Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Litblinda — sérkennilegur galli

Litblinda — sérkennilegur galli

Litblinda — sérkennilegur galli

ÞAÐ var mikið áfall fyrir kvekarana, sem voru grandvarir mjög, að sjá John Dalton birtast í skærrauðum sokkum! Að jafnaði klæddust þeir fötum í dökkum litum — gráum, brúnum og svörtum — og varð bilt við að sjá John Dalton þannig klæddan, að ekki sé meira sagt. Hvað hafði komið fyrir?

Dalton, sem fæddist árið 1766 í Eaglesfield á Englandi, lýsti blóði sem „flöskugrænu“ og taldi lárviðarlauf „og innsiglislakk [sem var rautt] eiga vel saman.“ Já, Dalton, sem varð frægur efnafræðingur, var litblindur eða, svo nákvæmar sé að orði komist, var með gallað litaskyn.

Dalton sá rautt sem grátt og sá ósköp lítinn mun á því og grænu. Vinir hans gátu því gert honum þann hrekk að skipta á sokkunum hans og valda slíku hneyksli! Í sumum Evrópulöndum er litblinda reyndar kölluð Daltonismi.

Vandamál allra þjóða

Árið 1980 áætlaði dr. Janet Voke við City University í Lundúnum að yfir tvær milljónir manna á Bretlandseyjum væru með gallað litaskyn. Í sumum einangruðum samfélögum er þetta vandamál tiltölulega fágætt. Á Fitseyjum er aðeins einn af hverjum 120 litblindur, en í Kanada er um níundi hver maður með ófullkomið litaskyn.

Litaskyn er breytilegt frá manni til manns. Samkvæmt kenningu, sem nýtur almennrar viðurkenningar, er litaskyn þess manns eðlilegt sem sér hvítt þegar þrem ljósgeislum — rauðum, grænum og bláum — er blandað í jöfnum hlutföllum. Sé ljósgeislunum þrem blandað í mismunandi hlutföllum má fá fram önnur litbrigði sem fólk með eðlilegt litaskyn getur séð.

Ef hins vegar er hægt að ná fram öllum litbrigðum, sem þú getur séð, með því að blanda saman aðeins tveim þessara frumlita, og þú greinir engan mun þótt þriðja litnum sé bætt við, þá er litaskyn þitt gallað. Sagt er að sá sé litvilltur sem greinir aðeins tvo af höfuðlitunum þrem. John Dalton var litvilltur, nánar til tekið rauðblindur.

Allitblinda er hins vegar alvarlegri. Allitblindur maður greinir enga liti. Hann sér engan mun á litsjónvarpstæki og svart-hvítu.

Algengasta litblindan er sú þegar einstaklingurinn skynjar alla þrjá frumlitinu en er ekki jafnnæmur fyrir þeim öllum. Ef það er þitt vandamál getur verið að félagar þínir, sem hafa eðlilegt litaskyn, hrópi: „Þetta er of rautt!“ eða „Þetta er of grænt!“ þegar þú breytir litahlutföllunum í sjónvarpstækinu þínu.

Orsakirnar

Hvað veldur slíkum ágöllum? The New Encyclopædia Britannica nefnir „öldulengdarskynfærið“ sem einn sökudólginn. Í sjónhimnu mannsaugans eru um 130 milljónir ljósnema í hvoru auga fyrir sig, en aðeins um 7 milljónir þeirra nema liti. Litnemarnir eru kallaðir keilur vegna þess að þeir eru keilulaga.

Fólk með eðlilegt litaskyn hefur þrenns konar keilur. Sumar þeirra nema best ljós með langri bylgjulengd (rautt), annar hópur nemur ljós af miðlungsbylgjulengd (grænt) og þriðji hópurinn ljós með stuttri bylgjulengd (blátt). Ef vantar keilur úr einhverjum flokknum, eða þær nema ekki eðlilega þá bylgjulengd sem þeim er ætluð, þá er litaskynið brenglað. Ef þú skynjaðir til dæmis ekki rauðan lit eðlilega myndir þú sjá litla litarbreytingu á tómötum er þeir þroskuðust og skiptu litum úr grænu í rautt.

Skemmdir á sjóntaug, sem flytja boð frá keilunum til heilans, geta einnig valdið litblindu. Vitað er að sum lyf, svo sem ákveðin lyf notuð gegn malaríu, geta truflað litaskyn. Sagt er að sumar getnaðarvarnarpillur geti breytt litaskyni á blátt, grænt og gult. Í bókinni Color Vision Testing nefnir dr. Voke að bæði tóbak og áfengi geti stundum valdið varanlegri rauð- og grænblindu.

Öldrun hefur líka sín áhrif, einkum á næmi fólks fyrir bláu ljósi. Rannsóknarmaðurinn R. Lakowski segir að litaskynið nái hámarki á unglingsárunum og haldist þannig til 35 ára aldurs. Eftir það dvíni litaskynið smám saman, einkum eftir sextugt.

Þótt litaskyn geti brenglast einhvern tíma á ævinni er litblinda oftast meðfædd. Hvers vegna?

‚Hann er líkur afa sínum‘

Eðlilegt litaskyn er ómetanleg gjöf. Þegar keilurnar starfa rétt og sjóntaugarnar flytja heilanum boðin óbrengluð sjá menn í öllum litum. „Æft mannsauga getur greint allt að 150 litbrigði,“ segir í bókinni How Animals See. „Mörg dýr . . . sjá sennilega ekki liti með sama hætti og við, en það er eðlilegt í þeirra augum og enginn galli,“ segir The World Book Encyclopedia.

Ef litaskyn þitt hefur alltaf verið gallað hefur þú vafalaust fengið það í arf. Frá hverjum? Bókin Health and Disease skilgreinir litblindu sem „kyntengdan“ erfðagalla sem „berst með konum en birtist yfirleitt í annarri hvorri kynslóð karla.“ Þannig má oft segja að ‚drengurinn líkist afa sínum.‘

Hvernig má greina litblindu?

Grunar þig að barnið þitt sé litblint? „Ef þú veitir athygli að barnið þitt á erfitt með að þekkja litina þegar það er orðið fimm til sex ára, ef það klæðir sig í ósamstæða sokka eða finnur ekki réttan lit í litakassanum, þá ætti að láta rannsaka sjón þess,“ segir í bókinni Childcraft. Hvernig?

Isihara-prófið er einhver algengasta leiðin til að prófa litaskyn. Barninu eru sýnd nokkur spjöld þakin deplum í mismunandi litbrigðum. Deplarnir mynda ákveðin mynstur og tölur sem eru auðséðar manni með eðlilegt litaskyn. Barnið þarf að segja hvaða mynstur eða tölur það sér. Barn með rauðblindu sér tölustafinn sex, barn með grænblindu tölustafinn níu. Ef barnið sér töluna 96 er litaskynið eðlilegt samkvæmt þessum kafla prófsins.

Þar eð litir eru notaðir í vaxandi mæli í kennslugögnum, sem notuð eru við barnafræðslu, er auðvitað hyggilegt að vita af því ef litaskyn barnsins er ófullkomið. En er nokkuð hægt að gera fyrst arfgeng litblinda er ólæknandi sem stendur?

Varúðarráðstafanir

Hazel Rossotti, höfundur bókarinnar Colour, mælir með því að gallinn sé greindur snemma. Þá er hægt að ‚vekja athygli litblinds manns á aðstæðum, sem líklegt er að valdi honum ruglingi, og kenna honum að treysta, hvenær sem hann getur, á önnur atriði en óskýra liti.“

Þú getur kennt litblindu barni merkingu litaðra umferðarljósa. Þótt barnið geti gert greinarmun á rauðu umferðarljósi og grænu, með því að leggja staðsetninguna á minnið, þá er gott að hjálpa því að veita athygli að ljósin eru missterk, þannig að það geti greint rétt milli þeirra á eigin spýtur, jafnvel í myrkri.

Ef þú ert litblindur skaltu forðast að reiða þig á litina eina er þú tekur ákvarðanir. Með því að heilinn getur bætt upp gallað litaskyn skaltu bæta við þekkingarsjóð hans með því að gefa sérstakan gaum að birtustigi hlutarins, staðsetningu og lögun. Hikaðu ekki við að biðja vini og ættingja, með eðlilegt litaskyn, hjálpar.

Er þú tekur mikilvægar ákvarðanir, svo sem um atvinnu, er hyggilegt að taka tillit til þess óhagræðis sem fylgir ófullkomnu litaskyni. Við sum störf getur litblinda verið alvarlegur dragbítur. Litblinda getur verið nokkur fötlun fyrir efnafræðinga, lyfjafræðinga, ljósmyndara og prentara sem prenta í litum. Gott litaskyn er kostur fyrir tannlækna þegar þeir velja liti á gervitennur. Kjötiðnaðarmenn og þeir sem vinna við framleiðslu matvæla geta einnig tekið fyrr eftir breytingum á ástandi matvæla, ef þeir hafa gott litaskyn. Ófullkomið litaskyn getur gert hjúkrunarfólki og læknum erfiðara fyrir að meta heilsu sjúklinga sinna við skoðun.

Hver sá sem hefur góða sjón ræður yfir verðmætum hæfileika. Ef litaskyn þitt er takmarkað ættir þú að sýna sérstaka varúð. Til dæmis ættir þú að hafa hugfast að óþörf lyfjaneysla, óhófleg notkun áfengis eða tóbaksreykingar geta valdið því að litaskyni hraki. Ef þú hefur fullt litaskyn hefur þú ómetanlegan hæfileika sem þú skalt gæta vel.