Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dvínandi skógar, hækkandi hitastig

Dvínandi skógar, hækkandi hitastig

Dvínandi skógar, hækkandi hitastig

EYÐING regnskóganna. Gróðurhúsaáhrifin. Þetta tvennt er oft nefnt í sömu andránni, og það af ærnu tilefni: hið fyrrnefnda stuðlar að því síðarnefnda. Þegar mannkynið brennir, ryður og kaffærir skóglendi á stórum svæðum til að gera sér búgarða, vegi og stíflur til raforkuframleiðslu, þá losnar úr læðingi hinn mikli kolefnisforði skóganna og kemst út í andrúmsloftið. Koldíoxíðið, sem til verður, er ein lofttegund af mörgum sem valda því að andrúmsloftið heldur í sér varma, þannig að jörðin hitnar hægt og hægt.

Nýlegar skýrslur frá Sameinuðu þjóðunum gefa til kynna að þessi tvö vandamál kunni að vera komin á alvarlegra stig en áður var haldið. Til dæmis létu yfir 300 loftslagsfræðingar úr öllum heimshornum frá sér fara aðvörun í maí árið 1990 um að meðalhitastig jarðar muni hækka um tvær gráður næstu 35 árin og 6 gráður fyrir lok næstu aldar, ef menn gera ekkert til að snúa þróuninni við.

Þetta myndi vera stórkostlegasta hitastigsbreyting sem orðið hefur á jörðinni í 10.000 ár, að sögn vísindamannanna. Enda þótt vísindamenn hafi deilt um gróðurhúsaáhrifin segir The Washington Post: „Vísindamenn, sem sömdu skýrsluna, . . . sögðu hana lýsa athyglisverðri samstöðu meðal hundruða vísindamanna sem yfirleitt væru ekki á eitt sáttir.“

Í skýrslu, sem nefnd er World Resources — 1990-91, er áætlað að heimurinn sé að tapa regnskógum sínum allt að 50 prósent hraðar en áður var talið. Samanlagður eyðingarhraði hitabeltisskóga níu landa — í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku — meira en þrefaldaðist á síðasta áratug! Að sögn skýrslunnar er eytt samanlagt í heiminum á bilinu 16 til 20 milljónum hektara af hitabeltisskógi á ári.

Eyðing skóganna er þegar farin að hafa sín áhrif. Ritið International Wildlife nefnir sem dæmi að regnskógar veraldar séu heimkynni að minnsta kosti 5 milljóna og ef til vill allt að 30 milljóna tegunda jurta og dýra — „fleiri en í öllum öðrum vistkerfum jarðar samanlagt.“ Þessar tegundir eru að deyja út hver af annarri. Fuglaskoðarar á norðlægum breiddargráðum hafa þegar veitt því eftirtekt að farfuglum, sem eiga vetrarheimkynni í skógum hitabeltisins, fer fækkandi.

Á Madagaskar er um 80 af hundraði jurtategunda, sem blómgast, hvergi annars staðar að finna á jörðinni; ein þeirra er undirstaða nokkurra af mikilvægustu krabbameinslyfjum í heimi. Samt sem áður er nú búið að spilla eða eyða yfir helmingi skóganna á Madagaskar.

Maðurinn er sannarlega að ‚eyða jörðina‘ núna á síðustu dögum eins og Biblían gaf til kynna endur fyrir löngu að hann myndi gera. — Opinberunarbókin 11:18.

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 29]

Abril Imagens/João Ramid