. Satt best að segja geta þær aukið öryggi sjúklinga.

Nýtt lyf var leyft til takmarkaðra nota fyrir skömmu, svonefndur rauðkornavaki (recombinant erythropoietin) myndaður með efnasmíði. Það hraðar rauðkornamyndun líkamans og örvar þannig í reynd nýmyndun blóðs.

Vísindamenn eru enn að leita að áhrifaríku blóðlíki, efnasambandi er flutt geti súrefni líkt og blóð. Framleiðendum slíkra efna reynist ekki auðvelt að fá þau samþykkt til notkunar í Bandaríkjunum. Einn þeirra sagði í ásökunartón: „Ef maður léti sér detta í hug að leggja blóð fyrir Matvæla- og lyfjaeftirlitið til samþykktar væri ekki minnsti möguleiki á að fá það einu sinni prófað. Það er allt of eitrað.“ Enn gera menn sér þó bjartar vonir um að þeim takist að finna nothæft efni er fáist samþykkt sem súrefnisberi í stað blóðs.

Það er því um ýmsa kosti að velja. Hér hafa aðeins verið nefndir fáeinir. Eins og dr. Horace Herbsman, prófessor í klínískum skurðaðgerðum, sagði í tímaritinu Emergency Medicine: „Það er . . . augljóst að við höfum ýmsa aðra valkosti en blóðgjöf. Vera kann að túlka mætti reynslu okkar af vottum Jehóva á þann veg að við þurfum ekki að reiða okkur á blóðgjafir, með öllum fylgikvillum þeirra, í jafnmiklum mæli og við héldum einu sinni.“ Þetta er auðvitað engin nýlunda. Tímaritið The American Surgeon segir: „Það hefur verið ríkulega skjalfest síðastliðin 25 ár að óhætt er að gera stórar skurðaðgerðir án blóðgjafa.“

En úr því að blóð er hættulegt og til eru önnur efni og hættuminni sem nota má í staðinn, hvers vegna er þá milljónum manna gefið blóð að óþörfu — stundum án þeirrar vitundar, öðrum beinlínis gegn vilja sínum? Í skýrslu ráðgjafarnefndar Bandaríkjaforseta um eyðnifaraldurinn er sagt að orsökin sé að hluta til sú að læknar og spítalar hafi ekki verið fræddir um hina valkostina. Og í skýrslunni er öðru kennt um einnig: „Sumir svæðisblóðbankar hafa verið tregir til að hvetja til aðferða til að draga úr blóðnotkun, því að þeir hafa tekjur sínar af sölu blóðs og blóðafurða.“

Með öðrum orðum: blóðsala er arðsöm atvinnugrein.