Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjálfsmorð — er von um upprisu?

Sjálfsmorð — er von um upprisu?

Sjónarmið Biblíunnar

Sjálfsmorð — er von um upprisu?

SÚ sorgarfregn að ættingi eða vinur hafi svipt sig lífi vekur blendnar tilfinningar — meðaumkun og reiði, sorg og sektarkennd. Sú spurning kemur upp í hugann hvort sá sem sviptir sig lífi hafi nokkra von um upprisu. a

Þótt aldrei sé hægt að verja það eða réttlæta að maður taki líf sitt skulum við hafa hugfast að Páll postuli sagði hina fögru upprisuvon ná jafnvel til sumra ranglátra. Hann sagði rómverskum dómstóli: „Þá von hef ég til Guðs, . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ — Postulasagan 24:15.

Guðfræðingar hafa margir hverjir lengst af vísað því á bug að þeir sem hafa svipt sig lífi geti átt nokkra von um hlutdeild í upprisu ranglátra. Hvers vegna?

Guðfræðingar andmæla upprisuvoninni

William Tyndale benti á hvar vandinn lægi að hluta til er hann sagði í formálsorðum biblíu sinnar á 16. öld: „Er þið sendið sálir látinna til himna, helvítis eða hreinsunarelds eyðileggið þið röksemdir Krists og Páls sem þeir notuðu til að sanna upprisuna.“ Já, á öldum áður komu kirkjunnar menn fram með þá óbiblíulegu hugmynd að maðurinn hafi ódauðlega sál er yfirgefi líkamann við dauðann og fari beint til himna, í hreinsunareld, forgarða vítis eða helvíti. Þessi hugmynd stangaðist á við hina skýru kenningu Biblíunnar um upprisu. Baptistaprestur að nafni Charles Andrews spurði: „Ef sálin er nú þegar í himneskri alsælu (eða brennur í helvíti eins og hún á skilið), er þá þörf fyrir nokkuð fleira?“ Hann bætti við: „Þessi innri mótsögn hefur þjakað kristna menn um aldaraðir.“

Ein afleiðing þessarar röngu guðfræði er sú að „allt frá tímum Agústínusar [354-430 e.o.t.] hefur kirkjan fordæmt sjálfsmorð sem synd, ófyrirgefanlega synd líkt og fráhvarf frá trúnni og hjúskaparbrot,“ segir Arthur Droge í tímaritinu Bible Review í desember 1989.

Með því að kalla sjálfsmorð „ófyrirgefanlega synd“ er sendi sálina rakleiðis í vítiseld var verið að fara út á ystu nöf í kenningunni um hinsta dóm við dauðann. Kaþólska blaðið National Catholic Reporter viðurkennir: „Tveir af mestu kirkjufeðrunum skömmuðust gegn sjálfsmorði — Ágústínus stimplaði það ‚viðurstyggilegan og fordæmanlegan óguðleik‘ og Tómas frá Akvínó gaf í skyn að það væri ófyrirgefanleg synd gegn Guði og samfélaginu — en kirkjunnar menn hafa ekki allir verið sammála því.“

Sem betur fer getum við forðast slíka „innri mótsögn“ með því að viðurkenna tvö biblíusannindi, í fyrsta lagi þau að „sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja,“ og í öðru lagi að hin sanna von dáinna sálna (manna) er sú að lifa aftur vegna ‚upprisu bæði réttlátra og ranglátra.‘ (Esekíel 18:4; Postulasagan 24:15) Hverju má þá búast við í sambandi við þá sem svipta sig lífi?

Ranglátur maður sem fær upprisu

Kristur sagði dauðadæmdum afbrotamanni: ‚Þú skalt vera með mér í paradís.‘ Maðurinn var ranglátur — lögbrjótur en ekki örvinglaður sjálfsmorðingi — og viðurkenndi hreinskilnislega sekt sína. (Lúkas 23:39-43) Hann bar enga von í brjósti um að fara til himna til að ríkja með Jesú. Paradísin, sem þessi þjófur gat vonast til að lifna í, var hin fagra jörð undir stjórn ríkis Jehóva Guðs. — Matteus 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:1-4.

Í hvaða tilgangi mun Guð vekja þennan afbrotamann til lífs? Þeim að krefja hann miskunnarlaust reikningsskapar gerða sinna? Tæplega, því að Rómverjabréfið 6:7, 23 segir: „Sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni“ og „laun syndarinnar er dauði.“ Þótt hann verði ekki látinn gjalda fyrri synda þarfnast hann eigi að síður lausnargjaldsins til að lyfta sér til fullkomleika.

Guðfræðingurinn Albert Barnes fór því með rangt mál og villandi er hann staðhæfði: „Þeir sem illt hafa gert verða reistir upp til að fordæmast. Sá verður tilgangurinn með því að reisa þá upp; einasti tilgangurinn.“ En slíkt er ósamboðið Guði kærleika og réttvísi! Upprisa til lífs á jörð sem verður paradís mun þess í stað veita þessum fyrrverandi afbrotamanni (og öðrum ranglátum mönnum) gullið tækifæri til að verða dæmdir eftir því sem þeir gera eftir upprisu sína. — 1. Jóhannesarbréf 4:8-10.

Miskunnarríkt tækifæri

Harmi lostnir vinir þess sem hefur svipt sig lífi geta því leitað hughreystingar í þeirri vitneskju að ‚Jehóva sýni miskunn þeim er óttast hann, því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.‘ (Sálmur 103:10-14) Guð einn getur skilið til fulls hvaða þátt geðveiki, óhófleg streita eða jafnvel erfðagallar hafa á „sjálfsmorðskreppuna,“ sem National Observer sagði að ‚stæði ekki alla ævina heldur oft aðeins fáeinar mínútur eða klukkustundir.“ — Sjá Prédikarann 7:7.

Sá sem sviptir sig lífi hefur auðvitað ekkert tækifæri til að iðrast verks síns. En hver getur sagt til um það hvort hann hefði tekið sinnaskiptum ef hann hefði fengið tíma til eða tilraun hans mistekist? Jafnvel alræmdir morðingjar hafa, sumir hverjir, breytt sér og öðlast fyrirgefningu Guðs. — 2. Konungabók 21:16; 2. Kroníkubók 33:12, 13.

Jehóva hefur greitt ‚lausnargjald fyrir marga‘ og er því í sínum fulla rétti að sýna miskunn, jafnvel sumum sem hafa svipt sig lífi, með því að reisa þá upp og veita þeim hið dýrmæta tækifæri að „iðrast og snúa sér til Guðs og vinna verk samboðin iðruninni.“ — Matteus 20:28; Postulasagan 26:20.

Ábyrg, biblíuleg afstaða til lífsins

Lífið er gjöf frá Guði, gjöf sem ekki má misnota eða eyðileggja með eigin hendi. (Jakobsbréfið 1:17) Ritningin hvetur okkur því til að líta á okkur, ekki sem ódauðlegar sálir heldur sem dýrmætar sköpunarverur Guðs sem elskar okkur, sem metur það mikils að við lifum og horfir fram til þess tíma er upprisustundin rennur upp. — Jobsbók 14:14, 15.

Kærleikur hjálpar okkur að hafa hugfast að sjálfsmorð leggur einungis fleiri vandamál á herðar eftirlifandi ástvinum, þótt það lyfti af mönnum þeirra eigin byrðum. Við mennirnir erum ekki í aðstöðu til að dæma um það hvort einhver, sem sviptir sig lífi í fljótræði, hlýtur upprisu eða ekki. Hversu ámælisverður var hann? Guð einn „rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar.“ (1. Kroníkubók 28:9) Við getum hins vegar treyst því að „dómari alls jarðríkis“ geri það sem er rétt, réttlátt og kærleiksríkt! — 1. Mósebók 18:25.

[Neðanmáls]

a Þessi grein er skrifuð handa þeim sem verða fyrir því áfalli að vinur eða ættingi tekur líf sitt. Ítarlegar er fjallað um sjálfsmorð í Varðturninum (enskri úgáfu) þann 1. ágúst 1983, bls. 3-11 og Vaknið! (enskri útgáfu) 8. ágúst 1981, bls. 5-12.

[Rétthafi]

Kollektie Rijksmuseum Kröller-Müller, Otterlo