Þrautin þunga um kaffið
Þrautin þunga um kaffið
MEIRA en 1.500.000.000 bollar á dag! Nýlega var áætlað að heimurinn drykki svona mikið kaffi. Þessi mikla kaffidrykkja hefur haldist óbreytt þrátt fyrir endurteknar aðvaranir vísindamanna um langt árabil þess efnis að kaffidrykkjumenn stofni sér í ótal hættur, allt frá hjartasjúkdómum til sykursýki og jafnvel krabbameins í ýmsum myndum. Hvers vegna hafa þá svona fáir kaffidrykkjumenn sleppt bollanum og forðað sér frá þessum drykk?
Síðastliðin 40 ár hafa vísindamenn birt yfir 500 skýrslur um áhrif kaffidrykkju. Enn sem komið er hafa niðurstöður þeirra þó ekki verið afdráttarlausar. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að kaffi er snöggt um flóknara efni en það lítur út fyrir. Í einum kaffibolla geta verið allt að 500 efnasambönd frá náttúrunnar hendi. Flestar rannsóknir beinast hins vegar að aðeins einu þeirra, örvunarefninu koffeíni.
Koffeín getur gert suma svefnvana og skapstygga eða skert einbeitingarhæfni þeirra. En hvað um krabbamein? Breska neytendatímaritið Which? segir: „Fyrir að heita má hverja einustu rannsókn, sem sýnir fram á hugsanleg tengsl [koffeíns og krabbameins], er til önnur sem sýnir fram á hið gagnstæða.“ Það kemur því ekki á óvart að ‚alls engin heilsubótarhreyfing skuli hafa orðið í átt frá kaffidrykkju,‘ svo vitnað sé í orð kaffifræðings í Lundúnum. Auk þess vita margir að te, kakó og kóladrykkir innihalda líka koffeín. Tímaritið Which? bendir reyndar á að „miðað við þyngd innihaldi te meira koffeín en kaffi en það sé yfirleitt notað minna magn til að laga tebolla en kaffibolla.“
Þó er rétt að vekja athygli á nokkrum varnaðarorðum til kaffidrykkjumanna. Lundúnablaðið The Times vitnaði nýverið í hollenska skýrslu þar sem komist var að eftirfarandi niðurstöðu: „Kaffi, sem er lagað með því að blanda möluðu kaffi beint út í sjóðandi vatn, getur hækkað kólesterólstig [blóðsins] um 10 af hundraði í samanburði við síað kaffi eða alls ekkert kaffi.“ Alkunna er að hátt kólesterólstig getur stuðlað að hjartasjúkdómum. Í síðara tölublaði hafði The Times eftir kunnum, breskum næringarfræðingi: ‚Þeir sem drekka kaffi að jafnaði ættu alltaf að drekka það nýlagað og forðast kaffi, sem hefur mallað lengi, eða soðið kaffi.‘
Segja má að sérfræðingar séu helst sammála um það eitt að skynsamlegt sé að drekka kaffi í hófi. Læknar mæla með að fólk drekki yfirleitt ekki meira en sex bolla (eða fjórar drykkjarkönnur) af kaffi á dag. Þeir sem eru með hjarta- eða nýrnasjúkdóma, eða þá háan blóðþrýsting, ættu að drekka enn minna. Og barnshafandi konur eða mæður með börn á brjósti ættu ekki að drekka meira en einn bolla á dag.