Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Happdrættin — fjárhættuspil heimsins

Happdrættin — fjárhættuspil heimsins

Happdrættin — fjárhættuspil heimsins

„ÞÚ ÞARFT ekki annað en dollar og draum.“ Draumurinn var sá að vinna „pottinn“ í New York-happdrættinu sem í voru 45 milljónir dollara (2,7 milljarðar ÍSK) Miðinn kostaði einn dollar og miði var möguleiki. Hinir dreymnu streymdu að í milljónatali. Þeir stóðu í biðröðum til að kaupa sér miða og skeggræddu um lystisnekkjur og minkapelsa sem þeir ætluðu að kaupa ef vinningurinn félli þeim í skaut. Þegar salan stóð sem hæst runnu út 28.000 miðar á mínútu út um allt fylkið. Síðustu þrjá dagana áður en dregið var í happdrættinu seldust 37,4 milljónir miða.

Í Japan er alltaf lífleg sala á þeim 10.000 sölustöðum fyrir happdrættismiða sem lögleyfðir eru þar í landi. Þangað flykkist fólk til að kaupa miða í áramótahappdrættinu (nefnt Takarakuji). Um 300 manns voru komnir í biðröð við einn sölustaðinn í Tókíó þegar hann opnaði, en aðalvinningurinn var sagður hafa komið fimm sinnum á miða þaðan á undangengnum árum. Ung kona, sem trúði að sá sem fyrstur er sé líklegur til að hreppa hnossið, hafði beðið frá klukkan eitt um nóttina. Síðastliðið ár voru í pottinum 100 milljónir jena (44 milljónir ÍSK) og hafði aldrei verið meira.

Í höfuðborg ríkis í Vestur-Afríku er alltaf margt um manninn á svæði sem heimamenn kalla Lottóháskólann. Þangað koma menn til að kaupa miða og velta fyrir sér vinningstölum framtíðarinnar. Langir listar með vinningstölum fortíðarinnar eru til sölu handa þeim sem vonast til að sjá í þeim einhverjar vísbendingar um vinningstölur framtíðarinnar. Þeir sem trúa á yfirnáttúrlega þekkingu geta keypt sér þjónustu lottóspámanna sem spá fyrir um vinningstölurnar.

Eru þetta einöngruð tilvik? Engan veginn. Happdrættissóttin er faraldur sem geisar á öllum meginlöndum veraldar. Hún herjar jafnt á ríkar þjóðir sem fátækar. Jafnt ungir sem aldnir eru sóttteknir, óháð efnahag, þjóðfélagsstigi eða menntun.

Já, happdrættin eru stórgróðastarfsemi í örum vexti. Í Bandaríkjunum einum veltu ríkishappdrættin 18,5 milljörðum dollara (1129 milljörðum ÍSK) árið 1989. Fyrir aðeins 27 árum voru engin slík happdrætti starfrækt, en núna eru þau sú tegund fjárhættuspila sem veltir næstmestum fjármunum í þar í landi og vex um 17,5 af hundraði á ári, jafnhratt og tölvuiðnaðurinn.

Samkvæmt nýjustu fáanlegum tölum í tímaritinu Gaming and Wagering Business veltu happdrættin í heiminum 56,38 milljörðum dollara (3439 milljörðum ÍSK) árið 1988. Það er gríðarleg fjárhæð. Það svarar til ríflega 600 króna á hvert mannsbarn á jörðinni! Og þar er aðeins um eitt ár að ræða!

Þótt enginn geti neitað því að happdrættin blómstri vara margir sterklega við þeim. Í næstu tveim greinum er fjallað um vaxandi vinsældir happdrættanna og deilurnar að baki þeim. Athugun á staðreyndum málsins getur hjálpað þér að ákveða hvort happdrættin séu fyrir þig. Er það sniðugt að spila í happdrætti? Hverjar eru vinningslíkurnar? Getur þú tapað meiru en peningum?