Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Segist vera Messías

„Einingarkirkja Moons hefur lengi kennt áhangendum sínum að stofnandi hennar og spámaður, sem er fæddur í Kóreu, sé annar Messías er þurft hafi að senda vegna þess að Jesú mistókst að ljúka ætlunarverki sínu á jörð,“ að því er segir í dagblaðinu Los Angeles Times. En núna, í fyrstu opinberu yfirlýsingu sinni um þá kenningu, „hélt Sun Myung Moon því fram á trúarráðstefnu að hann væri Messías.“ Moon sagði að heimurinn þarfnaðist Messíasar til að geta frelsast undan áhrifum Satans og bætti svo við: „Guð hefur kallað mig til þessa hlutverks.“ Þessi orð, sem hann lét falla á heimsráðstefnu trúarbragðanna er kirkja hans stóð fyrir, kom mörgum ráðstefnugestum í uppnám.

Reykingar dýrkeyptar

Tíu þúsund manns sóttu alþjóðaráðstefnu um krabbamein sem haldin var í Hamborg í ágúst 1990. Að sögn þýska dagblaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung heyrðu þeir fundarstjóra ráðstefnunnar lýsa yfir: „Innan nokkurra áratuga verða fleiri dánir af völdum tóbaksreykinga um allan heim en fallið hafa samanlagt í öllum styrjöldum sögunnar.“ Þótt ráðstefnugestir væru hlynntir því að dregið yrði úr tóbaksnotkun sást til margra krabbameinssérfræðinga er þeir læddust út til að kveikja sér í sígarettu.

Hjálp handa útivinnandi mæðrum

Auglýsingastofa í grennd við Regensburg í Þýskalandi hefur komið fram með miskunnsama lausn á vanda útivinnandi mæðra sem finna engin ráð til að fá barnagæslu yfir daginn. Forstjóri fyrirtækisins sagði starfsmönnum, sem svo er ástatt fyrir, að vinna hluta úr degi og taka börnin með sér í vinnunna, að sögn dagblaðsins Nürnberger Nachrichten. Rök forstjórans voru þessi: „Það eru aðallega konur sem vinna hér og góður starfskraftur á auglýsingasviðinu er vandfundinn. Mér er því eðlilega mikið í mun að halda í starfsmenn mína.“ Að sjálfsögðu hlýtur vinnufriður að vera svona og svona á skrifstofu þar sem fimm eða sex börn eru að ólátast, en útivinnandi mæður eru ákafari og áhugasamari um að þóknast fyrirtæki sem hefur gengið svona langt til móts við þær, og það er ekkert ónæðissamara hjá þeim en væru þær að vinna heima hjá sér. Einhleyp, þriggja barna móðir segir: „Ég hefði engin tök á að vinna úti með öðrum hætti.“

Börn og eyðni

Í fyrstu skýrslu sinni um áhrif eyðni á börn sagði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að veiran legðist á langtum fleiri börn en áður hefði verið haldið og að sennilega yrðu um 10 milljónir barna búnar að sýkjast árið 2000. „Langtflest þeirra verða komin með eyðni og dáin árið 2000,“ sagði dr. Michael Merson, en hann stýrir baráttu stofnunarinnar gegn eyðni í heiminum. Í skýrslunni kemur einnig fram endurskoðað mat á útbreiðslu eyðnismits árið 2000. Talan liggur nú á bilinu 25 til 30 milljónir tilfella. Börn fædd sýktum mæðrum eru bágstödd á tvo vegu: Líkur eru á að 30 prósent þeirra gangi með eyðniveiruna, en hin 70 prósentin eiga í vændum að missa foreldra sína úr eyðni.

Ónákvæmar aldursákvarðanir

Um áratuga skeið hafa sagnfræðingar og steingervingafræðingar reitt sig á aldursákvarðanir byggðar á geislavirku kolefni til að leggja mat á aldur steingervinga. Að sögn tímaritsins Time er vitað „að þessar aldursákvarðanir eru nokkuð óvissar, þótt þær séu taldar mikils virði.“ Tímaritið bætti við að ‚vitað væri að kolefni 14 í andrúmsloftinu breytist frá einu tímabili til annars — og þar með það magn sem lífverur taka til sín, og það geti haft áhrif á aldursákvörðun með hjálp kolefnis.‘ Hópur jarðfræðinga við Lamont-Doherty jarðfræðistofnunina í Palisades í New York bar saman niðurstöður aldursgreiningar með kolefni 14 og úraníum-þóríum. Niðurstaðan var sú að „kolefnisgreiningunni getur skeikað um allt að 3500 ár — hugsanlega nóg til að kalla á breytta afstöðu til spurninga sem þeirrar hvenær menn komu fyrst til Ameríku.“

Mengun kennt um

„Með hverri kynslóð minnkar mótstöðuaflið er mengunarefni safnast fyrir og veikla ónæmiskerfið,“ að því er dr. Jean Monro fullyrðir sem er ofnæmisfræðingur við Breakspear-spítalann í Bretlandi er sérhæfir sig í ofnæmis- og umhverfissjúkdómum. Umhverfismengun, það að hafa börn ekki á brjósti, aukaefni í matvælum og vatni og óhyggileg notkun lyfja og fíkniefna er talin auka á vandann. Sjúkdómar allt frá astma til krabbameins, og jafnvel hegðunarvandamál barna, hljótast af. Samkvæmt frétt Lundúnarblaðsins Times er talið að 17 milljónir, um 30 af hundraði íbúa Bretlandseyja, kunni að vera haldnir kvillum sem rekja má til umhverfisins, án þess að gera sér grein fyrir því.

Leyndardómur langlífisins

Japanir hafa sett nýtt heimsmet í langlífi. Meðallífslíkur japanskra kvenna eru 81,77 ár og karla 75,91 ár. Sérfræðingar segja að það megi rekja til „færri dauðsfalla meðal ungbarna og miðaldra fólks,“ að sögn dagblaðsins Mainichi Daily News. Waka Shirahama, sem er 112 ára, elsti núlifandi Japani og ein af 3298 Japönum eldri en 100 ára, sagði að leyndardómurinn að baki þessu langlífi væri „iðjusemi og heiðarleiki,“ að sögn dagblaðsins The Daily Yomiuri. Í öðru viðtali bætti hún við: „Borðið alls konar mat og verið ekki matvönd, sofið nógu mikið og gleymið ekki brosinu.“

Kraftaverk „skömmtuð“

Þurrkar hafa valdið því að „kraftaverkavatnið“ frá hinni heimskunnu laug í Lourdes í Frakklandi hefur verið skammtað. Þetta hefur valdið nokkurri skelfingu meðal þeirra sem sótt hafa laugina heim í leit að undraverðri lækningu. Yfirvöld trúmála hafa leyft hverjum pílagrími að taka með sér einungis um fjórðung úr lítra af vatni úr lauginni, en samkvæmt munnmælum spratt þar fram vatn árið 1859 eftir að Madonna (María, móðir Jesú) birtist þar. Reyni menn að hafa á brott með sér meira vatn er það gert upptækt og hellt aftur í laugina. „Í öllum kirkjum í Frakklandi er beðið árangurslaust til regnmeyjarinnar. En hún gæti hvort eð er ekki látið rigna aðeins á Lourdes,“ sagði í dagblaðinu Corriere della Sera.

Heilinn þarf að sofa

Hvers vegna þurfum við að sofa? Á ráðstefnu, sem haldin var fyrir skömmu í Strasbourg í Frakklandi, var slegið fram umdeildri kenningu. Sagt var að svefn skipti minna máli fyrir líkamann en heilann sem þurfi að jafna sig eftir erfiði dagsins með því að sofa. Dagblaðið Die Zeit segir frá því að tilraunir gefi til kynna að „mannslíkaminn geti starfað nánast eðlilega, jafnvel eftir nokkurra daga svefnleysi, en heilinn sé ólíkur.“ Tilraunir sýndu að fólk „skorti athyglis- og einbeitingarhæfni, minnisgáfan varð lakari, hugsunin hægari og skynjun og skilningur á umhverfi lakari“ þegar fólk fékk ekki að sofa.

Hreint vatn er fágætt

„Þessa stundina eru þjóðir tilbúnar að heyja stríð út af olíu, en í náinni framtíð gæti vatn orðið hvati vopnaðra átaka,“ sagði í tímaritinu Time. „Íbúatala jarðar er að fara fram úr því sem takmarkaðar ferskvatnsbirgðir þola. Mannkynið er að eitra og eyða upp hinum dýrmæta vökva sem viðheldur öllu lífi.“ Þótt það kunni að virðast ótrúlegt að vatn geti skort á reikistjörnu þar sem 70 af hundraði yfirborðs eru þakin vatni, ber að hafa hugfast að 98 af hundraði þess er salt og óhæft til drykkjar eða áveitu. Skortur á fersku, hreinu vatni bæði ógnar heilsu, hagvexti og öllum villtum lífverum, og eykur jafnframt með ári hverju hættuna á hungursneyð. Það kemur oft niður á mönnum síðar þegar reynt er að sækja vatn um langan veg. „Heimurinn er að átta sig á því að því eru takmörk sett í hvaða mæli menn geta flutt vatn frá einum stað til annars án þess að raska stórlega jafnvægi náttúrunnar,“ segir Time. Hins vegar er hægt að auka vatnsframboð stórlega með því að draga úr vatnstapi. Talið er að á heimsmælikvarða fari um 65 til 70 af hundraði vatns í súginn vegna leka, uppgufunar eða lélegrar nýtingar af öðru tagi.

Kirkjuskattur Þjóðverja

Í Vestur-Þýskalandi fjármagna kirkjur starfsemi sína með kirkjuskatti sem vinnuveitendur halda eftir af launum starfsmanna sinna. Vinnuveitandi nokkur neitaði að skila kirkjuskatti sem hann dró af launum starfsmanna sinna. Hvers vegna? Árið 1664 höfðu forfeður hans verið sakaðir um galdra, píndir og brenndir á báli og hann kallar kirkjuna til ábyrgðar. Höfðað var mál á hendur honum og rétturinn dæmdi verknað hans óréttlætanlegan. Tímaritið Polizei segir: „Að öðrum kosti gæti hver sá sem veit forfeður sína hafa orðið fyrir ranglæti . . . neitað samvisku sinnar vegna að fullnægja skyldum, sem ríkið leggur á hann.“