Lífgjöf eða koss dauðans?
Lífgjöf eða koss dauðans?
„Hve margir þurfa að deyja? Hve mörg lík þurfið þið? Segið okkur hvaða marki þarf að ná til að þið trúið að þetta sé að gerast.“
DON FRANCIS við Bandarísku sóttvarnamiðstöðvarnar (U.S. Centers for Disease Control) barði krepptum hnefa í borðið er hann hrópaði orðin hér að ofan á fundi með æðstu fulltrúum blóðbankanna. Sóttvarnamiðstöðvarnar voru að reyna að sannfæra forystumenn blóðbankanna um að eyðni breiddist út í gegnum blóðbankakerfi þjóðarinnar.
Forstöðumenn blóðbankanna létu ekki sannfærast. Þeir sögðu rökin vera hæpin — aðeins fáein tilfelli — og ákváðu að auka ekki prófanir eða skimun blóðs. Þetta var þann 4. janúar 1983. Sex máuðum síðar staðhæfði forseti Samtaka bandarískra blóðbanka: „Almenningi er lítil eða engin hætta búin.“
Margir sérfræðingar töldu hins vegar næg rök fyrir því að grípa til einhverra aðgerða. Og hinum „fáeinu tilfellum“ hefur fjölgað með uggvænlegum hraða síðan. Vera kann að 24.000 manns hafi, fyrir 1985, verið gefið blóð sýkt HIV-veirunni sem veldur eyðni.
Sýkt blóð er óhemjuafkastamikill smitberi fyrir eyðniveiruna. Að sögn tímaritsins The New England Journal of Medicine (þann 14. desember 1989) getur einn poki af sýktu blóði innihaldið nógu margar veirur til að sýkja 1,75 milljónir manna! Bandarísku sóttvarnarmiðstöðvarnar skýrðu Vaknið! frá því að í júní 1990 hefðu 3506 manns í Bandaríkjunum sýkst af eyðni gegnum blóðgjöf, blóðhluta og ígræðslu framandi vefjar.
En þetta eru aðeins tölur á blaði. Þær geta aldrei lýst þeim persónulegu harmleikjum sem orðið hafa. Tökum sem dæmi Frances Borchelt, 71 árs. Hún sagði læknum skýrt og skorinort að hún vildi ekki láta gefa sér blóð. Henni var gefið blóð eigi að síður. Hún dó úr eyðni, sárkvalin, meðan fjölskylda hennar horfði hjálparvana á.
Tökum annað dæmi — sautján ára stúlku með óvenjumiklar tíðablæðingar. Henni voru gefnir tveir pokar af blóði einungis til að bæta henni upp blóðleysið. Hún var nítján ára og barnshafandi er hún uppgötvaði að hún hafði fengið eyðniveiruna með blóðgjöfinni. Tuttugu og tveggja ára gömul veiktist hún af eyðni. Auk vitneskjunnar um að hún myndi bráðlega deyja af völdum eyðni sótti sú hugsun á hana að hún kynni að hafa sýkt barn sitt. Þannig mætti halda áfram að tíunda harmleikina sem hafa dunið yfir fólk á öllum aldri um allan heim.
Bókin Autologous and Directed Blood Programs, sem kom út árið 1987, segir: „Það var ekki fyrr búið að einangra hina upphaflegu áhættuhópa en hið óhugsandi gerðist: Sýnt var fram á að þessi sjúkdómur [eyðni], sem getur verið banvænn, gæti borist og bærist í
reynd með gjafablóði. Þetta var einhver beiskasta kaldhæðni læknisfræðinnar; að blóðgjöf, sem getur fært mönnum líf, gæti jafnframt verið verkfæri dauðans.“Jafnvel lyf unnin úr blóðvökva hafa átt þátt í útbreiðslu þessa sjúkdóms um heim allan. Dreyrarsjúkir, sem flestir nota storkuefni unnið úr blóðvökva til að halda sjúkdómi sínum í skefjum, dóu stórum hópum. Í Bandaríkjunum fengu á bilinu 60 til 90 af hundraði þeirra eyðni áður en farið var að beita hitameðferð á lyfin í því skyni að drepa eyðniveiruna.
Enn, allt til þessa dags, er ekki hægt að vera öruggur um að blóð sé ósýkt af eyðni. Og eyðni er ekki eina hættan sem fylgir blóðgjöfum. Langt í frá.
Langtum útbreiddari hætta
„Þetta er hættulegasta efni sem við notum við lækningar,“ segir dr. Charles Huggins um blóð. Hann ætti að vita það, því hann er forstöðumaður blóðgjafaþjónustu við spítala í Massachusetts í Bandríkjunum. Margir halda að við blóðgjöf þurfi einungis að velja saman rétta blóðflokka. En auk ABO-blóðflokkanna og resus-þáttarins, sem blóð er krossprófað fyrir, geta verið allt að 400 ólík atriði sem ekki er prófað fyrir. Hjartaskurðlæknirinn Denton Cooley bendir á: „Blóðgjöf er líffæraflutningur. . . . Ég álít að viss ósamrýmanleiki fylgi nálega öllum blóðgjöfum.“
Það kemur ekki á óvart að það geti „ruglað“ ónæmiskerfi líkamans, eins og einn skurðlæknir komst að orði, að veita svona flóknu efni í æð. Blóðgjöf getur bælt ónæmiskerfið í allt að eitt ár. Í augum sumra er þetta hættulegasta hlið blóðgjafa.
Þá er að nefna ýmsa smitsjúkdóma. Þeir hafa framandi nöfn, svo sem Chagas-sjúkdómur og cytómegalóveira. Áhrifin spanna allt frá hita- og kuldaköstum til dauða. Dr. Joseph Feldschuh við læknadeild Cornell-háskóla segir að líkurnar á því að fá einhvers konar sýkingu með blóði séu einn á móti tíu. Það má líkja því við að spila rússneska rúlettu með tíu skota marghleypu. Nýlegar rannsóknir hafa jafnframt sýnt að blóðgjöf samfara skurðaðgerð vegna krabbameins
getur aukið hættuna á að krabbameinið taki sig upp.Það er því ekkert undarlegt að staðhæft var í sjónvarpsþætti um þetta mál að blóðgjafir gætu verið erfiðasti þröskuldurinn á batavegi sjúklings eftir skurðaðgerð. Hundruð þúsundir manna smitast af lifrarbólgu og langtum fleiri blóðþegar látast af henni en eyðni — en athygli fjölmiðla beinist lítið að því. Enginn veit með vissu hversu há dánartalan er, en hagfræðingurinn Ross Eckert segir að hún kunni að jafngilda því að fullsetin DC-10 farþegaþota farist hvern mánuð.
Áhættan og blóðbankarnir
Hvernig hafa blóðbankarnir brugðist við afhjúpunum undanfarinna missera á því hve hættulega afurð þeir séu að selja? Ekki vel, segja gagnrýnisraddirnar. Skýrsla ráðgjafarnefndar Bandaríkjaforseta um eyðnifaraldurinn, sem birtist árið 1988, sakaði blóðiðnaðinn um „óþarflega hæg“ viðbrögð við eyðnihættunni. Blóðbankar höfðu verið hvattir til að letja fólk í mestu áhættuhópunum þess að gefa blóð. Þeir höfðu verið hvattir til að skima blóðið sjálft í því skyni að vinsa úr það sem komið væri frá einstaklingum í hættulegustu áhættuhópunum. Blóðbankarnir fóru sér hægt, gerðu lítið úr hættunni og sögðu hana mestmegnis móðursýki. Hvers vegna?
Í bók sinni And the Band Played On fullyrðir Randy Shilts að sumir blóðbankar hafi beitt sér gegn frekari öryggisráðstöfunum „nær eingöngu af fjárhagsástæðum. Enda þótt blóðbankarnir og starfsemi þeim tengd sé aðallega starfrækt af stofnunum, sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni, svo sem Rauða krossinum, er um stórar fjárhæðir að tefla því árlegar tekjur nema um 1 milljarði dala
(54 milljörðum ÍSK). Verslunarstarfsemi þeirra, með blóð til 3,5 milljóna blóðgjafa á ári, var í hættu.“Við það bættist að blóðbankar, sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni, áttu allt sitt undir sjálfboðaliðum og hikuðu því við að móðga suma með því að útiloka vissa áhættuhópa, einkum kynvillinga. Baráttumenn fyrir réttindum kynvilltra vöruðu við því með alvörusvip að það væri skerðing borgaralegra réttinda að meina þeim að gefa blóð, og bæri keim af fangabúðahugarfari liðins tíma.
Það kostaði peninga að missa blóðgjafa úr höndum sér og auka eftirlit og prófanir. Árið 1983 reið blóðbanki Stanford-háskóla á vaðið, fyrstur til að beita rannsóknaraðferð sem átti að sögn að leiða í ljós hvort blóðgjafinn átti á hættu að sýkjast af eyðni. Aðrir blóðbankar gagnrýndu þessa ákvörðun sem auglýsingabrellu, ætlaða til að laða að fleiri sjúklinga. Nýjar rannsóknir hækka kostnaðinn. Hjón, sem urðu fyrir því að barni þeirra var gefið blóð án þeirrar vitundar, sögðu hins vegar: „Við hefðum gjarnan viljað greiða 5 dölum [270 ÍSK] meira á hvern skammt“ fyrir slíka prófun. Barn þeirra dó úr eyðni.
Sjálfsbjargarviðleitnin
Sumir sérfræðingar segja að blóðbankarnir séu seinir til að bregðast við hættum af völdum blóðgjafa, vegna þess að þeir séu ekki dregnir til ábyrgðar fyrir eigin mistök. Til dæmis upplýsir The Philadelphia Inquirer að bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitinu sé ætlað að fylgjast með því að blóðbankarnir fullnægi kröfum yfirvalda, en það reiði sig mjög á blóðbankana sjálfa um það hvaða kröfur skuli gerðar. Sumir af embættismönnum Matvæla- og lyfjaeftirlitsins eru auk þess
fyrrverandi forystumenn blóðiðnaðinum. Þannig dró úr skoðun og eftirliti með blóðbönkunum samhliða því að eyðnifaraldurinn magnaðist!Bandarísku blóðbankarnir hafa auk þess þrýst á um að sett yrði löggjöf er verndi þá fyrir skaðabótakröfum. Í nálega öllum ríkjum Bandaríkjanna segja lögin núna að blóð sé ekki vara heldur þjónusta. Það þýðir að sá sem vill lögsækja blóðbanka þarf að sanna að bankinn hafi gerst sekur um vanrækslu — sem er örðugur lagatálmi. Slík lög kunna að auka öryggi blóðbankanna gegn málsókn, en þau gera blóðið ekkert öruggara fyrir sjúklingana.
Hagfræðingurinn Ross Eckert álítur að blóðbankarnir myndu leggja sig meira fram um að tryggja gæði blóðs, ef þeir væru gerðir ábyrgir fyrir því blóði sem þeir senda frá sér. Aaron Kellner, fyrrum stjórnarmaður blóðbanka en nú sestur í helgan stein, tekur undir: „Með svolitlum lagaklækjum var blóði breytt í þjónustu. Allir voru lausir allra mála, það er að segja allir nema saklaust fórnarlambið, sjúklingurinn.“ Hann bætir við: „Við hefðum að minnsta kosti átt að benda á ósanngirnina í þessu, en við gerðum það ekki. Við höfðum mestar áhyggjur af þeirri hættu sem við vorum sjálfir í, en hvað varð um umhyggju okkar fyrir sjúklingnum?“
Niðurstaðan virðist óumflýjanleg. Blóðbankarnir og sá iðnaður, sem þeim tengist, leggur miklu meira upp úr því að vernda fjárhag sinn en vernda fólk fyrir þeim hættum sem söluvara þeirra býður upp á. ‚En skipta allar þessar hættur nokkru máli,‘ kann einhver að hugsa, ‚ef blóðgjöf er eina meðferðin sem hægt er að beita til að bjarga mannslífi? Eru þá ekki kostirnir þyngri á metunum en áhættan?‘ Þetta eru góðar spurningar. Hversu mikil er í raun þörf á öllum þessum blóðgjöfum?
[Innskot á blaðsíðu 17]
Læknar leggja sig í framkróka til að forðast snertingu við blóð sjúklinga sinna. En njóta sjúklingarnir nægrar verndar fyrir blóði sem þeim er gefið?
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 16, 17]
Er blóð laust við eyðnismit núna?
„GÓÐAR fréttir af blóði,“ sagði í fréttafyrirsögn í New York-blaðinu Daily News þann 5. október 1989. Greinin skýrði frá því að líkurnar á eyðnismiti með blóðgjöf væru 1 á móti 28.000. Blaðið sagði að blóðskimunaraðferðin væri nú 99,9 prósent örugg.
Sams konar bjartsýni gætir á vettvangi blóðiðnaðarins. ‚Blóðforðinn er öruggari nú en nokkru sinni fyrr,‘ staðhæfa þeir. Forseti Samtaka bandarískra blóðbanka sagði að hættan á að fá eyðni með blóðgjöf væri „nánast úr sögunni.“ En ef blóð er svona öruggt, hvers vegna hafa þá bæði dómstólar og læknar stimplað það sem „eitrað“ og „óumflýjanlega hættulegt“? Hvers vegna klæðast sumir læknar því sem líkist einna helst geimferðabúningi með andlitsgrímu og vaðstígvélum, til að forðast hugsanlega snertingu við blóð við skurðaðgerðir? Hvers vegna biðja margir spítalar sjúklinga að undirrita yfirlýsingu þess efnis að þeir leysi spítalann frá allri ábyrgð á skaðlegum afleiðingum blóðgjafa? Er hægt að vera viss um að engin hætta sé á að smitast af sjúkdómum, svo sem eyðni, samfara blóðgjöf?
Öryggið er komið undir tvennu sem gert er til að vernda blóðforðann: eftirliti með því hverjir gefa blóð og skimun sjálfs blóðsins. Nýlegar athuganir hafa leitt í ljós að þrátt fyrir allt sem gert er til að vinsa úr þá blóðgjafa, sem eru í áhættuhópunum vegna lífshátta sinna, sleppa sumir í gegn eigi að síður. Sumir gefa rangar upplýsingar um sjálfa sig og gefa síðan blóð. Sumir vilja einfaldlega finna út, svo lítið beri á, hvort þeir eru sýktir.
Árið 1985 tóku blóðbankar að mæla hvort mótefni, sem líkaminn myndar gegn eyðniveirunni, væri að finna í blóði. Gallinn við þessa mæliaðferð er sá að nokkur tími getur liðið frá því að eyðniveiran berst í líkamann þangað til hann framleiðir mælanleg mótefni. Þetta tímabil er nefnt meðgöngutími.
Sú hugmynd að hættan á að fá eyðnismit af völdum blóðgjafar sé 1 á móti 28.000 er byggð á niðurstöðum rannsókna er birtar voru í The New England Journal of Medicine. Blaðið gekk út frá því að líklegasti meðalmeðgöngutíminn væri átta vikur. Fáeinum mánuðum áður, í júní 1989, hafði sama tímarit hins vegar birt niðurstöður rannsókna þar sem talið var að meðgöngutíminn gæti verið mun lengri — þrjú ár eða meira. Þar var því slegið fram að þessi langi meðgöngutími gæti verið algengari en áður var haldið, og hugsanlegt væri að sumir, sem smitast hefðu af veirunni, mynduðu aldrei nein mótefni gegn henni! Í síðari skýrslunni gætti hins vegar meiri bjartsýni og sagt var að menn „skildu ekki nægilega“ upplýsingarnar að baki eldri niðurstöðunni.
Það sætir því ekki furðu að dr. Cory SerVass, sem á sæti í ráðgjafarnefnd Bandaríkjaforseta um eyðnifaraldurinn, skuli hafa sagt: „Blóðbankarnir geta sagt almenningi að blóðforðinn sé eins öruggur og verið geti, en almenningur gleypir ekki við því lengur vegna þess að hann skynjar að það er ekki satt.“
[Rétthafi]
CDC, Atlanta, Ga.
[Rammi á blaðsíðu 19]
Blóðgjafir og krabbamein
Vísindamenn hafa komist að raun um að blóðgjafir geta veikt ónæmiskerfi líkamans sem getur síðan spillt lífsmöguleikum þeirra sem gangast undir skurðaðgerð vegna krabbameins. Tímaritið Cancer birti þann 15. febrúar 1987 niðurstöður rannsókna sem gerðar voru í Hollandi. Tímaritið sagði: „Blóðgjafir höfðu verulega neikvæð áhrif á langtímahorfur sjúklinga með ristilkrabbamein. Samanlögð fimm ára lifun var 48% hjá þeim sem gefið var blóð en 74% hjá þeim sjúklingum sem ekki fengu blóð.“
Læknar við University of Southern California hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu að krabbamein taki sig langtum oftar upp hjá þeim sjúklingum sem fengið hafa blóð samfara skurðaðgerð vegna krabbameins en hinum sem ekki hafa fengið blóð. Tímaritið Annals of Otology, Rhinology & Laryngology birti í mars 1989 niðurstöður rannsókna sem þessir læknar höfðu gert á hundrað sjúklingum. „Endurtekning allra krabbameina í barkakýli var 14% hjá þeim sem ekki fengu blóð og 65% hjá þeim sem fengu blóð. Endurtekningartíðni krabbameins í munnholi, koki, nefi eða afholum var 31% án blóðgjafar og 71% með blóðgjöfum.“
Þann 15. apríl 1990 sagði í grein í Læknablaðinu (gefið út af Læknafélag Íslands og Læknafélagi Reykjavíkur): „Á síðustu árum hafa ýmsir höfundar greint frá ónæmisbælingu . . . í kjölfar blóðgjafar. Þeir hafa sýnt fram á aukna tíðni krabbameinsendurtekningar á lungna- og ristilkrabbameini hjá sjúklingum, sem hafa gengist undir skurðaðgerðir og þurft á blóðgjöf að halda, samanborið við þá, sem enga blóðgjöf fengu.“
Í grein sinni, „Blóðgjafir og krabbameinsskurðaðgerðir,“ komst dr. John S. Spratt að eftirfarandi niðurstöðu: „Ef til vill þurfa krabbameinsskurðlæknar að hætta með öllu notkun blóðs.“ — The American Journal of Surgery, september 1986.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Það er umdeilt að blóð bjargi mannslífum en óumdeilt að það bani fólki.