Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kjarnorkuúrgangur — hættulegasta sorpið

Kjarnorkuúrgangur — hættulegasta sorpið

Kjarnorkuúrgangur — hættulegasta sorpið

SORPSKRIÐAN frá heimilum manna er ekki einasta hættan sem ógnar lífríki jarðar. Satt að segja er hún ósköp lítilfjörleg í samanburði við vandamálin sem fylgja öðrum úrgangi og langtum hættulegri. Frá því að mönnum tókst að beisla orku atómsins til sprengjugerðar eða raforkuframleiðslu hafa vísindamenn verið í stökustu vandræðum með að finna örugga leið til að losna við hin geislavirku úrgangsefni sem til falla.

Milljörðum dollara hefur verið varið í leit að nothæfum aðferðum til að koma í veg fyrir að þessi banvæni úrgangur ógni lífi og umhverfi ókominna kynslóða. Það er ekki auðhlaupið að því vegna þess að geislavirkur úrgangur getur verið hættulegur öllu sem lifir um þúsundir ára!

Um áratuga skeið var þessi úrgangur einfaldlega grafinn á staðnum og dælt í sytruþrær í þeirri trú að hin hættulegu efni myndu þynnast út og leysast upp — hugmyndir sem hafa haft skelfilegar afleiðingar eins og við munum sjá. Milljónir lítra af mjög geislavirkum úrgangi voru geymdar í risastórum neðanjarðargeymum. Stundum var úrgangi komið fyrir í tunnum sem geymdar voru ofanjarðar, en það hefur líka sýnt sig vera hættulegt.

Svo hættulegur og banvænn er þessi kjarnorkuúrgangur að vísindamenn hafa látið sér detta í hug allt á milli þess að skjóta honum út í geiminn og grafa hann undir íshellur heimskautanna. Um þessar mundir er verið að rannsaka hvort ráðlegt sé að sökkva hylkjum með kjarnorkuúrgangi í norðurhluta Kyrrahafs þar sem reiknað er með að þau myndu sökkva um 30 metra niður í leðjuna á hafsbotni. „Við sitjum uppi með úrgang á þessari reikistjörnu sem við þurfum að losa okkur við, annaðhvort á landi, í sjó eða undir sjónum. Það er ekki um aðra staði að velja,“ sagði varaforseti Woods Hole hafrannsóknastofnunarinnar.

Til bráðabirgða, uns öruggari og varanlegri geymsluaðferð finnst, er stærstur hluti þessara geislavirku efna geymdur undir vatni í kerjum í innsigluðum byggingum. Í Ontario í Kanada eru til dæmis 16 kjarnakljúfar sem hafa nú þegar skilað frá sér yfir 7000 tonnum af geislavirkum úrgangi sem nú er geymdur með slíkum hætti. Bretar standa einnig frammi fyrir þeirri erfiðu þraut hvað gera eigi við úrganginn. Sem stendur er mjög geislavirkur úrgangur geymdur ofanjarðar og búist er við að því verði haldið áfram uns fundist hafa öruggir geymslustaðir neðanjarðar sem ekki leka. Frakkar, Þjóðverjar og Japanir freista þess einnig að finna nothæfa lausn á þessu vandamáli.

„Hin opinbera stefna Bandaríkjanna,“ segir The New York Times, „er sú að öruggasta geymsluaðferðin sé sú að grafa kjarnorkuúrgang ‚djúpt í jörðu‘ á þurrum, öruggum og fáförnum stað. En svona staður er ekki auðfundinn.“ Já, hann hlýtur að vera vandfundinn því að vísindamenn benda á að hann þurfi að vera svo þurr og traustur að hann geti geymt úrganginn örugglega í 10.000 ár. Þótt talið sé að hluti þessa kjarnorkuúrgangs geti verið lífshættulegur í 250.000 ár telja sérfræðingar að svo miklar jarðfræðilegar breytingar muni verða á 10.000 árum að það sé „tilgangslaust að hugsa til lengri tíma.“ „Ég þekki engin reiknilíkön þar sem er einu sinni horft 1000 ár fram í tímann,“ segir kunnur sérfræðingur um geislavirk efni. Hann bætir því við að það sé „erfitt að tala um heilsufarshættu 10.000 ár fram í tímann.“

Stórslys!

Er vísindamenn afhjúpuðu leyndardóma atómsins leystu þeir úr læðingi nýjan ógnvald sem þeir voru alls ekki búnir undir að takast á við — hina banvænu mengunarmartröð sem fylgdi nýtingu kjarnorkunnar. Jafnvel eftir að yfirvöld höfðu verið vöruð við því að hætta gæti verið á ferðinni skelltu embættismenn skollaeyrunum við. Þær þjóðir, sem réðu yfir kunnáttu og hráefnum, tóku að framleiða kjarnorkuvopn án nokkurs tillits til lífs og heilsu manna eða gæða umhverfisins. Lítið var um það hirt að geyma banvænan úrgang með tryggum hætti. Tökum dæmi: Ein kjarnorkuvopnaverksmiðja hefur dælt „yfir 750 milljörðum lítra af hættulegum úrgangsefnum út í ófóðraðar gryfjur og þrær, en það myndi nægja til að kaffæra Manhattan á 12 metra dýpi,“ sagði í U.S. News & World Report í mars 1989. „Úrgangurinn hefur seytlað út í jarðlögin og eitrað grunnvatn á að minnsta kosti 260 ferkílómetra svæði. Um 170 milljónir lítra af mjög geislavirkum úrgangsefnum eru geymdar í risageymum neðanjarðar, og hægt væri að smíða yfir 50 sprengjur á borð við þá, sem varpað var á Nagasaki, úr því plútóníum sem hefur lekið út úr þessum geymum,“ sagði tímaritið. Talið er að það muni kosta allt að 65 milljarða dollara (yfir 3500 milljarða ÍSK) að hreinsa þetta svæði.

Sumir geymar fyrir kjarnorkuúrgang hitnuðu svo af völdum geislavirkninnar að sprungur mynduðust í þeim. Áætlað er að tvær milljónir lítra af geislavirkum úrgangi hafi lekið úr þeim. Drykkjarvatn hefur mengast svo af geislavirku strontíum-90 að það er þúsund sinnum geislavirkara en Bandaríska umhverfisstofnunin telur óhætt. Við aðra kjarnorkuvopnaverksmiðju „leka geislavirk efni úr úrgangsgryfjum þar sem geymdar eru 42 milljónir lítra af úraníum . . . út í jarðlag sem vatn rennur eftir og hefur mengað vatnsból í tæplega kílómetra fjarlægð suður af verksmiðjunni,“ sagði í dagblaðinu The New York Times. Dagblaðið skýrði einnig frá því að í Washingtonríki hefði verið dælt milljörðum lítra af menguðu vatni niður í jörðina og að stöðugur straumur þrívetnis bærist út í Kolumbíaá.

The New York Times skýrir enn fremur frá því að plútóníum hafi seytlað úr grunnum úrgangsþróm frá endurvinnslustöð fyrir geislavirkan úrgang. „Það berst eftir jarðlögunum í átt að mikilli vatnsþró neðanjarðar sem þúsundir manna í suðurhluta Idaho fá drykkjarvatn sitt úr.“ Þetta banvæna frumefni er komið niður á 70 metra dýpi, nálega hálfa leið til þessara jarðlaga, að sögn blaðsins.

Hversu hættulegt er þetta plútóníum sem hellt hefur verið út í ár og læki og blásið út í loftið? „Plútóníum er geislavirkt í 250.000 ár,“ segir The New York Times. „Og jafnvel smásæ ögn getur verið banvæn fyrir þann sem andar henni að sér eða gleypir.“ „Það getur valdið krabbameini að anda að sér einu plútóníumrykkorni,“ segir tímaritið Newsweek.

Skammtíma- og langtímaáhrif geislavirks úrgangs á fólk eru ekki þekkt. Kannski munu menn aldrei vita neitt um þau með vissu. Við skulum láta nægja að geta þess að tilkynnt hefur verið um 162 krabbameinstilfelli meðal fólks sem býr innan nokkurra kílómetra frá ákveðnu kjarnorkuveri. Fólk er hrætt við að drekka vatnið og ótti er mjög útbreiddur. „Það eiga eftir að koma upp einhvers staðar á bilinu 6 til 200 krabbameinstilfelli í viðbót,“ segir háskólalæknir og ráðgjafi starfsmanna við verið. „Þeir eru allir skelfdir. Þeim finnst þeir hafa misst tökin á umhverfi sínu og lífi.“

Og það er hverju orði sannara. Fyrir mörgum öldum sagði trúr spámaður Jehóva: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Mannkynssagan hefur sýnt fram á sannleiksgildi þessara orða með mjög áhrifamiklum hætti núna á síðustu dögum. Úrgangurinn, sem maðurinn er að kafna í, er aðeins eitt dæmi um það að hann megni ekki að stýra skrefum sínum viturlega.

Það er þó engin ástæða til að örvænta. Spádómar Biblíunnar sýna skýrt og greinilega að bráðlega mun skapari jarðarinnar afmá núverandi heimsskipan og leggja grunn að nýjum heimi. Hann mun ekki miklu lengur umbera það sem maðurinn er að gera jörðinni og sjálfum sér heldur „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Síðan munu menn, undir handleiðslu skaparans, læra að annast jörðina svo vel fari og nýta auðlindir hennar viturlega. — Sálmur 37:34; 2. Pétursbréf 3:10-13.

[Innskot á blaðsíðu 9]

Kjarnorkuúrgangur getur verið lífshættulegur í 250.000 ár.

[Innskot á blaðsíðu 10]

„Það getur valdið krabbameini að anda að sér einu plútóníumrykkorni.“