Hefur sjónvarpið breytt þér?
Hefur sjónvarpið breytt þér?
SJÓNVARPIÐ hefur verið kallað „gluggi heimsins.“ Í bók sinni, Tube of Plenty — The Evolution of American Television, segir höfundurinn, Erik Barnouw, að snemma á sjöunda áratugnum hafi sjónvarpið verið orðið „gluggi heimsins hjá flestum. Sú sýn sem það bauð fram virtist vera heimurinn. Þeir treystu að það sem þeir sæju væri satt og fullkomið.“
En gluggi getur ekki valið fyrir þig hvað þú færð að sjá; hann getur ekki stjórnað lýsingu og sjónarhorni og ekki breytt útsýninu skyndilega til þess eins að halda athygli þinni. Það getur sjónvarpið. Slík atriði móta með áhrifamiklum hætti tilfinningar þínar og þær ályktanir sem þú dregur af því sem þú sérð, en það er þó fólkið er framleiðir sjónvarpsefnið sem stjórnar þeim. Jafnvel óhlutdrægustu fréttaþættir og heimildarmyndir geta hagrætt sannleikanum, þótt óviljandi sé. a
Blekkingameistari
Oftast eru þó þeir sem stýra sjónvarpinu beinlínis að reyna að hafa áhrif á áhorfendur. Í auglýsingum hafa þeir nánast frjálsar hendur til að beita hvers kyns bellibrögðum í því skyni að lokka fólk til að kaupa ákveðna vöru. Þeir beita litum, tónlist, fallegu fólki, kynferðislegu aðdráttarafli og náttúrufegurð. Þeir hafa ótal listbrögð á valdi sínu og beita þeim af snilld.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri úr auglýsingaiðnaðinum sagði um 15 ára feril sinn þar: „Mér lærðist að hægt væri að tala beint inn í hugi manna gegnum fjölmiðlana [svo sem sjónvarpið] og síðan, eins og töframaður af öðrum heimi, að skilja þar eftir myndir sem geta komið fólki til að gera það sem því hefði aldrei dottið í hug að öðrum kosti.“
Á sjötta áratugnum var ljóst orðið að sjónvarpið hefði svona gríðarlegt vald yfir hugum manna. Snyrtivörufyrirtæki með 50.000 dollara ársveltu byrjaði að auglýsa í bandarísku sjónvarpi. Á tveim árum rauk salan upp í 4.500.000 dollara á ári! Banki auglýsti þjónustu sína í dagskrá sjónvarps sem var vinsæl meðal kvenna og jók innlán sín um 15.000.000 dollara á skömmum tíma.
Að meðaltali sér hver Bandaríkjamaður liðlega 32.000 auglýsingar á ári nú sem komið er. Auglýsingarnar spila listilega á tilfinningar manna. Mark Crispin Miller segir í bókinni Boxed In — The Culture of TV: „Það er staðreynd að við verðum fyrir áhrifum af því sem við sjáum. Auglýsingar, sem gagnsýra hið daglega líf, hafa stöðug áhrif á okkur.“ Hann bætti því við að þessi áhrif séu „hættuleg einmitt fyrir þá sök að það er oft erfitt að bera kennsl á þau, og þess vegna hrífa þau uns okkur lærist að sjá við þeim.“
En sjónvarpið selur fleira en varalit, stjórnmálaviðhorf og menningu. Það selur líka siðferði — eða skort á því.
Sjónvarp og siðferði
Það kæmi fæstum á óvart ef þeim væri sagt að kynferðislegar athafnir séu sýndar oftar og oftar í bandarísku sjónvarpi. Í niðurstöðum rannsókna, sem kynntar voru árið 1989 í tímaritinu Journalism Qarterly, kom fram að í 66 stunda útsendingu á besta áhorfstíma voru sýnd 722 atriði
þar sem annaðhvort var vísað beint eða óbeint til kynferðislegra athafna, eða þær beinlínis sýndar. Dæmin spönnuðu allt frá ástleitinni snertingu til kynmaka, sjálfsfróunar, kynvilluathafna og sifjaspells. Meðaltalið var 10,94 atvik á klukkustund!Bandaríkin skera sig þó tæplega úr að þessu leyti. Kynferðislegur kvalalosti er sýndur opinskátt í frönskum sjónvarpsmyndum. Nektardansatriði eru sýnd í sjónvarpi á Ítalíu. Spænskt sjónvarp sýnir ofbeldis- og ástarlífsmyndir á síðkvöldum. Þannig mætti lengi telja.
Ofbeldi er önnur tegund siðleysis sem sýnd er í sjónvarpi. Í Bandaríkjunum hrósaði sjónvarpsgagnrýnandi tímaritsins Time hinu „ógeðslega góða gríni“ í hryllingsmyndaflokki einum. Í myndaflokknum var sýnt hvernig menn voru hálshöggnir, limlestir, reknir í gegn og haldnir illum öndum. Að sjálfsögðu er stór hluti ofbeldismynda í sjónvarpi ekki svona hryllilegur — og því auðveldara að líta á ofbeldið sem eðlilegan hlut. Þegar vestrænar sjónvarpsmyndir voru sýndar nýverið í afskekktu þorpi á Fílabeinsströndinni í Vestur-Afríku gat ráðvilltur, gamall maður ekki annað en spurt: „Hvers vegna eru hvítir menn alltaf að stinga, skjóta og berja hver annan?“
Svarið er auðvitað það að framleiðendur sjónvarpsefnis og þeir sem kosta það vilja sýna áhorfendum það sem áhorfendur vilja sjá. Ofbeldi dregur menn að sjónvarpinu. Kynlíf hefur sömu áhrif. Sjónvarpið reiðir því fram drjúgan skammt af hvoru tveggja — en þó ekki of mikið of skart svo að það fæli ekki áhorfendur frá. Eins og Donna McCrohan orðaði það í Prime Time, Our Time: „Flestir vinsælustu sjónvarpsþættirnir ganga eins langt og þeir geta í ruddalegu máli, kynlífi, ofbeldi og efnisvali og síðan, eftir að hafa vanist því, sætta áhorfendur sig við að gengið sé skrefi lengra.“
Svo dæmi sé tekið var einu sinni álitið handan velsæmismarka að sýna kynvillu í sjónvarpi. En þegar sjónvarpsáhorfendur vöndust því voru þeir tilbúnir til að taka við meiru. Franskur blaðamaður fullyrti: „Enginn framleiðandi myndi voga sér núna að stilla samkynhneigð upp sem óeðli . . . Það er öllu heldur þjóðfélagið og umburðarleysi þess sem er undarlegt.“ Árið 1990 var ‚sápuópera um samkynhneigða‘ frumsýnd í bandarísku kapalsjónvarpi í 11 borgum. Í þáttunum voru atriði þar sem karlmenn voru saman í rúminu. Framleiðandi myndarinnar sagði í viðtali við tímaritið Newsweek að slík atriði væru upphugsuð af samkynhneigðum til að „gera áhorfendur ónæmari fyrir slíku þannig að fólk geri sér ljóst að við erum eins og allir aðrir.“
Draumórar og veruleiki
Aðstandendur könnunarinnar, sem fjallað var um í Journalism Quarterly, létu þess getið að úr því að sjónvarpið sýni svo til aldrei afleiðingar óleyfilegra kynmaka jafngildi „hin stöðuga hríð örvandi ástarlífsmynda“ blekkingaherferð. Þeir vitnuðu í niðurstöður annarrar könnunar þess efnis að sápuóperur sjónvarpsins flytji framar öðru þann boðskap að kynlífið sé fyrir hina ógiftu og að enginn fái sjúkdóma af því.
Er þetta heimurinn eins og þú þekkir hann? Geta unglingar stundað kynlíf fyrir hjónaband án þess fá kynsjúkdóma og án þess að stúlkur verði barnshafandi? Er hægt að stunda kynvillumök eða mök við bæði kynin án þess að eiga á hættu að fá eyðni? Og er ofbeldi og líkamsmeiðingar þar sem hetjan gengur með sigur af hólmi en þorparinn er auðmýktur — en báðir óskaddaðir svo undarlegt sem það er — í samræmi við veruleikann? Sjónvarpið skapar heim þar sem menn eru algerlega lausir við afleiðingar gerða sinna. Lögmál samvisku, siðferðis og sjálfstjórnar eru látin víkja fyrir lögmáli tafarlausrar sjálfsfullnægingar.
Ljóst er að sjónvarpið er ekki „gluggi heimsins“ — að minnsta kosti ekki hins raunverulega heims. Reyndar ber nýlega útkomin bók um sjónvarpið titilinn The Unreality Industry (Iðnaður óraunveruleikans). Höfundarnir halda því fram að sjónvarpið sé orðið „eitt mesta áhrifaafl í lífi okkar. Afleiðingin er sú að sjónvarpið skilgreinir ekki aðeins hvað sé veruleiki heldur gerir það sem er mun alvarlegra og óheillavænlegra, það máir út mörkin milli veruleika og ímyndunar.“
Þeim sem halda sig ónæma fyrir áhrifum sjónvarpsins þykja þessi orð kannski bera vott um hrakspárhneigð. ‚Ég trúi ekki öllu sem ég sé,‘ segja sumir. Að vísu höfum við kannski tilhneigingu til að vantreysta sjónvarpinu, en sérfræðingar aðvara að ekki sé víst að þessi ósjálfráða tortryggni verndi okkur fyrir því með hve lúmskum hætti sjónvarpið spilar á tilfinningar okkar. Einn maður skrifaði um málið: „Ein besta brella sjónvarpsins er sú að láta okkur aldrei vita hve mikil áhrif það hefur á sálarlíf okkar.“
Áhrifamikið tæki
Að sögn 1990 Britannica Book of the Year horfa Bandaríkjamenn til jafnaðar á sjónvarp í sjö klukkustundir og tvær mínútur á dag. Árið 1988 var sjónvarps- og myndbandanotkun 10 til 15 ára barna í einum skóla í Reykjavík áætluð 3 stundir og 51 mínúta á dag. Það myndi svara til 12 ára á 75 ára ævi! Varla verður hjá því komist að svona stórir skammtar sjónvarpsefnis hafi áhrif á fólk.
Það getur tæplega komið nokkrum á óvart að lesa um það að fólk eigi í erfiðleikum með að gera greinarmun á sjónvarpinu og veruleikanum. Í niðurstöðum rannsóknar, sem birtar voru í breska tímaritinu Media, Culture and Society, var sagt að sjónvarpið virðist raunverulega fá sumt fólk til „að sjá heim veruleikans í afbrigðilegu ljósi“ og koma því til að halda að hugmyndir þess um það hvernig veruleikinn eigi að vera séu sjálfur veruleikinn. Aðrar rannsóknir, svo sem rannsóknir Bandarísku geðheilbrigðisstofnunarinnar, virðast staðfesta þessar niðurstöður.
Ef sjónvarpið hefur áhrif á raunveruleikaskyn fólks verður ekki hjá því komist að það hafi áhrif á líf þess og athafnir. Eins og Donna McCrohan segir í Prime Time, Our Time: „Þegar bannhelgi eða málfarsmúr er brotinn í vinsælum sjónvarpsþætti finnst okkur við frjálsari til að brjóta hann sjálf. Eins verðum við fyrir áhrifum þegar . . . lauslæti er viðurkennd hegðunarregla eða þegar ímynd karlmennskunnar í þættinum minnist á að hann noti smokka. Í sérhverju tilviki virkar sjónvarpið hægt og bítandi eins og spegilmynd af þeim sem hægt er að sannfæra okkur um að við séum, og við yfirleitt verðum þar af leiðandi.“
Aukið siðleysi og ofbeldi hefur haldist í hendur við aukna útbreiðslu sjónvarpsins. Hrein tilviljun? Tæplega. Í niðurstöðum einnar rannsóknar kom fram að glæpum og ofbeldisverkum í þrem löndum fjölgaði ekki fyrr en sjónvarpsútsendingar hófust í þeim löndum. Þar sem sjónvarpið hóf starfsemi sína fyrr, þar jókst afbrotatíðnin líka fyrr.
Það kemur nokkuð á óvart að það er alls ekki eins slakandi að horfa á sjónvarpið og margir virðast halda. Athuganir, sem náðu til 1200 einstaklinga og spönnuðu 13 ára tímabil, leiddu í ljós að af allri dægrastyttingu voru minnstar líkur á að sjónvarpsáhorf hjálpaði fólki að slaka á. Algengast var að sjónvarpsáhorfendur væru viljalitlir en uppspenntir og ófærir um að einbeita sér. Sérstaklega voru menn í verra skapi eftir langar setur við sjónvarpið en þeir voru áður. Lestur hjálpaði fólki aftur á móti að slaka á og bætti skapið og einbeitingarhæfnina!
En einu gildir hve uppbyggilegt það getur verið að lesa góða bók því að sjónvarpið, þessi lipri tímaþjófur, getur hæglega rutt bókinni úr vegi. Skömmu eftir að sjónvarpsútsendingar hófust í New York-borg skýrðu almenningsbókasöfn frá færri útlánum. Að sjálfsögðu er ekki þar með sagt að að mannkynið sé við það að hætta bókalestri. Þó hefur verið sagt að menn séu óþolinmóðari við lestur en áður var, að athygli þeirra dofni fljótt ef ekki dynji á þeim stöðugur straumur grípandi mynda. Niðurstöður kannana og rannsókna staðfesta kannski ekki slíkar grunsemdir, en hverju glötum við í djúpsæi og sjálfsaga ef við venjum okkur á stöðugan straum
sjónvarpsefnis sem er, sekúndu fyrir sekúndu, gert til að halda eirðarlausasta áhorfanda föngnum?Sjónvarpsbörnin
Það eru þó börnin sem við hljótum að hafa mestar áhyggjur af þegar sjónvarpið er annars vegar. Almennt talað hlýtur sjónvarpið að geta gert börnum það sem það gerir fullorðnum — og gott betur. Þegar allt kemur til alls eru börn líklegri en fullorðnir til að trúa á þann gerviheim sem þau sjá í sjónvarpinu. Þýska dagblaðið Rheinischer Merkur/Christ und Welt vitnaði í nýlega könnun þar sem í ljós kom að börn eru oft „ófær um að gera greinarmun á hinu raunverulega lífi og því sem þau sjá á skjánum. Þau yfirfæra það sem þau sjá í heimi óraunveruleikans á heim veruleikans.“
Yfir 3000 vísindarannsóknir á síðustu áratugum hafa staðfest þá niðurstöðu að ofbeldi í sjónvarpi hafi neikvæð áhrif á börn og unglinga. Virtar stofnanir svo sem Bandaríska barnalækningaakademían, Bandaríska geðheilbrigðisstofnunin og Bandaríska læknafélagið eru á einu máli um að ofbeldi í sjónvarpi leiði til árásarhneigðar og andfélagslegrar hegðunar barna.
Rannsóknir hafa skilað fleiri uggvekjandi niðurstöðum. Til dæmis hefur offita barna berið sett í samband við óhóflegar setur við sjónvarpið. Ástæðurnar virðast vera tvær: (1) Klukkustundalangar kyrrsetur fyrir framan sjónvarpið koma í stað klukkustundalangra leikja. (2) Sjónvarpsauglýsingar hrífa vel til að selja börnum fituríkt en næringarsnautt sjoppufæði. Aðrar rannsóknir virðast benda til að börn, sem horfa úr hófi fram á sjónvarpið, séu slök við skólanám. Sú niðurstaða er reyndar umdeildari en þó skýrði tímaritið Time frá því fyrir skömmu að margir kennarar og sálfræðingar kenni sjónvarpinu um það hve lestrarkunnáttu og almennri frammistöðu í skóla fer hrakandi.
Enn sem fyrr er það tíminn sem ræður úrslitum. Þegar bandarískur unglingur útskrifast úr menntaskóla hefur hann að jafnaði eytt 17.000 klukkustundum fyrir framan sjónvarpið á móti 11.000 klukkustundum í skólanum. Helsta dægrastytting, ef ekki aðalstarfi, fjölmargra barna er að horfa á sjónvarpið. Bókin The National PTA Talks to Parents: How to Get the Best Education for Your Child segir að helmingur allra tíu ára barna eyði fjórum mínútum á dag í lestur heima hjá sér en 130 mínútum í að horfa á sjónvarpið.
Þegar öllu er á botninn hvolft munu sennilega fáir halda því fram í fullri alvöru að börnum og fullorðnum stafi ekki mjög raunveruleg hætta af sjónvarpinu. En hvað er til ráða? Eiga foreldrar að banna sjónvarpið með öllu á heimili sínu? Ætti fólk almennt að verja sig fyrir áhrifum þess með því að losa sig við það eða koma því fyrir til geymslu uppi á háalofti?
[Neðanmáls]
a Sjá „Getur þú treyst fréttunum sem þú færð?“ í Vaknið! í október-desember 1990.
[Innskot á blaðsíðu 7]
„Hvers vegna eru hvítir menn alltaf að stinga, skjóta og berja hver annan?“
[Mynd á blaðsíðu 9]
Slökktu á sjónvarpinu og lestu bók.