Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Happdrættin — hver vinnur? Hver tapar?

Happdrættin — hver vinnur? Hver tapar?

Happdrættin — hver vinnur? Hver tapar?

HELSTA röksemdin fyrir happdrættum reknum af stjórnvöldum eða hálfopinberum aðilum er sú að þau skili milljónatekjum sem renna til verðugra málefna og að þessara tekna þyrfti sennilega að afla með hærri sköttum að öðrum kosti. ‚Og þetta er svo auðvelt,‘ segja stuðningsmennirnir. Þetta er eins og skattur sem enginn er skyldur til að greiða. Menn geta greitt hann ef þeir vilja. Meira að segja er fólk ákaft að fá að borga hann og bíður í biðröð til þess!

En hvað færa menn fram sem rök gegn happdrætti?

Ein rökin eru þau að oft séu happdrættisauglýsingarnar ekki sérlega upplýsandi, stundum hreinlega villandi. Þær halda á lofti þeirri hugmynd að einstaklingurinn hljóti að vinna í happdrættinu. Auglýsing frá happdrætti í Kanada er dæmigerð: „Hjá okkur er auðvelt að . . . VINNA!!“

En hversu auðvelt er það að vinna? Alie spilar í happdrætti í Vestur-Þýskalandi. Auglýsingin rausar: „Vinningslíkur þínar eru ótrúlegar.“ En Alie segir í mæðutón: „Ég hef spilað í happdrættinu í tíu ár og aldrei unnið neitt. Og ég þekki engan annan sem hefur unnið nokkurn skapaðan hlut heldur.“

Fyrir hvern stórvinningshafa eru þúsundir, og meðal fjölmennra þjóða, milljónir manna líkt og Alie sem snara út peningum viku eftir viku, ár eftir ár án þess að fá krónu til baka. Í Bandaríkjunum kemur milljónavinningur í hlut aðeins 0,000008 prósenta þeirra 97 milljóna manna sem þar spila í happdrætti.

Líkurnar á því að fá hæsta vinninginn eru ekki einu sinni einn á móti milljón (ámóta líklegt og að verða fyrir eldingu); þær geta verið einn á móti mörgum milljónum. Þegar ljóst varð að hæsti vinningurinn í lottóinu í New York var óvenjuhár einu sinni, jókst miðasalan verulega þannig að vinningslíkurnar hröpuðu úr 1 á móti 6 milljónum niður í 1 á móti 12,9 milljónum!

Engin furða er að happdrættin skuli vera sökuð um að svindla á grunlausu fólki sem gerir sér enga grein fyrir því hve sáralitlar líkur eru á að það vinni. Dr. Valerie Lorenz, forstöðumaður stofnunar sem vinnur að heill spilasjúklinga, segir: „Happdrættin eru mestu blóðsugur sem til eru. Vinningslíkurnar eru svo óheyrilega litlar.“

Áhrifin á hina fátæku

Þá er það gagnrýnt að verstu spilafíklarnir séu fátæka fólkið, þeir sem síst hafa efni á að eyða fé í fjárhættuspil. Talsmenn happdrættanna segja það rangt. Þeir segja kannanir sýna að happdrættin eigi mestum vinsældum að fagna hjá fólki með miðlungstekjur. Enginn sé skyldur til að spila í happdrætti, segja þeir, menn ráði því sjálfir. Hvað sem því líður kynda auglýsingarnar að yfirlögðu ráði undir löngun manna í skjótfenginn gróða, og margir sem spila eru fátækir fyrir. Eigandi tóbaksverslunar í Flórída segir: „Það er ákveðinn hópur manna sem við sjáum í hverri viku. Sumir kaupa 10 miða á hverjum degi. Sumir kaupa 100 miða á viku. Þetta fólk á ekki fyrir mat en það spilar í lottóinu.“

Í sumum hinna vanþróaðri ríkja er ástandið oft enn verra. Nýverið endurskoðuðu stjórnvöld Indónesíu hið ríkisrekna knattspyrnuhappdrætti, Porkas, eftir að fjölmiðlar höfðu skýrt frá því að heilu þorpin væru gripin „Porkas-æði.“ Tímaritið Asiaweek sagði svo frá: „[Indónesísk] dagblöð voru full af hryllingssögum: af mönnum sem berja eiginkonur sínar eða börn; af börnum sem stela peningum frá foreldrum sínum; af börnum sem eyða peningum sem unnið hefur verið fyrir hörðum höndum og ætlaðir eru til skólagjalda — allt saman til að spila í knattspyrnuhappdrættinu Porkas.“

Eftir því sem happdrættunum í heiminum fer fjölgandi fjölgar og þeim sem leiðast út í fjárhættuspil. Sumir, ekki aðeins fátæklingar, verða spilafíklar — spilasjúklingar. Arnie Wexler veitir forstöðu ráði í New Jersey í Bandaríkjunum sem berst gegn spilafíkn. Hann segir: „Löggjafinn heldur að hann hafi fundið auðvelda og kvalalausa leið til að afla fjár, en sannleikurinn er sá að verið er að leggja ótal fjölskyldur og fyrirtæki í rúst og eyðileggja ótal einstaklinga og mannslíf.“

Spurningin um verðmætamat

Annað alvarlegt áhyggjuefni er það að happdrætti rekin af opinberum eða hálfopinberum aðilum hafa breytt viðhorfum fólks til fjárhættuspils. Vinningslíkur í mörgum ríkisreknum happdrættum eru einn á móti þúsund og vinningshlutfallið aðeins um 50 af hundraði. Áður en stjórnvöld hófu happdrættisrekstur voru happdrætti víða ólögleg og skoðuð sem fjársvikastarfsemi. Núna eru happdrættin kölluð skemmtun, leikur og það álitið bera vott um félagslega ábyrgðartilfinningu að taka þátt í þeim!

Að sjálfsögðu er sá munur á ölöglegum talnagetraunum og happdrættum reknum af opinberum eða hálfopinberum aðilum, að annars vegar renna tekjurnar í vasa glæpamanna en hins vegar til þjóðþrifamála. Eigi að síður eru margir uggandi út af þeim áhrifum sem happdrætti hafa á siðferðisvitund þess samfélags sem þau eiga í orði kveðnu að vera til gagns.

Orsökin er sú að happdrættin ala á von manna um að verða ríkir án þess að þurfa að vinna fyrir því. Paul Dworin, ritstjóri Gaming and Wagering Business, sagði: „Áður sagði ríkið að hinum iðjusömu vegnaði vel; núna segir það: ‚Kauptu miða og þá verður þú milljónamæringur.‘ Það er kynlegur boðskapur frá ríkinu.“ Og George Will skrifaði í Newsweek: „Því meiri áherslu sem fólk leggur á heppni, tilviljun og forlög, þeim mun minni áherslu leggur það á dyggðir svo sem iðjusemi, sparsemi, sjálfstjórn, dugnað og ástundunarsemi.“

Önnur viðtekin skoðun samfélagsins er sú að menn eigi ekki að reyna að hagnast á óförum annarra. Þeir sem reka happdrættin ýta hins vegar óbeint undir þann hugsunarhátt að það sé rétt að hagnast á og hafa ánægju af óförum annarra. Slíkur hugsunarháttur er eigingjarn og gengur í berhögg við áminningarorð Bibíunnar: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — Matteus 22:39.

En þótt margir hafi efasemdir um ágæti happdrættanna fjölgar þeim stöðugt í heiminum. Maður, sem var gestkomandi í Vestur-Afríku, veitti því athygli að hundruð manna söfnuðust í kringum byggingu ríkishappdrættisins. Hann spurði einn af heimamönnum: „Hvers vegna sólundar allt þetta fólk fjármunum sínum í happdrætti, þótt það sé fátækt?“

„Vinur minn, það spilar í happdrætti vegna þess að það gefur því von,“ svaraði heimamaður. „Hjá mörgum þeirra er þetta eina vonin í lífinu.“

En er það að vinna í happdrætti raunhæf von? Er það ekki miklu frekar tálsýn, hillingar eða draumórar? Víst er að samviskusamur, kristinn maður sólundar ekki tíma sínum og efnum í fjárhættuspil og drauminn um að verða ríkur án þess að hafa fyrir því. Það er langtum betra að fylgja heilræði Páls postula sem skrifaði að vitrir menn ‚treysti ekki fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.‘ — 1. Tímóteusarbréf 6:17.

[Innskot á blaðsíðu 25]

„Löggjafinn heldur að hann hafi fundið auðvelda og kvalalausa leið til að afla fjár, en sannleikurinn er sá að verið er að leggja ótal fjölskyldur og fyrirtæki í rúst og eyðileggja ótal einstaklinga og mannslíf.“

[Rammi á blaðsíðu 26]

Bestu ábendingarnar til fjárhættuspilara

„Enginn brosir kaldara brosi en veðmangarinn sem tekur á móti vinningshafa. . . . Það er sjaldgæft að veðmangari hindri viðskiptavin sinn, sem tapar of miklu í fjárhættuspili, í að halda áfram að spila. . . . Mundu líka að heppinn fjárhættuspilari er jafnsjaldgæfur og fátækur veðmangari.“ — Graham Rock í Lundúnablaðinu The Times.

„Í kvöld er dregið um hæsta lottóvinning í sögu New York-ríkis, 45 milljónir dollara. En líkurnar á að vinna hann út á eins dollars seðil eru einn á móti 12.913.582.“ — The New York Times.

„Fljótt skilja leiðir með fíflinu og fé hans.“ Máltæki frá 16. öld. — Familiar Quotations eftir John Bartlett.

„Fjárhættuspilari, gleð þig eigi; sá sem vinnur í dag tapar á morgun.“ — Spænskt máltæki.