Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Villilamadýrið klæðist fíngerðustu ull í heimi

Villilamadýrið klæðist fíngerðustu ull í heimi

Villilamadýrið klæðist fíngerðustu ull í heimi

Eftir fréttaritara „Vaknið!“ í Bólivíu.

HVAÐ er svona sérstakt við ull villilamadýrsins og hvers vegna er hún svo sjaldgæf?

Ef til vill hefur þú séð áþekkt dýr í dýragarði — lamadýrið, hið hægfara burðardýr sem mörgum finnst vera ‚yfirlætislegt‘ á svip. Ull þess er grófari en ull villilamadýrsins. Vera má að þú hafir séð flíkur úr alpakaull, en alpakan er tamið dýr af lamaætt sem ræktað er í Andesfjöllum vegna ullarinnar. En hefur þú nokkurn tíma séð villilamadýr?

Villilamadýrið er ólíkt hinum tömdu ættingjum sínum og með styggara móti. Það klæðist fíngerðustu ull í heimi; þvermál hársins er innan við helmingur af þvermáli fínustu sauðfjárullar.

Villilamanu veitir ekki af hlýjum feldi því heimkynni þess eru í hlíðum Andesfjalla í 3700 til 5500 metra hæð yfir sjávarmáli. Í grennd við snælínuna, þar sem villilamað heldur sig, eru dagarnir unaðslega sólbjartir en þegar nóttin skellur á hrapar hitastig skyndilega langt niður fyrir frostmark. Þar við bætist að vesturhlíðar Andesfjalla eru víða þurrar eyðimerkur. Hvernig getur villilamadýrið þrifist við slíkar aðstæður?

Auk þess að hafa einkar hlýjan feld er blóð villilamadýrsins sérstaklega rauðkornaríkt, þannig að jafnvel í þessari miklu hæð yfir sjávarmáli getur það hlaupið nokkurn spöl með allt að 50 kílómetra hraða miðað við klukkustund, án þess að þreytast. Og líkt og úlfaldarnir getur það þrifist á miklum þurrkasvæðum. Reyndar eru bæði lamadýr, villilamadýr, alpökur og gúanökkur oft kölluð kamelítar vegna þess að þeir líkjast úlföldum. En skaparinn hefur séð til þess að villilamað stendur betur að vígi en ættingjar þess að einu leytinu enn.

Lamadýr og alpökur geta eignast afkvæmi hvenær sem er á árinu en villilamað aðeins í mars og apríl. Það er við lok regntímans meðan beitarskilyrði eru best. Auk þess kastar dýrið yfirleitt að morgni til, þannig að kálfurinn hefur góðan tíma til að þorna áður en hann kynnist fyrstu frostnóttinni. Kvendýrið dregur sig í hlé frá hjörðinni, sem í eru um 20 villilamadýr, og kastar um 6 kílógramma kálfi eftir um tæplega háftíma hríðir. Móðirin hjálpar kálfinum ekki hið minnsta, sleikir hann ekki einu sinni. Ef það rignir dregur kuldinn kraft úr kálfinum þannig að hann er auðveld bráð fyrir stærsta fleyga fugl í heimi, andesgamminn eða kondórinn. En yfirleitt er kálfurinn fljótur að koma undir sig fótunum og getur hlaupið af sér mann innan hálfrar stundar eftir að hann kom í heiminn.

Því miður er það svo að ágjarnir veiðiþjófar hafa nánast útrýmt villilamadýrinu. Oft stráfella þeir dýrin með vélbyssum. Sum árin eru flutt út allt að 23 tonn af ull, nánast eingöngu af dýrum sem slátrað hefur verið ólöglega. Sumar þjóðir hafa bannað með öllu innflutning villilamaullar og -skinna, í von um að bjarga dýrinu frá útrýmingu.

Hvers vegna er ullin svona hlý?

Ull er hlý, af hvaða skepnu sem hún er, vegna þess að trefjarnar eru holar að innan, og ójöfnur á yfirborðinu valda því að þær krækjast saman og inniloka loft sem einangrar vel. Ull er að þessu leyti ólík silki, bómull eða pólýester. Ull er einnig liðuð af náttúrunnar hendi og heldur sér þannig jafnvel eftir vinnslu og þvott. Ullarkæði liggur því ekki eins þétt að húðinni og klæði úr öðrum trefjum. Að auki drekkur ull í sig raka — allt upp í 30 af hundraði eigin þyngdar — án þess að hún sé rök viðkomu.

Villilamaull er fíngerðasta ull sem til er og silkimjúk viðkomu. Ull er yfirleitt sett í hærri gæðaflokk eftir því sem hún er fíngerðari. Úr fíngerðri ull er hægt að spinna fíngert garn og vefa fíngert klæði — klæði sem er mjúkt, létt og hlýtt viðkomu. Hálsklútur úr villilamaull er svo fíngerður að hægt er að draga hann gegnum giftingarhring. Hinir fíngerðu þræðir þola illa efnameðferð og villilamaullin er því yfirleitt látin halda sínum náttúrlega gula lit.

Villilamaullin hefur verið mikils metin allt frá dögum Inkanna, löngu áður en landvinningar Spánverja hófust á 16. öld. Á þeim dögum þreifst villilamadýrið í milljónatali í Andesfjöllum. Með nokkurra ára millibili kölluðu Inkar saman þúsundir manna til að umkringja heilu fjallasvæðin og smala saman stórum hjörðum villilamadýra til að rýja þau. Það var virðingartákn að geta borið klæði úr villilamaull og einungis háttsettustu menn ríkisins gátu það. Núna er hún nánast ófáanleg á löglegum markaði.

Hvers vegna svona fágæt?

Alpaka getur skilað sjö kílógrömmum af ull annað hvert ár en villilamað aðeins um hálfu kílógrammi. En væri ekki hægt að temja og rækta villilamadýrið og fullnægja þannig eftirspurn eftir ullinni?

„Ég held að það séu hreinir draumórar,“ svarar forstöðumaður rannsóknarstöðvar á hásléttu Bólivíu. „Lamadýr og alpökur eru húsdýr en villilamadýrið er villt. Það stekkur yfir girðingarnar hjá okkur og við þurfum að eyða mörgum klukkustundum í að ná dýrunum aftur. Við reyndum að baða þau en þau börðust á móti af slíkum krafti að tvö dóu.“ Svo er að sjá sem sum dýr hafi verið sköpuð sem húsdýr, önnur ekki. Um þetta segir Biblían að Guð hafi skapað „fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund.“ (1. Mósebók 1:24) En væri hægt að kynblanda villilamadýri og taminni alpöku?

Það hefur verið reynt en afkvæmin urðu ófrjó eftir fáeinar kynslóðir. „Eina leiðin til að framleiða villilamaull með löglegum hætti,“ sagði forstöðumaður rannsóknarstöðvarinnar, „er sú að vernda hinn villta stofn uns honum hefur fjölgað svo að hægt sé að smala hjörðinni saman í net. Þá er hægt að rýja dýrin og sleppa þeim aftur eins og gert var á tímum Inkanna. Sum ríki vonast til að geta gert það bráðlega.“

Það er vissulega verðugt markmið að annast betur um dýralíf jarðar. Það var gert á öldum áður og verður örugglega gert í framtíðinni undir réttlátri stjórn Guðsríkis. — Jesaja 9:6; 11:6-9.