Happdrættin — hvers vegna svona vinsæl?
Happdrættin — hvers vegna svona vinsæl?
HVERS vegna spilar fólk í happdrætti? „Það er bara gaman, skemmtilegt,“ sagði talsmaður eins af happdrættunum. Svo kann að vera, en aðalaðdráttaraflið er auðvitað verðlaunin. Hér um bil allir hefðu not fyrir svolitla aukapeninga og happdrættin gefa fyrirheit um heilmikla peninga. Í heimi óvissu, verðbólgu, verðbréfahruns og lágra launa geta milljónir manna ekki ímyndað sér aðra leið til að verða almennilega ríkir en að vinna í happdrætti.
Það eykur aðdráttaraflið hversu auðvelt og einfalt það er að spila í happdrætti. Útgáfurnar eru margar, svo sem lottó, venjulegir happdrættismiðar og miðar með tölum eða táknum sem koma í ljós þegar skafið er af þeim. Tvennt er þó sameiginlegt þeim öllum. Hið fyrra er að þátttakendur fá vinning þegar tölurnar á miðanum þeirra eru þær sömu og stjórnendur happdrættisins draga eða þeir fá fram samstæðu mynda eða talna á skafmiðanum, og hið síðara að engrar sérkunnáttu eða leikni er krafist til að vinna. Hrein tilviljun ræður því hvort menn vinna eða tapa.
Fólk spilar líka í happdrætti af því að það er auðvelt að kaupa miða. Lottómiðar og skafmiðar fást víða í næstu matvöruverslun eða söluturni. Stundum fá menn happdrættismiða með viðfestum gíróseðli sendan í pósti, og sums staðar geta menn keypt miða gegnum síma, fjarrita eða bréfsíma.
Happdrætti okkar daga
Eru happdrætti nýtilkomið fyrirbæri? Alls ekki. Til forna gáfu Neró og Ágústus Rómarkeisarar þræla og eignir í verðlaun við hátíðleg tækifæri. Einn fyrsti vinningur í reiðufé, sem sögur fara af, var greiddur út í happdrætti í Flórens á Ítalíu árið 1530. Á öldunum á eftir blómguðust happdrættin í Evrópu. Happdrætti áttu líka miklum vinsældum að fagna í Ameríku á öldum áður og áttu þátt í að fjármagna útgerð nýlenduhersins í frelsisstríði Bandaríkjanna og byggingu virtra háskóla svo sem Harvard, Dartmouth, Yale og Columbia.
Á 19. öld lenti happdrættisstarfsemin aftur á móti í erfiðleikum. Ýmsir hópar risu öndverðir gegn fjárhættuspili í stórum stíl og héldu því fram að drætti væri hagrætt bak við tjöldin. Happdrættin voru auk þess gagnsýrð mútugjöfum og spillingu og oft rekin með aðild glæpamanna. Einkahappdrættin mokuðu inn peningum. Afleiðingin varð sú að happdrætti voru bönnuð í Bandaríkjunum, Frakklandi og Bretlandi.
Voru örlög happdrættanna þar með ráðin? Greinilega ekki. Happdrætti höfðu haldið áfram að blómgast annars staðar — til dæmis á Ítalíu og í Ástralíu. Karl III Spánarkonungur stofnaði til happdrættis árið 1763 og nútímaútgáfa þess var staðfest með lögum árið 1812. Hvert landið á fætur öðru hóf rekstur happdrætta.
Árið 1933 afléttu Frakkar banni sínu og hófu rekstur Loterie nationale. Írar komu á fót sínum frægu spítalagetraunum á þriðja áratugnum. Hið japanska Takarakuji var sett á laggirnar árið 1945. Bretar leyfðu starfrækslu sinna alkunnu knattspyrnugetrauna og hófu útgáfu happdrættisskuldabréfa ríkissjóðs sem hvort tveggja er í eðli sínu happdrætti. Og árið 1964 var happdrættisbanninu aflétt í Bandaríkjunum.
Á áttunda áratugnum varð tvennt til að breyta starfsemi happdrættanna. Hið fyrra var tilkoma tölvutengingar við útstölustaðina. Núna var hægt að skipuleggja umfangsmikil happdrætti með tíðum drætti þar sem þátttakendur gátu valið sér sínar eigin tölur. Nú þurfti sá sem spilaði í happdrætti ekki lengur að bíða svo vikum eða mánuðum skipti til að sjá hvort hann hefði hlotið vinning; það gat komið í ljós eftir fáeina daga, klukkustundir eða jafnvel mínútur.
Síðari nýjungin var tilkoma lottósins þar sem vinningslíkurnar eru litlar. Ef aðalvinningurinn gengur ekki út í lottóinu leggst hann við pottinn í næsta drætti. Þannig getur aðalvinningurinn vaxið upp í milljónir króna. Með tilkomu lottósins jókst salan fyrir alvöru og happdrættisreksturinn varð fyrst verulega stór í sniðum.
Gullnáma
Hvers vegna fer jafnvel hið opinbera út í happdrættisrekstur eins og algegnt er víða um lönd? Vegna þess að það er auðveld aðferð til að afla fjár án þess að hækka skatta. Spilakassar skila allt að 95 af hundraði þess sem inn kemur í vinninga en happdrættin greiða oft innan við 50 af hundraði tekna í vinninga. Á Íslandi rennur ágóði af rekstri happdrættanna til ýmissa málaflokka, svo sem íþrótta-, mennta- eða líknarmála og margs konar þjóðþrifamála og eru þau rekin af ýmsum samtökum. Árið 1990 greiddi Lottó 5/38, sem rekið er af Íslenskri getspá, 40 krónur af hverjum 100 í vinninga og 29 krónur fóru í rekstrarkostnað, auglýsingar, umboðslaun og varasjóð. Sú 31 króna, sem þá var eftir, rann til eignaraðila sem eru Íþróttasamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands. Lottóið velti alls 955.826.000 krónum árið 1990. Tekjur ríkisreknu happdrættanna í Bandaríkjunum numu yfir 7,2 milljörðum dollara (439 milljörðum ÍSK) árið 1988.
En ríkisstjórnir fara ekki út í happdrættisrekstur aðeins til að græða peninga heldur líka til að tapa ekki peningum. Ef ríkið ræki ekki happdrætti myndu borgararnir spila annars staðar. Þegar eitt land eða ríki fer af stað með happdrætti telja grannríkin sig nauðbeygð til að gera það líka. Í Bandaríkjunum er mjög áberandi hvernig þetta hleður utan á sig. Árið 1964 var aðeins eitt af ríkjum Bandaríkjanna með happdrættisrekstur; árið 1989 voru þau orðin 30.
Draumurinn um stóra vinninginn
Að sjálfsögðu eru þeir margir sem reyna að koma höndum á peninga neytandans. Hvernig er þá hægt að telja fólk á að spila í happdrætti? Með auglýsingum! Happdrættin kalla því fortölumeistara auglýsingastofanna til liðs við sig!
Leggja auglýsingarnar áherslu á að einhver hluti teknanna renni til verðugra málefna, svo sem mennta-, menningar- og líknarmála? Já, en ekki mikla. Aðaláherslan er lögð á það hve stórkostlegt það sé að hreppa stóra vinninginn. Lítum á nokkur dæmi:
◻ „Þú gætir átt þess kost að lifa allt í einu eins og hinir frægu og ríku . . . ef þú spilar í hinu fræga milljónalottói Kanada, LOTTÓ 6/49.“
◻ „FLÓRÍDA-HAPPDRÆTTIÐ . . . Auðgastu í stærsta happdrætti Ameríku.“
◻ „Aflaðu auðs í Þýskalandi — þú getur DOTTIÐ Í LUKKUPOTTINN og orðið milljónamæringur á einni nóttu.“
Þetta getur varla kallast annað en hörð og ágeng sölumennska! Tilraunum til að milda þennan tón er venjulega hætt þegar dregur úr sölunni. Reyndar er sífellt reynt að auka spennuna með nýjum leikjum, og ásækinni markaðsstarfsemi er beitt til að lokka að nýja spilara og viðhalda áhuga þeirra gömlu. Happdrættin þurfa sífellt að vera að bjóða eitthvað sem lítur út eins og það sé nýtt. James Davey, framkvæmdastjóri happdrættis í Oregon í Bandaríkjunum, segir: „Við höfum mismunandi happdrættisstef eins og gert er í sambandi við Olympíuleikana. Við höfum jólahappdrætti um jólaleytið. Við höfum happastjörnustef til að spila á stjörnumerki fólks. Það er reynsla okkar að við seljum fleiri miða ef við erum með tvær eða þrjár, fjórar eða fimm útgáfur í gangi samtímis.“
En langsterkasti segullinn er þó stóri vinningurinn. Þegar potturinn í lottóinu nær svimandi háum fjárhæðum verður það fréttaefni fjölmiðla. Í desember 1990 komst aðalvinningurinn í íslenska lottóinu upp í liðlega 29 milljónir króna. Þegar það gerist streymir fólk að til að kaupa miða. Í hita leiksins draga jafnvel þeir sem spila yfirleitt ekki í happdrætti upp budduna.
[Rammagrein á blaðsíðu 23]
Spilafíkn og kirkjufélög
„Kaþólska kirkjan hefur kennt mér að spila fjárhættuspil. Bingó og hlutaveltur eru í engu frábrugðnar happdrætti. Ef kaþólska kirkjan myndi taka forystuna og hætta allri spilastarfsemi þá myndi ég íhuga að hætta að spila í happdrættinu. Ef ég er ágjarn, þá er það vegna þess að það er næstum sakramenti í kirkjunni.“ — Úr lesendabréfi í tímaritinu U.S. Catholic.
„Samkvæmt könnun meðal kaþólskra manna, sem gerð var á vegum Notre Dame-háskólans, er hið vikulega bingó sá viðburður í starfi kirkjunnar sem fær næstmesta aðsókn á eftir sunnudagsmessunni.“ Allmargir prestar fullyrða hins vegar að fæstir þeirra, sem stunda bingóið, sæki kirkju. — The Sunday Star-Ledger, New Jersey í Bandaríkjunum.
„Heilagur Pancras veitti Madrid vinninginn,“ sagði í fyrirsögn alþjóðaútgáfu spænska vikuritsins ABC. Í greininni sagði: „‚Það var heilagur Pancras,‘ hrópuðu starfsmennirnir tveir í happdrættismiðasölunni aftur og aftur . . . en þar höfðu þeir selt einu röðina með númerinu 21515 sem aðalvinningurinn að upphæð 250 milljónir peseta [150 milljónir ÍSK að núgildi] hafði komið á. [Starfsmennirnir] viðurkenndu að þeir hefðu beðið til dýrlingsins, en mynd hans hangir yfir búðinni þeirra, og þeir höfðu fest á hana steinseljuknippi til að heppnin yrði með þeim og þeim tækist að selja miðann með stóra vinningnum í jólahappdrættinu.“
„Eldri vinningshafar höfðu tilhneigingu til að skýra heppni sína með því að Guð og forlögin hefðu útvalið þá til að vinna féð. . . . ‚Við viljum trúa að það sé ekki bara slembilukka heldur eitthvað annað sem býr á bak við heppni og óheppni,‘ sagði dr. Jack A. Kapchan, sálfræðiprófessor við University of Miami. ‚Og hverjum öðrum er hægt að tilreikna slíkt en Guði?‘“ — The New York Times.
Hvað segir Biblían um það að treysta á lukkuna? Jehóva sagði Ísraelsþjóðinni sem var honum ótrú: „Þér, sem yfirgefið [Jehóva], sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina.“ — Jesaja 65:11.
Hversu margir af hinum tiltölulega fáu vinningshöfum leiða hugann að því að heppni þeirra byggist á óheppni hinna mörgu sem engan vinning fá? Ber fjárhættuspil einhvern vott um náungakærleika? Er skynsamlegt eða biblíulegt að trúa því að alvaldur Drottinn alheimsins blessi eigingjarna lesti eins og spilafíkn? — Matteus 22:39.